fimmtudagur, 16. desember 2004

Geðveiki

Nú hefur geðveikum manni verið veitt dvalarleyfi á Íslandi. Bandaríkjamenn hafa farið virkilega illa með þennan mann og refsað honum fyrir að tefla í landi sem átti ekki upp á pallborðið.

Það er ótrúlega mikið af geðveikum hérna í samfélaginu. Oft hef ég velt fyrir mér hvort ég er ekki sjálfur blússandi geðveikur. En ekki þori ég að láta athuga það vegna þess að ég fór til augnlæknis í fyrsta sinn 17 ára gamall og þurfti gleraugu. Ef ég færi til læknis --> greindur geðveikur. Svo er orðið allt of mikið af fáránlegum sjúkdómsgreinigum. Krakkar eru ekki óþægir, heldur þjást af D4- hegðunarröskun; "ekki skamma hann, hann er með sjúkdóm". Þetta er orðið virkilega sjúkt. Ég þekki talsverðan fjölda fólks sem rambar á barmi geðveiki eða er snargeðveikt en hefur þó ekki verið greint geðveikt. Það skiptir líka engu máli þótt svona geðsjúklingar gangi lausir ef þeir eru ekki hættulegir öðrum. Þeir sem eru hættulegir öðrum þurfa augljóslega hælisvistun.

Það er bæði til fólk sem er geðveikt á jákvæðan hátt og síðan geðveikir á neikvæðan hátt. Geðveikir á neikvæðan hátt eru í daglegu tali kallaðir hálfvitar.

Annars er það kannski of sterkt til orða tekið að tala um "geðveikt" fólk. Reyndar er það þannig að þeir sem eru of venjulegir eru bara ekkert skemmtilegir.

mánudagur, 13. desember 2004

Lífsins melodí eftir Árna Johnsen

Ótrúlega fágaður titill á bók eftir glæpamann. Reyndar einn fágaðasti bókartitill sem ég hef nokkru sinni heyrt.

laugardagur, 11. desember 2004

Er rúmur helmingur Íslendinga haldinn alvarlegri sjálfspyntingarhvöt?

Gísli Marteinn mældist víst með áhorf rúmlega 53,9% Íslendinga skv. nýjustu Gallup-könnun.

Systir konunnar hefur bætt á sig

"Endilega fáið ykkur meira, það er nóg til"
"Nei, veistu, ég er bara alveg búinn að éta á mig gat"
"Þið verðið að fá ykkur meira, eftirrétturinn er ennþá eftir!"
"Þið verðið að borða meira, annars þarf maðurinn minn að borða kræsingar í heilan mánuð!"

Hohohohoh

föstudagur, 10. desember 2004

Sykursýki

Þegar ég var lítill sagði mamma mér einhverju sinni að sykursjúk kona væri að koma í heimsókn. Ég dró rökrétta ályktun --> konan var sjúk í sykur, glennti upp blóðsprungin augun þegar hún svo mikið sem fann lykt af sykri og varð að fá góssið.

Eða það hélt ég. Þannig að ég fór og faldi allt sælgæti og sykur á heimilinu á öruggum stað því ekki vildi ég að gammurinn kæmist í það.

Dagný Jóns verði svipt þingsæti

Réði ég einhverju í þessu landi svipti ég Dagnýju Jónsdóttur, þingmann Framsóknarflokks, umsvifalaust þingsæti sínu út af framgöngu hennar í skráningagjaldamálinu.

Barðist víst sjálf gegn slíkum gjöldum í stúdentapólitíkinni.

Nú þegar hún er komin á þing getur hún ekki drullast við að greiða atkvæði gegn þessu heldur ætlar hún að sitja hjá til að þóknast liðinu.

Kristinn H. var sviptur svo til öllum völdum fyrir að standa á sínu. Dagný þorir greinilega ekki að feta í þau spor.

Svei attan - Þvílíkur aumingjaskapur.

Dollari

Fór í bankann í dag og fjárfesti í dollara fyrir 70.000 kr. Ætti að græða á tá og fingri von bráðar. Bíðið spennt eftir uppgjöri 1. ársfjórðungs.

Jammjammjamm. Viðskiptafærsla að hætti Hagnaðarins

fimmtudagur, 9. desember 2004

Enginn sagði að það væri auðvelt

Það eru ýmsir gallar við fjölbýlishús. Því hef ég komist að á mánuðunum síðan ég flutti. Nágranninn gengur ekki heill til skógar. Á hverju einasta sunnudagskvöldi, eftir miðnætti hlustar hann á músík og gjarnan þá í botni. Flestir byrja nýja vinnuviku á mánudagsmorgnum en það á greinilega ekki við um þennan svarta sauð. Síðustu 4-5 sunnudagskvöld hefur þetta glumið upp og ég hef ekki haft svefnfrið. Maðurinn hefur verið varaður við en það er eins og minnið hjá honum sé gloppótt líka því hann man það ekki til næsta sunnudagskvölds. Gjarnan spilar hann sama lagið tíu sinnum í röð og ég hef tekið eftir að lag með Coldplay sem inniheldur "Nobody said it was easy" er mjög vinsælt hjá honum og galar hann gjarnan með þessari laglínu.

Spurning hvort ég á að fara út í nágrannnastríð og maka tjöru á gluggana hjá honum.

Ef ég væri eins og þessi maður mundi ég leita mér hjálpar.

Christmas motorcycle

Fór í enskuprófið í dag. Lokahlutinn var að venju ritgerð og efnin sem í boði voru "fersk" eins og vanalega. Þau voru:
1.How sports have brought peace to the world
2. Memorable Christmas
3. How clothes make the man.
Brakandi "ferskt" eins og subway. Úff, fyrst ákvað ég að skrifa um það fyrsta. Það reyndist ómögulegt svo ég ákvað að gera væmna jólaminningu. Það var auðvelt og var hún algerlega upplogin. Hún fjallaði um jólin þegar ég var fimm ára og jólasveinninn kom snemma í bæinn með mandarínur handa börnunum og bla bla e-ð væmið og leiðinlegt. Svo endaði sagan á því að ég sá risastóra pakkann minn undir jólatrénu sem var pakkaður í silfur og ég opnaði pakkann. Viti menn, það var jólahjól eða "Christmas motorcycle" eins og ég kallaði það á enskunni. Allt það sem fimm ára drengur gat óskað sér.

Hlýtur svona saga ekki að falla í kramið hjá enskukennara sem nálgast sextugt? Það verður fróðlegt að sjá.

Lög unga fólsins

Fólk spyr sig, hvaða lög falla í kramið hjá dj gummo þessa dagana. Helst ber að nefna:
Mugison- Mur Mur
The Bravery- Honest Mistake
Maus - Over Me Under Me
Johnny Cash- The Long Black Veil
Johnny Cash- What Do I Care?
Johnny Cash- Daddy Sang Bass
Johnny Cash- Man In Black
Jón Ólafsson- Sunnudagsmorgunn
Ske- T-Rex
Ske- Cowboy
Ske- Stuff
Megas- Jólanáttburður
Franz Ferdinand- 40'
Súkkat- Jóhann

Þetta helst.

miðvikudagur, 8. desember 2004

Myndir sem vert er að framleiða

Hef hug á því að hætta í skólanum og hefja gerð hryllingsmynda. Ég hef séð Freddy vs. Jason þannig að ég ætti nú að kunna sitthvað í slíku. Nú hef ég lesið mikla líffræði fyrir líffræðiprófið sem ég tók í dag. M.a. las ég um veirur, en það eru víst ekki eiginlegar lífverur heldur bara e-r óbjóður. Þær setjast utan á frumur, "bíta" þær og sundra prótínvegg frumnanna. Þær sprauta síðan eigin DNA inn í frumurnar og sýkja þær. Eftir það geta þær fjölgað sér. Og maður spyr sig, þarf ekki að gera hryllingsmynd um veiru sem lítur svona út og festir sig utan á fólk og sýkir það til dauða. Hleypur um bandaríska stórborg og sýkir alla á vegi sínum. Hvílíkur söguþráður. Kannski hef ég séð þetta í einhverju, kannski er þetta alls ekki nýtt. Jæja.

Svo er það hin myndin. Ég las líka um sýklahernað, ýmsar veirur og bakteríur sem menn hafa notað í hernað. Talað var um bólusóttarveiruna og að hún væri útdauð en ef einhver kæmi fram með hana núna gæti sá hinn sami stráfellt allt mannkyn á skömmum tíma. Þar er handritið komið: Hinn illkvitni dr. Sívertsen á bólusóttarveiru á tilraunastofunni, engan hafði grunað það! Fylgjumst með tryllingslegum áætlunum hans um að drepa gjörvallt mannkyn með bólusótt. Getur Hetjan (leikin af Rob Schneider) bjargað mannkyninu frá glötun. Sjáðu þessa og hárin rísa!

Matarhornið

Margir vita kannski að ég ætlaði alltaf að verða kokkur. Síðan er ég á náttúrufræðibraut í MR að læra líffræði og alls konar djöfulsins leiðindi. Veit ekki alveg hvað ég er að gera í því. En allavega er stærðfræðin í MR miklu skemmtilegri en sú í grunnskóla. En hvejum er ekki...

Já, bíðum við, þetta er matarhornið en ekki eitthvurt námsraus:

Kleinur teknar úr frysti sem farnar eru að þiðna aðeins eru frábærar með rækjusmurosti. Og þetta er ekki rugl, prófið áður en þið dæmið.

mánudagur, 29. nóvember 2004

Gagnrýni:Bridget Jones 2

Nei, ég fór ekki á Bridget Jones 2 um helgina. Það var yfirdrifið nóg að sjá trailerinn um daginn. Trailerinn fær 0,0.

sunnudagur, 28. nóvember 2004

Besti leikur Liverpool í mjög langan tíma

Ég hef sjaldan verið ánægðari með spilamennsku Liverpool en í dag. Þeir unnu smjörkúkana í Arsenal verðskuldað 2-1. Á síðustu mínútu leiksins var staðan enn 1-1, ég staðinn upp úr stólnum af spenningi, síðan kom Mellor litli og bombaði helvítinu neðst í netið fram hjá Lehmann. Menn ærðust úr fagnaðarlátum.

Staða liðsins í deildinni er samt ekkert beisin, en gott að bregða fæti fyrir Arsenal í meistarabaráttunni.

laugardagur, 27. nóvember 2004

Setti inn tengil á þá þingeyinga, Svenna og Kára. Þeir eru ferskir. Mun breyta og bæta enn frekar einn daginn.

Simpsons samanborið við Friends

Ég þurfti að horfa á einhvern helvítis þrefaldan Friends lokaþátt í enskutíma í gær. Þetta eru svo lélegir þættir að mig sundlar. Það fer í mig að þetta sé jafn vinsælt og raun ber vitni. Flestum öðrum í bekknum fannst þetta æðisgengið en ég kaus að detta út í tíma og ótíma á meðan horbjóðurinn var í gangi. Í þau skipti sem ég datt inn var eitthvað hundleiðinlegt að gerast. "Ooo, Phoebe er svo fyndin!" Þessi fokkin Lisa Kudrow (phoebe) er ömurleg leikkona og fæ ég alveg upp í kok af persónunni í þættinum. Þessi aulalegi Ross er ekki mikið skárri, jafnvel verri, ofsalega heimskur og ofsalega leiðinlegur með lélegan húmor. Húmorinn í þessari sápuóperu er ömurlegur almennt og út yfir allan þjófabálk. Það er fyrir löngu kominn tími á að senda Friends í bað og helst að láta þá hafa brauðrist með sér.

Simpsons á það sameiginlegt með Friends að vera afar vinsæll um gjörvallan heim. Það er skiljanlegt, þetta eru mjög góðir þættir og húmorinn oft geggjaður. Margar persónurnar í þættinum samsvara persónum sem maður kannast við úr raunveruleikanum eða eiga margt sameiginlegt með þeim. Skemmtilega teiknaðir líka. Þetta hef ég horft á frá því ég var 5-6 ára og alltaf eru þeir jafngóðir. Man að ég tók mjög snemma eftir að síðhærði dökkhærði skólarútubílstjórinn minnti mig töluvert á einn frænda minn.

Fór á fimmtudagsfokk Hins hússins á fimmtudagskvöld.

Orð sem koma upp í hugann:
Vafasamt.
Fúskarar.
Skítamix.
Óhljóð.

Síðhærðir menn garga í míkrafón. Síðhærðir menn berja gítara. Síðhærðir ofvirkir menn berja trommur.

Ekki aftur.

miðvikudagur, 24. nóvember 2004

Klúður í pontu

Gaman að rifja upp atburð úr minni fyrstu ræðukeppni, sem var í fyrra:
Andstæðingarnir höfðu sagt samhengislaust bull í sínum ræðum, gjörsamlega ótengt umræðuefninu. Ég hafði mína punkta á blaði sem ég ætlaði að tala út frá (sem mistókst herfilega og ég las bara punktana og síðan voru þagnir á milli). Andstæðingarnir töluðu um hamstrafjölskyldu í Breiðholti og gíraffa og e-ð en umræðuefnið var mömmur. Ég hugsaði upp svar við bulli andstæðinganna en þegar komið var upp í pontu mundi ég ekert hvað það var. Útkoman var:

"Þeir hafa ruglað tóma steypu í dag, hamstrafjölskylda og gíraffar o.fl. vafasamt og.............ég hef bara ekkert svar við þessu"

Þetta orsakaði að salurinn sprakk úr hlátri. Uss.

Rakarinn

Ég fór til rakara í dag. Hef ekki farið í háa herrans tíð í klippingu. Lét snoða mig í júní og ekkert hefur verið skert síðan. Þetta var gamall rakari af gamla skólanum. Hann spurði um ýmislegt, m.a. hvað ég ætlaði að gera eftir menntaskólann. Það vissi ég ekkert um. Þá spurði hann hvort ég ætlaði ekki í læknisfræði eftir MR. Ég sagði að það kæmi ekki til greina því ég væri með fóbíu fyrir ýmsu tengdu spítölum. Þá hló karl hrossahlátri og sagði "Já, þig langar ekkert að sulla í blóði" "Nei, ekki sérstaklega".

Svo tjáði hann sig um rökræðukeppni framhaldsskólanna "Æi, ég sá e-n tímann svona keppni og fannst þetta ægilega heimskulegt. Einhverjar litlar stelpur skiptast á að fara í pontu og öskra á hver aðra "þú ert asni!". Ég svaraði að það væru nú kannski ekki allir ræðumenn á menntaskólaaldri þannig. Hló karl og sagði að það tækist samt mest eftir þeim. Það var mikið til í þessu hjá honum.

Svo fór hann allt í einu að tala um stoðtækjafyrirtækið Össur og sagði "magnað fyrirbæri, mannslíkaminn...sástu ekki þarna um nýja gervihnéð frá Össuri í fréttunum" "Nei" Svo lék hann fyrir mig hvernig gervihnéð virkaði og sagði að það hefði bara 30% þess sem venjulegt hné hefði.

Að lokum sagði hann mér ömurlegan ljóskubrandara sem ég hef heyrt áður, en öðlaðist hann nýtt líf í meðförum rakarans sem auðvitað rak upp hláturroku eftir að hafa sagt hann. Ég gat ekki annað en hlegið líka.

Gefið að ég fer aftur á þessa gamaldags rakarastofu í Vesturbænum.

Einkunn: 9,5.

þriðjudagur, 23. nóvember 2004

Ómetanlegt

Vorum sendir út í slabbið í fótbolta í leikfimi. Runnum á rassgatið. Kvennóstelpurnar vildu ekki vera með þrátt fyrir boð þar að lútandi. Bíði þær þar til við bjóðum þeim næst.

mánudagur, 22. nóvember 2004

Tap síðasta ársfjórðungs

Lestur síðunnar hefur minnkað í réttu hlutfalli við minni tíðni færslna. Einu sinni voru 30 manns að meðaltali á dag. Nú er það orðið mun minna. Ég hef ekki verið með netið heima í marga mánuði og er það aðalorsök hnignunar.

Eftirmáli uppþots á Landsspítala

Nú er ég búinn að í ómskoðun. Var ekki ólettur. Rukkaður 8000 krónur. Nokkrum dögum seinna fór ég í læknisviðtal. Læknirinn vissi ekkert en rukkaði engu að síður 3500 krónur. Ég sagði honum eins og ég hafði þurft að segja öllum hinum, hvað hefði gerst í spítalaheimsókninni örlagaríku til afa. Ekkert að mér.

Niðurstaða: Útskrifaður alheilbrigður en tæpum 20.000 krónum fátækari.

fimmtudagur, 18. nóvember 2004

Keppti í Sólbjarti í gær. Var búinn að skrifa sæmilega færslu hérna en hún eyðilagðist út af Blogger. Góð keppni. Var í liði með Frikka Hirst, sterkasta manni heims (Hauki) og Gummi P var liðsstjóri. Frikki ræðumaður skammdegisins verðskuldað. Átti bestu svörin í keppninni. Ég skeit ekki illilega á mig eins og í fyrra. Klúðraði samt aðeins flutningnum á fyrri ræðunni út af stressi sem gerði vart við sig þegar helvíts ræðupúltið datt í sundur. Ótrúlega mörg stig gefin í keppninni. Björn Leó og Jón Eðvald í liði andstæðinganna voru með lélegan húmor í sínum ræðum en fluttu þær vel. Pajdak tók "d-d-d-d-d-dDJ Amma" sem fáir föttuðu en ég, Henrik, Birkisson Bisniss og Grettir hlógum allavega að því. Einkahúmor.

Dólgarnir í hinu liðinu unnu því miður. Hefði gjarnan viljað keppa aðra keppni. Dólgarnir reyndari í að flytja en ræðurnar þeirra voru ekki betri á heildina þó það hafi kannski ekki munað miklu.

Samtal - áhugamál

Eftirfarandi samtal átti sér stað milli tveggja manna.
Maður1: "Hver eru áhugamál þín?"
Maður2: "Klám."
Maður1: "Eitthvað fleira?"
Maður2: "Nei."

Skemmtilegur, þessi Maður2. Fólk vill strax vita meira.

DJ Nöldró

Djöfulsins stólar hérna í tölvustofunni. Hver stillir stólbakið þannig að það halli 170°. Djöfulsins helvíti ,ég fékk 6,6 fyrir íslenskuritgerð hjá Ásgerði. Mér er gjörsamlega misboðið. Aldrei lægra. Á ég að þurfa að senda þessa ritgerð með atvinnuumsókn í framtíðinni? Djöfulsins andskotans helvíti. Djöfulsins tannlæknirinn rukkaði mig 5500 krónur. Bíddu, rán um hábjartan dag?

DJ Nöldró, alltaf í stuði.

Það verður ekki mikið meira um þann mann á þessari síðu.

sunnudagur, 14. nóvember 2004

Big Lebowski er ekki slæm mynd.

Bakþankaritarar Fréttablaðsins eru margir ótrúlega lélegir. Þráinn Bertelsson er í uppáhaldi hjá mörgum. Það finnst mér óskiljanlegt. Maður sem skrifar endalaust um "Bússa" og "Dóra" og sandkassa þeirra og allt í þeim dúr. Fíla ekki Þráinn.

Guðmundur Steingrímsson er aftur á móti frábær bakþankaritari. Góður pistill um nef um daginn og oft sér hann skemmtilegar hliðar á málum.

Guðbergur Bergsson er oft góður.

Jón Gnarr er brokkgengur. Stundum góður en á til að detta í eitthvað rugl.

Sigurjón M. Egilsson er held ég hættur enda var hann með lélegustu pistlana.

Kristín Helga er ekki i uppáhaldi.

laugardagur, 13. nóvember 2004

Blökkusonur í strápilsi

Í Bandaríkjunum voru hvít hjón sem eignuðust svartan son. Maðurinn varð brjálður við konuna og taldi að hún hefði haldið fram hjá sér með svertingja. Svo kom í ljós að maðurinn átti langt aftur í ættum svarta formóður og þaðan hafði sonurinn fengið svart yfirbragðið.

Oft hef ég hugleitt að eignast svartan son. Þá er um tvennt að ræða: hugsanlega get ég krækt í svarta konu og eignast slíkan dreng með henni. Hinn möguleikinn er að ættleiða. Mér þætti mjög fyndið að eiga svartan son, Afríkuson. Ef ég eignast einhvern tímann slíkan mun ég láta kenna honum að dansa í strápilsi og berja drumbur og syngja Afríska ættbálkasöngva. Svo mæti ég með hann í fjölskylduboð. Þar stekkur hann skyndilega upp á borð og fer að berja drumbur og syngja og dansa í strápilsinu við ómældan fögnuð viðstaddra. Þetta mundi hressa rosalega upp á fjölskylduboðin. Þá yrði ég stoltur faðir. Að öðru leiti yrði drengurinn eins og hefðbundinn íslendingur, ynni sitt hefðbundna starf og sinnti hefðbundnu lífi sínu en af og til gæti hann gripið í drumburnar og strápilsið, kannski á sunnudögum og svona.

Kínverjar

Kínverjar eru fyndnir. Á föstudagskvöldið var bjór drukkinn á heimili nafna Líndals áður en farið var á Gauk á stöng. Horft var á B-mynd á SkjáEinum sem heitir Dragon: story of Bruce Lee og sonur Bruce leikur aðalhlutverkið. Söguþráðurinn var lítill sem enginn en skemmtanagildið þeim mun meira. Aðalhetjan var svakabardagahetja og lumbraði á hinum og þessum með kung-fu.

Maus í Austurbæ, Kopps og Mors Elling

Fór á bestu tónleika sem ég hef farið á um daginn, útgáfutónleika Maus í Austurbæ. Tóku sín vinsælustu lög og meira til. Upphitunaratriðið var reyndar hörmung. Trúbadorinn Þórir steig á stokk. Hann var stressaður og söng ótrúlega illa og leiðinlega, en gat svosum glamrað á gítarinn. Eftir tvö eða þrjú lög sagði hann hve mikill heiður þetta væri fyrir hann, að hita upp fyrir Maus, eitt af stærstu og bestu böndum landsins því hann væri "bara einhver aumingi út í bæ". Hann hefði ekki getað náð betur því sem áhorfendur hugsuðu og uppskar hlátur. Maus voru frábærir og hljóðkerfið gott. Nýju lögin lofa góðu og órafmagnaði kaflinn var mjög góður. Innslög Bigga milli laga lögðust vel í lýðinn.

Einkunn: 9,87.

Kopps er sænsk gamanmynd sem hefur fengið góða dóma og er sýnd á norrænum kvikmyndadögum í Háskólabíói, sem lýkur á mánudagskvöld. Fjallar um löggur í sænsku Fáskrúðsfirði sem taka til sinna ráða þegar á að loka stöðinni þeirra út af 0% glæpatíðni á svæðinu. Frá Fares Fares sem gerði Jalla! Jalla! Mjög góð.

Einkunn: 9,0.

Mors Elling er sjálfstætt framhald Elling og fjallar um för hins léttþroskahefta Ellings með móður sinni til Spánar. Stórkemmtileg.

Einkunn: 8,91.

Nákvæmt.

Biðtónlist og leiðindi á Aktu taktu

Fyrir skömmu fór ég á Aktu taktu en ók þó ekki og tók heldur át inni á staðnum, sem er vafasamt. Afgreiðslukerlingin rukkaði 800 krónur fyrir illa þefjandi, sóðalega og vonda smloku með osti og kokteilsósu ásamt smá frönskum og smá pepsi. Hvað á þessi biðtónlist á staðnum að þýða? Þetta þurfti ég að þola á meðan ég reyndi að svæla hroðbjóðnum.

Ég held að Aktu taktu séu með þroskaheftan mann í vinnu sem spilar á trekant, eða kannski "My first"- hljómborð frá Sony. Nei, þetta var ljótt.

Biðtónlistin er ekki vinsæl.

sunnudagur, 7. nóvember 2004

Uppþot á Landsspítala

Síðastliðið miðvikudagskvöld fór ég að heimsækja afa minn, sem nú liggur á Landsspítalanum í Fossvogi. Afi var þó nokkuð brattur og spjallaði við okkur heimsækjendur. Inni á stofunni var ansi heitt og þungt loft. Ég hef aldrei verið þekktur fyrir að hafa dálæti á spítölum, sprautum og fleira í þeim dúr.

Skyndilega leið mér illa, ég svitnaði og varð náfölur í framan og sortnaði fyrir augum. Amma (sem einnig var í heimsókn) tók eftir ástandi mínu og spurði:"Er ekki allt í lagi Guðmundur minn?" "Nei" svaraði ég. Ég dreif mig út af stofunni en komst ekki nema tvö eða þrjú skref og síðan BAMM! Það leið yfir mig og ég skall utan í afgreiðsluborð á ganginum. Rankaði hins vegar strax við mér liggjandi í gólfinu við hliðina á afgreiðsluborðinu. Hjúkrunarfólk var snöggt á vettvang. Fyrr en varði voru 10 heilbrigðisstarfsmenn komnir í kring um mig. Ég var spurður fram og aftur um líðan og hvað hefði gerst og hitt og þetta. Svo komu reynslusögur á færibandi: "Ég á tvær dætur sem eru svona" "Ég hef einu sinni lent í þessu" og fleira. Held að það hafi átt að hughreysta mig. Læknir hringdi á bráðamóttökuna og lét vita af ungum manni sem skollið hefði í gólfið eftir heimsókn til afa síns. Svo fékk ég eplasafa til hressingar. Eftir skamma stund kom maður með sjúkrarúm á hjólum og ég var studdur í það (þrátt fyrir að ég gæti labbað sjálfur). Síðan rúllaði maðurinn (sem var mjög vafasamur og angandi af reykingalykt) mér hratt um ganga sjúkrahússins og ég sá alls konar andlit fólks í hvítum sloppum stara á mig á meðan ég þaut um gangana. Minnti mig ótrúlega mikið á Bráðavaktina. Hjúkrunarkona opnaði eina stofuna, kveikti ljósið og sagði: "úbbs! Hér er sjúklingur" og lokaði aftur. Sá sjúklingur hefur sennilega gleymst.

Svo fannst tóm stofa og þangað var mér rúllað. Alls konar snúrur og nemar voru tengd við mig og blóðþrýsingsmæling gerð. Blóðþrýstingur var í lagi. Ungur læknir kom inn og bað mig að lýsa hvað hefði gerst. Allt benti til að vako vasal viðbragð væri orsök yfirliðsins. En það er fræðiheiti yfir svona sprautuspítalafóbíu (og ekkert hægt að gera við því nema passa að setjast ef áhrifa fer að gæta). Læknirinn gerði taugapróf á mér til öryggis: veifaði penna sem ég átti að horfa á, lét mig gretta mig og reka út tunguna og alls kyns vitleysu. Allt var eðlilegt. Annar læknir kom inn. Ákveðið var að taka líka hjartalínurit til öryggis. Niðurstöður voru eðlilegar. Blóðþrýstingurinn var mældur oft til öryggis. Hann var í lagi. Heimsóknin sem átti að standa í hálftíma endaði sem rúmra tveggja klukkustunda rannsókn. Ekki nóg með það. Ég var boðaður í ómskoðun í næstu viku til öryggis en ómskoðun er það sem óléttar konur eru sendar í.

Mér leið hálfpartinn eins og alheilbrigðum manni að gera úttekt á heilbrigðiskerfinu. Sérstaklega út af því hve mikið var gert til öryggis. Heilbrigðisfulltrúinn frá eftirlitinu að gera hina árlegu úttekt.

Gefið: 8,0 fær þessi langa spítalaheimsókn. Mest fyrir óvænta atburðarás og endi.

Esso

Dældi á bílinn áðan á Esso. Nú hefur mikið verið fjallað um verðsamráð olíufélaganna. Allir eru rosalega hneykslaðir og fussa. 95 oktan var held ég á 106 og e-ð lítrinn. Öll þessi læti út af forstjórunum sem töluðu sig saman. En er andskotans verðsamráðið ekki ennþá í gangi? Engum hefur dottið það í hug. Allir halda að þetta sé búið spil eftir lætin undanfarið. Verðsamráðið er pottþétt ennþá í gangi og mun festa sig í sessi sem órjúfanlegur þáttur bensínmarkaðarins.

þriðjudagur, 2. nóvember 2004

Smíðakennarinn trallandi

Um daginn kenndi forfallakennari mér efnafræði. Hann var afar ferskur og lá í bröndurunum. Þegar hann las upp hóf hann skyndilega upp raust sína eftir að haf lesið nafn einnar bekkjarsystur minnar og söng hástöfum um hana. Hress tappi.

Forfallakennarinn minnti mig á smíðakennara sem ég hafði í grunnskólanum í sveitinni. Sá söng í hverjum einasta tíma um nemendur. Alltaf þegar ég rétti upp hönd og ætlaði að fá hjálp við smíðisgrip minn hóf karlinn að syngja. Hann söng "Hann heitir Guðmundur og segir doijoijoijoij, hann er úr járni og segir doijoijoijoijoij" Þeir sem þekkja þetta lag vita að maðurinn í laginu heitir Árni en ekki Guðmundur. En smíðakennaranum trallandi var skítsama um það. Ein bekkjarsystir mín hét Margrét. Þegar hún bað um aðstoð söng maðurinn "Magga, í bragga læðist út um glugga..." og ef hún endurtók aðstoðarbeiðni sína söng smíðkennarinn bara sem aldrei fyrr "..í vetur betur gekk henni...".

Það var nokkuð erfitt að eiga við kennarann á köflum en samt sem áður skemmtilegur maður.

Dr Pepper og rauðar tannlæknatöflur

Margir kannast við rauðu tannlæknatöflurnar. Gömlu góðu dagarnir í grunnskóla þegar "tannverndarfulltrúinn" mætti og fræddi nemendur um tannhirðu. Svo fengum við blöð og við blöðin var heftuð rauð tafla sem tyggja mátti til að fylgjast með tannhirðu sinni. Nema hvað, töflur þessar voru frábærar á bragðið. Ég lá eins og gammur í þessum töflum á þessu aldri. Hnuplaði jafnvel töflum annarra í bekknum. Fleiri voru hrifnir af töflunum. Töflurnar voru mjög eftirsóttar á sínum tíma, a.m.k. í sveitinni, þar sem ég bjó.

Um daginn bragðaði ég á gosdrykknum Dr Pepper í fyrsta skipti. Aldrei hafði ég þorað að bragða á þessum drykk því ég hélt alltaf að þetta væri gos með piparbragði, sem hljómar mjög illa. Svo var mér boðinn slíkur drykkur um daginn sem ég þáði með þökkum. Viti menn, bragðaðist ekki líkt pipar heldur einmitt líkt bragðinu af gömlu góðu rauðu tannlæknatöflunum. Djöfulsins sveifla eins og menn segja.

Súmóglíma

Nú er nýbúið að fá gervihnattardiskinn á nýja heimilinu til að virka. Datt ég líka ekki inn á dúndurgóða súmóglímu á þýska Eurosport. A.m.k 20 belgir voru að keppa. Vinsælt var að veðja á annan keppenda í hverri glímu "veðja á rauðbróka" eða "veðja á blábróka" eftir litum brókanna. Þrír þeirra voru ekki með nein brjóst, eða á súmómælikvarða "aumingjar". Þeim var svoleiðis dúndrað út í áhorfendastúkur þegar þeir kepptu við drumbana.

Það var líka frábært að sjá að þetta voru ekki allt heilalausir hlunkar. Nokkrir voru með frábæra tækni og smeygðu sér undan þegar andstæðingurinn ætlaði að þruma þeim niður eða út úr hring.

Auðvitað voru öll fíflin með eins hárgreiðslu og maður spyr sig: er skylda að vera um hausinn eins og kínversk kerling? Af hverju er enginn súmókappi snoðaður. Laga þetta.

mánudagur, 1. nóvember 2004

Mesti dólgur ensku úrvalsdeildarinnar er tvímælalaust Robbie Savage, Birmingham. Síðhærður slubbi sem skeit einu sinni á dómaraklósetti fyrir leik og skildi eftir sig suddalykt. Svo hefur hann víst látið hafa eftir sér að henn dýrki að pirra andstæðinga sína.

Hljómar eins og lýsing á hálfvita.

fimmtudagur, 28. október 2004

Gagnrýni: Dodgeball

Dodgeball er hörmuleg bandarísk klisjumynd. Týpísk atriði tröllríða myndinni, t.d. hundur sem sleikir mann sem dreymir sóðalega drauma á meðan og einhver gaur sem á að vera svo ofsalega heimskur að hann man ekki eftir manni sem hann er búinn að umgangast lengi.

Það segir samt einna mest um myndina að Stjáni stuð gaf henni fimm stjörnur.

Einkunn: ein skitin stjarna af fimm.

föstudagur, 22. október 2004

Gísli Marteinn spilið!

Þetta hefur fólk heyrt:
Friends spilið er komið á markað!
Hvaða VINUR var bitinn af páfagauki? Litið er inn í hús VINANNA. Hvað borða VINIR? Frábærar spurningar og frábært spil!

En nú NÝTT!
GÍSLI MARTEINN spilið (byggt á sívinsælum þáttum Gísla Marteins)!
Hvernig er húsið hans GÍSLA MARTEINS? Hvaða GÍSLI MARTEINN var bitinn af páfagauki? Hvað segir mamma GÍSLA MARTEINS um son sinn? Hvað borðar GÍSLI MARTEINN? Hvernig bindi var GÍSLI MARTEINN með þegar hann spjallaði við Sollu á Grænum kosti?
Frábærar spurningar byggðar á einum vinsælasta sjónvarpsþætti Íslands og umsjónarmanninum sem allir elska!

Portner

Í dag sá ég Hannes labba alveg eins og hann labbaði í "Hannes Portner og viskusteinninn" bestu MR- mynd sem hefur verið gerð. Var þetta hluti af spaugi portners og þótt mér ansi hressandi að sjá slíkt labb framkvæmt af portneri sjálfum en ekki teiknimyndareftirmynd hans.

Spaugilegt

Mér þætti afar spaugilegt ef allar stelpurnar í skólanum mættu snoðaðar einn morguninn. Veit ekki hvort ég er einn um það.

sunnudagur, 10. október 2004

Talsettar sjampóauglýsingar

Talsettar sjampóauglýsingar er eitt áhugaverðasta sjónvarpsefni sem um getur. Oftast eru tvær konur sýndar spjalla saman. Umræðuefnið er að sjálfsögðu sjampó. Virðast alltaf óendanlega glærar, sérstaklega í talsettum útgáfum þar sem varirnar hreyfast ekki í réttu samhengi við orðin. "Varstu að lita hárið?" "Nei, ég litaði fyrir fjórum vikum" "ó, þá hlýtur það að vera kjóllinn". "Flott hár, glansandi og engir klofnir endar?" "Nei með nýja loreal er ég laus við klofna enda"

Sjampó er umræðuefni sem ætti að taka upp á öllum betri vinnustöðum og elliheimilum. Hvet fólk til að fylgjast með klofnum endum og nefna það ef það tekur eftir slíku við viðkomandi.

Eru svona sjampókonur til í alvöru? Maður spyr sig. Er þetta umræðuefni til annars staðar en í auglýsingum? Hvert er heimurinn þá að fara?

Af gefnu tilefni bið ég fólk að gera athugasemdir undir nafni. Það er voðalega auðvelt að skýla sér í nafnleysinu og vaða uppi með þvælu eins og eitthvað lið kaus að gera þegar ég skrifaði um verkfallið um daginn. Frekar lélegt að leiðrétta það sem rétt er og allt auðvitað nafnlaust.

Fólk kaus þetta verkfall yfir sig með því að kjósa enn eina ferðina Davíð og félaga. Ríkið á að fara að koma með peningana til að leysa deiluna. Þetta er fáránlegt, svona langt verkfall í dag á Íslandi, "velmegunarríkinu". Tóm er fyrir skattalækkanir blablabla. Ekki man ég hvað var síðasta góða verk þessarar stjórnar, kannski að ráða Jón Steinar eða henda Kristni úr þingnefndum. Vafasamt.

Ekki er ólíklegt að George Bush verði aftur kosinn Bandaríkjaforseti. Oft heyrist að bera skuli virðingu fyrir öllum skoðunum. Hvernig er hægt að bera virðingu fyrir þeim sem hyggjast kjósa Bush. Hann hefur sýnt svo ekki verður um villst að hann er grasasni. Er meirihluti Bandaríkjamanna virkilega svo heimskur að hann kjósi manninn í annað sinn? Vona ekki.

laugardagur, 9. október 2004

Radiohead er ótrúlega vinsæl hljómsveit. Platan Hail To the Thief þykir ægilega frábær og fersk og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hrífst ekki sérstaklega af þeirri plötu sem margir segja að sé þeirra besta. Oft og mörgum sinnum hef ég sett þessa plötu í tækið og reynt að heyra hvað það er sem hrífur fólk svona ofboðslega við þessa hljómsveit. Ég hef ekki heyrt það ennþá. Á plötunni eru reyndar þrjú eða fjögur ágæt lög. Meginþorrinn af þessu finnst mér hins vegar bara vera gaul og væl. Ég viðurkenni fúslega að nokkuð er varið í sum eldri lög sveitarinnar.

Thom Yorke er söngvari sveitarinnar, letilegur vælukjói sem hefur meikað það. Fyrir hvað? Fyrir að gaula um eigin eymd? Sjálfsvorkunn og volæði? Þetta er maður sem lítur út fyrir að baða sig í þunglyndislyfjum. Hann virðist hafa byrjað að söngla um eymdina, verður síðan frægur og hugsar þá: "ég get svosum haldið áfram fyrst þetta er vinsælt" og haldið áfram svona með hálfum hug. Svo hefur þetta bara slegið svo rækilega í gegn að hann getur ekki hætt.

Papar eru frábærir, Interpol eru frábærir, Creedence Clearwater eru frábærir en hvernig sem ég reyni heyri ég ekki þetta ofsalega yndislega og frábæra við Radiohead.

Á eftir bolta kemur barn og á eftir barni kemur Steingrímur Njálsson.

Ásgeir sagði mér þetta.

Árni Johnsen og Creedence Clearwater

Cotton Fields með Creedence Clearwater er magnað. Því sneri Árni Johnsen upp á íslensku og söng "í þeim gömlu kartöflugörðunum heima" í stað "in them old cotton fields back home". Enska útgáfan er öllu betri.

Mamma er ekki heima

Nú er móðir mín í Brandararíkjunum. Það þýðir:
-skilja má eftir diska og önnur matarílát á víð og dreif um húsið.
-ekki þarf að taka til í herbergi.
-skítuga sokka má skilja eftir við ísskápinn eða sjónvarpið. Reyndar hvar sem er.
-ég get verið úti í tvo daga eða eitthvað án þess að koma heim á milli og fá ræðuna um björgunarsveitina eða að áhyggjufull móðir hringi sí og æ.
-Ótakamarkaður aðgangur að bíldruslunni.
-Ekki þarf að setja föt í þvott
-Ekki þarf að henda rusli í ruslið.

Gallinn er sá að ég þarf að laga allt til áður en hún kemur heim aftur svo allt sé slétt og fellt.

miðvikudagur, 6. október 2004

Draumaflæði

Upp á síðkastið hefur mig dreymt næstum aðra hverja nótt. Rosalegt. Eina nóttina var ég uppi í sveit og sá kettling stökkva á lamb, læsa í það klónum og drepa það síðan með miklu hvæsi. Síðan var fíflinu lógað.

Í nótt dreymdi mig að ég lenti í matarboði með stærðfræðikennaranum. Var ég afar kumpánlegur og taldi alveg gefið að það ætti eftir að skila mikið bættri kennaraeinkunn. Sjálfsblekking þar á ferð.

Gildi menntunar

Stundum efast ég um gildi menntunar. Hér í einni elstu menntastofnun landsins læri ég bull og kjaftæði á borð við lífræna efnafræði. Ég læri um CH3OHbleble og cis - trans (systir hans?) og allir tímarnir fara í það að kennarinn skrifar CH3OH H3Obleble og mismunandi byggingareiginleika og formúlur. Þessi námsgrein er algjört bull og mun aldrei nýtast mér.

Svo er það í íslenskunni: hákveður lágkveður þegiðu.

þriðjudagur, 28. september 2004

Xabi Alonso og Liverpool

Xabi Alonso virðist koma blússandi sterkur inn í lið Liverpool. Ég er ánægður með Benitez knattspyrnustjóra hingað til. Bara vonandi að nú takist að velta Arsenal úr sessi strax á þessu tímabili. Salan á Owen var ekki skaði, nema síður sé.

Wayne Rooney á ekki eftir að geta rassgat með United.

Brenglaðir draumar

Mig hefur dreymt mjög skrýtna drauma nú upp á síðkastið. Mjög langt síðan mig dreymdi síðast, en nú komu tveir með stuttu millibili.

Fyrri:
Risapartý var heima hjá Ásgeiri Birkissyni (reyndar bjó hann ekki þar sem hann býr í raun og veru). Hundrað manns mættu a.m.k. og ég var á staðnum. Svo kom löggan og stoppaði samkvæmið. Allir fóru út á götu og Ásgeir þurfti að díla við lögguna ansi lengi. Hópurinn gekk af stað áleiðis í annað partý og ég fylgdi. Allt í einu hvarf hópurinn og ég stóð einn eftir. "Hvílíkt bull" hugsaði ég og ákvað að athuga hvort Ásgeir væri ennþá heima hjá sér að díla við löggur. Ég vissi ekki nákvæmlega hvaða hús var Ásgeirs í raðhúsalengjunni en rambaði inn í eitt húsið sem ég hélt að væri Ásgeirs. Allt var ólæst svo ég óð inn. Inni var smá ljóstýra og ekki hægt að kveikja meira ljós. Ég var rosalega lengi þarna inni í einhverri stofu að velta fyrir mér hvort þetta væri rétta húsið. Svo kíkti ég á fjölskyldumyndir uppi á vegg og áttaði mig á að þetta var bandvitlaust hús. Þá fór ég aftur fram í forstofu til að fara í skóna en þá duttu sokkarnir af mér á óskiljanlegan hátt og ég fann þá ekki aftur. Ég var mjög hræddur um að íbúarnir fyndu sokkana, sendu þá í DNA rannsókn og mér yrði stungið í steininn fyrir innbrot (samt var húsið ólæst). En já, já.

Síðan virtist sem ég færi fram í tíma í draumnum, um klukkutíma eða eitthvað. Þá var ég staddur einhvers staðar niðri í miðbæ einn, og feitlaginn ófríður kvenmaður fór að reyna við mig. Og ekki nóg með það heldur var hún um eða yfir fertugt. Ég tók henni ekki sérstaklega vel og reyndi að hundsa hana. Hún tók engu slíku tauti og hélt áfram að reyna. Ég sagði henni að fara en ekki hlustaði hún á það frekar en annað. Hún sagði "krúttípútt" og e-ð álíka glatað og víðbjóður minn óx með hverju augnabliki. Síðan hljóp ég af stað til að flýja skassið, en skassið hljóp á eftir. Þrátt fyrir að vera feit, hljóp hún rosalega hratt en ég náði að hrista hana af mér að lokum. Svo endaði draumurinn.

Seinni:
Ég var að borða úti í góðu veðri með hópi MR-inga. Allt í einu birtist Guðmundur sögukennari. Tók hann dreng sem sat við borðið hálstaki, hló tröllslega og sagði: "Þú ert aðdáandi myndarinnar Insect, er það ekki?". Svo endaði draumurinn.

Skrýtnir draumar. Ég hef aldrei heyrt um mynd sem heitir Insect, en mun athuga með það eftir þennan draum.

Flugvélar og reykingar

Í flugvélum eru tvö lítil ljós í loftinu framan við sætin, annað vísar fólki á að spenna sætisbeltin, hitt bannar reykingar. Nema hvað, ekki þarf alltaf að hafa sætisbelti spennt og þá slokknar sætisbeltaljósið. Aldrei slokknar reykingaljósið. Hver er þá tilgangurinn með reykingabannljósinu? Það vita allir að bannað er að reykja í flugi. Hvernig væri að gefa reykingabannljósinu tilgang með því að leyfa reykingar í lendingu og flugtaki. Margir reykingamenn reykja þegar þeir eru stressaðir, svo það gæti verið streitulosandi að reykja í flugtakinu og lendingunni. Svo kviknar á ljósunum og þá á fólk að drepa snögglega í rettunum.

fimmtudagur, 23. september 2004

Þessir andskotans kennarar

Fólk er nú búið að átta sig á hvurs konar andskotans letiblóð þessir kennarar eru. Þeir bíða með að verkfallssjóðurinn sé orðinn nógu stór til að hægt sé að fara í verkfall. Fara í verkfall á 3-4 ára fresti. Andskotans kennarar. Þetta er hugsunin hjá kennurum, hirða launin en sleppa við að vinna. Svo eru þeir líka í fríi á sumrin en fá samt laun. Andskotans kennarar. Þeir hugsa ekki um að saklaus börn landsins fái menntun, þeir hugsa bara um peninga. Andskotans kennarar. Þeir eru á góðum launum en væla samt. Andskotans kennnarar.

Textinn hér að ofan er lýsandi fyrir skoðun margra sem hafa ekki kynnt sér mál alveg sem skyldi. Kennarar eru ekki á háum launum. Þeir hafa í mörg ár verið neðan við aðra sem vinna sambærileg störf í launum. Hvernig væri nú að andskotans ríkisstjórnin gæfi aukafjárveitingu til að leysa verkfallið. Þeir geta dælt peningum í Sinfoníuna, leikhúsin, og ríkisábyrgð fyrir Erfðagreiningu en ekki geta þeir látið kennara hafa almennilegan samning í eitt skipti fyrir öll. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð.

Sífellt er imprað á því að hungursneyð sé í Afríku.

Hver er þá ástæðan fyrir því að börnin eru með bumbu?

miðvikudagur, 22. september 2004

'Island er orðið eins og lélegur Spaugstofuþáttur. Davíð og Halldór skipta um stóla. "Brostu nú halldór þú ert orðinn forsætisráðherra" hohohohohohoho

Ömurlegt.

þriðjudagur, 21. september 2004

DJ Búntó og Emil þarna leika á als oddi.

Þetta er sko pabbi minn! Nei, sem betur fer ekki.

Jósi, sdlakaðu á. Trausti, sdlakaðu á.

Hvílíki dólgurinn þarna lengst til hægri.

mánudagur, 13. september 2004

Posted by Hello

Í helgarblaði DV er farið fögrum orðum um þennan mann til hægri á myndinni. Sá er veitingamaður á Bistro Antonia í Króatíu og ku heita Franco. Þegar ég var í útskriftaferðinni nú í ágústmánuði skipti ég við þennan veitingastað eins og margir hinna íslendinganna. Við fórum þangað þrír drengirnir og ætluðum að panta mat. Við skoðuðum matseðla og ákváðum hvað við vildum. Ég athugaði stöðuna í veskinu og taldi þetta svona saman og hafði peninginn á borðinu fyrir framan mig. Allt í einu kemur þessi gaur askvaðandi, grípur pening frá mér sem lá á borðinu, segir "tips" og er snöggur í burtu. Ekki kunni ég alveg að meta þessi vinnubrögð. Síðan hvenær er venjan að borga þjórfé fyrirfram, áður en matur er fram borinn? Þarna var augljóslega um þjófnað að ræða. Ég fór því á eftir manninum og útskýrði fyrir honum að þetta hefði ekki verið þjórfé. Hann skildi ekki hvað ég átti við fyrr en eftir fimm tilraunir mínar til að útskýra fyrir honum. Þá samþykkti hann að ég borgaði það sem upp á vantaði fyrir matinn sem ég hafði pantað. Ég féllst á það og hélt að málið væri úr sögunni. Sú var ekki raunin, þegar hinir drengirnir tveir báðu um reikninginn kemur fíflið með reikning fyrir öllu klabbinu og ætlar að endurgreiða mér afganginn sem ég hafði borgað skömmu áður og síðan að láta mig borga heildarupphæðina fyrir minn rétt. Við tókum það ekki í mál. Fíflið sagði "borga, borga" og giska ég á að það hafi verið eina sem hann kunni á íslensku. Þá sagði hann okkur að koma með sér í móttökuna þar sem hann ætlaði að klaga okkur. Hann bað um herbergisnúmer, sem við neituðum að gefa upp svo tók hann upp síma og þóttist hringja. Þá spurði Tómas hvað hann hyggðist nú fyrir. "Police" var svarið. "ok" sagði Tómas þá og þá virtist maðurinn guggna, fór aftur með Tómasi inn á staðinn og sagði honum að borga það sem hann vildi en að héðan í frá værum við drengirnir þrír "closed for this restaurant" eins og hann orðaði það svo smekklega.

Er það svo ekki dæmigert að þessi svindlari, Mottan eins og við kölluðum hann, komi sakleysið uppmálað í DV. Þar er sagt frá því að hann hafi gefið íslendingum (sjálfsagt fertugum eða fimmtugum) fría drykki á stað sínum fyrir að vera góðir kúnnar. Það skyldi þó ekki vera að hann borgaði þessa fríu drykki með því að stela af öðrum kúnnum.

sunnudagur, 12. september 2004

Veriði heima hjá ykkur!

Ástandið á götum borgarinnar er orðið þannig að það er varla hægt að aka um þær. Endalaus umferð bíla sem silast áfram. Klukkan fimm á laugardegi ætti nú að vera mögulegt að komast leiðar sinnar sæmilega hratt og örugglega en svo er ekki. Bílaflotinn hefur augljóslega gjörsamlega sprengt gatnakerfið sama hvað einhver borgarfulltrúi segir. Ástand sem ekki er boðlegt. Notið strætó, labbið eða bara veriði heima hjá ykkur! Ég þoli ekki að þurfa að aka í hálftíma einhvern spotta sem ætti að vera hægt að fara á tíu mínútum. Þetta var ekki svona slæmt í fyrra. Nú er mál að linni, það á að banna fleiri íbúðarhúsnæði hér í borginni (svo íbúum og þar með bílum fjölgi ekki stjórnlaust) og fá betri almenningssamgöngur. Svo er líka svo mikið af þessum akstri bara andskotans óþarfi. Ég þoli ekki að sjá akfeitar kerlingar koma með tíu tveggja lítra kókkippur út úr Bónusi og stafla síðan inn í jeppana sína og keyra með það burt. Þær ættu þá frekar að reyna að labba og drekka vatn.

föstudagur, 10. september 2004

Busaballið

Busaballið var fínt. Partýið fyrir var þó skemmtilegra. Það var haldið hjá nafna og var besta sem þar hefur verið, en þangað hafa ófá partý verið sótt. Sambrúkka er ógeðslegur drykkur. Allir áfengir drykkir með sælgætisbragði eru sull. Karamellulíkjör, lakkrísvodki og slíkt ekki vinsælt. Ákavítisstaup kemur sterkt inn. En nóg um drykkjusiði.

Bekkurinn virðist vera helvíti fínn svona við fyrstu sýn. Ótrúlegt samt hvað eitt fífl getur skemmt bekk mikið. En það var sem betur fer ekkert fífl mætt í partýið.

Bekkirnir sem ég lendi í virðast fara batnandi með árunum. Þriðji bekkur E var ekki sérstaklega skemmtilegur. Þar hópaði fólk sig saman í litla hópa og bekkjarandi var nánast enginn. Lélegur mórall. Samt slatti af skemmtilegu fólki.

mánudagur, 6. september 2004

Sunnudagsgöngutúr

Þegar ég rölti um Austurstræti í gær var þar maður sem gekk í hægðum sínum. Tók fram úr honum. Hann kallaði á eftir mér "Bíddu er ekki sunnudagur í dag?". Sneri mér við "Jú". Þá sagði maðurinn: "Já, þá þarf ég að fara að borga meðlagið".

Af hverju maðurinn sagði mér þetta veit ég ekki. En að stoppa ókunnugan mann úti á götu og segja óspurðar fréttir er fimm stjörnu verknaður.

laugardagur, 4. september 2004

Belle & Sebastian

Það er hljómsveit sem flytur óeðlilega bjartsýnisleg lög. Þetta eru lög sem eru leikin á fæðingardeildinni fyrir nýfædd börn; "þið eigið lífið framundan krakkar. það er dans á rósum" eru skilaboðin. Svo reka börnin sig á þegar þau eldast.

Þú ferð á eigin ábyrgð innum þessar dyr, þar bíða ótal ógnir sem enginn þekkti fyr

Teiknimyndir eru mun geðveikislegri nú en áður var. Mikið er um ofbeldi, geimrugl og og annað bull. Börnin verða snarvitlaus af þessu. Ein teiknimynd er að vísu góð sem sýnd er á íslandi í dag. Það er mynd um vísindamanninn Dexter. Ég horfi stundum á það. Hann er rauðhærður með gleraugu.

Djöfull troða þeir í pokana

"I have no legs" hvatta suða. Nú fer alveg að hringja. Gööðönga. Ekki þykir góðri lukku stýra að blogga fulurru.

fimmtudagur, 2. september 2004

Vesturbæjarpakk

Hér í MR er Vesturbæjarpakk meirihluti nemenda. Fólk getur verið ágætt þótt það sé úr Vesturbæ en er samt alltaf Vesturbæjarpakk. Helvítis snobbað lið sem hefur aldrei séð út fyrir Vesturbæinn og sötrar rauðvín í fína heimsborgarahúsinu sínu. En bíðum nú við, nú er ég allt í einu fluttur í Vesturbæ og þar með orðinn hluti af þessu. Fékk litlu um það ráðið. Það var KR límmiði í glugganum á herberginu mínu. Ég reif hann af. Hvað er verra en KR? KR-ingar eru samansafn fífla sem allir hata nema þeir sjálfir. Hafa oft reynt að kaupa titla (kaupa stjörnur), í stað þess að vinna á liðsheildinni. Aldrei mun ég halda með KR þrátt fyrir að vera kominn á þetta svæði. Svo er til fólk sem heldur bæði með KR og Manchester United. Sjitt.

Nóg af úthúðun.

Eitt í lokin. Ég fór um daginn og sá leik Fram og KR. Sá KR tapa 1-0 og það var yndislegt.

Sparsl

Nú er ég nýfluttur og hef mikið verið að mála og sparsla. Fékk síðan martröð eina nóttina. Martröðin var að ég var búinn að mála stóran vegg en hafði gleymt að sparsla fyrst.

Muna: Sparsla fyrst, mála svo.

Magnaður kennari

Stundum fær maður ótrúlega magnaða kennara. Ég er núna með þýskan kennara sem kennir mér raungrein. Í fyrsta tímanum hló bekkurinn meira og minna allan tímann. Umræddur kennnari er alltaf með sólheimabrosið fræga og baðar út öllum öngum til að útrskýra. Hún sagði okkur að henni þætti rosalega gaman að hoppa. Rosalegast var samt þegar einn nemandinn rétti upp hönd og kennarinn valhoppaði skælbrosandi til hans. Þegar kennarar eru furðulegir fylgist maður mun betur með. "Hvað kemur næst?" spyr maður sig. Það er líka áhugavert að velta fyrir sér hvernig þessi kennari er þegar hann fer yfir próf; kannski búinn að fara yfir slatta og segir síðan "brúmm ég er flugvél!" og ljómar upp.

En það eru líka til kennarar sem eru svo leiðinlegir að vonlaust er að fylgjast með vegna þess að hugsunin "æi þegiðu" kemur upp í kollinn við hverja setningu sem kennarinn segir.

föstudagur, 27. ágúst 2004

Guðmundur sögukennari ansi hress á þessari mynd

sunnudagur, 22. ágúst 2004

Skall í gólf

Nú eru nokkrir dagar síðan ég kom heim úr steiktri útskriftarferð til Króatíu. Ekki var laust við að mig langaði að fá miðann endurgreiddan þegar ég kom í Leifsstöð og beið eftir flugi til Trieste. Þar var ömurleg stemmning sem lofaði síst góðu fyrir útskriftarferð. Margir voru strax farnir að hella í sig.

Við lentum í Trieste og fórum með rútu í gegnum Slóveníu. Landamæravörður skoðaði vegabréf okkar. Ég fékk illt auga frá verðinum því ég hafði vegabréfið mitt lokað þegar hann ætlaði að líta á það. Komum síðan eftir miðnætti á hótelið. Sumir fóru strax að sofa en aðrir slökuðu alls ekki á í drykkju. Annað kvöldið drukku flestir. Gunni nokkur Jó teygaði ófáa sopana og var orðinn skrautlegur. Við mættum honum á gangi og sagðist hann ekki komast inn í íbúð sína, íbúðarfélagarnir hefðu læst hann úti (sem var misskilningur). Við leyfðum honum að gista í okkar íbúð. Það var merkilegt að hann reyndi eftir bestu getu að haga sér prúðmannlega þrátt fyrir að vera ekki í ástandi til þess. Reyndar hljóp hann beint í fyrsta rúm sem hann sá í íbúðinni og ætlaði að hvílast. Við blésum vindsæng upp fyrir hann. Þegar vindsængin var uppblásin tilkynntum við Gunna það og bjuggumst alveg eins við að hann væri sofnaður en nei, hann spratt á fætur, sagði "jájá", sá vindsængina á gólfinu og kastaði sér niður DUNK! Æ, æ hann skellti sér á gólfið við hliðina á vindsænginni og brakhljóðið var hátt. En hann kveinkaði sér ekki, heldur steinsofnaði á gólfinu og fór að hrjóta og það hátt. Svaf síðan vært og ljómandi vel á gólfinu en við sváfum ekki eins mikið fyrir hrotunum. Þetta var bara byrjunin á mjög steiktri ferð.

föstudagur, 20. ágúst 2004

Af illri nauðsyn

Í starfi mínu sem vinnumaður í sumar hef ég oft þurft að hafa samskipti við fóstrur á leikskólum eða leikskólakennara (sem er fallega fræðiheitið). Oft koma útköll frá leikskólum til okkar og okkar bíða verkefni á borð við að laga rólur eða negla spýtur. Leikskólakonurnar eru oft algjörar beyglur. Þær eru frekar, dónalegar og leiðinlegar. Margar þeirra láta líka sem þær sjái ekki þegar kastast í kekki milli barnanna. Það kemur þeim ekki við þótt börnin hárreyti hvert annað og lemji í slagsmálum um leiktæki. Þetta gildi að sjálfsögðu ekki um allar fóstrurnar, sumar eru öðlingar og gull af mönnum. Er skrýtið að mörgum krökkum þyki leiðinlegt á leikskóla þegar fóstrurnar eru svona andskoti leiðinlegar? Ég og vinir mínir strukum nú einu sinni af leikskóla þegar við vorum ungir af því að þar var ekkert fjör. 'Eg legg til að leikskólabeyglur verði reknar.

Krökkunum finnst mjög merkilegt þegar vinnumenn koma á leikskólann. "Hvað eruð þið að gera?" er spurning sem glymur þegar við mætum. Svo þarf alltaf að tilkynna okkur ýmislegt: "Ég á Nemo" "Pabbi minn er sköllóttur eins og þú" o.fl.

fimmtudagur, 12. ágúst 2004

Dolgar, delar og durtar

Nu er ferdin rumlega hafnud. Her er mikid um meli og durta sem reyna ad hlunnfara ferdamenn. Tjonn nokkur a veitingastad a hotelinu reyndi um daginn ad stela af mer pening. Sa er kalladur Mottan og er alraemdur fyrir svindl og svinari. Endadi tannig ad vid trir piltarnir forum a svartan lista a stadnum, sem var ekki rettlatt. Helvitis Mottan hefdi hins vegar matt fa kjaftshogg.

miðvikudagur, 4. ágúst 2004

Tvöfalt líf Óla Palla

Óli Palli á Rás 2 er útvarpsmaður sem flestum ætti að vera kunnugur. Almennt er hann vel liðinn og veit mikið um tónlist. Hann tekur oft viðtöl við þekkta tónlistarmenn. Þeir eru færri sem vita að Óli Palli þessi vinnur hjá Gatnamálastjóra í Breiðholti og það fulla vinnu. Sumum kann að þykja þetta skjóta skökku við en svona er þetta. Hvernig hefur hann þá tíma til að vera í útvarpinu? Ég held að hann sé einfaldlega þúsundþjalasmiður. Það er mögulegt að moka, helluleggja eða malbika og tala í útvarpið um leið. Tækni nútímans, t.d. handfrjáls búnaður gerir það kleyft. Gæti trúað því að þegar fólk heldur að Óli Palli sé að taka viðtöl við Mick Jagger eða slíkt sé hann bara að tala við einhvern karlanna á stöðinni á ensku. Kannski Örn eða Skúla. Það er spurning.

Kannski er þetta ekkert Óli Palli þarna á bækistöðinni. En ef svo er ekki á Óli Palli tvífara hjá Gatnamálstjóra. Þeir gætu verið eineggja tvíburar.

þriðjudagur, 3. ágúst 2004

Þrír Frakkar

Borðaði á veitingastaðnum Þremur Frökkum í gær. Við næsta borð sátu fjórir Frakkar. Fékk skötusel í púrtvínssmjörsósu og kartöflur, sem var hnossgæti. Fimm stjörnur af fimm. Nokkrir þjónar voru á staðnum, allir kvenkyns. Nema hvað, við áttum pantað borð fyrir sex manns. Þegar komið var á staðinn var bara tilbúið borð fyrir fjóra. Obbosí, fjórir er ekki sama og sex. Ein þjónustustúlkan reyndi að klína þessu klúðri veitingastaðarins á okkur, sem var afar óviðeigandi framkoma. Hún virtist vera leiðindaskjóða almennt. Hinar voru mjög almennilegar og tóku alla ábyrgð á klúðrinu. Sú sem aðallega þjónaði okkur til borðs var mjög almennileg og myndarleg í þokkabót og brosti allan tímann. Þeir sem þjóna á veitingastöðum eiga að vera svoleiðis. Gott er að eiga feiksmælið gamla góða þegar fólk vinnur slíka vinnu. Leiðindaskjóðuna sáum við hins vegar ekki aftur. Mig grunar að hún hafi verið færð inn í eldhús og tjóðruð þar við staur. Ekki er ósennilegt að í eldhúsi staðarins sé staur fyrir óþægt starfsfólk, sem trónir yfir grautarpotti sem mallar og kokkurinn hrærir í við og við. Þar má slíkt fólk dúsa og svitna og sjá eftir framkomu sinni. Það verður að minnsta kosti á mínum veitingastað, ef ég opna slíkan. En það er einmitt gamall draumur að verða kokkur og eiga veitingastað. Þá yrði ég akfeitur kokkur því þeir eru bestir.

Nokkur atriði sem njóta sívaxandi vinsælda


1. Langar sögur með engu "punchline". Allir hafa gaman að því að vera komið á óvart (hvort sem það er á neikvæðan eða jákvæðan hátt). Að segja fólki fimm til tíu mínútna sögu þar sem það er farið að búast við rosalegu "punchline" en svo kemur ekkert er mjög
vinsælt þessa dagana.

2. Bara punchline. Margir eru svo uppteknir nú á tímum. Fólk hefur engan tíma til að hlusta á aðra segja langar sögur. Þá er sívinsælt að segja bara "punchline". T.d.:
"...heyrðu, svo var þetta bara frænka mín"
"svo endaði kvikindið bara í hakkavélinni"
Getur ekki klikkað. Þá geta hlustendurnir sjálfir sett það sem þeir vilja í eyðuna framan við.

3. Að segja hluti í óspurðum fréttum. Helst að segja e-ð í óspurðum fréttum (eina setningu) og fara svo og gefa viðmælanda ekki færi á að svara. Nokkrar gullnar setningar til að segja í óspurðum fréttum:
"Ég var bara með kleinur í gær!"
"Ég gat ekki lært heima því hamsturinn minn dó í gær"
"Ömmubróðir minn er með þvagteppu".

4. Að tala um hluti sem allir eru sammála um eða allir vita. Mér finnst stórskemmtilegt að heyra fólk tala um slíkt og undra mig alltaf á hve mikið er hægt að ræða um slíka hluti. Eitthvað svona:
"Æ, hvað það er nú yndislegt þegar sumar er og gott veður. Það er nú ólíkt skemmtilegra en í öllum snjónum á veturna" "Já, satt segirðu, það er svo skemmtilegt að geta bara grillað úti svona á sumrin í góðu veðri og borða með fjölskyldu eða vinum" og "Þetta var nú öðru vísi hérna í gamla daga, þá voru engar tölvur...blablabla" o.s.frv.

Svaraði kallinu

Vafaluast muna margir eftir dramtísku lagi sem Herbert Guðmundsson sendi frá sér fyrir þremur árum eða svo þar sem hann gólaði "Svaraðu kallinu..." o.s.frv.

Fyrr í sumar svaraði ég kalli Herberts og keypti ís í ísbúð sem hann rekur í Síðumúla undir nafninu Stikkfrí. Síðan þá hef ég svarað kallinu nokkrum sinnum og verslað þarna (Ég reikna með að Herbert hafi verið að kalla eftir viðskiptavinum í búðina). Herbert afgreiddi sjálfur í fyrstu tvö skiptin og var mjög þreytulegur að sjá. Ódýr og góð ísbúð. En fyrst ég minnist á ís er besti ís sem ég hef smakkað ítalski kúluísinn á Ís café, Suðurlandsbraut. Kiwikúlur eru bestar.

Árni Long er ferskur vinnumaður á bækistöð í Breiðholti sem var með mér í vinnuhóp í tvær vikur eða svo í sumar. Hann hefur sett tengil á síðu mína og launa ég það hér með.

Hrvatski

Nú er örstutt í að flugvél haldi með stóran hóp af vitleysingum til Króatíu. Ég verð í hópnum. Tólf laugardagar í röð verða hjá hópnum frá og með fimmtudegi. Ég vil minna fólk á að gera ekki væntingar því þá verða engin vonbrigði. Ekki þetta "Ooo, ég hlakka svo til!" kjaftæði. Rétti andinn er að halda að ferðin verði eins og tólf dagar í bíl með miðstöðina á mesta mögulegum hita og Rás eitt glamrandi í útvarpinu allan tímann. Ef fólk hugsar þannig verða engin vonbrigði. Þetta verður ömurleg ferð.

Svo má alltaf spyrja: Hver borgar rúmar sjötíuþúsund krónur fyrir að sitja í bíl með miðstöðina á fullu og Rás 1 glamrandi?

Væntingar = 0. "Þetta er rétti andinn strákar!" eins og knatsspyrnuþjálfarar segja.

sunnudagur, 18. júlí 2004

Kýraugu

Stundum þegar ég keyri um borgina verð ég hræddur. Ég verð aldrei hræddur þegar ég sé einhvern svína á öðrum eða ef einhver keyrir hratt og glannalega. Þá segi ég bara "hálfviti" og held áfram. En ég verð hræddur þegar ég sé geðveikislega ökumenn. Um daginn var ég að keyra og framhjá ók kona með mjög geðveikislegt augnaráð og úr augunum á henni mátti lesa "DREPA! DREPA! DREPA!" og hún starði á mig. Í gær var ég stopp á rauðu ljósi, leit í baksýnisspegilinn og sá að ökumaðurinn í bílnum fyrir aftan var stelpa með uppglennt kýraugu. Hún hreyfði höfuðið líka ótt og títt og leit aftur og aftur snögglega í aftursæti bílsins. Það var eins og hún væri að flytja lík í bílnum eða að flýja óþokka. Mér var alls ekki vel við að hafa svona stúlku aftan við mig á rauðu ljósi.

laugardagur, 17. júlí 2004

Stella artois non alcoholic malt brew er drykkur sem enginn ætti að prófa.

laugardagur, 10. júlí 2004

Sigur Grikkja

Grikkir unnu verðskuldaðan sigur á portúgölum í úrslitaleik EM. Nikopolidis, markvörður Grikkja er alveg eins og gaur í Dressmann auglýsingu. Gott ef þetta er ekki bara Dressmann sjálfur.

Sænsk vændiskona

Nú er víst sænsk vændiskona í heimsókn á Íslandi. Það var í fréttum. Ég held að ég hafi séð hana í Mjódd í gær. Hún var ekki mikið klædd.

Sumar stelpur klæða sig eins og vændiskonur. Þær eru oftast í svo stuttum pilsum að hjalda mætti að þetta væru eyrnabönd.

laugardagur, 3. júlí 2004

Mc'donalds auglýsingin

Hver samdi Mc´donalds auglýsinguna sem er alltaf í sjónvarpinu: "i'm lovin it"? Þetta er versta auglýsing sem ég hef séð. Það þarf fæðingarhálfvita til að semja svona. Ég hef ekki hitt nokkurn sem þykir auglýsingin góð. Sjálfur tek ég alltaf fyrir augu og eyru þegar þessi viðbjóður kemur í sjónvarpinu. Verst er þegar strákurinn treður hamborgaranum í andlitið á hinum. Þessi auglýsing fer svo einstaklega mikið í taugarnar á mér að ég mun aldrei versla við Mc'donalds aftur. Ekki það að ég hafi oft keypt þar.

Fýlupokar og rugludallar

Það er töluvert mikið um fólk sem röflar og býsnast yfir EM sem nú er að ljúka. "Þessi bolti seinkar fréttunum mínum" "Af hverju þarf að seinka fréttum út af fótbolta?". Sumu fólki þarf að segja að þegja. Það er rifist og skammast og röflað og vælt. Getur þetta lið ekki bara horft á fréttir á Stöð 2? Lifir það ekki af án sjónvarpsfrétta RÚV? Hvað með að kíkja á textavarpið? Það er andskotann ekki neitt í fréttum núna. "ANDRÉS ÖND VARÐ SJÖTUGUR Í DAG" "Þórsmörk: Skagfjörðsskáli 50 ára" "SA-könnun: Miðaldra fólk góðir starfsmenn". Eru þetta fréttirnar sem fólk má ekki missa af? Þessar keppnir eru á tveggja ára fresti og standa yfir í u.þ.b. mánuð hverju sinni, á þeim tíma þegar gúrkutíð er mikil í fréttum.

Ég er farinn að velta fyrir mér hverjir það eru eiginlega sem horfa ekki á EM. Amma mín horfir á EM. Ég er búinn að vera hjá ömmu núna í rúmar tvær vikur af því ég var að flytja og nýja húsið hefur ekki verið afhent. Ég hef horft á nokkra leiki með ömmu og það er sérstök stemmning. Amma horfir svona meira með öðru auga. Hún situr í stólnum og prjónar en lítur reglulega upp til að sjá hvað er að gerast í leiknum. Oftast hefur hún athugasemdir um leikinn. Ef tækling sést segir hún: "Ógeðslegir fautar eru þetta". Um daginn sá hún Edgar Davids spila og sagði: "Þessi getur nú ekkert hlaupið, það er svo þungt á honum hárið. Svo slæst það utan í hann". Það er ýmislegt í þessu sem þarf að athuga. Ég fellst að sjálfsögðu á allar athugasemdir ömmu.

Merkilegt hvað ömmur hafa miklar áhyggjur af matarvenjum. Alltaf á morgnana er ég spurður: "Ertu búinn að fá þér eitthvað?"

Vinnustaðagrínarar

Á bækistöðinni þar sem ég vinn eru tveir menn sem sumir myndu kalla einfeldninga. Þeir eru alltaf með mér í hádegismat og bregða þá gjarnan á leik. Um daginn sagði annar þeirra við einn strákinn á bækistöðinni: "Ég vildi að þú værir bróðir minn því þú ert með bílpróf. Þá gætirðu keyrt mig hvert sem er. Svo gætum við farið saman að kaupa geisladiska og skoðað frímerkin mín". Hann sagði líka: "Þú ert svo gáfaður að vera með bílpróf."

Þessi ummæli vöktu lukku. Þessir menn vekja gjarnan lukku.

Hakkavél

Nú er skólaárið liðið og ég náði prófum. Sumir tóku bekk í annað sinn og náðu ekki prófum. Þeir eru í vondum málum og þurfa að skipta um skóla. Stærðfræðikennari nokkur kenndi mér um x og f(x) og líkti því við hakkavél. Í vélina færi x og út kæmi f(x). Ég líki bekkjunum í MR við hakkavél. T.d.: í vélina fer 4.bekkingur og út kemur 5.bekkingur. Þetta er þó ekki algilt. Stundum stíflast vélin þegar nemanda er troðið í hana. 4.bekking er troðið í vélina, hún stíflast og gangtruflanir heyrast. Hún stíflast ekki endilega vegna þess að nemandinn sé feitur, sjaldnast er það ástæðan. Ástæðan fyrir stíflun er oftast sú að nemandi er ekki nógu duglegur að læra. Einnig getur heimska átt hlut að máli en það er fátítt. Ef 4.bekkingur er duglegur að læra ætti hann að renna örugglega gegnum vélina og koma jafnvel út sem gourmet 5.bekkjarhakk, þ.e. 5.bekkjarnemandi.

Þetta er fáránleg líking.

sunnudagur, 20. júní 2004

Fótatak

Ég var að labba úr Smáranum í gær eftir miðnætti. Ekki voru margir á ferli. Skyndilega heyrði ég fótatak fyrir aftan mig. Ég gekk áfram. Fótatakið fyrir aftan mig magnaðist. Þá fór ég að labba hraðar. Það gat þess vegna verið einhver morðóður geðsjúklingur fyrir aftan mig. Hvað veit ég? Það er nóg að geðveiku liði þarna úti. Það var reyndar frekar líklegt að þetta væri morðóður geðsjúklingur. Enn jókst fótatakið. Geðsjúklingurinn var væntanlega kominn með stóra öxi á loft núna og sem hann hyggðist höggva mig með við fyrsta tækifæri. Ég gekk hraðar og hárin á höfðinu risu. Ég er reyndar ekki með nein hár á höfðinu því ég er snoðaður, en ímynduð hár á höfðinu risu. "Excuse me" heyrðist þá. Ég ákvað þá að stoppa. Ekki það að svona brjálæðingar geti ekki sagt "Excuse me". En ég ákvað samt að stoppa. Ég leit aftur. Þar var enginn brjálæðingur, bara meinleysislegur útlendingur. Hann kom síðan og spurði mig til vegar. "What is the best way to downtown Kópavogur?". Ég sagði honum það eftir bestu getu. Eru þá ekki allir sáttir?

Kannski hefur maður séð of margar hryllingsmyndir.

laugardagur, 12. júní 2004

EM 2004

Það eru nokkrar reglur sem virðast alltaf vera við lýði í kringum EM:
-Þjóðverjar eru alltaf vanmetnir.
-Frökkum spáð titlinum.
-Helstu spámenn hafa rangt fyrir sér.

Stórleikur Frakklands og Englands er á sunnudagskvöld. Ég tippa á Englendinga. Það sem segir í blöðunum að vörn Englands sé veikur hlekkur er djöfulsins kjaftæði. Það er hins vegar alltaf erfitt að stoppa Henry. Samt sem áður vinna Englendingar.

Lettar og Rússar munu kúka á sig. Ég spái ekki um sigurvegara. Held með Dönum.

Spenningur mikill. Þetta verður án efa frábær keppni.

fimmtudagur, 10. júní 2004

Nosirrah egroeg

Lög sem vert er að nefna sem hljóma þessa dagana:
Nosirrah egroeg - Lokbrá
Float On - Modest Mouse
Talk Show Host On Mute - Incubus (fyrsta almennilega lagið frá þeirri hljómsveit)
Matinée - Franz Ferdinand

Tvær hljómsveitir, sem tröllríða öllu núna, hafa óverðskuldaðar vinsældir að mínu mati. Það eru Mínus og ástralska hljómsveitin Jet. Á plötu Mínus, Halldór Laxness, eru tvö frambærileg lög: Long Face og að sjálfsögðu Romantic Exorcism. Annað á plötunni er varla boðlegt. Gríðarlegar vinsældir Mínus eru út í hött. Ástralirinir í Jet sem gaula Cold Hard Bitch bla bla bla, eru einnig glataðir.

föstudagur, 4. júní 2004

Sjónvarps- og útvarpsfólk lendir alltaf reglulega í því að vita ekki að útsending sé í gangi. Þá heyrist oft og sést e-ð spaugilegt. Ég er alltaf að bíða eftir því að Jóhanna í Íslandi í dag reki fúlt við og ropi hátt í útsendingu og hlæji síðan vandræðalega og segi: "afsakið, ég vissi ekki að ég væri í útsendingu". Það gæti verið hressandi.

Dúndrandi partý í heila viku

Þeir sem sáu mig við Mjódd áðan með kassa í tugatali frá Vínbúðinni hafa líklega sagt við sjálfa sig: "Já nú verður sko partý hjá Guðmundi". Að maður tali nú ekki um þegar ég kom skömmu seinna með annað eins magn kassa úr apótekinu. "Já, nú verður strákurinn sko með partý í heila viku, þar verður ölið ekki sparað og ekki læknadópið heldur".

Ég verð að hryggja þá sem héldu að svakalegt vikupartý væri í vændum. Kassarnir voru allir tómir. Þeir verða notaðir í flutninga.

miðvikudagur, 2. júní 2004

Fótbolti, bjór og reykingabann

Ég prófaði um daginn í fyrsta sinn að leika knattspyrnu undir áhrifum áfengis. Ég skoraði eitt mark og skaut oft fram hjá.

Nú er íslenski fótboltinn kominn á skrið. Ég fór á Fram-ÍA um daginn og var afar hressandi að sjá sína menn leggja Framara að velli. Fram kemur reyndar sterkara til leiks en síðustu ár með Ríkharð og Þorvald Makan og færeying. Þeir verða samt ekki meistarar. Tippa á ÍA að venju. Það er alltaf gaman að heyra í grínurum sem mæta á völlinn: "Gefðu boltann fíflið þitt!" "Út á kantinn!" "Ertu kerling?!". Eins og leikmenn fari eftir því hvað fávísir áhorfendur segja. Það er rosalega létt að sitja uppi í stúku og vera smákóngur og kalla menn illum nöfnum. Það var gaman að heyra þegar einn karlinn í áhorfendaskaranum dustaði rykið af konuröddinni og kom fyrirmælum til leikmanns. Þvílíkur grínari. Það er allt annað að kalla dómarann illum nöfnum, ég get vel skilið það enda hef ég gert það sjálfur. En að þykjast vera þjálfari og öskra á leikmenn er asnalegt.
Hvað er öskrað á leikjum í kvennaknattspyrnu?: "Ertu karl?!"

Ég er hlynntur því að reykingabann verði sett á veitinga- og skemmtistaði. Samúð mín með reykingamönnum er engin.

sunnudagur, 30. maí 2004

Þá sleppi ég þessu bara

Nú er megavika svokölluð á Dominos. Fólk gleypir alveg rosalega við slíkum gylliboðum. Þá er örtröð á útibúum keðjunnar um alla borg. Ég fékk mér svona pizzu áðan. Það var röð út úr dyrum. Allt í einu kemur karl inn, fer fram fyrir röðina og segir: "Góða kvöldið". Afgreiðslustúlkan svaraði kurteislega: "Þú verður að fara aftast í röðina". Þá sagði karlinn "En ég er að sækja". Afgreiðslustúlkan svaraði "Já, þeir sem eru að sækja þurfa líka að fara í röðina". Karlinn sagði þá stuttaralega: "Nú, þá sleppi ég þessu bara" og fór síðan út í fússi. Þetta var spurning um fimm mínútna bið. En sumir eru yfir það hafnir að bíða í röðum. Miðað við hvernig þessi karl lét mætti halda að afgreiðslustúlkan hefði gert honum eitthvað, kannski kúkað í garðinn hans eða sprengt dekk á bílnum hans. Svona fýlupokar eru ótrúlega algengir.

laugardagur, 29. maí 2004

Pixies ollu vonbrigðum, Butterfly Effect ekki

Pixies á miðvikudagskvöld í Kaplakrika ollu vonbrigðum. Hljóðkerfi var alls ekki gott og Pixies sjálfir virkuðu bara þreyttir. Fyrsta lagið lofaði góðu en svo var þetta bara lélegt framan af, skánaði þó eftir því sem á leið. Of mikið af lélegum lögum og of mikið af krassi í hljóðkerfinu. Ekkert Dolby Digital THX þar á ferð. Þeir tóku svona u.þ.b. 10 af sínum frægustu lögum og unnu sér nokkra punkta á þeim. "Monkey Gone to Heaven" o.fl. Stemningin í salnum var samt ágæt, sérstaklega hjá dópistaliðinu sem dansaði eins og brjálæðingar. Mikil vonbrigði. Ég ætla reyndar ekki að gefa þessu eina stjörnu af fimm eins og gagnrýnandi Moggans. Það er of lítið. Aðrir stórtónleikarnir sem ég fer á. Fyrri voru Muse og þeir voru miklu betri.

Gef þeim sjö í einkunn.

Ætlunin var að sjá Touching the Void á fimmtudagskvöld. Hún var ekki sýnd á auglýstum tíma svo frá var horfið. Farið var á bensínstöð í Vesturbænum. Þar voru bíóauglýsingar skoðaðar í Mogganum. Afgreiðslukonan benti á eina myndina og sagði: "Þessi kom mér rosalega á óvart". Við tókum afgreiðslukonuna á orðinu og skelltum okkur á Butterfly Effect með Ashton Kutcher í aðalhlutverki. Ashton Kutcher hefur hingað til aðallega verið þekktur fyrir að vera hálfvitalegur í glataða gamanþættinum That 70's show. Í þessari mynd er hann ekki eins og hálfviti og kom það verulega á óvart. Þetta er fínasta mynd.

Gef henni 8,5 í einkunn.

þriðjudagur, 25. maí 2004

Skrýtnir vinnufélagar

Þótt ég sé ekki gamall maður hef ég víða komið við. Mér finnst stórmerkilegt hvað ég hef unnið með mörgum furðufuglum á stuttum vinnuferli. Ég hef nánast eingöngu unnið útistörf: Gatnamálastjóri, Vinnuskólinn, Skógrækt Ríkisins o.fl. Eitt sumarið var drengur að vinna með mér sem var alltaf að skera sjálfan sig til blóðs með rifnum gosdósum, glerbrotum og öðru tiltæku. Skýringin sem hann gaf á þessari hegðun var: "Ja, þetta er í rauninni bara mín leið til að sjá að ég sé lifandi". Áttum við að svara: "Já, allt í lagi, þá er þetta alveg eðlilegt"? Menn þurfa að vera ansi lítilfjörlegir ef þeir þurfa að skera sig til blóðs til að sjá að það sé lífsmark með þeim. Gaurinn hikaði heldur ekkert við að skera á púlsinn, skar bara hvar sem er í handlegginn. Hvað ef honum hefði nú blætt út þegar hann skar of mikið í vinnunni? Áttum við þá að segja verkstjóranum næst þegar hann kæmi: "Já, hérna...Jóa blæddi út þegar hann var að gá hvort hann væri á lífi. Hann var á lífi en hann er víst dauður núna". Frekar dýr staðfesting á lífsmarki.

Þessi gaur fer langt með að vera skrýtnasti maður sem ég hef unnið með.

Annars verður maður í vinnu á bækistöð 4 í sumar annað árið í röð. Alls konar fuglar þar.

laugardagur, 22. maí 2004

Esjuganga um hánótt og Haraldur vakinn

Á föstudag fyrir viku ætluðum við nokkrir strákar í fótbolta í Mosfellsbæ. Þar var víst iðagrænn og góður völlur rétt utan við bæinn. Bjarni kom og sótti mig og Tómas og vorum við ansi seinir fyrir. Hinir voru löngu mættir og búnir að spila drjúga stund vissum við. Nema hvað, við rúlluðum þarna niður í Mosó og fundum ekki völlinn. Reyndum að hringja í einhvern hinna en enginn svaraði. Við hringsóluðum þarna um á bílnum alveg heillengi. Svo loksins hringdi einn hinna og þá voru þeir bara hættir að spila. Við vorum nú ekki alveg á þeim buksunum að fara bara heim eftir þetta hringsól og rugl og ákváðum að það yrði að reyna að gera gott úr þessu. Klukkan var þá orðin eitthvað um 23:30. Við lögðum á planinu við Esjuna og veltum fyrir okkur hvað gera skyldi. Þá datt Tómasi í hug að labba upp á Esju. Okkur fannst það nú ansi vafasamt enda farið að skyggja. Féllumst þó á það að lokum. Gulli og e-r annar Kjalnesingur sem voru í fótboltanum fóru með okkur. Við röltum síðan af stað upp Esjuna, ekki mjög kunnugir aðstæðum. Gulli hafði reyndar farið þrisvar á toppinn. Þegar við höfðum rölt þarna upp ágætis spotta sögðust Kjalnesingarnir vera þreyttir og ætluðu niður aftur. Þeir ráðlögðu okkur að fara styttri og erfiðari leiðina upp á topp það sem eftir var leiðarinnar. Svo kom í ljós að þeir höfðu sent okkur yfir einhverja andskotans mýri þannig að við rennblotnuðum í fæturna. Það var bara örlítil skíma, enda vorum við einmitt á dimmasta tíma nætur, á leiðinni svo ekki sáum við mikið af glæsilegu umhverfi. Heyrðum bara í hrossagaukum og þess háttar. Komum loksins upp á topp, síðasti hlutinn var erfiður, þurftum að brölta í klettabelti. Við vorum reyndar bara ansi heppnir að drepast ekki þarna uppi því klettarnir voru sleipir. Skrifuðuum í gestabókina á toppnum. Svo fórum við bandvitlausa leið niður, renndum okkur niður stærðar grjótskriðu og svona. Það má telja hundaheppni að við komumst frá þessu lifandi og óslasaðir. Ég efast um að fjallgönguspekingar mæli með að menn brölti upp á Esju í myrkri, hvað þá menn sem auk þess þekkja ekki til. Við komum niður klukkan að verða þrjú.

Þá var stefnan tekin á Kjalarnes því ákveðið hafði verið að renna við í næturkaffi hjá Haraldi. Haraldur hafði e-n tímann sagt Tómasi að hann væri velkominn þangað hvenær sem er (væntanlega þá líka um hánótt). Það boð var að sjálfsögðu nýtt. Við renndum í hlað og læddumst meðfram húsinu. Vitað var að Haraldur svæfi með opinn glugga. Svo hvísluðu menn inn um gluggann "Haraldur" en það bar ekki árangur. Þá tók Bjarni nokkra smásteina og henti inn um gluggann í Harald sem svaf eins og steinn. Eftir dágott grjótkast vaknaði Haraldur loksins og reis upp. Svipurinn á drengnum var sá óborganlegasti sem ég hef séð. Sannkallað Kodak moment. Það tók hann nokkurn tíma að átta sig á því hvað væri að gerast. Hann hefur örugglega fyrst haldið að þetta væri mjög steikt martröð, þrír hálfvitar hlæjandi fyrir utan gluggann hjá honum og smásteinar í rúminu. Skilaboðin sem hann fékk voru mjög skýr: "Blessaður. Við Vorum uppi á Esju. Hleyptu okkur nú inn.". Haraldur lagði sig a.m.k. þrisvar sinnum í gluggakisunni á meðan hann var að melta þetta og átta sig á atburðarásinni. "Er ekki allt í lagi með ykkur?" sagði hann. Svipurinn óborganlegi var lengi að fara af honum. Hann samþykkti eftir nokkurn tíma að hleypa okkur inn. Við fórum að útidyrunum en heyrðum nokkur vel valin blótsyrði frá prestssyninum á meðan hann klæddi sig. Hann opnaði síðan útidyrnar og sagði okkur að vekja hvorki mömmu sína né pabba sinn. Við læddumst hljóðlega inn í stofu og Haraldur kom með Frissa fríska, kex og mjólk. Nú var hann almennilega vaknaður og ferskur og spjallaði við okkur í stofunni. Við þökkuðum Haraldi góðar móttökur og héldum aftur í bæinn.

Ég verð að viðurkenna að þetta er eitt mesta rugl sem ég hef tekið þátt í.

sunnudagur, 2. maí 2004

Tilvitnun dagsins 6

Einhver kúbani sagði þetta við okkur úti á götu í Havana:
"What can I you for do?"
Hvað áttum við að segja? Kannski "Aaa, þjónustufulltrúinn? Við áttum von á þér"
Alveg merkilegt hvað menn þarna reyna mikið að græða á ferðamönnum. Já, og ekki einu sinn talandi almennilega ensku. Orðaröðin ekki alveg á hreinu.

laugardagur, 1. maí 2004

Græddi á betlara

Kúbuferð 2004, fyrri hluti
Um páskana fór ég til Kúbu með mömmu og Nínu systur í átta daga. Kúba er flottasta land sem ég hef séð. Fyrst vorum við í Havana í fjóra daga á Mélia Hotel Habana Libre Tryp. Það var fínt hótel en þar fékk ég reyndar blóðugan kjúkling á morgunverðarhlaðborði hótelsins við litla hrifningu. Fyrsta daginn röltum við um borgina, niður að sjó og fleira. Ég hef aldrei séð jafnglæsilega borg og Havana. Glæstar byggingar með súlnagöngum, reyndar flestar að hruni komnar. Það var lítið um að húsum væri haldið við. Þau grotnuðu bara niður í friði og ró. Við eitt húsið var búið að stilla stærðar timburstalli til að styðja við það svo það hryndi ekki. Spurning hvort það hrynur ekki bara innan frá í staðinn. Við röltum með sjávarsíðunni og mættum nokkrum betlurum. Betlararnir byrjuðu einhverra hluta vegna alltaf á að spjalla við mig. Við keyptum einhverja Che Guevara mynt af einum betlaranum og þá varð ekki aftur snúið, sá næsti réðst að mér og ætlaði að leika sama leik og sá fyrri. Hann var gríðarlega kumpánlegur en talaði hræðilega ensku og skyldi ég lítið af því sem hann sagði. Hann talaði m.a. um hvað íslenska landsliðið í fótbolta hefði staðið sig frábærlega á einhverju móti. HA? Ég vissi ekki af því. En þessi kúbanski betlari vissi greinilega meira um það en ég. Svo hélt hann áfram að masa e-ð á illskiljanlegri ensku sinni og afhenti mér síðan kúbanska mynt og vonaðist pottþétt eftir að fá dollara í staðinn. Ég lét hann ekki hafa neitt og hélt bara áfram göngu minni og afrekaði ég þannig það að græða á betlara. Hann gat bara sjálfum sér um kennt, hann var of uppáþrengjandi. En síðan sneri hann sér bara að næstu túristum. Kúbupeningar eru bara notaðir af innfæddum og duga bara fyrir brýnustu nauðsynjum. Dollari er miklu meira notaður þarna og allt er verðmerkt í dollurum. Það var mjög sjaldgæft að hitta á fólk sem talaði sæmilega ensku, enskukunnátta innfæddra var í flestum tilfellum í lágmarki. Það var því slæmt að kunna ekki spænsku.

Það sem skemmtilegast var að sjá í Havana var lífið inni í íbúðahverfunum. Allt iðaði af lífi og mátti sjá drengi í boltaleik, fólk sitjandi á tröppum í e-u spili. Sumir voru bara að spjalla, þeir gömlu sem sáu sér ekki fært að taka þátt stóðu þá í staðinn uppi á svölum og fylgdust með. "Alejandro!" kallaði móðir sem vildi fá son sinn inn í matinn. Lífsgleðin í fyrirrúmi; sungið, dansað og spilað á hljóðfæri. Þrátt fyrir fátæktina sem er mikil þarna kann fólk að lifa lífinu á einfaldan og skemmtilegan hátt. Mér fannst líka frábært að ganga um götur Havana út af rólegheitunum, enginn var að flýta sér. Bílarnir á götunum voru eldgamlir amerískir kaggar, Moskvitz og Lödur. Hvílík snilld. Það var líka mikið um svokallaðar kókoshnetur, pínulitla opna leigubíla sem eru í laginu eins og kókoshnetur. Í Havana taka menn lífinu með ró og búðareigendum þótti ekkert tiltökumál að skreppa frá og loka búðum í svona hálftíma þótt þær ættu að vera opnar skv. auglýstum opnunartíma. Dýrkun fólks á byltingarhetjunni Che Guevara er gríðarleg og út um allt er krotað "Hasta la victoria siempre" (lifi byltingin) , "Viva Che" og fleira í þeim dúr. Ég keypti mér að sjálfsögðu tvo boli með myndum af kappanum. Ferðamannaiðnaðurinn er lifibrauð margra og sölumenn víða ansi uppáþrengjandi.

fimmtudagur, 29. apríl 2004

Hrósið

Kristján Kristjánsson í Kastljósinu er greinilega farinn að taka sig saman í andlitinu. Hann og Svanhildur tóku Halldór Ásgrímsson og pökkuðu honum alveg saman í Kastljósinu um daginn og var Halldór farinn að svitna verulega undan beittum spurningum þeirra um fjölmiðlafrumvarpið. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé Kristján sleppa því að klappa stjórnarliða á bakið í viðtali. Ég vil sjá meira af þessu.

Ég er ekki vanur að hrósa sjálfstæðismönnum en ég vil hrósa einum núna. Þorgerður Katrín menntamálaráðherra er langskeleggasti sjálfstæðismaðpur sem ég hef séð auk þess sem hún kemur vel fyrir. Hún var í Kastljósi í gær og tókst bara glettilega vel að verja hið fáránlega fjölmiðlafrumvarp. Annað en Davíð sem oftar en ekki lætur stjórnast af frekju og einræðissjónarmiðum. Já og við skulum ekkert vera að ræða um Björn Bjarnason. Þorgerður væri vel af formannsstóli komin þarna eftir að Davíð hættir.

þriðjudagur, 27. apríl 2004

The OC og fóstur

Undanfarið hafa nemendur í bekknum mínum verið að flytja fyrirlestra í ensku um frjáls efni. Tvær stúlkur fjölluðu um fóstur og þroskaskeið þess. Svo var annar stelpnahópur sem fjallaði um sápuóperuna The OC af gríðarlegum áhuga. Lýstu þær vandamálum persónanna og sálarflækjum þeirra og lifðu sig svo inn í þetta að mörgum þótti nóg um. Í síðasta þætti mun t.d. hafa komið í ljós að pabbi Ryans (eða eitthvað) var gay dammdammdammdamm og voru þær stöllur að rifna úr spenningi yfir því hvað skyldi nú gerast í næsta þætti.

Einhverra hluta vegna hef ég ekki séð mér fært að fylgjast með The OC.

mánudagur, 26. apríl 2004

Nýsjálensk mynd á RÚV í gær

Sá einhver myndina á RÚV í gærkvöldi? Fjallaði um gamla geðveika konu sem stal rúmteppum og mikið af þeim (því henni var kalt) og unga konu og mann hennar. Unga konan seldi síðan allar kýr bónda síns til að fá rúmteppið sitt aftur frá gömlu. Unga konan var líka geðveik. Svona soldið spes.

Björn Bjarnason

Dómsmálaráðherra sem segir að gildandi lög séu börn síns tíma er náttúrulega ekki boðlegur.
Já, svo vill Davíð verða einræðisherra svona rétt áður en hann hættir í forsætisráðuneytinu. Ef menn geta ekki sagt eitthvað fallegt um hann og hans stjórn þá á bara að kippa undan þeim löppunum með lagasetningu. Er lýðræði á Íslandi eða einræði?

Tölvan heima er biluð. Alveg makalaust helvíti.

föstudagur, 23. apríl 2004

Gott að það er að koma sumar.

Bólga

Nú er ég að verða geðveikur á þessu endajaxlahelvíti. Síðan ég vaknaði í morgun hef ég bólgnað og bólgnað í kjaftinum hægra megin og bólgustillandi töflurnar eru búnar. Það er varla hægt að borða svona, hvað þá að vera í skólanum.

mánudagur, 19. apríl 2004

Ég hef alltaf mjög gaman að Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskólann. Síðasti þátturinn af Nýjasta tækni og vísindi var í kvöld og var hann helgaður þessari keppni. Slæmt að þátturinn hætti, af hverju kemur ekki bara nýr umsjónarmaður? Elsti þáttur Sjónvarpsins og einn af þeim betri.

Að endajaxlatöku lokinni - dofinn í kjafti og uppdópaður af verkjalyfjum

Jæja, ég fór í endajaxlatökuna kl. 11:30 í morgun hjá Sævari Péturssyni MSc. (sérfræðimenntaður). Það gekk nú á ýmsu. Merkilegt hvað þessar tannlæknastofur eru orðnar tæknivæddar, mér var boðið að setjast í stólinn, svo átti ég að velja hvað ég vildi horfa á á meðan á aðgerð stæði. Boðið var upp á Friends eða 70 mínútur. Ég valdi auðvitað ekki Friends, ég læt ekki misbjóða mér með svona dósahúmor. Þannig að það var ljóst að gónt yrði á 70 mínútur meðan helvítis tönnunum væri rykkt úr með blóðbaði og öllum græjum. Fyrsta verk tannlæknisins var að deyfa mig. Ég hélt að ég væri ekki lengur með sprautufóbíu, en það reyndist rangt. Mér finnst með því viðbjóðslegra að vera sprautaður svona með stærðarnál í tannholdið. Ekki nóg með að það hafi verið gert heldur var sprautunni aðeins juðað til, við mikinn hrylling minn (þetta var frekar sárt). Það vildi síðan ekki betur til en svo að skömmu síðar leið yfir mig. Sem betur fer var fagfólk að vinna þarna og það var enginn æsingur yfir því að ég hefði misst meðvitund heldur var talað rólega við mig og mér fært kókglas (skrýtið samt að fá kókglas á tannlæknastofu (en það var til að hækka blóðsykurinn)). Síðan var næstum liðið yfir mig í annað sinn en það slapp fyrir horn. Svo voru tennurnar röntgenmyndaðar. Eftir það var bara hafist handa við aðalmálið, að rífa endajaxlana úr. Það var ákveðið að rífa þá bara alla fjóra. Það fannst mér nú lítið mál. Einn jaxlinn var slípaður með slípirokki og það var bölvaður nístingshávaði í honum en hinir voru bara dregnir úr og það var ekkert vont. Svo þarf kjafturinn að fá sérstaka meðhöndlun næstu daga og fékk ég leiðbeiningar um það. Tannlæknirinn og aðstoðarmanneskjan hlógu að 70 mín (þetta var þarna best of diskurinn nr.1) en ég gat ekki mikið hlegið að því, svona deyfður í kjafti. Frekar fyndið að sjá tannlækni haldandi á alblóðugum endajaxli með töng og hlæjandi um leið að fíflagangi í sjónvarpi. Svo fékk ég helvítis parkódín eftir þetta og var alveg uppdópaður af því. Ég þarf að fara að leggja kaldan bakstur á þetta núna fljótlega.

Svo er það bara fljótandi fæði næstu vikuna.

Ég verð að fara að drífa mig til Dr. Phil til að láta lækna sprautufóbíuna. Ég hef aldrei skilið fólk sem er lofthrætt eða flughrætt eða jafnvel vatnshrætt. Mér hefur alltaf fundist það bara vera hrein og klár heimska. En ég get svosum ekki verið að segja mikið, því auk sprautufóbíunnar er ég með rosalega fóbíu fyrir kynsjúkdómum og slíku. Alltaf þegar sýndar eru myndir af kynfæravörtum eða þess háttar verð ég hálfmeðvitundarlaus, líka þegar talað er um svona sjitt í dálítinn tíma. Þá fer mér að sortna fyrir augum. Þess vegna hata ég þegar talað er um þetta í líffræðitímum. Þannig að ég ætti lítið að vera dæma fólk með lofthræðslu og þess háttar.

laugardagur, 17. apríl 2004

Allt í einu man ég eftir einni sögu sem ég hef ósjaldan heyrt frá foreldrum mínum, frá því þegar þau stunduðu nám í Kaupmannahöfn. Ég mundi eftir þessu af því að Frikki var að skrifa um fimmtán ára drengpjakk sem var iðinn við að stela.

Sagan er á þá leið að einhver vinur foreldra minna fór á hverjum degi á Aðaljárnbrautarstöðina í Kaupmannahöfn á hjólinu sínu. Þaðan tók hann síðan lest til vinnu sinnar. Hann skildi nestispakka alltaf eftir á bögglaberanum á hjólinu áður en hann fór með lestinni. Nema hvað, alltaf þegar hann kom til baka var búið að stela nestispakkanum. Einn daginn, þegar hann var orðinn mjög þreyttur á þessu, skeit hann í pakka og skildi eftir á bögglaberanum. Viti menn, helvítis þjófurinn hafði síðan stolið kúknum í pakkanum þegar maðurinn kom til baka. Ekki er vitað hvort þjófurinn hefur gætt sér á rjúkandi hægðunum eða ekki, eins og hann hafði hámað í sig nestið á hverjum degi.

Svakaleg saga. Fertugrahúmor?

föstudagur, 16. apríl 2004

Nauðgunarlyf í drykki

Það var fjallað um þetta í Fréttablaðinu í dag. Óprúttnir menn hafa stundað það að setja ýmis deifilyf og jafnvel eiturlyf í drykki stúlkna á skemmtistöðum með það að markmiði að gera þær rænulausar og nauðga þeim síðan.
Djöfull verður maður reiður við að lesa um svona mannandskota. Að það séu til svona aumingjar og fífl í samfélaginu. Ef það væri bara hægt að ná þeim. Það ætti að binda þá við staura uppi á hálendi allslausa og láta þá drepast, helst í frosthörkum og blindbyl.
Svo rak mig nú alveg í rogastans þegar ég sá í fjölmiðlum fyrir skemmstu að úti í heimi væru til samtök barnaníðinga sem kölluðu sig NAMBLA. Ég hafði séð áður held ég í South Park þætti eitthvað um þetta NAMBLA, en mig grunaði ekki að það væri til í alvöru. Sérstaklega reitir þetta mann til reiði vegna þess að maður getur ekkert gert í þessu, þótt maður vildi gjarnan láta þessa menn finna til tevatnsins.

Það er hægt að fyrirgefa margt, en svona lagað á ekki að fyrirgefa.

Gestabloggari skrifar:

Ég rakst á nokkuð stórmerkilegt rétt áðan, á síðunni
http://www.blogwise.com/bycountry.php?country=100
en þetta er síða yfir íslensk blogg. Það væri þó ekki frásögu færandi nema hvað
þar er tengill á Shish kebab, þessa síðu, með lýsingu:

Blessaður karlinn
Complete schizophrenia

Þýðing lýsingarinnar útlegðist þá : Algjör geðklofi/geðrof.

Þetta þótti mér makalaust og bráðfyndið.

fimmtudagur, 15. apríl 2004

Maður eldist um mörg ár við að drekka kaffi. Ég er ekki lengur þessi stráklingur, allt í einu er ég orðinn gamall karl. Það kæmi ekki á óvart ef ég ætti eftir að fara á Café Paris á næstunni og ræða heimsmálin við Jörmund allsherjargoða, Thor Vilhjálmsson og fleiri gamla spekinga yfir bolla af kaffi.

Ég hef drukkið slatta af kaffi upp á síðkastið. Ég hef fordæmt kaffidrykkju harkalega hingað til. En nú er ég allt í einu farinn að linast í þeim fordæmingum, veit ekki af hverju. Þetta byrjaði allt þannig að ég fékk kaffi heima hjá Einari, rótsterkt, sem dr. Hallgrímur faðir hans, hellti upp á. Þar gat ég alls ekki afþakkað kaffi þótt ég hefði ávallt afþakkað slíkt áður. Til að byrja með ákvað ég að drekka bara kaffi sem dr. Hallgrímur hellti upp á, en svo hef ég linast í því líka. Ég er búinn að sötra kaffi á kaffihúsum og ég veit ekki hvað og hvað. Svo fékk ég rótsterkasta kaffi sem um getur á Kúbu og það var ekki bragðgott, þrátt fyrir að sykrinum væri mokað út á. Nú er ég líka kominn með mína hentisemi varðandi kaffið, það þarf að sykra það duglega svo það bragðist sæmilega, helst molasykur. Svo er nauðsynlegt að skevetta mjólkurdreitli út á líka til bragðbætingar og til að kæla brennandi heitt kaffið fljótt og örugglega. Ég veit ekki hvort ég á að vera stoltur af þessu. Eitt er víst, kaffið heldur manni vakandi og það er stundum nauðsynlegt að halda sér vakandi yfir lærdómnum. Ég reyni nú samt að sötra kaffi í miklu hófi. Kaffidrykkja verður alls ekki daglegt brauð hjá mér, a.m.k ekki á næstunni.

miðvikudagur, 14. apríl 2004

The Doors er rosalega ofmetin hljómsveit. Mig grunar að Rostungurinn sé ósammála því.

Djöfulsins tímamismunur. Nú líður mér eins og klukkan sé 20:39 en hún er í raun 00:39 af því að klukkan er 20:39 á Kúbu (þ.e. ég er ekkert þreyttur, búinn að fokka sólarhringnum upp). Svo þarf ég í fjandans skólann á morgun.

Myndir og umfjöllun um Kúbuferð eru væntanlegar.

þriðjudagur, 13. apríl 2004

Ég hef ansi oft ruglað þeim félugum Morgan Freeman og Samuel L. Jackson saman í gegnum tíðina. En þegar betur er að gáð eru þeir ekki sérstaklega líkir.

Flugfreyjuleikritið

Ég er nýkominn heim frá Kúbu. Lenti kl.4:40 í nótt. Á langri flugleið, tíu klukkutíma flugi hefur maður lítið að gera (reyndar bara sjö tíma á leiðinni heim því millilendingu var sleppt). Sérstaklega var lítið að gera núna þar sem það var ekki einu sinni hægt að horfa á bíómynd, hljóðrásir voru bilaðar. Ég gat ekki sofnað á leiðinni heim þannig að ég var mikið bara að spá og spekúlera í ýmsum hlutum. Ég velti því meðal annars fyrir mér hvað það hlýtur að vera hundleiðinlegt að vera flugfreyja. Hin dæmigerða flugfreyja er 34 ára, ljóshærð, og orðin töluvert krumpuð af of mikilli ljósabekkjanotkun.

Svona kemur starf flugfreyju mér fyrir sjónir (sett fram á leikritsformi):
Farþegar ganga um borð.Flugfreyja brosir svokölluðu "feiksmæli" (gervibrosi eins og sumir kalla það) á meðan hún býður farþegum góðan daginn.
Flugfreyja:(á röðina)Góðan dag. Góðan dag. Góðan dag...
Farþegar setjast í sæti sín. Ekki líður á löngu þar til flugfreyja fer að bjóða drykki.
Flugfreyja:(gengur á röðina)Hvað má bjóða þér að drekka?
Flestir farþegarnir biðja um áfengi. Sumir biðja líka um gos, safa eða vatn.
Flugfreyja dreifir mat á bökkum
Eftir matinn gengur flugfreyjan enn á röðina:
Flugfreyja:Kaffi? Kaffi? Kaffi?...
Og aftur:
Flugfreyja:Te? Te? Te?...
Fimm mínútum síðar:
Flugfreyja:Saga boutique? Saga boutique? Saga boutique?...(afhendir farþegum Saga boutique bæklinga)
Farþegi hringir þjónustubjöllu. Flugfreyjan fer til hans. Farþeginn rausar um eitthvað helvítis krem sem fæst í Saga boutique og spyr heimskulegra spurninga. Kaupir síðan ekkert.
Annar farþegi hringir þjónustubjöllu. Biður um meira áfengi. Flugfreyja selur honum áfengi.
Aftur er komið að því að ganga á röðina:

Flugfreyja:Vatn eða meira kaffi? Vatn eða meira kaffi? Vatn eða meira kaffi?...
Farþegi: (kallar hátt) Hei fröken! Viltu skenkja mér meira romm hérna í glasið.
Flugfreyja kemur og skenkir honum romm í glasið. Farþeginn er orðinn nokkuð vel hífaður og kominn með rauðglansandi augu. Hann klípur flugfreyjuna í rassinn þegar hún er að fara og hlær hátt.
Enn eina ferðina gengur flugfreyjan á röðina:
Flugfreyja:Má bjóða þér að versla í Saga boutique? Má bjóða þér að versla í Saga boutique? Má bjóða þér að versla í Saga boutique?...
Einn farþeginn kastar upp af óhóflegri drykkju í vélinni í bland við flugveiki. Flugfreyja gefur farþeganum vatn og nýjan ælupoka og spyr hann reglulega hvort honum líði ekki betur, það sem eftir er flugsins.
Drukkinn farþegi hringir þjónustubjöllu. Flugfreyjan flýtir sér til hans:
Farþegi:Ég var að gera bjölluat. Hahahaha. (farþegi hlær hátt að eigin brandara)
Farþegi hringir þjónustubjöllu, kvartar síðan hástöfum undan óætum mat í vélinni.
Margir farþegar eru orðnir sauðdrukknir og mjög háværir (sumir syngja) og ástandið í vélinni fer ekki batnandi og svona heldur þetta áfram allt flugið.

Ég ætla aldrei að verða flugfreyja.

föstudagur, 9. apríl 2004

Gestabloggari opnar eigin síðu

Það gerist ekki á hverjum degi að gestabloggari opni eigin síðu, en sú er raunin. Ber síðan nafnið Afsakið hlé og er slóð hennar www.afsakidhle.blogspot.com

fimmtudagur, 8. apríl 2004

Páskahugleiðing um fjölskyldur



Hvað eru fjölskyldur?

Það er fólk sem flestir eru tilneyddir til þess að lifa með fyrstu ár ævinnar en umgangast allt sitt líf. Þá að minnsta kosti við hátíðahöld, svo sem giftingar, fermingar, jól, páska og fleira (svo dæmi séu tekin fyrir ykkur þorskhausa sem ekki hefðu getað fundið dæmi sjálf), hvort sem viðkomanda líkar betur eða verr.

Hvað ef til dæmis Idi Amin væri pabbi manns? Og Hitler afi manns?
Við segjum þá páskahugleiðingunni lokið að sinni. Verið þið sæl.

Rétt í blálokin vil ég benda á villu sem margir gera. Þeir segja þá ranglega: Veriði sæl.
Rétt skal vera rétt og þetta skulu vera þrjú orð.

Lag færslunnar er Comfortably Numb með Pink Floyd (vona að Ásgeir hafi ekki haft slíkt á sínu bloggi).

miðvikudagur, 7. apríl 2004

Páskaleyfi

Já, það stendur yfir núna. Gesthús Dúna? Taktu með frúna.

Að öðru.

Nú er rigning úti og ég er búinn að vera að læra efnafræði undanfarna daga. Þá spyr maður sig:
Fyrst öll efni varðveitast, hvar eru þá öll efnin í börnum framtíðarinnar núna? Þar sem við erum að mestum hluta vatn hljóta þau að vera að mestum hluta í vatnsformi. Sumir dropar í rigningunni eru þá ekkert nema partur úr framtíðarbarni, því einhversstaðar verða þau að vera. Svo byrjar líf þeirra og endar. Þá verða þau vatnsdropar aftur.

Megas?

Fullt af hljómsveitum hefur boðað komu sína til Íslands. Er markaður fyrir þessu öllu? Fer sami maðurinn á Suga Babes og á Metallica?

laugardagur, 3. apríl 2004

Cuba Gooding Jr.

Á morgun fer ég til fyrirheitna landsins, Kúbu, ásamt mömmu og Nínu systur. Þar verða heimsmál rædd við Fidel Castro, vindlar reyktir og fleira. Havana og Varadero verða skoðaðar. Ég hugsa að ég muni kaupa nokkra Kúbuvindla, bara til að eiga, því ég ætla ekki að byrja að reykja bara til að geta reykt Kúbuvindla, þótt það væri óneitanlega töff. Svo hafa nokkrir beðið mig að kaupa slíka fyrir sig þannig að kvótinn í því verður líklega fullnýttur. Gestabloggarar skjóta kannski inn pistli eða tveim meðan ég verð utan en ég get engu lofað um það. Svo er ekki óhugsandi að ég bloggi eins og eina færslu frá Kúbu.


Spá mín um sigur Versló í Gettu betur rættist.

Lag dagsins

Creedence Clearwater - Hey Tonight.

Heyrðu!

Ég var bara með kleinur í morgunmat.

föstudagur, 2. apríl 2004

Endajaxl

Hann hefur brotist fram hratt og með miklu offorsi. Tennur biðja vægðar en það er hundsað. "Ekki trufla" segir hann og hlær hrossahlátri og brýst áfram.

Skaðinn er skeður. Kvikindið hefur hreiðrað um sig og fer hvergi. Tannlæknirinn er ráðþrota. Hann vísar á sérfræðinginn. Nú er bara spurning hvað sérfræðingurinn mun segja. Vísar hann á meindýraeyðinn? Endar þetta með fölskum tönnum? Þarf að brjóta kjálkann? Verður borað? Verður sagað? Verður sargað? Verður hlegið?

Þessum spurningum og fleiri verður svarað í endajaxlatöku minni þann 16. apríl næstkomandi klukkan 11. Þá munu helvítis lömbin þagna.

fimmtudagur, 1. apríl 2004

Af kennurum

Heyrðu, það er nú bara ekkert annað en það að Haukur Sveinsson íþróttakennari, sem nú er í ársleyfi, var í tíufréttum Sjónvarpsins nú rétt í þessu þar sem hann var að kaupa bensín hjá Atlantsolíu. Sagðist hann alltaf kaupa sitt bensín þar en að í dag væri sérstök ástæða til þess, en hin olíufélögin voru öll að hækka verð á bensínlítra um þrjár krónur.

Hróbjartur sögukennari var aldeilis í stuði í dag og gabbaði fjóra nemendur í tilefni 1. apríl. Sagði hann nemendunum, grafalvarlegur, að þeir ættu að fara upp til rektors. Einum sagði hann að það væri vegna skjávarpa, öðrum að ástæðan væri slæleg mæting, en síðustu tveim gaf hann enga ástæðu. Allir nemendurnir trúðu þessu og hlupu apríl eins og það er stundum kallað.

miðvikudagur, 31. mars 2004

Geislaspilarinn er í hvíld. Nú er plötuspilari heimilisins látinn snúast hring eftir hring. Ég er núna að hlusta á plötu með 20 bestu lögum Creedence Clearwater Revival. Hún er alveg glimrandi.

Spaugstofan síðast var töluvert yfir meðallagi. Gaman að prestunum sem spiluðu ofbeldisleikinn Passion of The Christ sem var byggður á samnefndri mynd. Síðan sagði einn presturinn eftir að hafa spilað leikinn: "ég hef bara ekki skemmt mér svona vel síðan ég lamdi fermingardrenginn hérna um árið". Það var einmitt skot á séra Valgeir í Seljakirkju sem var í fréttum um daginn fyrir að tuska fermingardreng, sem var óþægur að hans mati, til. Hann var síðan kærður af föður fermingardrengsins og verður drengurinn víst ekki fermdur af séra Valgeiri. Séra Valgeir fermdi mig einmitt, reyndar sem Guðmund Frímann en ekki Guðmund Friðrik við lítinn fögnuð viðstaddra ættingja. Um daginn var síðan annar prestur í fréttum en það var barnaklámsprestur. Það er alveg merkilegt þegar þessir menn sem eiga að heita æðstu þjónar guðs verða uppvísir að svona löguðu. Skuggalegt líka þegar svona er farið að gerast hér á Íslandi, sem hefur bara þekkst erlendis hingað til.

ÞESSARI FÆRSLU HEFUR VERÍÐ EYTT. HÚN VAR ÖMURLEG.

þriðjudagur, 30. mars 2004



You're Mexico!

While some people think you're poor and maybe a little corrupt, you
know where it's at, enjoying good food and nice beaches.  You like to take things a
little slower than those around you, and you really wish the air were cleaner, but sometimes
compromises must be made.  For some reason, Chevrolet keeps trying to sell you Novas
as well, even though they don't really go.

Take
the Country Quiz at the href="http://bluepyramid.org">Blue Pyramid

Í dag mætti einhver gaur í skólann með silfurlitað hár.

mánudagur, 29. mars 2004

Heimsmál


Leti! Lygar! Svik! Frekja! Hroki! Níska! Reiði! Væl!
Hatur! Ótti! Höfnun! Sorg! Græðgi! Öfundsýki! Sjálfselska!
Fátækt! Sjálfsvorkunn! Ímyndunarveiki! Grimmd!
Fordómar! Mannvonska! Njósnir! Eignaspjöll! Þjófnaðir!
Einelti! Ofbeldi! Kvalir! Þunglyndi! Sýkingar! Eiturlyf! Slys!
Sársauki! Sjúkdómar! Fíkn! Geðsýki! Óeirðir! Nauðganir!
Sifjaspell! Vansköpun! Barnaníðingar! Sjálfsmorð!
Morð! Limlestingar! Hungursneyð! Fjöldamorð!
Hryðjuverk! Stríð! Hamfarir! Heimsendir!

Annars er ég bara hress, skreppa í bíó eða eitthvað.
(Gestapenni skrifaði.)

sunnudagur, 28. mars 2004

Yfirlýsing gestabloggara


Ég sem gestabloggari á Shish Kebab tel mig ekki hafa farið yfir nein siðferðismörk með skrifum mínum hér. Ég skrifaði sem fyrirsögn „Jónsi í Í svörtum fötum látinn í bílslysi“ svo það kæmi á rss-molasíðuna. Slíkt vekur athygli. En ef lesendur skoðuðu alla færsluna stóð fyrir neðan fyrirsögnina „Nei, nei, bara grín.“ Ef ég móðgaði einhvern með þessum skrifum biðst ég ekki afsökunar. Lifi málfresli. Þar sem ég er undir strangri ritskoðun Guðmundar verð ég þó að gæta hófs í skrifum mínum á næstunni. Ég er á skilorði.

Í annað sinn er ég að gefast upp á að lesa bókina Hichikers Guide To The Galaxy. Það er óþolandi að við séum látin lesa þetta helvíti í skólanum. Ég hef aldrei fílað svona geimbull eins og þetta. Star Trek og það allt er líka e-ð sem ég forðast eins og heitan eldinn. Þetta er bara andskotans bull og ekkert annað. Ömurlegar bókmenntir. Prostentic Vogon Jeltz má rotna í helvíti.

Öðru máli gegnir um Animal Farm sem við lásum í ensku fyrir jól. Það er mjög fín bók. Skemmtilegar líkingar með dýrin og ádeila á Sovétríkin. Hvernig svínin taka völdin að lokum og allt það. Mjög athyglisverð bók. En geimþvæla hefur alltaf farið óendanlega mikið í taugarnar á mér. Ég ætla rétt að vona að Hitchikkerinn komi ekki á vorprófi.

Svo eru Egils saga og Laxdæla og slíkar bækur ekki að vekja lukku en öðru máli gegnir um Snorra-Eddu. Hún er skemmtileg.

Gagnrýni: Þetta er allt að koma

Fór á leikritið Þetta er allt að koma á föstudagskvöld. Sviðsmynd var mjög skemmtileg og flestir leikarar stóðu sig vel, en ekki allir. Stúlkurnar þrjár, vinkonur aðalpersónunnar voru verulega ofleiknar. Það skemmdi fyrir heildarútkomunni. Ólafía Hrönn var mjög góð í aðalhlutverkinu, en hún lék einnig fleiri hlutverk. Kórstjórinn og femínistinn var líka vel leikinn. Athyglisverð persóna. Já, það léku allir bara nokkuð vel nema þessar sem léku vinkonurnar.

Þetta var verra en Erling. Ég held líka að það sé besta íslenska leikrit sem ég hef séð. Litla hryllingsbúðin í Borgarleikhúsinu um árið var líka mjög fínt. Það verður samt að segjast eins og er að íslenskt leikhús er oft bara mjög lélegt, þannig að Jón Viðar (leikhúsgagnrýnandinn sem taldi flest klént) var ekki að segja neina vitleysu. Íslenskar kvikmyndir standast hins vegar oft samanburð við það sem gerist erlendis.

Ég ætla að gefa þessu stykki 8,0 af 10.

Það þarf að segja veðurguðunum að þegja.

Hér var fyrirsögn frá gestaritara sem var yfir strikið og átti ekki við rök að styðjast og birtist því miður á rss fyrirsagnalistanum. Ég fjarlægði textann og bið gestaritara að gæta hófs í skrifum hér eftir.

laugardagur, 27. mars 2004

É g v a r m j ö g m e ð v i t a ð u r u m þ e s s a s t a ð r e y n d þ e g a r é g v a r l í t i l l .

Engin athugasemd