þriðjudagur, 30. september 2003

Mús

Muse, er það málið í dag?

mánudagur, 29. september 2003

HALLÓ SULTUHEILI!

Það kom ekki alveg nógu vel út hjá mér á bikarúrslitaleiknum á laugardaginn þegar ég ætlaði að taka fótboltaspekúlantinn Elvar mér til fyrirmyndar og öskra "HALLÓ SULTUHEILI!" á dómarann þegar hann dæmdi eins og fífl. Ég var nefnilega búinn að vera með hálsbólgu og röddin bara brast alveg við að öskra þetta. En hún er smám saman að koma aftur.

Annars ætlaði ég að nefna mjög góðan díl sem ég var að gera. Ég droppaði við hjá lakkrísmangaranum í MR og seldi honum útkrotaða Danmarks Mosaik verkefnabók fyrir tvo lakkríspoka. Geri aðrir betur. Lakkrísmangarar virðast vera ört vaxandi starfsstétt í MR.

Bleikir sokkar

Nú á ég fimm pör af bleikum sokkum. BÍDDU, BÍDDU, BÍDDU! Leyfið mér að útskýra áður en þið farið að bendla mig við einhvern helvítis hommaskap. Pabbi var að þvo þvott og bara skellti hvítu sokkunum með rauðu handklæðunum og þetta varð útkoman. Já, og ég vil geta gengið í mínum bleiku sokkum óáreittur. Ég er búinn að hefna mín á karlinum. Ég litaði allar spariskyrturnar hans bleikar. Nú munu allir halda að hann sé Páll Óskar þegar hann mætir á mannfögnuði og slíkt í skyrtunum. Hahahahhahhahahhahhaha. Hvílík geðveiki.

sunnudagur, 28. september 2003

Top Gangsta' boss in da hood

Breiðholtið hefur látið að sér kveða í glæpamenningunni undanfarið. Átök hafa blossað upp milli hópa við bensínstöðina Select, sjoppuna King Kong og víðar og ekki sér fyrir endann á brjálæðinu. Búið að rústa einni íbúð. Maður opnar blaðið og sér fyrirsagnirnar: "Hnífsstunga í Breiðholti", "Datt á línuskautum í Breiðholti og fékk tönn í vör", "Skemmdarverk á íbúð í Breiðholti", "Enginn verður óbarinn biskup á planinu fyrir framan King Kong", "Skotárás í Seljahverfi", "Handónýtur hasshaus úr Hólunum brýst inn í sjoppu" og svo mætti áfram telja.

Einhverjir komu á Select á föstudagskvöld með íslenska fánann, sjálfsagt er það hluti af átökum kynþátta sem hafa grasserað í gettóinu undanfarið. Afi segir mér frá Gúttóslagnum '34 en þegar ég verð afi mun ég væntanlega segja barnabörnunum frá Gettóslagnum '03. Svona breytast tímarnir.

Mér finnst mjög lélegt á bensínstöðinni Select hérna í Breiðholtinu hvað starfsfólkið er illa upplýst. Til dæmis ef fólk kemur þarna inn og spyr:"Hvenær byrja slagsmálin?". Að geta ekki svarað því er frekar slappt. Fólk fer bara að beina viðskiptum sínum annað ef starfsfólkið getur ekki haft svona grundvallaratriði á hreinu. Svo finnst mér að þeir hjá Select gætu nú staðið ögn betur að kynningarmálum og hugsanlega sett smáauglýsingu í Fréttablaðið svo hljóðandi:
SLAGSMÁL-SLAGSMÁL!
Allir sem vettlingi geta valdið mæti framan við Select, Breiðholti. Mæting stundvíslega klukkan 24:00 föstudagskvöld. Samkvæmisklæðnaður ekki áskilinn. Eggvopn áskilin. Frítt inn og opið öllum aldurshópum. Gos og SS-pylsur í boði fyrir alla.

Select gæti grætt á því. Já, maður.

...nah.

laugardagur, 27. september 2003

Harlem og Knattspyrna

Ég fékk sex boðsmiða á Harlem Ambassadors í Laugardalshöll í gær. Hóaði ég saman liði og héldum við á staðinn. Við vissum lítið um það hvað var í vændum. Hver miði var að andvirði 1500 kr. svo eitthvað hlaut nú að vera í þetta spunnið. Þetta var á við tvo bíómiða.

En að sýningunni sjálfri;
Um er að ræða skemmtikrafta alla leið frá henni stóru Ameríku. Skemmtikraftar þessir gefa sig út fyrir að sýna körfubolta. Ég veit ekki hvort það er hægt að tala um körfuboltasýningu. Ég hefði frekar kallað þetta: "Blökkukona með fíflalæti og leikið við krakkana". Það er ekki að ástæðulausu sem ég hefði kosið það nafn. Það var fátt um fína drætti. Fyrst var rosalega tilþrifamikil kynning á erlendu risunum. Vallarþulurinn lýsti hvernig meistararnir höfðu lagt heiminn að fótum sér og núna væri komið að norðurhjara veraldar "Iceland". Og vallarþulurinn virtist vera einhver svona bandarískur háskólastrákur og hann var alveg ömurlegur þulur. Hann sá um alla "sound effectana" á sýningunni. Fyrst spiluðu Ambassadors við Reykjavíkurúrvalið. Guðlaugur Þór þingmaður og borgarfulltrúi var í Reykjavíkurúrvalinu. Ég held að það séu næg orð um styrkleika úrvalsins. Menn reiknuðu því með að Bandaríkjamennirnir ættu auðveldan leik í vændum. En nei, nei, Ambassadors svona rétt mörðu "úrvalið" og lítið var um sérstök tilþrif eða knattleikni að þeira hálfu. Svo var leikurinn alltaf stoppaður inn á milli svo blökkukonan (Lady Majic) gæti verið með fíflalæti, dansað hænsnadansa og farið með gamanmál eins og henni einni er lagið undir dynjandi danstónlist frá bandaríska háskólastráknum DJ. Whatever. Svo var nú alveg fokið í flest skjól þegar dómari leiksins dansaði hænsnadans í einu stoppinu. Ekki má gleyma því að snillingarnir fóru í sætaleik með nokkrum krökkum úr áhorfendaskaranum. Krakkinn sem vann sætaleikinn fékk stórkostleg verðlaun: Kennslu í fíflalátum að hætti Lady Majic. JEI!....

Það kom að því á endanum að við kumpánarnir létum ekki bjóða okkur meira af bullinu og strunsuðum út og kippti ég einhverri rafleiðslu úr sambandi á leiðinni. Það var reyndar óviljaverk en hverjum er ekki sama. Ég er mjög feginn að hafa ekki borgað mig inn á þetta. Reyndar hefði ég varla farið nema út af boðsmiðunum. En þetta var vissulega lífsreynsla.

Einkunn:uhm...krakkarnir höfðu gaman að þessu og það er fyrir öllu.


Í dag hélt ég síðan á Laugardalsvöll að sjá mitt lið, ÍA, etja kappi við FH í úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta. Það var gaman og myndaðist bara nokkuð góð stemning á pöllunum. Skagamenn unnu 1-0 og ég er sáttur. Ég borgaði 1500 kall inn á þetta. Jafn mikils virði og Harlem Ambassadors?

fimmtudagur, 25. september 2003

Hlandbrunnið braggabarn í barnavagni (vælir úti í veðri og vindum)

Já, ég ætti kannski að nefna það að titillinn er fenginn úr textabrunni Megasar.

Gunnar í Krossinum var á Stöð 2 áðan og fór mikinn. Mætti hann Þórhalli nokkrum miðli í kappræðum. Gunnar þóttist vita allt um það hvað væri Guði þóknanlegt og hvað ekki. Hann gekk meira að segja svo langt að kalla Þórhall útsendara djöfulsins þar sem Þórhallur teldi sig ná sambandi við æðri öfl. Gunnar þykist vera mjög heilagur og á Guðs vegum. Ég held að hann ætti þá ekkert að vera að dæma einhverja menn útsendara djöfulsins bara si svona. Gunnar var á því að það sem Þórhallur gerði væri Guði ekki þóknanlegt. Ég spyr: Er það sem Gunnar gerir eitthvað frekar Guði þóknanlegt?

Svo talaði hann um það að ef Þórhallur hætti í sínu starfi og iðraðist fyrirgæfi Guð honum. Það var nú aldeilis munur fyrir Þórhall.

Einhvurn tímann sá ég Gunnar í Krossinum á bensínstöð á Hvolsvelli með fjölskyldu sinni á stórum jeppa. Eru Guðs vegir kannski ekki færir nema á stórum jeppum? Gunnar ætti kannski að svara því. Gunnar ætti nú að geta lesið það út úr Biblíunni því flest virðist hann geta túlkað með henni. Já, ég reikna alveg eins með því að greinin um að Guðs vegir séu bara færir jeppum og að Þórhallur sé útsendari djöfulsins sökum starfa síns sé í Matt. 4:2, en ég þori ekki alveg að fara með það. Gunnar veit sjálfsagt meira um það.

miðvikudagur, 24. september 2003

Guð býr í garðslöngunni Amma

Ótrúlega magnaðir textar hjá Megasi: "...og á sunnudögum þegar kristur kaupir, sér kúmenbrennivín á leyndum stað"-"Ragnheiður biskups dóttir brókar var með sótt" Ég veit ekki hvaðan maðurinn fær allar þessar hugmyndir en mér segir svo hugur að hann fái eitthvað af þeim hjá Bakkusi.

Sjónvarpsefni nú til dags er gjarnan mjög þunnt og leiðinlegt. Það er nýbúið að birta áhorfskönnun Gallup og kemur í ljós að Skjár Einn hefur hrapað í áhorfi. Það hlaut að koma að því að fólk yrði leitt á þessum amerísku "gaman"þáttum sem eru allir eins og ekki snefill af skemmtun í þeim. Ameríska tilgerðargrínið höfðar ekki til mín, það er víst. Aldrei hef ég heldur skilið hvað er skemmtilegt við sápuóperuna Friends. Sömu brandararnir aftur og aftur þátt eftir þátt. Dósahláturinn svokallaði er ríkjandi í þessum þáttum. Er fólk orðið svo heimskt að það þurfa einhverjir að hlæja á bak við í þáttunum til þess að fólk heima í stofu viti hvenær það á að hlæja? "Ha? Þetta er fyndið, nú á ég að hlæja: HAHAHAHAHAHAh". Ef dósahláturinn yrði fjarlægður úr Friends yrði eflaust minna um hlátur hjá fólki af því það bara einfaldlega vissi ekkert að hverju það ætti að hlæja. Allt í einu væri Friends bara orðinn drepleiðinlegur grafalvarlegur þáttur. Ég er farinn að stunda það mikið að horfa ekki á sjónvarpið, hlusta bara. Þetta hefur gefist mjög vel hingað til. Ég veit ekkert um hvað þættirnir snúast en heyri alltaf blússandi dósahlátrasköll í sjónvarpinu annað slagið, og þá hlæ ég hrossahlátri og veltist um af kátínu. Því hverjum er svosum ekki drullusama um hvað brandararnir snúast eða hvort þetta var sami brandari og oft áður, eða hvort Phoebe var að gera eitthvað ljóskulegt? Mér er svo andskotans sama. Ég heyri bara að dósahláturinn byrjar og þá get ég sko hlegið. Ég veit eins og er að það eru frískir og frumlegir Bandaríkjamenn sem semja sprenghlægilegt handrit fyrir þættina. Ég sit jafnvel við borðið mitt og læri heima, heyri dósahlátur, og hneggja af hlátri svo glymur í öllu Breiðholtinu og öskra: "BANDARÍKJAMENN ERU SVO FYNDNIR OG FRUMLEGIR!". Svo held ég bara áfram þar sem frá var horfið við lærdóminn.

Ég held að Bandaríkjamenn ættu bara að einbeita sér að því að borða hamborgara og fat free-franskar á Mc'donalds eins og þeir eru svo góðir í. Þeir mættu alveg sleppa því að framleiða meira af tilgerðardósahlátursgamanþáttum. Svo mættu þeir alveg sleppa því að bomba Írak. En það verður ekki á allt kosið.

Það eina sem horfandi er á á Skjá Einum er Jay Leno, hann er stundum ágætur. Hann sér líka heimskuna í eigin þjóðfélagi og gerir gys að. Hins vegar er annar spjallþáttastjórnandi sem sýndur var á Skjá Einum sem var mjög góður: Conan O'Brien. Ég vil gjarnan fá hann aftur á skjáinn. Svo ekki er allt sjónvarpsefni frá Bandaríkjunum alslæmt. Simpsons er líka alltaf klassískt.

Annað sem ég vil sjá meira af í sjónvarpi eru breskir gamanþættir. Þeir slá Bandaríkjamönnunum alltaf rækilega við í góðu gríni og kaldhæðni.

Fleira var það ekki.

sunnudagur, 21. september 2003

FRAM - Þróttur í lokaumferð Landsbankadeildar karla

Ég fór á leik FRAM og Þróttar á Laugardalsvelli í gær. Ekki get ég státað mig af því að styðja annað liðanna, en ég gerðist þó hálfur FRAMari á þessum leik. Óneitanlega var gleðiefni fyrir mig, hálfan Framarann, að þeir unnu og sendu Þrótt niður um deild. Hins vegar var leikurinn ekki sérstaklega skemmtilegur og Framarar áttu engan veginn skilið að vinna. Þróttarar voru betri á heildina og hefðu alveg getað unnið. Svo í lok leiksins fagnaði ég sem óður væri með Frömurum og stemningin meðal áhorfenda þegar þeir voru að fagna Fram var á þessa leið:"Jú,jú, það var ágætt hjá ykkur að vinna en þið áttuð það ekki skilið því þið spiluðuð ömurlegan bolta og voruð lélegir". En gott hjá Fram að halda sér uppi hvað sem öðru líður.

Stefnan er síðan að fara að sjá leik Skagamanna gegn FH-ingum í úrslitum bikarkeppninnar eftir rúma viku. Þar má búast við alvöru leik og má geta þess að ég er heill Skagamaður

laugardagur, 20. september 2003

Kemur síðan á rss.molar.is núna?

Alltaf eitthvað rugl. Allt í einu hættu fyrirsagnirnar að birtast á þessum fyrirsagnalista

föstudagur, 19. september 2003

Busaball MR

Sofnaði í Cösu í dag með úlpu yfir hausnum. Það hef ég aldrei gert áður. Ástæðan: Busaball í gær. Þetta var taumlaus skemmtun. Ljóst er að það er nokkuð vafasamt að biðja Jósep um reddingu á öli til drykkju. Bað ég pilt um Faxe bjórkippu, en fékk þess í stað þrjár lítersdósir (kúta?) af Faxe og fékk Tómas það sama. Síðan skemmti umræddur Jósep sér við að henda gaman að okkur drekkandi úr ferlíkjunum og vöktu dósir þessar víða athygli. Þess ber að geta að bekkjarpartý hjá nafna mínum var að minnsta kosti fimm sinnum betra en partý á sama stað um daginn og fær þetta kjallarapartý góða dóma almennt. Fyrst var haldið í teiti hjá 5.X en staldrað stutt við og þaðan í mitt bekkjarpartý. Síðan var það bara blússandi ballið á NASA. Í einhverju óðagoti fór ég með óupptekinn vodkapela í vasanum á NASA en dyravarðaómyndirnar gerðu hann upptækann. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ballið var búið að pelinn var horfinn úr vasanum. Fór ég þá umsvifalaust að ræða við dyravörð. Sagði hann að þeir hefðu hellt úr pelanum og höfðu hvorki spurt kóng né prest. Ég lét ekki bjóða mér þess háttar bull og steinrotaði dyravörðinn án tafar.

Já, síðasta línan var kannski aðeins ýkt.

Konungsins sveifla!

Ég mætti síðan að sjálfsögðu á tilsettum tíma í skólann í morgun því annað hefði verið löðurmannlegt. Í síðustu tímunum var aðeins farið að draga af mér og var ég farinn að stara hreyfingarlaus út í loftið í enskutíma, sem var næstsíðasti tími. Síðasti tíminn var íþróttatími og tók ég Tjarnarhringinn engum vettlingatökum í dag frekar en fyrri daginn og kom bara helvíti vel út. Síðan lagði ég mig að sjálfsögðu þegar heim var komið eftir langan og strangan dag.

Það munar ekki um það

Spjallborðið komið aftur (neðst). Nýr bakgrunnur hefur einnig skotið upp kollinum. Síðan nenni ég ekki að breyta þessu drasli oftar, nema þetta fari eitthvað að bila enn eina ferðina.

fimmtudagur, 18. september 2003

Sauður

Karlinn eyddi bara síðustu helgi með rollum og ættingjum norður í Kelduhverfi. Þar gerðist ég smali, en göngur í Kelduhverfi eru árviss viðburður hjá mér. Ég fór ekki í réttir. Ég læt ekki hafa mig að fífli við svoleiðis bull. Réttir nú til dags eru mjög heimskulegar því sauðfé hefur fækkað svo mikið og fólki í réttunum að sama skapi fjölgað. Þannig að venjan núna er að fólk sé fleira í réttum en fé. Þannig að það er orðið rökréttara að kindurnar dragi fólkið í dilka í stað þess að fólk dragi þær í dilka. Fólk af sama sauðahúsi færi þá í sama dilk. Til hvers að fara í réttir til að draga eina rollu í dilk? Eða 1/3 rollu, það er örugglega u.þ.b. meðaltalið á mann. Svo var líka engin rétt að kvöldi til, bara að morgni og miðjum degi og þá er augljóslega minna fútt í þessu.

Göngurnar sjálfar gengu bara ágætlega. Það versta sem getur komið fyrir í göngum er að gleyma kindum. Þær eiga það til að vera lúmskar og fela sig bakvið hóla eða að þykjast vera snjóskaflar eða því um líkt. Fátt er leiðinlegra en að líta aftur á bak í göngum og sjá rollu fyrir aftan sig. Hún stendur þá og glottir og kjamsar á ljúffengu grasi. Þá á maður að segja við rolluna eitthvað á þessa leið:
"Jæja, þú heldur að þú sért sniðug. Þú munt ekki glotta svona þegar hausinn á þér verður orðinn að sviði og búkurinn á þér að lambahrygg.". Þá segir rollan:"Heyrðu, á ég að stanga þig, melurinn (meee-lurrh) þinn?" Þá segir maður "Bíddu, ertu að reyna að stofna til vandræða hérna" og sendir hund á eftir rollunni til að sækja hana. Þá segir rollan "Bíddu bara, ég mun hefna mín" og það þýðir að hún getur orðið enn erfiðari viðureignar í næstu göngum og á jafnvel eftir að stanga mann niður síðar. Ég var einmitt einu sinni þegar ég var yngri stangaður niður af hrút og það var alls ekki gaman.

Ég vil endilega geit á skólalóðina framan við MR eins og Tomasz P. Jack lagði fram tillögu um á skólafundi í fyrra. "Betra er geit en Gádinn" eins og Ari Eldjárn sagði á ræðunámskeiðinu. Og þetta er ekkert andskotans grín. Vonandi kemur tillagan aftur á næsta skólafundi og verður þá samþykkt og ekki væri ónýtt ef rektor samþykkti slíkt. Svo í frosthörkum og hríðarbyljum á veturna mætti geyma geitina í kjallaranum undir Gamla skóla. Og þessi 6500 kall sem maður borgar í Skólafélagið, ég held að eitthvað af honum mætti fara í fóður handa geitinni.

mánudagur, 15. september 2003

Hvað á þetta að þýða?

Johnny Cash er dáinn. Ég ætla að kaupa mér disk með karli á næstunni og heiðra þannig minningu hans. Það er gefnara en allt gefið. Í dag fór ég í Skífuna og splæsti í þrjár plötur: Megas 1972-2002 (þrír diskar í pakka), Ensími-Ensími og Nýdönsk - Húsmæðragarðurinn. Þarna þekki ég mig. Ég keypti reyndar Nýdönsk diskinn aðallega út af því að hann var á hundrað kall. Kaupæði, ef þú veist hvað ég meina félagi.

Ég var að koma af ræðunámskeiði Framtíðarinnar sem var alveg þrælmagnað. Stefán Pálsson var lærimeistari ásamt Ara Eldjárn og stóðu þeir piltar sig bara andskoti vel. Pizzur voru étnar.

Væntanleg er umfjöllun um göngur og sauðfé í Kelduhverfi á næstunni, en þar var ég einmitt um helgina.

fimmtudagur, 11. september 2003

Hemmi Gunn - Frískur fjörugur

Viti borið fólk ætti að útvega sér disk Hemma Gunn hið allra fyrsta og þótt fyrr hefði verið. Ég get ábyrgst það að hann hressir, bætir og kætir.

miðvikudagur, 10. september 2003

Könnunin

Á að skipta um bakgrunn? (svör í kommentakerfið)

1. Já, þetta er verra en ógeð
2. Nei, þetta er einfaldur og skemmtilegur bakgrunnur
3. Hverjum er ekki drullusama?
4. Æ,veru ekki að masa

Veljið 1,2,3 eða 4.

Feitt

Nú þarf ég hvorki að mæta í dönsku né tölvufræði það sem eftir er skólaársins.

mánudagur, 8. september 2003

Krakkaóféti og skitið í sandkassa

Þessir krakkar nú til dags. Áðan kom eitthvað stórt sendibréf inn um bréfalúguna, fullt af mold og laufblöðum. Á bréfinu stóð skrifað með krakkaskrift Gudmundur. Prakkarastrik? Þessi krakkar halda að þeir séu svo sniðugir. En þeir eru ekkert sniðugir. Það er ekkert gaman að lenda í svona prakkarastrikum. En ég var hins vegar sniðugur þegar ég var lítill og gerði prakkarstrik. Gömlu tímarnir. Ég man nú þegar við krakkarnir tróðum heyi inn um gluggana á húsinu hjá Guðlaugi og Höllu og þegar við rifum upp hríslur í garði hjá einhverju fólki og hentum inn í annan garð. Svo ekki sé minnst á þegar við fengum lánaða tómatsósu hjá Möggu og Jobba og egg hjá Guðlaugi og Höllu og lugum því að þeim að mömmur okkar vantaði efni í baksturinn. Síðan drullumölluðum við úr öllu klabbinu. Best af öllu var samt þegar ég var þriggja ára og fór á leikvöllinn og skeit í sandkassann. Ég sá að kettirnir voru oft að skíta þarna og hugsaði: "Af hverju ekki ég?" og svo skeit ég. Þarna erum við að tala um fyndin og skemmtileg prakkarastrik. Mömmu fannst hins vegar ekki fyndið þegar ég skeit í sandkassann og þreif skítinn upp. En það er bara af því að hana skortir alla kímnigáfu.

En þessi börn nú til dags eru bara illa upp alin óféti. Minnstu ekki á það ógrátandi.

sunnudagur, 7. september 2003

Grúskað

Ég er farinn að grúska í Mars Volta disknum mínum sem ég keypti fyrir 2 mánuðum. Þetta er fínasta kvikindi. Best er að blasta kvikindið á gettóblasternum á hæsta styrk við heimalærdóminn, sérstaklega í stærðfræði. Það er miklu auðveldara að hugsa þannig. Reyndar er þetta líka auðveldari stærðfræði, svona í annað sinn.

laugardagur, 6. september 2003

Ég fæ mér einn og öskra mö: Þreföld menningargagnrýni

Ég er búinn að að verða mér úti um disk með Hemma Gunn, Frískur fjörugur. Þessi diskur er helvíti magnaður og artí fartí. "Einn dans við mig" er mesta sveiflulagið, þar er Hemmi í "full swing" ef svo mætti segja (eins og Guðmundur J. sögukennari mundi orða það). Textasmíðar á disknum eru vel ígrundaðar og hnitmiðaðar eins og dæmin sanna: "Ég fæ mér einn og öskra mö", "Á mig sveif, lallala. Sigga, Magga, Rut og Ragga Stína og Gudda runnu um allan sal. ", "...og Jósafat það matargat" og "Markmiðið er, að fá píu heim með sér" . Þvílík gríðarleg sveifla. Hemmi kann ýmislegt fyrir sér.
Einkunn: Þrjár og hálf stjarna af fimm.

Freddy vs. Jason er mynd sem ég borgaði mig inn á um daginn og skammast mín fyrir það. Maður sat þarna í bíóinu á þessari mynd og hugsaði "uh, söguþráður?" Ekki fór mikið fyrir honum í myndinni. Söguþráðurinn hefur alveg gleymst í öllu amstrinu við gerð myndarinnar. Illa leikið. Fór ekki út í hléi. Fór út eftir 20 mínútur. Það segir ýmislegt.
Einkunn: Feitur mínus.

Fór á eðalleikrit í gær í Loftkastalanum, ókeypis. (Þetta var general-prufaeða eitthvað slíkt). Það hét Erling og var gert eftir norsku myndinni Elling. Það fjallar um tvo geðveika kumpána sem útskrifast af geðveikraheimili á Kjalarnesi (allt staðfært á íslenskar aðstæður). Kumpánarnir fá félagslega íbúð í Reykjavík og gengur erfiðlega að fóta sig í nýju umhvefi. Gott grín. Jón Gnarr fer á kostum í leikritinu sem annar félaganna og smellpassar í sitt hlutverk. Aðrir leikarar stóðu sig ágætlega en Gnarrinn stóð upp úr. Jón Gnarr er maður sem hefur bara alveg horfið en nú er ég sem sagt búinn að finna hann. Hann er í Loftkastalanum, að leika.
Einkunn:Fjórar og hálf stjarna af fimm mögulegum.

fimmtudagur, 4. september 2003

Til gamans má geta þess að nú er komið nýtt og ferskt kommentakerfi á síðuna

Helvítis gamla kommentakerfið er farið og nýtt og ferskt komið í staðinn. Þá getur fólk komið sínum athugasemdum á framfæri á ný.

Skólaráð er lengi að afgreiða umsóknir mínar um að sleppa tölvufræði, verklegri efnafræði og dönsku. ég er í tölvufræði núna sem er rassgat. Annars er fínt að vera fallisti og má geta þess að ég reiknaði lengsta stærðfræðidæmi sem um getur á töfluna um daginn.

miðvikudagur, 3. september 2003

Fokið í flest skjól

Reyndasti starfsmaður bæjarvinnunnar, Haukur að nafni, hokinn af reynslu eftir þrotlausa vinnu í sjö sumur á hverfisbækistöð fjögur heimtar nú link. Þá er fokið í flest skjól. Hann fær link með því skilyrði að hann linki á mig. Hér gilda lögmál náttúrunnar:auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, linkur fyrir link. Drengurinn er 24 ára viðskiptafræðingur en verkamaður á sumrin eins og áður hefur komið fram. Það væri ekki úr vegi að fólk liti á blogg hans sem á það til að vera hressandi.

Það verður enginn hagnaður af þessu hjá honum, bara skipt á sléttu.

þriðjudagur, 2. september 2003

Nú fá hausar að fjúka

Ég fór í strætó í morgun niður í MR úr Seljahverfinu og þurfti að standa allan tímann. Það er síður en svo vinsælt. Strætóinn var vel pakkaður eins og hann hefur verið síðustu daga og margir stóðu því. Þetta er orðið það slæmt að bílstjórinn er farinn að segja fólki að koma inn að aftan svo það komist fyrir. Allir sem stóðu þurftu að stíga trylltan dans til að halda jafnvægi því bílstjórinn var versti ökuníðingur gaf alltaf vel í rétt áður en hann kom að ljósum og negldi svo niður á rauðu þannig að menn duttu hver um annan þveran. Ég veit ekki hvort það er svona leiðinlegt að vera strætóbílstjóri að þeir reyni að fá eitthvað kikk út úr því að keyra eins og vitleysingar. Ég bíð eftir því að Auðunn Blöndal á Popptíví komi inn í pakkaðann strætóinn og segi fólki að þetta sé falin myndavél og hafi bara verið grín í strætó síðustu daga. Ef það gerist verður hann kýldur í rot samstundis því troðningurinn í strætó er síður en svo eitthvað grín.

Mikið er um lélegar og jafnvel ógeðslegar auglýsingar þessa dagana. Sérstaklega má nefna Cheerios auglýsingar sem eru bara viðbjóður. Svo er það Íslandsbanki sem er búinn að hrinda af stað rándýrri auglýsingaherferð sem á að lokka námsmenn til þeirra. Flettarinn, Skemmtarinn, Vekjarinn o.s.frv. eru með því lélegra sem sést hefur í auglýsingum og það er ljóst að ég hef ekki viðskipti við Íslandsbanka á næstunni. Þessar auglýsingar eru ekkert nema fjáraustur og sóun í vitleysu. Ég veit a.m.k. ekki um neinn sem finnst þessar auglýsingar sniðugar eða skemmtilegar.

Einhver má kenna mér að laga enetation kommentakerfi eða finna kommentakerfi frá einhverri annarri síðu (Haloscan virkar ekki).