laugardagur, 26. maí 2007

Ruslpóstur og áreiti

Ruslpóstur hefur snaraukist á undanförnum árum. Fyrir utan allskonar Hagkaupsbæklinga, Bónusbæklinga og Ikeabæklinga dælast Fréttablaðið og Blaðið inn um lúgur flestra landsmanna. Þeir sem kaupa áskrift að Mogganum sitja enn verr í súpunni hvað þetta varðar. Maður er farinn að fá martraðir þar sem maður upplifir hroðalegan dauðdaga, í lokuðu herbergi með engu nema einni lítilli bréfalúgu, þar sem inn flæða hvers konar bæklingar og blöð og maður drukknar að lokum.

Blaðastaflarnir hlaðast upp á örfáum dögum og fólk getur ekki farið í frí án þess að fá holskefluna yfir sig af bæklingum þegar það opnar dyrnar heima hjá sér að fríi loknu. Svo er predikað fram og aftur um að þetta þurfi að endurvinna. Fólk skuli fara með þetta allt saman samviskusamlega út í næsta blaðagám. Menn segja upp vinnunni og vinna kauplaust í fullri vinnu við að rogast með allt blaðaruslið í gáma eða tunnur. Blöðin og bæklingarnir virka nefnilega þannig í flestum tilvikum að flett er í gegnum þau einu sinni og búið, þetta eru ekki eigulegir gripir og ekki stofustáss.
---
Skylt efni
Það fer í taugarnar á mér að sjá fólk kasta rusli úti á götu, enn meira fer í taugarnar á mér þegar fólk kastar rusli út úr bílunum sínum á ferð. Eitt handtak og það er laust við alla ábyrgð, þarf ekki að sjá þetta rusl oftar. Gerir fólkið þetta líka heima hjá sér? Þarna er kjörið tækifæri fyrir tækninýjung - rusl með innbyggðum nemum sem virka þannig að ef því er hent á víðavangi en ekki í ruslatunnur ofsækir það viðkomandi. Þetta gæti einnig verið gott skemmtiefni fyrir viðstadda. Dæmi: Maður ekur eftir hringveginum, gæðandi sér á gómsætu Snickers. Eftir síðasta bitann skrúfar hann niður rúðuna og kastar bréfinu út, í góðri trú um að þetta sælgætisbréf þurfi hann aldrei að sjá aftur. En honum að óvörum kemur bréfið inn um miðstöðina í bílnum og flýgur beint í augað á honum, hann reynir að bægja því frá en það er eins og segull og fer hvergi, honum til mikillar mæðu og truflunar við aksturinn.
Dæmi 2: Jónatan hefur oft kastað rusli úti á ferðum sínum. Einn daginn er hann gangandi í skóginum með glóðvolgan Mc'donalds borgara í frauðplastumbúðum. Hann hendir umbúðunum eftir neyslu, en það hefði hann ekki átt að gera því þá kemur strókurinn á eftir honum, allar umbúðir sem hann hefur kastað á víðavangi yfir ævina á eftir honum, eins og reitt býflugnager og ræðst á hann.

Þetta mundi virka. Mótmælir einhver?

föstudagur, 18. maí 2007

Lúxusvandamál

Hver kannast ekki við að vera akandi frá Hvalfjarðargöngum og sem leið liggur í bæinn og iðandi umferð er úr bænum? Síðan lendir maður á eftir einhverju finngálkni sem ekur á 70-80, m.ö.o. lestarstjóra. Síðan safnar þessi lestarstjóri halarófu af bílum fyrir aftan sig vegna þess að enginn getur tekið fram úr honum sökum umferðar úr hinni áttinni. Við það verða allir gargandi sturlaðir nema lestarstjórinn sjálfur sem situr örugglega glaður í sínum bíl, sáttur með að vera forystusauður, flautar lítið lag og spilar trommusóló á stýrið og mælaborðið.

Þetta var lúxusvandamál dagsins.

þriðjudagur, 15. maí 2007

Kjósendur hafðir að fíflum?

D'Hondt kosningakerfið í óviðjafnanlegri blöndu með kjördæmaskipan sýndu stórkostleg tilþrif í nýliðnum kosningum.
Dæmi: Reykjavík Norður: Sjálfstæðisflokkur 36,4% -> 4 menn.
Samfylking 29,2% -> 5 menn.

Svo var það þannig að fengi Frasmóknarflokkurinn ellefu atkvæðum meira í einu kjördæminu (man ekki hverju) hefði það fellt stjórnina vegna reglna um jöfnunarsæti. Svo mætir maður á kjörstað og kýs stjórnarandstöðuflokk í góðri trú um að maður sé að vinna stjórnarandstöðunni gagn. Kannski hefði mátt vinna henni mest gagn með því að kjósa Framsókn og stuðla þannig að falli stjórnarinnar.

Þetta er svona svipað og að spila vist og reyna að safna slögum í stórum stíl, en komast síðan að því sér til mikillar mæðu að spilað er nóló en ekki grand.


Lét d'Hondt kosningakerfið hafa sig að fífli.

Stjórnarmyndun

Snemma á kosninganótt sagði formaður Framsóknarflokksins í viðtali við kosningasjónvarp RÚV að flokkur sinn væri ekki stjórntækur með svo lítið fylgi sem fram kom í fyrstu tölum. Það sama hafði hann sagt við fjölmiðla varðandi fylgi flokksins í skoðanakönnunum skömmu fyrir kosningar. Þegar líða tók á kosninganótt virtist sem honum hefði snúist hugur (líklega hafa einhverjir valdagráðugir flokksmenn verið búnir að ræða við hann, ósáttir við orðin sem hann lét falla). Þá skyndilega fór hann að tala um "að skorast ekki undan ábyrgð" og því um líkt.

Í viðtölum við fjölmiðla daginn eftir sagði Jón nokkuð sem hefur náð vinsældum meðal Framsóknarmanna upp á síðkastið, nefnilega að kenna öðru en flokknum sjálfum um ófarir sínar. "Fjölmiðlaofbeldi" og jafnvel einelti voru hlutir sem flokksmenn höfðu mátt þola. Ekki getur hugsast að flokkurinn beri sjálfur ábyrgð á óförum sínum? Jafnvel að hann sé sjálfum sér verstur?

Nú standa síðan yfir viðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um hugsanlegt framhald á lífdögum ríkisstjórnarinnar um enn eitt kjörtímabilið. Þetta minnir óþægilega mikið á þegar Framsóknarmenn hoppuðu upp í með Sjálfstæðisflokki í borgarstjórn síðastliðið vor, þrátt fyrir að hafa rétt svo náð inn einum manni. Ekki var það beinlínis til að auka hróður flokksins. Það má í raun segja að kjósi flokkurinn að halda áfram í ríkisstjórn eftir gríðarlegan ósigur í kosningum, sé hann að gefa skít í þorra kjósenda.

Ef þessi ríkisstjórn heldur áfram má segja að það sé staðfesting á því sem ágætur kennari minn í stjórnmálafræði sagði (og eflaust hafa fleiri sagt það áður): Það skiptir engu máli hvað maður kýs, alltaf kemur Framsókn upp úr kössunum.

föstudagur, 11. maí 2007

Forvitni

Nú hefur maður heyrt þetta með kollsteypuna sem verður eftir kosningar ef vinstrimenn komast að. Gott og vel - gefum okkur að þessi meinta kollsteypa verði að veruleika. Hvernig virkar hún? Ég er orðinn ansi forvitinn að sjá það. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir þessu, ég held að ég verði að sjá kollsteypu í framkvæmd til að skilja hana.

Ég hef þó einhverjar óljósar hugmyndir í kollinum. Þetta byrjar allt saman á því að Vinstri grænir og Samfylking gera stjórnarsáttmála (Frjálslyndir mögulega með ef með þarf upp á meirihlutann). Fljótlega eftir að stjórnarsáttmálinn er handsalaður stækkar Ögmundur Jónasson á óútskýranlegan hátt, verður á stærð við risa. Það sama kemur fyrir Steingrím J. og Ingibjörgu Sólrúnu rétt á eftir, jafnvel fleiri flokksmenn - ég átta mig ekki alveg á því. Svo þramma þau hvert í sína áttina, Steingrímur þrammar út á land, stefnir að Kárahnjúkum. Ögmundur Jónasson arkar af stað í áttina að Kirkjusandi, Ingibjörg hefst handa við að knésetja ríkissjóð með handaflinu einu saman.

Á Kirkjusandi, nánar tiltekið í höfuðstöðvum Glitnis, situr gleiðbrosandi þotuliðið í silkigöllunum og býr til peninga. Rétt eins og Kjartan galdrakarl í strumpunum hatar strumpa, þá hatar Ögmundur þotuliðið. Þotuliðinu verður nokkuð bilt við þegar það sér risastórt auga Ögmundar stara á það inn um gluggann á sjöundu hæð. Skelfing grípur um sig þegar hann hrifsar nokkra silkigallaklædda af handahófi út úr byggingunni og kremur eins og hver önnur skordýr. Því næst rífur hann höfustöðvarnar upp með rótum og fleygir þeim lengst út í hafsauga. Svo ber hann sér á bringu og hlær illkvitnislega.


Ögmundur á þaki höfuðstöðva Glitnis?

Á meðan á þessu stendur er Steingrímur J. á Kárahnjúkum. Hann er að brjóta niður Kárahnjúkastífluna. Hann einn veit líka um staðinn þar sem handbremsan er, handbremsan til að stöðva hjól atvinnulífsins. Eftir gott dagsverk á Kárahnjúkum laumast hann á leynistaðinn með handbremsunni, iðandi í skinninu af eftirvæntingu, nú verður sko bremsað!

Er ég nálægt lagi með þessar hugmyndir? Verður þetta svona? Er einhver sérfræðingur í kollsteypu sem getur frætt mig um málið?
----

Lokaorð: Hvað sem öðru líður finnst mér of margt neikvætt hafa komið út úr sitjandi ríkisstjórn. Ég held að ýmsir hafi gleypt við hræðsluáróðri stjórnarliða meira en góðu hófi gegnir og hræðist því breytingarnar að ástæðulausu. Ég vil stjórnarskipti. Ef þau verða síðan til þess að hagur þegna landsins versnar á fleiri sviðum en hann batnar, er sjálfsagt að sparka nýju stjórninni eftir fjögur ár.

þriðjudagur, 8. maí 2007

Spekingar í spjalli

Örfáir dagar eru til kosninga. Fólk ræðir málin á kaffistofum og götuhornum, "Jæja, hvað á svo að kjósa?" segja menn og sötra kaffið og bíta í kringlu með osti. Svörin eru misjöfn og sumir blóta "gjörspilltri Framsókn", aðrir "Frjálslyndum rasistum", enn aðrir "Samfylkingu með enga skoðun". "Blóðrauðu kommarnir!" og "bölvað íhaldið!" eru önnur viðkvæði sem fá að flakka manna á milli og svo svelgist þeim á kaffinu og kringlan stendur í þeim.

Áróðursmeistarar stíga á stokk og mála skrattann á vegginn úr öðrum flokkum en þeirra eigin. Misjafnt er hve vel tekst til. Ég vissi varla hvaðan á mig stóð veðrið í kaffistofuspjalli um daginn. Ég var spurður hvað ég ætlaði að kjósa. Ég svaraði eftir bestu vitund og með góðri samvisku. Spyrjandi var frændi minn sem vinnur verkamannavinnu og svaraði tilsvari mínu svona: "Nú? Til þess að ég verði atvinnulaus?". Jú, þarna hitti hann naglann á höfuðið, einmitt til þess að hann verði atvinnulaus! Ég spurði á móti hvernig hann fengi það út og þá svaraði hann: "Ef það kemur vinstristjórn missi ég vinnuna". Virkilega öflug röksemdafærsla þarna á ferð. Orsakasamhengið er sem sagt nokurn veginn svona samkvæmt honum:
Ég kýs vinstri flokk -> hann missir vinnu.

Ég kalla þetta að vera ginnkeyptur fyrir áróðri og ekkert annað. Því meira sem ég sé og heyri af slíkum arfavitlausum áróðri, þeim mun ákveðnari verð ég í minni afstöðu. Ég skil ekki hversu mikið umræðan byggist á hræðsluáróðri í garð annarra flokka. Þó virðist slíkur áróður koma í meira mæli frá fylgjendum núverandi ríkisstjórnar, sem fara sumir út fyrir öll velsæmismörk í bulli og varnaðarorðum um vinstristjórn. Kannski væri betra að hver flokkur talaði fyrir sig og lýsti eigin áherslum, í stað þess að lýsa fjálglega hvað hinir flokkarnir muni gera, fái þeir aðstöðuna. Þetta er ekki alveg þannig að einn flokkurinn þýði himnaríki og hinir helvíti, þótt maður gæti haldið það ef maður hlustar of mikið á áróðursmeistara.


Eftir snarpa umræðu á kaffistofunni?

föstudagur, 4. maí 2007

Sturlun Steingríms

Þeir sem stöðugt tala niður Vinstri græna fengu aldeilis vatn á myllu sína í gærkvöldi. Í viðtali Kastljóss við Steingrím J. sagðist hann vilja lengja fæðingarorlofið í 12 ár (þáttastjórnendur hváðu og þá reyndi Steingrímur að bakka út úr þeim forarpytt sem hann var kominn í og sagði afsakandi "12 mánuði" (eins og einhver trúi því)).

Jájá, svo ætlar hann víst að stofna netlöggu eins og hvergi þekkist nema í kommúnistaríkinu Kína.

VG ætla víst að þjóðnýta bankana aftur.

Handbremsur á atvinnulífið hef ég heyrt.

Svo munu þeir skattpína þjóðina svo menn munu þurfa að herða sultarólina, jafnvel þiggja þróunaraðstoð að utan.

Þeir hafa að vísu ekki sagt þetta sjáfir, en maður sér alltaf glitta í illskuna og Sovétdýrkunina hjá kommunum. Þeir munu fella grímuna og sýna sitt rétta eðli eftir kosningar, fái þeir til þess umboð.

Hér verður kollsteypa ef á kemst vinstristjórn. Sporin hræða. Við vitum hvernig vinstrimenn stjórna.

Áróður? Kjaftæði? Þvættingur? Spuni? Gott ef ekki.

þriðjudagur, 1. maí 2007

Liverpool í úrslit Meistaradeildar Evrópu 2007

Að slá Chelsea út er frábært, sérstaklega út af hrokanum í Mourinho og heimskulegum ummælum hans alla tíð. Ef einhver hefur gott af því að fá kalda vatnsgusu í andlitið er það hann.


Í úrslitum munu mætast Liverpool og AC Milan eins og 2005, þótt möguleikar Liverpool á sigri í úrslitaleik væru líklegast ívið meiri gegn Manchester United en AC Milan.


Meistari. Það sama verður ekki sagt um stjóra Chelsea.