sunnudagur, 30. nóvember 2003

Tilmæli til Sjónvarpsins

Ég beini þessum tilmælum til Sjónvarpsins:
Hættið að sýna Spaugstofuna. Hættið að sýna þátt Gísla Marteins eða fáið nýjan umsjónarmann.

Það vill svo til að þessir tveir grátlegu þættir mældust þeir áhorfshæstu í nýjustu fjölmiðlakönnun Gallup. Ég held að ástæðan fyrir áhorfinu á Spaugstofuna sé sú að fólk sest niður við skjáinn að horfa á hana af gömlum vana, ekki er það vegna þess að hún sé skemmtileg eða frumleg á nokkurn hátt. Þetta er orðinn algjör hryllingur á að horfa, allt er fyrirsjáanlegt og ófrumlegt sem þeir gera. Hér með er ég hættur að horfa á þáttinn þrátt fyrir að það sé gamall vani.

laugardagur, 29. nóvember 2003

Mystic River

Ég sá Mystic River í Háskólabíói í gær. Það er hörkumynd sem Clint Eastwood leikstýrir. Ummæli úr myndinni: "...scarier than a glass of milk". Góð ummæli.
Einkunn:fjórar stjörnur af fimm.

föstudagur, 28. nóvember 2003

Peningar vaxa ekki á trjám, þeir liggja í bönkum

Í dag var ég í skólanum. Jósep var líka mættur, ferskur. En í dag var Jósep blankur og gat ekki keypt neitt að éta. Hann sagðist ekki eiga eyri. En þó ákvað hann að gá í Íslandsbanka hvort hann ætti ekki eitthvað. Hann fór til gjaldkerans og kom síðan skælbrosandi til baka með 200 krónur og hafði tæmt reikninginn. Það þótti mér skemmtilegt. Svo sagði hann "Komdu í Landsbankann, ég ætla að athuga hvort ég eigi ekki fyrir kóki líka". Við héldum í Landsbankann og Jósep var orðinn aldeilis vongóður eftir happafundinn í Íslandsbanka. Viti menn! Hann tæmdi reikning númer tvö þennan daginn og þar var að finna tíu sinnum meira en í Íslandsbanka, 2000 kall. Nú átti Jósep allt í einu fyrir hamborgara og að minnsta kosti tíu kókdósum. Hann á reikning í öllum bönkunum. Það finnst mér afar hressandi. Gott að geta fundið 20 kalla eða jafnvel 2000 kalla svona hér og þar.

fimmtudagur, 27. nóvember 2003

Sacha Baron Cohen

Ótrúlegur snillingur, hann Sacha. Fyrsti þátturinn í nýrri seríu af Ali G var í Sjónvarpinu í kvöld. Besta persónan í þættinum er Borat frá austurlöndum fjær. Mig verkjaði í magann af hlátri þegar ég sá Borat-hornið núna þar sem hann skellti sér í stefnumótaþjónustu í Bandaríkjunum. Ali G er mögnuð persóna, líka nýjasta persónan, þýski hominn, en það toppar engin Borat hinn austurlenska. Sacha er aldeilis að gera góða hluti.

Fyrst ég er að tala um snillinga er ekki úr vegi að nefna það að Hallgrímur Helgason er líka snillingur.

Jóladagatalið Klængur sniðugi

Mér líst aldeilis vel á jóladagatal Sjónvarpsins þetta árið, Klængur sniðugi verður endursýndur. Þá get ég rifjað upp bæinn þar sem hjól atvinnulífsins höfðu stövast og ódauðlegar persónur eins og kærustu Klængs, Lovísu með lærin þykku. Þetta er frábært jóladagatal og ekki síður fyrir fullorðna en börn.

miðvikudagur, 26. nóvember 2003

Hungrið sækir að

Ég var rosalega svangur áðan. Ég opnaði ísskápinn. Þar var að finna risastóran, hálfan lauk í skál, tvo eða þrjá ostenda, feta-ost í krukku, grænt fóður í poka og fullt af döllum með afgöngum sem enginn kunni skil á. Ég var þá ekkert svo svangur eftir allt saman.

mánudagur, 24. nóvember 2003

Dyraprangarar og sölumenn

Dyraprangarar er svona lið sem labbar í hús og reynir að selja fólki eitthvað. Þegar jól nálgast fyllist allt af dyrapröngurum, þeir vakna úr dvala. Allt í einu vantar alla pening "Við erum að selja jólakort til styrktar ABC hjálparstarfi", "Fallegir skrautmunir til styrktar Krabbameinsfélaginu", "Ég er hérna frá körfuknattleiksdeild ÍR, við erum að safna fyrir...." "Við erum að selja smákökur til styrktar kvenfélaginu Málfríður". Í guðanna bænum. Það er voðalega vinsælt að senda krakka í svona. Skipuleggjendur safnananna kunna öll brögðin, senda krakkana því fólk á erfiðara með að segja nei við þá. Svo koma þessir safnarar voðalega oft á kvöldmatartíma. Ég man þegar ég var yngri og þurfti að safna fyrir fótboltann, mér var alltaf illa við að fara svona í hús og selja fólki eitthvað drasl. Það eru svo mikil leiðindi, að angra fólk til að reyna að pranga einhverju drasli inn á það.

Það kemur nú samt fyrir að safnanir séu styrktar á mínu heimili.

Símaprangarar fara líka allir á stjá um jólaleytið til að bæta gráu ofan á svart.

Davíð segir, Davíð segir...

Davíð Oddsson er nú varla í stöðu til þess að segja fólki hvar það á að geyma peningana sína og hvar ekki. Þetta er þó að sjálfsögðu ömurlegur samningur sem stjórnendur Búnaðarbankans hafa samið handa sjálfum sér til að gera sig ríkari.

En eru hinir bankarnir nokkuð betri? Á ekki bara eftir að koma upp um þá?

sunnudagur, 23. nóvember 2003

Greinilega gaman í Fólk með Sirrý

Myndirnar bera það með sér að það hefur verið fjör í MR hópferð í Fólk með Sirý.

Sjitt hvað Bachelor er lélegur þáttur.

laugardagur, 22. nóvember 2003

Rauðhært fólk í útrýmingarhættu!

Nú voru vísindamenn að gera uppgötvun og það enga smá uppgötvun; rauðhært fólk er í útrýmingarhættu! Það stóð í Fréttablaðinu í dag. Það verður að grípa til aðgerða til að vernda rauðhærðu tegundina, ekki má hún deyja út eins og geirfuglinn. Það ætti að búa til rauðhærðranýlendur og láta rauðhærða kynstofninn fjölga sér rækilega, svo hann geti tekið yfir heiminn að lokum. Rauðhærðir geta ekki setið undir slíku. Allir rauðhærðir sameinist og nái alheimsvöldum. Það er verðugt markmið.

Þess má til gamans geta að ég er ekki rauðhærður svo mín tegund er ekki í útrýmingarhættu.

Gaman að því hvað vísindamenn eru oft að rannsaka mekilega hluti og gera merkilegar uppgötvanir. Ég sá um daginn að nýjar rannsóknir sýna að einn kakóbolli á dag er hollur því hann inniheldur svo mikið af andoxunarefnum. Já, já.

Kýpur eða Króatía

Menn eru ekki á eitt sammála um hvert skuli fara í útskriftarferð 5. bekkinga næsta sumar. Það er búið að kjósa. Kýpur hafði betur en Króatía. Mikilla fordóma gætir hjá sumu fólki varðandi Króatíuhugmyndina og er það í flestum tilfellum vegna fáfræði. Mörgum finnst hallærislegt að fara í útskriftarferð til Króatíu. Þó eru ótvíræðir kostir við það, t.d. hagstæðara verðlag og minni hiti (25 stig að meðaltali) auk þess sem ferðin þangað kostar 80 þúsund en Kýpurferðin 105 þúsund og munar um minna. Hins vegar hef ég heyrt frá fylgismönnum Kýpur að í smábænum sem stendur til boða í Króatíu þurfi allt að vera með kyrrum kjörum eftir miðnætti, annars grípi lögreglan inn í. Ef það er rétt er það verulegur galli á Króatíuferðinni. Í Kýpurferðinni fylgir ferð til Egyptalands sem hljómar afar spennandi.

Ég mætti ekki á fund um ferðina en er svona á báðum áttum. Eitt er þó alveg á hreinu, það eru voðalegir fordómar um Króatíuferðina sem ég efast um að eigi rétt á sér. Annars fer ég, fallisitinn, væntanlega aftur í útskriftarferð að ári, kannski verður þá farið til Króatíu.

fimmtudagur, 20. nóvember 2003

Oxidation reduction reaction

Frekar leiðinlegt að vera með efnafræðibók á stærð við símaskrá. Ekki bætir úr skák að kvikindið er á ensku, með fræðiheitum flæðandi um allt. Með bókinni fylgir "gagnvirka efnið", ýmsar skýringarmyndir á ensku auðvitað og leyfi ég mér að efast um gæði þess. Skýringamyndir í bókinni eru þó góðar.

Uppistand á Nasa

Fór á Nasa í gær á uppistand. 6 menn héldu uppistand og voru þeir misgóðir eins og augljóst má vera:
Fyrsti, minnir að hann hafi heitið Guðjón var ágætur, átti góða spretti en datt líka niður í rugl.
Einkunn:þrjár og hálf stjarna af fimm.

Annar var Haukur í horni eða Haukur Sig. sem var á Skjá einum. Ég bjóst alls ekki við miklu af þeim manni. Hann stóð sig hins vegar svona þokkalega, en datt niður í óttalega meðalmennsku á köflum.
Einkunn:þrjár stjörnur.

Þriðji var Böðvar Bergsson. Ég hafði aldrei heyrt um hann áður og vissi því ekkert við hverju skyldi búast. Hann kom virkilega ferskur inn, var góð eftirherma og var hnyttinn. Hann var hins vegar með slappt lokaatriði.
Einkunn:fjórar stjörnur.

Fjórði var Bjarni töframaður. Hann var bara alveg helvíti þéttur og kom mjög sterkur inn. Sýndi töfrabrögð og náði bullandi stemningu í salinn þegar hann dró upp gítarinn og spilaði ýmis lög. Ég sprakk úr hlátri þegar hann dró upp pirrandi ýluflautu sem hann líkti við fyrrum konu sína og drekkti síðan flautunni í vatnskönnu. Hljómar kannski kvikindislegt en þetta var drepfyndið.
Einkunn:fjórar og hálf stjarna af fimm.

Fimmti var Sveinn Waage. Hann er á rangri hillu, það er ljóst. Ekki var hann beinlínis frumlegur þegar hann hóf að leika norðmenn og svía og síðan skota. Alltaf þessi smáborgaraháttur íslendinga að gera grín að tungumálum annara þjóða, hafandi ekkert efni á því. Það er pottþétt skellihlegið að íslensku í Japan, vinsælt að leika íslending á uppistöndum þar í landi. Svo tók hann Árna Johnsen fyrir og lýsti öllum hörmungum sem höfðu dunið yfir Vestmannaeyjar í gegnum tíðina. Eins og ég segi, maðurinn er á rangri hillu, ætti að fara að syngja í einhverri hnakkahljómsveit eða eitthvað.
Einkunn:Tvær stjörnur.

Uppistandarinn 2003, Steinn Ármann Magnússon, olli vonbrigðum. Tók gamlan mann úti í sal fyrir sem var ekkert fyndið. Átti þó góðar rispur. Gerði grín að Sveini Waage og Bjarna töframanni. Sveinn átti það alveg skilið en ekki töframaðurinn.
Einkunn:þrjár og hálf stjarna af fimm.

þriðjudagur, 18. nóvember 2003

101 Reykjavík og Spaugstofan

Ég horfði á 101 Reykjavík á sunnudaginn í annað skipti. Ég er ekki frá því að það sé næstbesta íslenska kvikmynd sem gerð hefur verið. Góðar vangaveltur hjá aðalpersónunni.
***
Það virðist vera í tísku að segja að Spaugstofan sé ömurleg. Samt held ég að það sé ennþá sá þáttur sem flestir horfa á skv. könnunum. Mér fannst Spaugstofumenn koma mjög ferskir inn með tvo fyrstu þætti sína þennan veturinn. Síðan er eins og allt hafi bara fjarað út. Síðasti þáttur var t.d. alveg glataður. Það voru tvö, þrjú atriði með ágætis ádeilu en ég hló ekki í eitt einasta skipti að þessum þætti. Það er eins og þeir séu bara alveg útbrunnir, grey karlarnir. Þeir hafa oft sýnt það að þeir geta gert gott grín. Þessi karlakórsatriði þeirra hafa alltaf verið hundleiðinleg og svo eru þessi nýju læknastofuatriði alltaf alveg drulluslöpp. Svo ekki sé minnst á gaurinn sem kemur alltaf í öryggismyndavélar og talar um samsæri hér og þar. En ekki er allt slæmt. Ég hló til dæmis að því um daginn þegar Dabbi kóngur, Halldór Ásgrímsson og Björn Bjarna komu eins og hálfvitar baulandi Muuu! eins og í mjólkurauglýsingunni og síðan kom "mu-mu-mu-mundu ekki eftir kosningaloforðunum!". Það var þokkalegt. En þegar á heildina er litið er þátturinn slappur. Þeir piltar ættu að fara að rífa sig upp á rassgatinu og gera eitthvað almennilegt og hætta í meðalmennsku og leiðindum sem þeir hafa færst í á síðari árum.

mánudagur, 17. nóvember 2003

Jólaafurðir og listsköpun Árna Johnsen

Það er strax búið að skreyta miðbæinn, Kringluna, Smáralind og fleiri staði með jólaskreytingum. Ótímabær jólaasi er óþolandi. Engin ástæða að huga að jólum fyrr en í fyrsta lagi í byrjun desember. Réttast væri að safna liði og rífa þetta allt saman niður. En nóg um það. Um hver jól fer Mjólkursamsalan í jólaskapið. Þá er hægt að kaupa Jólajógúrt, Jóla-Engjaþykkni, Jólaskyr og annan varning af sama tagi. Þá er hins vegar ekki hægt að kaupa bara venjulega Engjaþykknið og skyrið. Það sem þessar jólavörur eiga sameiginlegt er að það er búið að bæta sykri í þær. Namm! Venjulegt skyr sem búið er að bæta sykri, sultu og karamellubragði við. Hver fúlsar við því? Eða Engjaþykkni með súkkulaðihrískúlum og hnausæþykkri marsípanbráð. Þið getið ekki sagt nei. Mamma keypti mjólk áðan, léttmGLEÐILEGjólk. Það stóð í alvöru utan á mjólkinni. Ég vona að það sé ekki búið að hræra sultu og flórsykri út í léttmjólkina mína út af jólunum. SKO! Það eru jól, þá verður allt að vera "jóla" og með viðbótarskammti af sætindum. En það eru fleiri sem fylgja fordæmi Mjólkursamsölunnar og hafa vörur sínar sykurbættar í tilefni jólanna, jólakex með auka súkkulaðimolum og svona hitt og þetta. Ég bíð spenntur eftir stökkum frískandi jólasveppum, húðuðum með karamellu og kókosmjöli og hunangsfylltum jólapaprikum skreyttum með glassúr og marengs í verslunum. Mamma mia! Ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina. Eða þannig. Þótt jólin séu að ganga í garð þurfa matvælaframleiðendur ekki að sleppa sér alveg í sykurbættum jólavörum. Ég vil bara mitt venjulega skyr og daglega brauð.
***
Árni Johnsen er bara kominn út af Kvíabryggju og farinn að afhjúpa listaverk. Það sem er svo skemmtilegt við þetta er að fólk kaupir eflaust listaverk eftir Árna dýrum dómum bara af því að þau eru eftir hann, frægan manninn. Það er alveg stórmerkilegt að hann sé strax kominn út, eftir eitt ár í fangelsi, miðað við brot hans. En hann fer reyndar á eitthvað áfangaheimili til að byrja með.

Leiðrétting

Það var misskilningur að bannað væri að diffra fasta eins og sagði í færslu hér frá 15. nóvember 2004. Darri mun hins vegar hafa fullyrt að bannað væri að diffra fasta einhvern tímann og það er ástæða þess að hann átti að verða lukkudýr félagsins og fá bol með setningunni "Það er bannað að diffra fasta". Diffrun er grafalvarlegt mál og harma ég þessi mistök. Það skal því vera ljóst hér eftir að öllum er heimilt að diffra fasta.
***
Í dag skrópaði ég í tíma til að spila Catan landnemaspilið. Annað skróp mitt það sem af er skólaárinu. "Þetta gengur ekki, Guðmundur minn!" segir amma og hlær hrossahlátri.
***
Sólbjartskeppni áðan þar sem 5.X mætti 4.S. Ég var tímavörður. 5.X marði sigur í keppni þar sem rúm 80 refsistig voru gefin. Dregið var á aðra umferð, minn bekkur, 4.R mætir 4.Z. Ég er ekkert of bjartsýnn á þá keppni því 4.Z teflir fram mönnum á borð við Ragnar Jón og Helga Egils sem eru alls ekki af verri endanum. Lið 4.R er aftur á móti skipað óttalegum nýgræðingum þótt einn liðsmaður hafi keppt í Sólbjarti í fyrra.

sunnudagur, 16. nóvember 2003

Karlinn

Bara ferskur eins og alltaf:

Stofnfundur diffurfélagsins Fasta

Diffurfélagið Fasti hélt stofnfund sinn á föstudaginn á heimili Ásgeirs Birkissonar. Þar voru mættir Ásgeir, Darri, Grettir, Villi Alvar, Tomasz, Henriqe og svo mætti ég líka. Vonbrigði fundarins voru að heiðursforsetinn sjálfur, Höskuldur diffurmeistari, mætti ekki. Það sem ég lærði á þessum fyrsta fundi var að það er bannað að diffra fasta. Reglur diffurfélagsins voru samdar og ritaðar á fundinum þegar menn höfðu drukkið næglegt magn af öli. Mig minnir að ein reglan hafi fjallað um að engir máladeildarþursar væru leyfðir í félaginu. En margar reglurnar voru mjög skemmtilegar. Írskir drykkjusöngvar voru í hávegum hafðir og einhverjir spiluðu Catan. Uss.

Svo var bjórkvöld MH á la Café. Ýmsir voru hressir. Já, hvað þykist þessi trúbador sem spilar í Austurstræti um hverja helgi vera? Hann spilar næstum alltaf sama lagið og ég held að hann kunni bara eina línu í því lagi. Við höfum nokkrum sinnum beðið hann að spila einhver önnur lög, eitthvað með Megasi eða einhverja aðra þekkta gítarslagara en hann reynir alltaf bara að snúa því upp í grín "Ha? Það kostar að minnsta kosti 35 þúsund kall". Alveg svakalegur, karlinn.

Í gær var síðan bjórkvöld MR í Hafnarfirði og þar var ekki alveg nógu góð stemning. Hefði mátt vera betra. En maður spyr sig; má þetta?

laugardagur, 15. nóvember 2003

Faxe ekki lengur ódýrasti bjórinn

Þessi nýi Egils Pilsner 4,5% er ódýrasti bjórinn í ÁTVR núna, 900 kall kippan. Ég fékk mér slíkan í gær og bragðið var alls ekki svo slæmt.

föstudagur, 14. nóvember 2003

Gat farið á ball en fór á bingó

Ég var fram úr hófi sorglegur í gær, gat farið á ball en fór á bingó. Ég er bara að verða eins og versti gamlingi. Ég var búinn að ákveða fyrir löngu að fara á '85-ball MS en nei, nei, ég fékk ekki miða, þeir voru akkúrat nýbúnir þannig að ég fór á bingó í MR í staðinn. Sorglegt. Svo vann ég ekki rassgat. Ég vann hvorki eitt eða neitt en sóaði 300 kalli. Í dag var ég síðan bara ferskur á meðan bekkjarsystur mínar sem fóru á ballið mættu í skólann í tómu tjóni.
***
Nokkrir hlutir fara ósegjanlega í taugarnar á mér þessa dagana, m.a:
-Á hverjum einasta degi er fólk í skólanum að flauta lagið úr Kill Bill og er það vægast sagt orðið þreytandi. Það var flott tónlist í þessari mynd og allt það en í guðanna bænum ekki nauðga þessu flautlagi svona rosalega. Næst þegar ég heyri einhvern flauta þetta fer ég að beita Gestapo aðferðum á viðkomandi eða bara bít hann á barkann. Já, já, maður er nú úr Breiðholtinu, kann öll bolabrögðin. Maður mætir á æfingar niðri á Select í hverri viku og fagmenn kenna manni að slást. Er það ekki? Nei, kannski er ég eitthvað að rugla.
-Það er búið að ofspila lagið Stockholm Syndrome með Muse. Óþolandi þegar góð lög eru ofspiluð og skemmd þannig.
***
Ha ha ha! Ég fékk miða á Muse. Ég og Sepinn mættum blindfullir niður í Skífuna á Laugavegi klukkan að verða ellefu í morgun. Þar mætti okkur skilti sem á stóð "UPPSELT". Þar mætti okkur líka maður sem sagði "uppselt". Við dóum ekki ráðalausir og Jósep reddaði miðum með símtali við systur sína í Smáralind. Þannig að ég fer á Muse sem er mjög gott. Frönskupróf daginn eftir en maður skallar það bara.
...og nei við vorum ekki blindfullir klukkan ellefu í morgun í alvöru. Þetta var plat.
***

Þetta var föstudagsfærslan. Þær verða stundum ansi flippaðar.

fimmtudagur, 13. nóvember 2003

Hver samdi handritið að þessum draumi?

Mig dreymdi verulega súran draum um daginn. Ég sagði Haraldi frá honum og þótti honum draumurinn ansi forvitnilegur og hvatti mig til að birta hann á veraladarvefnum. Ég birti því þennan draum þrátt fyrir að hann hafi verið absúrd:
"Draumurinn"/martröðin byrjaði þannig að ég var staddur í Bláa sal Verzlunarskóla Íslands og var að keppa í MORFÍS á móti MH held ég. Það var komið vel fram í miðja keppni og einn ræðumanna MH var næstur í pontu. Ég tók eftir því að um leið og hún steig í pontu steig einhver gaur úti í sal upp. Svo hófst ræðan. Ræðan var flutt á táknmáli og gaurinn úti í sal var túlkurinn. Þessi túlkur leit út alveg eins og Herbert Guðmundsson. Ég vissi ekki neitt hvert umræðuefnið var og var engu nær um það eftir að hafa hlustað á gervi-Herbert Guðmundsson túlka ræðu heyrnarlausu stelpunnar úr MH. Liðsfélagar mínir voru bara tveir, það vantaði liðsstjóra í liðið. Ég hafði aldrei séð þessa blessuðu liðsfélaga (strák og stelpu) áður. Strákurinn boraði stanslaust í nefið og ruggaði stólnum sínum til hliðanna ótt og títt. Svo datt hann á gólfið. Stelpan virtist líka vera snarbrengluð í hausnum. En þetta var ekki allt því allt í einu kom Steindór Grétar Jónsson og afhenti mér blað fullt af staðreyndum um Halldór Laxness. Hann sagði mér að nota það í ræðuna og bæta einhverju inn í hér og þar. "Hvaða andskotans bull er þetta?" sagði ég og svo endaði draumurinn.

Já, ef þetta var ekki súr draumur í meira lagi skal ég hundur heita. Ég veit ekki hver semur handritið að svona vitleysu. Það þarf að fara að finna manninn sem semur handritið að þessum súru draumum og martröðum fólks. Hann verður aldeilis buffaður þegar hann finnst. Ég hvet fólk til að reyna að ráða þennan draum.

miðvikudagur, 12. nóvember 2003

Forsýning á Finding Nemo

Áðan fór ég í Háskólabíó á teiknimyndina Leitin að Núma eða Finding Nemo. Var þetta liður í Megaviku Framtíðarinnar og kostaði 500 kall. Þetta var mjög skemmtileg mynd. Mönsaði ég á poppi yfir henni. Sérstaklega gaman að 150 ára gamalli skjaldböku í myndinni sem leit út fyrir að hafa reykt hass í 100 ár að minnsta kosti. Skemmtileg hugdetta, 150 ára hassskjaldbaka. Líka gaman að mávum í myndinni. Segi ekki meir.

Einkunn: Fjórar stjörnur af fimm mögulegum

þriðjudagur, 11. nóvember 2003

Ummæli dagsins

Ummæli dagsins átti bekkjarbróðir minn. Hann sagði við mig, Jósep og Trausta:"Hey, strákar, ég var að fá pening í gær. Þið viljið ekki kíkja heim í vínarbrauð eða eitthvað eftir skóla?". Þetta þótti skondin fyrirspurn og hlegið var að.

DV og Norðurljós

Hvaða vitleysa er þetta að endurreisa DV? Það liggur alveg ljóst fyrir að það er ekki pláss fyrir þrjú dagblöð á Íslandi. Hver á að kaupa þetta? Amma? Nei. Eiga nýir ritstjórar að lokka nógu marga nýja áskrifendur að blaðinu til þess að það gangi? Af hverju fór DV á hausinn? Vegna þess að það var orðið algjört rusl og tætaramatur. DV var á svipuðu verði og Mogginn en miklu þynnra og innihaldsminna. Auðvitað verður slíkt blað undir í samkeppni. Hið endurreista DV mun kosta tæpar 2000 krónur á mánuði. Sjáum til hvort það gengur.

Svo er það Norðurljós. Það hlaut að koma að því að lánadrottnar þeirra misstu þolinmæðina. Fyrirtækið gæti endað í gjaldþrotaskiptum fyrir áramót. Það hefur gengið árum saman á allskonar bókhaldsfixi. Keyptu enska boltann líklega án þess að hafa innistæðu fyrir honum. Svo núna þegar allt er að koma í ljós varðandi Norðurljós ákváðu þeir að skella nýrri stöð í loftið, Stöð 3. Ber það glögg merki um óráðsíu í fjármálum þegar þörf var á aðhaldi. Norðurljós er fyrirtæki sem á skilið að fara á hausinn. Þó er ekki loku fyrir það skotið að nýir eigendur taki við Norðurljósum. Ef nýir eigendur taka við og koma rekstrinum á skikkanlegt form er hugsanlegt að dæmið gangi upp.

mánudagur, 10. nóvember 2003

Frí úr vinnunni í viku fyrir fyllerí

Ónefndur maður á ónefndum vinnustað sagði eitt sinn:"Jæja, ég er að hugsa um að taka mér frí í eina viku og vera fullur, ég á inni tvo veikindadaga sko. Það munar ekkert um hina þrjá vikudagana". Síðan var maðurinn fjarverandi í eina viku.

Nú er ég að hugsa um að taka þennan mann mér til fyrirmyndar og fara eftir lífsspeki hans. Eftir MR held ég að ég taki mér bara ársfrí og verði fullur. Ég held ég eigi nefnilega alveg góða 300 uppsafnaða veikindaga eftir árin átján, þannig að þetta verður allt á launum er það ekki? Ég held ég kýli bara á þetta.

Gaman að því þegar fólk talar um að "eiga inni" veikindadaga og "nýta" veikindadagana. Ég hélt að veikindadagar væru fyrir fólk ef það yrði veikt en ekki eitthvað sjálfgefið tveggja daga frí á launum í hverjum mánuði. Nei, nei, ekki á Íslandi. "We always do this in Iceland, sko!" getum við síðan sagt við grandalausa útlendinga ef þetta kemur þeim spánskt fyrir sjónir. "You know, we always use our illness days. We get drunk and have party sko, maybe for a week"

Burt með Houllier!

Hvað á að gefa manninum séns oft?

Svo kemur hann með eitthvað svona. Hann á bara að halda kjafti og taka pokann sinn. Ef hann verður mikið lengur þarna fellur Liverpool. Það er nóg komið af innantómum loforðum og kjaftæði frá þessum manni.

fimmtudagur, 6. nóvember 2003

Sjónvarpslæknirinn Dr Phil

Rosalegur þessi Dr. Phil á SkjáEinum. Ég var að sjá þátt hans í fyrsta skipti í gær. Þetta er einhver læknasálfræðiþáttur þar sem doktorinn fær geðsjúklinga í heimsókn. Þeir eru ekki kallaðir geðsjúklingar í þættinum en eru það þó. Í gær kom akfeit blökkukerling sem þorði ekki út af heimilinu af ótta við dauðann. "AFRAID OF DEATH-PHOBIA". Hún sagði að þegar hún gengi niður götur væri hún heltekin af ótta við að fá píanó í hausinn og deyja. Svo var hvít kerling sem vissi alltaf að þetta væri hennar síðasta þegar hún var úti að keyra. "We´re all gonna die" var tilfinningin sem hún fékk í hvert sinn sem hún keyrði eða var farþegi í bíl eins og hún orðaði það. "DRIVING PHOBIA". Svo var það kerlingin með óstjórnlega flughræðslu. Alltaf þegar hún fór í flug skraufþornaði hún í munninum og hélt að vélin mundi hrapa. Dr. Phil gerði nú bara grín að þessu fólki enda ástæða til. Svo kom hann með einhvers konar sálfræðigreiningu og góð ráð handa því. Þegar þátturinn var búinn fékk ég skyndilega sjónvarpsfóbíu, þornaði allur upp og skrapp saman og tók síðan sjónvarpið og henti því út í næsta ruslagám.

Dauðafóbía, akstursfóbía...hvað er þetta lið annað en geðsjúklingar? Ég var reyndar sjálfur með sprautufóbíu þegar ég var yngri og það leið alltaf næstum því yfir mig eftir bólusetningar og þess háttar. En ég sigraðist á minni fóbíu. Hann Dr. Phil reddaði því. Hann bara smellti fingrum og ég læknaðist. Nei, en ég hef þó aldrei haft akstursfóbíu. Feitu heimsku kanar.

mánudagur, 3. nóvember 2003

Hoppandi nef í Freschetta auglýsingu

Eitt hefur lengi valdið mér hugarangri. Hvað á þetta hoppandi nef í sjónvarpsauglýsingunni um Freschetta pizzur að þýða? Í auglýsingunni les einhver karl inn á og segir eitthvað á þessa leið:"...bragðlaukarnir hoppa af kæti því Freschetta pizzur eru ekki forbakaðar, þær lyfta sér í ofninum...." Um leið og karlinn segir "bragðlaukarnir hoppa af kæti" birtist mynd af risastóru nefi hoppandi úti á túni og allt í kring eru blóm og þess háttar. Ég fæ ekki neitt mikið vatn í munninn við að sjá tröllvaxið hoppandi nef. Hvað á maður að halda? Er hor úr stóru nefi á Freschetta pizzum? Á að taka Freschetta pizzur í nefið? Er nef það sama og bragðlaukar?

Ég veit ekki með aðra en ég tengi að minnsta kosti stór nef ekki við girnilegar pizzur.

sunnudagur, 2. nóvember 2003

Ég er 18 ára í dag og Morgunblaðið 90 ára

Í dag á ég 18 ára afmæli og Morgunblaðið 90 ára afmæli. Ég mun borða eitthvað almennilegt í tilefni dagsins en Morgunblaðið mun ekki borða eitt eða neitt. Kannski fer ég á veitingastað, maður veit aldrei.

Fróðleiksmoli dagsins: Þegar Morgunblaðið verður 100 ára verð ég 28 ára.

laugardagur, 1. nóvember 2003

Góð mynd í Ríkissjónvarpinu

Það gerist nánast aldrei að maður góni á bíómynd sem sýnd er í Ríkissjónvarpinu og það á laugardagskvöldi. Það gerði ég samt núna. Horfði á K-PAX. Það er frábær mynd sem óhætt er að mæla með. Vekur til umhugsunar. Svo er hún mjög vel leikin. Kevin Spacey og Jeff Bridges fara kostum. Söguþráðurinn er mjög vandaður og vel útfærður. Um að gera að kíkja á þetta ef fólk er ekki búið að því nú þegar.

Ég breytti aðeins bakgrunninum þannig að minna þarf að skrolla en áður (tók út dálkinn hægra megin).

Nokkrir góðir mánuðir án klippingar

Það eru núna komnir rúmir þrír mánuðir síðan ég fór síðast í klippingu en þá lét ég einmitt snoða mig. Ansi góður árangur. En ég keppi ekki við Pjakkinn í löngum tíma milli klippinga. Hann fór ekkert í klippingu í heilt ár og vel það. Pabbi nefndi við mig um daginn að ég þyrfti nú að fara að drífa mig í klippingu, þetta væri ekki hægt og samt kemst ég ekki með tærnar þar sem Pjakkurinn hefur hælana í faxi.

Snoðun? Hanakambur? Hárkolla? Afró? Sítt að aftan? Beckham klipping (aldrei)?
Spurning hvað maður á að taka.

Ég skellti mér á Ísland-Pólland í handbolta í gær í Kaplakrika en Björn Friðrik frændi var með boðsmiða sem hann lét mér í té. Leikurinn byrjaði rólega og leiðinlega en hresstist svo. Íslendingar unnu. Skemmtilegast var þegar Pólverjarnir ætluðu að taka Óla Stefáns úr umferð og létu mesta tittinn í liðinu sínu fara út á móti honum.

Helgi Hós í bíó verður að bíða betri tíma.