laugardagur, 31. mars 2007

Karókí

Í gær fór ég í skemmtilegustu vísindaferðina síðan ég byrjaði í háskólanum. Mikið var um dýrðir í mekka kapítalismans og auðhringjanna, Valhöll. Eftir þá dýrindis skemmtun fórum við á einn af börum bæjarins í dúndrandi karókí. Ég hef ekki sungið í slíku síðan ég ásamt tveimur öðrum góðum drengjum fórum mikinn í útskriftarferð sem tríóið Bluessandi. En nú fór ég upp tvisvar og hafði gaman að. Ég söng í bæði skiptin við annan mann enda hefði einsöngur verið of mikið af því góða. Þótt ég hafi haft gaman að, reikna ég síður með að áheyrendur hafi notið söngsins, enda held ég að ég hljómi eins og stunginn grís að syngja eða belja í húðstrýkingu. En er ekki einmitt tilgangurinn með karókí að fólk geri sig að fífli?

Á mínum yngri árum í grunnskóla var ég í skólakór. Mér er sérstaklega minnisstætt atvik frá þeim tíma þegar ég hef verið átta ára eða svo. Það var þannig að litli skólakórinn úr sveitinni æfði af kappi vegna þess að við áttum að syngja í sjálfri höfuðborginni, nánar tiltekið í Perlunni fyrir múg og margmenni. Eftirvæntingin óx eftir því sem nær dró. Á síðustu æfingu fyrir atburðinn mikla bað kórstjórinn mig og stelpu úr kórnum að vera eftir, hún þyrfti að ræða við okkur í einrúmi. Erindi hennar var að biðja okkur tvö að syngja mjög lágt í Perlunni, helst áttum við að hvísla. Ástæðan var að sjálfsögðu hörmulegar skrækar söngraddir okkar tveggja (þótt hún hafi ekki sagt það hreint út, heldur pakkað því aðeins inn svo það hljómaði eilítið betur). Mig minnir reyndar að til viðbótar við að vera yfirgengilega skrækróma og laglaus krakkaskratti hafi ég sungið manna hæst í þessum kór. Þessi skilaboð kórstjórans voru auðvitað algjört "boozt" fyrir sjálfstraustið á þessum tíma. Reyndar get ég að vissu leyti skilið kórstjórann ágætlega því ég hef séð myndband af sjálfum mér á þessum árum þar sem skrækróma röddin er í aðalhlutverki og allt annað en kórsöngsvæn. Ég man ekki hvort ég hlýddi beiðni kórstjórans eða hvort hún var mér hvatning til að syngja enn hærra og skrækar í Perlunni en venjulega, sem hefði vissulega verið tilkomumikið fyrir viðstadda.

Ömmerr

Noh. Missti því miður af keppninni.

fimmtudagur, 29. mars 2007

Dáleiðsla?

Tæmdu út allar hugsanir. Horfðu bara á hringinn snúast

snúast

snúast

snúast...

og búmm! Nú veistu hvað þú átt að kjósa í vor.

Gott kosningatrix.

UPPFÆRT 31.mars: Nú er þessi færsla úrelt því dáleiðsluhringurinn er farinn af síðu Íslandshreyfingarinnar og annað efni komið í staðinn.

miðvikudagur, 28. mars 2007

Lausar skrúfur

Nú hef ég setið í um fjóra tíma og unnið verkefni í Opinberri stjórnsýslu með mjög litlum hléum inni á milli. Önnur aðalheimildanna í verkefninu er lagasafnið á heimasíðu Alþingis. Að gramsa í þessu lagasafni svona lengi virðist gera mann ansi vanheilan, enda er textinn með þurrara móti, sbr: "Forstöðumaður ákveður vinnutíma þeirra starfsmanna sem starfa hjá stofnun að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa.
Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir lögreglustörfum eða annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur fimmtungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma."
.

Allt er þetta í svipuðum dúr. Af hverju hafa þeir ekki textana aðeins hressilegri? T.d. mætti skipta Forstöðumaður út fyrir Kjeppinn og þá gæti ein greinin t.d. hljómað: "Kjeppinn má ekki mismuna umsækjendum only because they iz black..." o.s.frv. Það mætti hafa þetta svona í anda Ali G.

sunnudagur, 25. mars 2007

Þjóðhátíð '85

Vífilfell hefur ákveðið að taka gosdrykkinn TaB af markaði. Ég þekki engan sem drekkur þann drykk. Mig rámar í að hafa smakkað drykkinn '91 eða '92 hjá einhverju fólki þar sem ég var gestkomandi ásamt foreldrum. Ég man ekkert eftir bragðinu, en umbúðirnar og heitið þóttu mér framandi. Það var ekki bragð sem situr í mér alla tíð eins og bragðið af Werther's Original.

Án þess að vera sérfróður um þessi mál held ég að TaB sé svipuð tímaskekkja og Framsóknarflokkurinn. Og þótt ég hafi ekki verið fæddur þegar Þjóðhátíð í Eyjum '85 fór fram gæti ég trúað að þar hafi ríkt sannkölluð Tab-stemming. Allur krakkaskarinn hefur setið í brekkunni í lopapeysunum með bítlafaxið, glamrandi á gítarinn, syngjandi Sísí fríkar út og skálandi í tvöföldum gin í TaB.

laugardagur, 24. mars 2007

Austur í klaustur

Landsbyggðin verður æ fýsilegri kostur fyrir ungt fólk á framabraut. Nú liggja fyrir áætlanir um að byggja klaustur á Kollaleiru í Reyðarfirði. Á Reyðarfirði rís einnig álver Alcoa sem kunnugt er. Þetta tvennt bætist við magnþrungið aðdráttarafl Lagarfljótsormsins sem felur sig í Leginum á Hallormsstað að ógleymdum Hallormsstaðaskógi.

Nú liggur beint við að hætta í skóla, flytja austur, ganga í klaustur og starfa sem verkamaður fyrir Alcoa inni á milli. Gott ef það er ekki bara tilgangur lífsins. Svo gæti maður vappað þarna upp á fjöll og skotið sér hreindýr í sunnudagssteikina.

fimmtudagur, 15. mars 2007

Almannatengslafulltrúinn

Ég fór með bílinn á verkstæði í morgun, átti pantaðan tíma klukkan 9:00. Stundvíslega klukkan 9:00 mætti ég fyrir utan verkstæðið. Á planinu stóð glottandi maður sem gaf sig á tal við mig og sagði eitthvað á þessa leið: "Jæja, eru menn ekki bara hressir í morgunsárið?"
Ég: "hmm, jújú"
Maður (enn glottandi): "Hva, svafstu yfir þig?"
Ég:"uuu...naaa..."
Afhverju var þessi maður að tala við mig?

Maður: "Hahahaha, vaknaðirðu kannski líka yfir þig?"
Svo reytti hann af sér nokkra brandara í viðbót í svipuðum dúr. Tiltölulega nývaknaður reyndi ég að vinna úr þessari vitleysu sem flæddi þarna yfir mig eins og brotsjór.
  • Hvaða maður var þetta?
  • Af hverju var hann að tala við mig?
  • Var þetta hinn eiturhressi almannatengslafulltrúi verkstæðisins sem tók alltaf á móti viðskiptavinum með vel útilátnum nýuppáhelltum bröndurum?
  • Átti ég að flýja af hólmi áður en sturlun þessa furðulega manns færðist í aukana?
Ég gekk rólega frá manninum og að dyrum verkstæðisins. Ég tók í húninn. Það var læst. Á hurðinni stóð opnunartíminn, 8:00 - 18:00, svo þeir áttu að vera búnir að opna. Maðurinn kom þá aðvífandi og sagði:
"Ertu ekki með lykil?"
Ég: "Nei."
Maður: "Vinnurðu þá ekki hérna?"
Ég: "Nei."

Í því bili kom verkstæðisguttinn akandi og opnaði verkstæðið. Hann hafði líklega sofið yfir sig. Þótt ótrúlegt megi virðast lét maðurinn ekki brandarana dynja á honum eins og hann hafði nú reytt þá af sér rétt áður. Verkstæðisguttinn tók við erindunum, mannsins, mínu og konu sem hafði líka beðið fyrir utan.

Nokkrum mínútum síðar, þegar ég hafði gengið 100 metra eða svo frá verkstæðinu, mætti ég brandarakarlinum aftur þar sem hann stóð á stéttinni. Nú var ekki prakkaralegri glettninni fyrir að fara eins og áður heldur horfði hann mjög vandræðalegur undan þegar ég mætti honum. Ég þurfti að passa mig á að fara ekki að hlæja.

"Hva, vaknaðirðu kannski líka yfir þig?"
Búrúm tiss!

sunnudagur, 11. mars 2007

The Last King of Scotland

Sá The Last King of Scotland. Ég er ósammála því sem ég hef séð gagnrýnendur segja að myndin sé miðlungs en frammistaða Forrest Whittaker hífi hana upp. Vissulega er hann frábær í hlutverki einræðisherrans brenglaða Idi Amin, en myndin er líka mjög góð í heild og stendur léttilega undir tveimur og hálfum tíma.

Einkunn: 8,6.

Þroski

Þroski byggist að miklu leyti á því að fólk gerir mistök og lærir af þeim. Þá gerir það helst ekki sömu mistök aftur. Einmitt þess vegna er frábært þegar maður vaknar skyndilega upp við að hafa gert sömu mistök í sautjánda skipti og sextán fyrri skiptin virðast ekkert hafa kennt. Ég lendi stundum í þessu. Það vekur vissulega til umhugsunar.

mánudagur, 5. mars 2007

Matarhornið

Kjötbollur voru á boðstólum í kvöld. Ég fann álitlega uppskrift á netinu og hófst handa. Hrærði saman svínahakki og hveiti og eggjum og salti og pipar. Í uppskriftinni stóð að saxaður laukur ætti heima í bolludeiginu en ég ákvað að vera dálítið villtur, gefa skít í ríkjandi viðmið og gildi, og sleppti lauknum. Í hans stað gerði ég dulítið brall í bauk og setti slurk af hvítlaukskryddi og dass af basillaufum saman við herlegheitin.

Svo kom á daginn að deigið var óttalega þunnt þótt ég hefði fylgt uppskriftinni í einu og öllu (ef laukleysið er undanskilið). Þá brá ég á það ráð að setja fullt af hveiti út í í viðbót. Deigið var nú orðið risavaxið og við það að flæða um gólf og ganga. En það kom ekki að sök og ég slengdi hæfilegum kjötklessum á pönnuna. Niðurstaðan varð kúffull stór skál af kjötbollum. Át eins og ég gat og setti afganga í frysti og ísskáp.

Bragðið af þessum sætu gullnu bollum sveik engan. Þarna virtust vera saman komin blær frumskógarins, angan merkurinnar, gola engisins, víðátta eyðimerkurinnar og ferskleiki kókospálmans, saman í einum bita. Bragðlaukarnir dönsuðu polka við dynjandi undirleik tanngarðsins. Þarna lærði ég að lifa og njóta eins og sannur lífskúnstner.

Einkunn: 8,5.

laugardagur, 3. mars 2007

Skrifað fyrir hönd þjóðarinnar

Íslenska þjóðin hefur valið mig til að skrifa þessi orð. Ég er hinn útvaldi talsmaður þjóðarinnar hér og tala fyrir hennar vilja. Hljómar þetta kunnuglega?

Nokkrir leiðtogar stjórnmálaflokka hafa talað sérstaklega um vilja þjóðarinnar undanfarið eða almennings. Þannig segir formaður Vinstri grænna að þjóðin vilji breytingar og að bullandi stemming sé fyrir því í samfélaginu að fella ríkisstjórnina. Staðreyndin er hins vegar sú að hann á við það hlutfall þjóðarinnar sem hefur sagst styðja VG í skoðanakönnunum undanfarið, þ.e. 10-15 % þeirra sem hafa tekið afstöðu til viðbótar við kjörfylgi flokksins í kosningum 2003 (rúm 8%). Það er ekki nógu stórt hlutfall til þess að tala um þjóð.

Í viðtali í Blaðinu í dag segir landbúnaðarráðherra orðrétt um hugsanleg stjórnarskipti eftir kosningar: "Ég held að þá megi búast við hærri sköttum á fólk og fyrirtæki og þess vegna muni almenningur gera það upp við sig að kaffibandalagið vilji hann ekki sjá.". Þarna talar hann fyrir hönd Framsóknarflokksins, valdasjúka smáflokksins sem mælist með 5-10% fylgi í könnunum um þessar mundir.

Þetta eru tvö dæmi um hve stórt ýmsir stjórnmálamenn taka upp í sig. Samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup hafa aldrei færri borið traust til Alþingis, eða 29% svarenda. Það skyldi þó ekki vera ástæða til.