þriðjudagur, 28. september 2004

Xabi Alonso og Liverpool

Xabi Alonso virðist koma blússandi sterkur inn í lið Liverpool. Ég er ánægður með Benitez knattspyrnustjóra hingað til. Bara vonandi að nú takist að velta Arsenal úr sessi strax á þessu tímabili. Salan á Owen var ekki skaði, nema síður sé.

Wayne Rooney á ekki eftir að geta rassgat með United.

Brenglaðir draumar

Mig hefur dreymt mjög skrýtna drauma nú upp á síðkastið. Mjög langt síðan mig dreymdi síðast, en nú komu tveir með stuttu millibili.

Fyrri:
Risapartý var heima hjá Ásgeiri Birkissyni (reyndar bjó hann ekki þar sem hann býr í raun og veru). Hundrað manns mættu a.m.k. og ég var á staðnum. Svo kom löggan og stoppaði samkvæmið. Allir fóru út á götu og Ásgeir þurfti að díla við lögguna ansi lengi. Hópurinn gekk af stað áleiðis í annað partý og ég fylgdi. Allt í einu hvarf hópurinn og ég stóð einn eftir. "Hvílíkt bull" hugsaði ég og ákvað að athuga hvort Ásgeir væri ennþá heima hjá sér að díla við löggur. Ég vissi ekki nákvæmlega hvaða hús var Ásgeirs í raðhúsalengjunni en rambaði inn í eitt húsið sem ég hélt að væri Ásgeirs. Allt var ólæst svo ég óð inn. Inni var smá ljóstýra og ekki hægt að kveikja meira ljós. Ég var rosalega lengi þarna inni í einhverri stofu að velta fyrir mér hvort þetta væri rétta húsið. Svo kíkti ég á fjölskyldumyndir uppi á vegg og áttaði mig á að þetta var bandvitlaust hús. Þá fór ég aftur fram í forstofu til að fara í skóna en þá duttu sokkarnir af mér á óskiljanlegan hátt og ég fann þá ekki aftur. Ég var mjög hræddur um að íbúarnir fyndu sokkana, sendu þá í DNA rannsókn og mér yrði stungið í steininn fyrir innbrot (samt var húsið ólæst). En já, já.

Síðan virtist sem ég færi fram í tíma í draumnum, um klukkutíma eða eitthvað. Þá var ég staddur einhvers staðar niðri í miðbæ einn, og feitlaginn ófríður kvenmaður fór að reyna við mig. Og ekki nóg með það heldur var hún um eða yfir fertugt. Ég tók henni ekki sérstaklega vel og reyndi að hundsa hana. Hún tók engu slíku tauti og hélt áfram að reyna. Ég sagði henni að fara en ekki hlustaði hún á það frekar en annað. Hún sagði "krúttípútt" og e-ð álíka glatað og víðbjóður minn óx með hverju augnabliki. Síðan hljóp ég af stað til að flýja skassið, en skassið hljóp á eftir. Þrátt fyrir að vera feit, hljóp hún rosalega hratt en ég náði að hrista hana af mér að lokum. Svo endaði draumurinn.

Seinni:
Ég var að borða úti í góðu veðri með hópi MR-inga. Allt í einu birtist Guðmundur sögukennari. Tók hann dreng sem sat við borðið hálstaki, hló tröllslega og sagði: "Þú ert aðdáandi myndarinnar Insect, er það ekki?". Svo endaði draumurinn.

Skrýtnir draumar. Ég hef aldrei heyrt um mynd sem heitir Insect, en mun athuga með það eftir þennan draum.

Flugvélar og reykingar

Í flugvélum eru tvö lítil ljós í loftinu framan við sætin, annað vísar fólki á að spenna sætisbeltin, hitt bannar reykingar. Nema hvað, ekki þarf alltaf að hafa sætisbelti spennt og þá slokknar sætisbeltaljósið. Aldrei slokknar reykingaljósið. Hver er þá tilgangurinn með reykingabannljósinu? Það vita allir að bannað er að reykja í flugi. Hvernig væri að gefa reykingabannljósinu tilgang með því að leyfa reykingar í lendingu og flugtaki. Margir reykingamenn reykja þegar þeir eru stressaðir, svo það gæti verið streitulosandi að reykja í flugtakinu og lendingunni. Svo kviknar á ljósunum og þá á fólk að drepa snögglega í rettunum.

fimmtudagur, 23. september 2004

Þessir andskotans kennarar

Fólk er nú búið að átta sig á hvurs konar andskotans letiblóð þessir kennarar eru. Þeir bíða með að verkfallssjóðurinn sé orðinn nógu stór til að hægt sé að fara í verkfall. Fara í verkfall á 3-4 ára fresti. Andskotans kennarar. Þetta er hugsunin hjá kennurum, hirða launin en sleppa við að vinna. Svo eru þeir líka í fríi á sumrin en fá samt laun. Andskotans kennarar. Þeir hugsa ekki um að saklaus börn landsins fái menntun, þeir hugsa bara um peninga. Andskotans kennarar. Þeir eru á góðum launum en væla samt. Andskotans kennnarar.

Textinn hér að ofan er lýsandi fyrir skoðun margra sem hafa ekki kynnt sér mál alveg sem skyldi. Kennarar eru ekki á háum launum. Þeir hafa í mörg ár verið neðan við aðra sem vinna sambærileg störf í launum. Hvernig væri nú að andskotans ríkisstjórnin gæfi aukafjárveitingu til að leysa verkfallið. Þeir geta dælt peningum í Sinfoníuna, leikhúsin, og ríkisábyrgð fyrir Erfðagreiningu en ekki geta þeir látið kennara hafa almennilegan samning í eitt skipti fyrir öll. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð.

Sífellt er imprað á því að hungursneyð sé í Afríku.

Hver er þá ástæðan fyrir því að börnin eru með bumbu?

miðvikudagur, 22. september 2004

'Island er orðið eins og lélegur Spaugstofuþáttur. Davíð og Halldór skipta um stóla. "Brostu nú halldór þú ert orðinn forsætisráðherra" hohohohohohoho

Ömurlegt.

þriðjudagur, 21. september 2004

DJ Búntó og Emil þarna leika á als oddi.

Þetta er sko pabbi minn! Nei, sem betur fer ekki.

Jósi, sdlakaðu á. Trausti, sdlakaðu á.

Hvílíki dólgurinn þarna lengst til hægri.

mánudagur, 13. september 2004

Posted by Hello

Í helgarblaði DV er farið fögrum orðum um þennan mann til hægri á myndinni. Sá er veitingamaður á Bistro Antonia í Króatíu og ku heita Franco. Þegar ég var í útskriftaferðinni nú í ágústmánuði skipti ég við þennan veitingastað eins og margir hinna íslendinganna. Við fórum þangað þrír drengirnir og ætluðum að panta mat. Við skoðuðum matseðla og ákváðum hvað við vildum. Ég athugaði stöðuna í veskinu og taldi þetta svona saman og hafði peninginn á borðinu fyrir framan mig. Allt í einu kemur þessi gaur askvaðandi, grípur pening frá mér sem lá á borðinu, segir "tips" og er snöggur í burtu. Ekki kunni ég alveg að meta þessi vinnubrögð. Síðan hvenær er venjan að borga þjórfé fyrirfram, áður en matur er fram borinn? Þarna var augljóslega um þjófnað að ræða. Ég fór því á eftir manninum og útskýrði fyrir honum að þetta hefði ekki verið þjórfé. Hann skildi ekki hvað ég átti við fyrr en eftir fimm tilraunir mínar til að útskýra fyrir honum. Þá samþykkti hann að ég borgaði það sem upp á vantaði fyrir matinn sem ég hafði pantað. Ég féllst á það og hélt að málið væri úr sögunni. Sú var ekki raunin, þegar hinir drengirnir tveir báðu um reikninginn kemur fíflið með reikning fyrir öllu klabbinu og ætlar að endurgreiða mér afganginn sem ég hafði borgað skömmu áður og síðan að láta mig borga heildarupphæðina fyrir minn rétt. Við tókum það ekki í mál. Fíflið sagði "borga, borga" og giska ég á að það hafi verið eina sem hann kunni á íslensku. Þá sagði hann okkur að koma með sér í móttökuna þar sem hann ætlaði að klaga okkur. Hann bað um herbergisnúmer, sem við neituðum að gefa upp svo tók hann upp síma og þóttist hringja. Þá spurði Tómas hvað hann hyggðist nú fyrir. "Police" var svarið. "ok" sagði Tómas þá og þá virtist maðurinn guggna, fór aftur með Tómasi inn á staðinn og sagði honum að borga það sem hann vildi en að héðan í frá værum við drengirnir þrír "closed for this restaurant" eins og hann orðaði það svo smekklega.

Er það svo ekki dæmigert að þessi svindlari, Mottan eins og við kölluðum hann, komi sakleysið uppmálað í DV. Þar er sagt frá því að hann hafi gefið íslendingum (sjálfsagt fertugum eða fimmtugum) fría drykki á stað sínum fyrir að vera góðir kúnnar. Það skyldi þó ekki vera að hann borgaði þessa fríu drykki með því að stela af öðrum kúnnum.

sunnudagur, 12. september 2004

Veriði heima hjá ykkur!

Ástandið á götum borgarinnar er orðið þannig að það er varla hægt að aka um þær. Endalaus umferð bíla sem silast áfram. Klukkan fimm á laugardegi ætti nú að vera mögulegt að komast leiðar sinnar sæmilega hratt og örugglega en svo er ekki. Bílaflotinn hefur augljóslega gjörsamlega sprengt gatnakerfið sama hvað einhver borgarfulltrúi segir. Ástand sem ekki er boðlegt. Notið strætó, labbið eða bara veriði heima hjá ykkur! Ég þoli ekki að þurfa að aka í hálftíma einhvern spotta sem ætti að vera hægt að fara á tíu mínútum. Þetta var ekki svona slæmt í fyrra. Nú er mál að linni, það á að banna fleiri íbúðarhúsnæði hér í borginni (svo íbúum og þar með bílum fjölgi ekki stjórnlaust) og fá betri almenningssamgöngur. Svo er líka svo mikið af þessum akstri bara andskotans óþarfi. Ég þoli ekki að sjá akfeitar kerlingar koma með tíu tveggja lítra kókkippur út úr Bónusi og stafla síðan inn í jeppana sína og keyra með það burt. Þær ættu þá frekar að reyna að labba og drekka vatn.

föstudagur, 10. september 2004

Busaballið

Busaballið var fínt. Partýið fyrir var þó skemmtilegra. Það var haldið hjá nafna og var besta sem þar hefur verið, en þangað hafa ófá partý verið sótt. Sambrúkka er ógeðslegur drykkur. Allir áfengir drykkir með sælgætisbragði eru sull. Karamellulíkjör, lakkrísvodki og slíkt ekki vinsælt. Ákavítisstaup kemur sterkt inn. En nóg um drykkjusiði.

Bekkurinn virðist vera helvíti fínn svona við fyrstu sýn. Ótrúlegt samt hvað eitt fífl getur skemmt bekk mikið. En það var sem betur fer ekkert fífl mætt í partýið.

Bekkirnir sem ég lendi í virðast fara batnandi með árunum. Þriðji bekkur E var ekki sérstaklega skemmtilegur. Þar hópaði fólk sig saman í litla hópa og bekkjarandi var nánast enginn. Lélegur mórall. Samt slatti af skemmtilegu fólki.

mánudagur, 6. september 2004

Sunnudagsgöngutúr

Þegar ég rölti um Austurstræti í gær var þar maður sem gekk í hægðum sínum. Tók fram úr honum. Hann kallaði á eftir mér "Bíddu er ekki sunnudagur í dag?". Sneri mér við "Jú". Þá sagði maðurinn: "Já, þá þarf ég að fara að borga meðlagið".

Af hverju maðurinn sagði mér þetta veit ég ekki. En að stoppa ókunnugan mann úti á götu og segja óspurðar fréttir er fimm stjörnu verknaður.

laugardagur, 4. september 2004

Belle & Sebastian

Það er hljómsveit sem flytur óeðlilega bjartsýnisleg lög. Þetta eru lög sem eru leikin á fæðingardeildinni fyrir nýfædd börn; "þið eigið lífið framundan krakkar. það er dans á rósum" eru skilaboðin. Svo reka börnin sig á þegar þau eldast.

Þú ferð á eigin ábyrgð innum þessar dyr, þar bíða ótal ógnir sem enginn þekkti fyr

Teiknimyndir eru mun geðveikislegri nú en áður var. Mikið er um ofbeldi, geimrugl og og annað bull. Börnin verða snarvitlaus af þessu. Ein teiknimynd er að vísu góð sem sýnd er á íslandi í dag. Það er mynd um vísindamanninn Dexter. Ég horfi stundum á það. Hann er rauðhærður með gleraugu.

Djöfull troða þeir í pokana

"I have no legs" hvatta suða. Nú fer alveg að hringja. Gööðönga. Ekki þykir góðri lukku stýra að blogga fulurru.

fimmtudagur, 2. september 2004

Vesturbæjarpakk

Hér í MR er Vesturbæjarpakk meirihluti nemenda. Fólk getur verið ágætt þótt það sé úr Vesturbæ en er samt alltaf Vesturbæjarpakk. Helvítis snobbað lið sem hefur aldrei séð út fyrir Vesturbæinn og sötrar rauðvín í fína heimsborgarahúsinu sínu. En bíðum nú við, nú er ég allt í einu fluttur í Vesturbæ og þar með orðinn hluti af þessu. Fékk litlu um það ráðið. Það var KR límmiði í glugganum á herberginu mínu. Ég reif hann af. Hvað er verra en KR? KR-ingar eru samansafn fífla sem allir hata nema þeir sjálfir. Hafa oft reynt að kaupa titla (kaupa stjörnur), í stað þess að vinna á liðsheildinni. Aldrei mun ég halda með KR þrátt fyrir að vera kominn á þetta svæði. Svo er til fólk sem heldur bæði með KR og Manchester United. Sjitt.

Nóg af úthúðun.

Eitt í lokin. Ég fór um daginn og sá leik Fram og KR. Sá KR tapa 1-0 og það var yndislegt.

Sparsl

Nú er ég nýfluttur og hef mikið verið að mála og sparsla. Fékk síðan martröð eina nóttina. Martröðin var að ég var búinn að mála stóran vegg en hafði gleymt að sparsla fyrst.

Muna: Sparsla fyrst, mála svo.

Magnaður kennari

Stundum fær maður ótrúlega magnaða kennara. Ég er núna með þýskan kennara sem kennir mér raungrein. Í fyrsta tímanum hló bekkurinn meira og minna allan tímann. Umræddur kennnari er alltaf með sólheimabrosið fræga og baðar út öllum öngum til að útrskýra. Hún sagði okkur að henni þætti rosalega gaman að hoppa. Rosalegast var samt þegar einn nemandinn rétti upp hönd og kennarinn valhoppaði skælbrosandi til hans. Þegar kennarar eru furðulegir fylgist maður mun betur með. "Hvað kemur næst?" spyr maður sig. Það er líka áhugavert að velta fyrir sér hvernig þessi kennari er þegar hann fer yfir próf; kannski búinn að fara yfir slatta og segir síðan "brúmm ég er flugvél!" og ljómar upp.

En það eru líka til kennarar sem eru svo leiðinlegir að vonlaust er að fylgjast með vegna þess að hugsunin "æi þegiðu" kemur upp í kollinn við hverja setningu sem kennarinn segir.