laugardagur, 31. desember 2005

Betra seint en aldrei: 2006-vandinn

Munið að láta uppfæra tölvukerfin fyrir áramótin. Annars gæti 2006-vandinn þotið um sem stormsveipur og rústað þær.

Sá leiði misskilningur virðist hafa orðið að fólk var varað við 2000-vandanum um aldamótin. Sá vandi kom ekki fram þá en skv. reiknilíkönum mun hann koma fram núna um áramótin vegna tímaskekkju í hörðum diskum í PC-tölvum um gjörvalla veröld.

Aldrei of varlega farið.

Ný meðferð fyrir stress-sjúklinga

Sá afar spes frétt um daginn á DR1. Hún fjallaði um gríðarlegt stress sem fylgir nútímamanninum og nýja og ólgandi aðferð til að lækna fólk af stressi. Aðferðin var þannig að doktorinn og sérfræðingurinn tengdi tvo nema við höfuð stress-sjúklingsins. Nemarnir framkölluðu mjög irriterandi samfellt hljóð sem átti að fá sjúklinginn til að tæma höfuð sitt af hugsunum. Allt var þetta auðvitað sýnt í fréttini. Þegar sjúklingurinn stressaði, köllum hana bara Lene, hafði heyrt hljóðbylgjurnar irriterandi nægilega lengi, voru nemarnir tveir teknir af höfðinu á henni. Lene var spurð hvernig þetta hefði virkað. "Stressið virðist vera farið" svaraði hún. Hún tók í höndina á sérfræðingnum og doktornum góða.

Svo endaði fréttin á því að umrædd Lene ætlaði út af stofu doktorsins en ekki vildi betur til en svo að hún klessti beint á hurðina vegna þess að hún gleymdi að taka í hurðarhúninn fyrst.

Er 1.apríl ekki fyrr en í desember hér í Danmörku?

föstudagur, 30. desember 2005

Fantastic Four

Maður á helst ekki að segja frá svona löguðu, en um daginn sá ég myndina Fantastic Four sem fær 6,0 í einkunn hér sem er ofmat í hæsta gæðaflokki. Söguþráðurinn er ekki til staðar en framleiðendur reyndu að bæta fyrir það með því að láta Jessicu Alba leika í myndinni. Misheppnað.

Einkunn: 1,0 af 10.

Reindeer Games

Afar umdeild mynd, sjá hér, sumir segja 10, aðrir 1. Ég gef henni 8,5/10 og þá mest fyrir óvænta framvindu. Ben Affleck fer með aðalhlutverkið og það er gefið að hann er betri í þessari mynd en hinni skelfilegu Daredevil.

fimmtudagur, 29. desember 2005

Léttir

Ég hef komist að því að kannski er Ísland ekki með glataðasta forsætisráðherra í heimi. Í fréttaannál ársins á DR1 var sýnt frá opinberri heimsókn George Bush til Danmerkur hvar hann fékk höfðinglegar móttökur, kökur og með því, og forsætisráðherra Dana, Anders Fogh Rasmussen, tjáði Bush ást sína og glöggt gests augað las á milli línanna að helst vildi hann giftast forsetanum bandaríska. Andersi Foghi fannst "stríðið gegn hryðjuverkum" dásamlegt sem og hinn yndislegi félagi Bush.

Niðurstaða: Íslenskir ráðamenn eru hugsanlega ekki þeir smeðjulegustu í heimi gagnvart Bandaríkjastjórn.

Snjór

Snjór og skafrenningur í Danmörku. Dómari, má þetta?!

Hverjar eru líkurnar? 2/15?

Þetta er bara svipað líklegt og að lenda í blindbyl í svörtustu Affríku.

þriðjudagur, 20. desember 2005

Yndislegar gamlar konur sem láta ekki jólastressið leiða sig í gönur

Í gær síðdegis í Kringlunni:
Röð er í hraðbankana tvo sem standa hlið við hlið. Tvær konur um sextugt taka út peninga. Þær gefa sér nægan tíma: "Æ, óskaplega eru þessir hraðbankar sniðugir" hugsa þær og brosa breitt, svo spjalla þær hver við aðra á meðan. Þegar þær eru búnar að fá peningana og stinga þeim niður í buddurnar halla þær sér fram að hraðbönkunum og halda spjalli sínu áfram: "Mikið óskaplega þykir mér vænt um öll þessi jólaljós og ég verð að segja að skreytingarnar hér í Kringlunni hafa tekist afskaplega vel þetta árið" "Já, ég er svo hjartanlega sammála, það er komnar svo fínar seríur á allar svalirnar í blokkinni hjá mér nema tvær, þær sindra líka svo fallega. Það er eins og ég finni barnið í mér aftur þegar ég sé alla þessa dýrð". Nú hafði bæst í röðina og styggð hljóp í mannskapinn. Sumir voru tvístígandi, aðrir herptu saman munnvikin á meðan reiðin sauð á þeim. Þær gömlu létu sem ekkert væri: "Ert þú búin að kaupa jólagjafir handa barnabörnunum?" "Nei, ég á eitt 10 ára ömmubarn, lítinn gutta, það er ómögulegt að finna eitthvað handa honum" "Eru krakkarnir ekki alltaf að leika sér í tölvuleikjum í dag? Geturðu ekki bara fundið einn svoleiðis handa honum" "Jú, það er prýðishugmynd" "Jæja, ég held ég fari að halda áfram að leita. Gaman að heyra í þér" "Já, sömuleiðis, við heyrumstum vonandi fljótlega". Þær fara hvor sína leið og hraðbankarnir tveir eru lausir. Svo brostu þær blítt til allra í röðinni. Fólkið í röðinni brosti ekki.

Þegar talað er um að taka því rólega í desember og láta ekki jólastressið ná tökum á sér er ekki átt við að teppa hraðbanka til að spjalla. Það er ástæða fyrir því að þetta kallast hraðbankar, gömlu kerlingaóféti.

sunnudagur, 18. desember 2005

Tækniframfarir

Í nýjasta Bónus-bæklingnum er auglýst þráðlaus fjarstýring.

Djöfull er tæknin orðin geggjuð. Þessar fjarstýringar voru alltaf með leiðslum í mínu ungdæmi sem flæktust fyrir.

SJÓNVARPSMARKAÐURINN:
"Hver kannast ekki við þetta vandamál?: Maður er að flakka milli stöðva á sjónvarpinu með fjarstýringunni, svo koma krakkarnir hlaupandi fram hjá og detta um andskotans leiðslurnar og maður þurfti að vera að dröslast með þau á slysadeildina vikulega...Nú er þetta vandamál úr sögunni með nýju byltingarkenndu ÞRÁÐLAUSU FJARSTÝRINGUNNI. Krakkarnir geta hlaupið glaðir framhjá sjónvarpinu án þess að detta um leiðslur og stórslasa sig"

Krakkarnir brosandi í myndavélina: "Allt þráðlaust. Takk pabbi!"

laugardagur, 17. desember 2005

Söfnun

Nú er nýtt æði runnið á nokkra bloggara (að frumkvæði Bjarna Þórs Péturssonar) sem hyggjast senda fé fyrir vatnsbrunni til Afríku í gegnum Hjálparstofnun Kirkjunnar. Þar eru þyrst börn sem vilja vatn, örugglega líka kók, en markmiðið er að byrja á vatninu. Brunnur kostar 120.000 ÍSK samkvæmt auglýsingu frá Hjálparstofnun kirkjunnar. Það gera 2.500 krónur fyrir fimmtíu manns. Til að taka þátt í þessari söfnun skal lagt inn á reikning Hauks Snæs Haukssonar:
0101-05-267703
Kt. 100179-3189.

Fylgjast má með framgangi söfnunarinnar hér.

föstudagur, 16. desember 2005

Vandamál jólafrísins

Það er augljóst að ég er kominn í jólafrí, vaknaði klukkan tvö og fékk mér að borða klukkan þrjú. En síðan hafa nokkrar spurningar verið að angra mig:
1. Var þetta morgunverður, hádegisverður eða síðdegiskaffi?
2. Ef þetta var síðdegiskaffi, hvað verður þá um morgunverðinn og hádegisverðinn sem ég missti af?
3. Ef þetta var hádegisverður, hvað verður þá um morgunverðinn sem ég missti af?
4. Ef þetta var morgunverður, á ég þá að borða hádegisverð klukkan 16:30 og síðdegiskaffi klukkan 18:00?
Aukaspurning við lið fjögur: Hvað verður þá um kvöldverðinn, á ég að borða hann klukkan 21:00?
Aukaspurning II við lið fjögur: Ef ég borða kvöldverð klukkan 21:00, riðlast þá ekki líka svefntíminn?

Óþolandi vandamál.

fimmtudagur, 15. desember 2005

Taumlaus skemmtun

Hef á tilfinningunni að þau séu þau einu sem skemmta sér yfir þessu. Svona óþolandi plötuumslag hefur ekki sést áður svo lengi sem elstu menn muna.

miðvikudagur, 14. desember 2005

Jólahugvekja

Eftirfarandi á erindi til margra í þjóðfélaginu:

Hættið að láta eins og fávitar.

Hættið að keyra eins og fávitar hérna úti á umferðaræðunum út af því að þið eigið eftir að gera svo mikið og sjáið ekki fram á að ná því öllu. Hættið að þusa sínkt og heilagt um það hve mikið þið eigið eftir að gera: "Ég á eftir að þrífa allt og ég á eftir að baka allt og ég á eftir að skreyta allt og blablabla". Hver segir að það þurfi endilega að gera allt þetta? Af hverju þarf að gefa jólagjafir fyrir mörg þúsund, jafnvel hundruð þúsunda króna? Fólk þekkir ekki krakkana sína af því að það er alltaf að vinna og vinna til að eiga fyrir bílum og drasli og gjöfum handa krökkunum til að friða þau: "Ég verð að sýna nágrannanum að ég sé betri en hann með því að eiga ógeðslega geðveikan bíl". Með því er fólk ekki að sýna að það sé betra heldur frekar að það sé asnar sem eru að drepast úr flottræfilshætti. Af hverju þarf maður að bíða endalaust eftir afgreiðslu í matvörubúðinni? Jú, út af því að einhver spikfeit kerling er að kaupa feitmeti og sykurjukk fyrir fimmtán þúsund kall.

Hættið að vinna eins og geðsjúklingar af því að þið "þurfið" að gefa svo margar og dýrar jólagjafir og "þurfið" að fá ykkur flottari bíla. Alveg ótrúlegt hve sumir þurfa að bæta við skuldahalann í desember og líður illa þegar þeir sjá eigin eyðslu svart á hvítu eftir mánuðinn.

Jólin snúast um samveru með fjölskyldu og að borða góðan mat (ekki ógeðslega mikið af mat og ógeðslega mikið af kökum og konfekti, bara að það sé sæmilega gott og í hófi). Og hverjum er ekki drullusama þótt það sé ekki búið að strjúka burt rykið í gluggakistunum? Og hverjum líður betur við það að fá svimandi dýrar gjafir og að hafa gefið svimandi dýrar gjafir? Það verður enginn betri maður af því.

Spyr sá sem ekki veit. Taki það til sín sem eiga.