laugardagur, 30. júní 2007

Nauðsyn nútímatækni

Nútímamenn gera sér grein fyrir hve nútímatækni er nauðsynleg. Engum dettur í hug að hann geti lifað án farsíma, tölvu, sjónvarps, MySpace, MSN eða annarra nútímahluta sem halda lífi í mönnum nú til dags. Þegar einhver spyr: "Hvernig lifði fólk án GSM síma áður fyrr?" er eins og enginn muni það. Það verður fátt um svör. Fólk kemst að lokum að þeirri niðurstöðu að sennilega hafi líf ekki þrifist á plánetunni fyrir daga þessara hluta.

Dæmi: Pési spyr afa sinn: "Hvernig lifði fólk af í gamla daga án GSM, internetsins, msn, MySpace, fellihýsa og daglegra frétta af afrekum Paris Hilton?". Afi hans verður grafalvarlegur á svipinn og starir á hann í hálfa mínútu án þess að segja nokkuð. Svarar að lokum, lágri ógnandi röddu: "Lofaðu að spyrja aldrei um þann tíma aftur!"

fimmtudagur, 28. júní 2007

Á asnaeyrunum

Spennuþættirnir Lost njóta gríðarlegra vinsælda hér á landi og víðar. Þegar þeir hófu göngu sína fylgdist ég með og hafði bara nokkuð gaman að. Síðan þetta var hafa sennilega birst 10.000 þættir eða ég veit ekki hvað. Nú eru þættirnir meira og minna allir eins og ganga út á það eitt að teygja lopann. Áhorfendur, þeir sem eftir eru (og þeir eru reyndar mjög margir einhverra hluta vegna), eru teymdir í gegnum hvern þáttinn á fætur öðrum á asnaeyrunum þar sem látið er líta út fyrir að ótrúleg atburðarás eigi sér stað, gríðarleg spenna liggi í lofti og næsti þáttur? Tjah, hann verður sko enn meira spennandi - "you ain't seen nothing yet!"

Um daginn "neyddist" ég til þess að horfa á heilan þátt af þessu vegna þess að ég var staddur í húsi þar sem viðstaddir ákváðu að horfa á þáttinn. Ég hafði kannski einhverja möguleika í stöðunni:
  • Fá skyndilega herfilegt hóstakast og fá þá strax spurninguna: "Er allt í lagi með þig?" og svara inn á milli hósta: "...já...ekkert að mér...bara...ofnæmi...verð að fara...ofnæmislyfin.........heima..." og skakklappast síðan út.
  • Setjast með fólkinu fyrir framan imbann og þykjast horfa, en stara í staðinn allan tímann á hilluna við hliðina á sjónvarpinu og finna umhverfishljóð til þess að einbeita mér algjörlega að á meðan, s.s. suð í flugu eða umferð fyrir utan. Þetta hefði verið mjög erfitt því að tónlistin í þáttunum er svo hádramatísk að maður hefði líklegast ekki haldið út að einblína á flugnasuðið.
Hver einasti maður á eyðieyjunni þar sem þátturinn á að gerast virðist eiga gjörsamlega ótrúlega fortíðarsögu. Stuttar glefsur úr fortíð hvers og eins eru sýndar í þáttunum og eiga að varpa ljósi á atferli viðkomandi við ákveðnar aðstæður. Og það bregst ekki að fortíðarglefsan er eitthvað gjörsamlega yfirgengilega ótrúlegt:
Í fortíðinni vann Andy sem garðyrkjumaður heima hjá Tiger Woods. Einn daginn var hann að klippa runnana þegar þrír grímuklæddir menn komu askvaðandi utan að götu, rændu honum og fóru með hann í rússnesknan frystitogara og notuðu hann sem gólfmoppu til þess að skúra vélarúmið. Síðan mundi hann ekkert fyrr en hann vaknaði upp, bundinn á höndum og fótum, í loftræstiröri í verslunarmiðstöð einhversstaðar í Bandaríkjunum

Eftir að slík endemisvitlaus fortíðarglefsa hefur verið sýnd er áhorfandanum ætlað að hugsa: "Aha, þetta útskýrir ýmislegt!"

Þessi glataði þáttur var í gangi þegar ég kveikti á sjónvarpinu í kvöld og að sjálfsögðu var tónlistin með dramatískasta móti og einhver kona sýndi eyrnalokk sem hún hélt á í lófanum, en þetta var sko enginn venjulegur eyrnalokkur, hann tengdist atburðarás sem áhorfendur hefði aldrei getað órað fyrir og svo fylgdu óborganleg viðbrögð viðstaddra í atriðinu við eyrnalokknum, sem var svo miklu meira en bara eyrnalokkur:








Hvað þarf kjaftæðið að ganga langt í þessum þáttum til þess að áhorfendur láti ekki bjóða sér meira?

sunnudagur, 24. júní 2007

Ævintýralegir tónleikar The Who á Glastonbury

Vaknaði á hádegi í dag. Dagurinn hefur að mestu leiti farið í að þvo þvott ásamt öðrum tilfallandi húsverkum ásamt því að reyna að lesa blöðin með mismikilli einbeitingu. Hef verið frekar afundinn og þreyttur eftir helgina og það var eins og ég hefði farið vitlausum megin fram úr "í morgun".

Í kvöld hef ég síðan fylgst með Glastonbury tónleikahátíðinni á BBC 2, BBC 3 og BBC 4. Sá hluta af Kaiser Chiefs, Manic Street Preachers og sonum Bob Marley að flytja slagara eftir föður sinn. Þetta var allt saman gott og blessað og ég svona fylgdist með með öðru auganu og öðru eyranu. Eitt og eitt lag var grípandi. En klukkan tíu var röðin komin að The Who að stíga á stokk í beinni. Á meðan ég fylgdist með fyrsta laginu var ég ekki alveg sannfærður um að kommbakk þeirra eftir áralangt hlé (sem reyndar hófst formlega í fyrra ef ég veit rétt) hefði verið góð hugmynd. Rödd söngvarans virtist hafa látið á sjá og þeir virkuðu allir hálfstirðir og stirðbusalegir. Það kom ekkert endilega á óvart, kommbökk eru oft flopp. Svona u.þ.b. í miðju öðru lagi sem þeir tóku, Who Are You? virtist söngvarinn vera að ná fyrri raddstyrk og hinir voru mjög þéttir í spilamennskunni. Veit ekki hvernig hann fór að þessu, hlýtur að hafa staupað WD-40 til þess að smyrja raddböndin eða eitthvað og hinir hafa sturtað í sig Lýsi og Liðamíni til að losna við stirðleikann. Ég fann hressleikann koma yfir mig við þetta. Frá og með þessum tímapunkti var ekki veikan blett að finna á þessum tónleikum. Þessir gömlu karlar hikuðu ekki við að stökkva fram og aftur um sviðið og söngvarinn sveiflaði hljóðnemasnúrunni eins og hann væri að fara að snara mannýgt naut á milli þess sem hann söng. Áður en þeir tóku lagið Relay minntust þeir á að það hefðu þeir samið árið 1971, og þetta var líka örugglega eins og þeir væru komnir aftur á gullaldarskeiðið fyrir tæpum fjörtíu árum. Slögurunum var rúllað út á færibandi - Baba O' Reilley, Pinball Wizard, Won't Get Fooled Again, Relay, The Seeker og svo framvegis og svo framvegis.

Þetta var hreinlega magnað að sjá og heyra og ég hefði gefið mikið fyrir að vera á staðnum. Sjaldan eða aldrei man ég eftir að tónlist hafi breytt skapi mínu eins mikið og núna. Áður en ég varð vitni að þessu var ég þreyttur og afundinn, en núna er ég orðinn dúndrandi hress og óþreyttur. Tónlistarmenn ættu að taka sér þessa tónleika The Who til fyrirmyndar, en þetta verður varla toppað. Enda náðu þeir múgnum algjörlega á sitt band með frammistöðunni og voru vel að því komnir, höfðu sjálfir greinilega mjög gaman að því að spila þarna og það smitaði út frá sér. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta hafi verið hápunktur Glastonbury-hátíðarinnar þetta árið.

Einkunn: 10. Engin spurning.

sunnudagur, 17. júní 2007

Á mannamótum

Margir kannast við að mæta fólki á förnum vegi sem heilsar, án þess að geta með nokkru móti komið því fyrir sig hver heilsar eða frá hvaða samhengi menn þekkja viðkomandi. Ég þykist vera frekar glöggur á að þekkja fólk þótt ég hafi ekki séð það lengi. Ég hef samt lent í þessu - einhver heilsar kumpánlega, "Nei, blessaður Guðmundur!..." o.s.frv. Við slík tækifæri verður gjarnan einhver innri togstreita, spurningarnar dynja inni í heilabúinu:
  • Hver í fjáranum er þetta?
  • Af hverju veit hann/hún hvað ég heiti?
  • Á ég að þekkja þennan/þessa?
Svo fara menn að reyna að hraðskanna í upplýsingum í heilabúinu allt það fólk sem þeir hafa umgengist yfir ævina, beita útilokunaraðferð og reyna að finna viðkomandi á óralöngum lista fólks. Þetta getur verið erfitt og flókið ferli að fara í gegnum á einu augnabliki.

En þetta er ekki allt, því að einhverra hluta vegna virðast flestir hafa þau ósjálfráðu viðbrögð í aðstæðunum að þykjast þó muna eftir þeim sem heilsar, sem gerir allt saman enn flóknara. Erfitt getur verið að þykjast þekkja viðkomandi og reyna af veikum mætti að halda uppi einhverju spjalli af viti, flestir koma einmitt upp um sig þegar á þetta reynir. Fólk getur þá gert aðstæðurnar pínlega vandræðalegar og haft spjallið mjög almennt með spurningum eins og "Hva, alltaf í boltanum?" og síðan haldið áfram á fullu að reyna að skanna listann og finna út hver sá "ókunni" er.

Sumir vilja forðast allan misskilning og segja alltaf í byrjun hverjir þeir eru og hvaðan þeir þekkja mann. "Blessaður, ég er afi þinn, þú heimsóttir mig í síðustu viku" - þarna er afinn sniðugur og kemur strax í veg fyrir allan misskilning og pínleg augnablikin sem hefðu getað litið dagsins ljós ef Brjánn sonarsonur hans hefði ekki þekkt hann þegar þeir mættust úti á götu. Líkurnar á því voru kannski hverfandi, en afinn vill greinilega halda sig "on the safe side" í þessu tilviki, hann hefur lært af áralangri reynslunni að kæfa vandræðin í fæðingu.

laugardagur, 16. júní 2007

Niðri í bæ

Fór í bæinn í gærkvöldi í fyrsta sinn síðan reykingabannið (eða forræðishyggjan eins og sumir kjósa að kalla það) tók gildi. Hef verið með hálsbólgu undanfarna daga og áfengir drykkir í bland við slíkt hafa aldrei þótt sterkur leikur. Fékk bullandi viskírödd mjög fljótlega, hefði samt án efa verið verra ef reykingar væru enn leyfðar.

Ég man ekki hver útgangspunkturinn og þungamiðjan áttu að vera í þessari færslu. Því síður hvað átti að draga vagninn. Þá enda ég þetta bara hér.

föstudagur, 15. júní 2007

Gjöf fyrir gjöf

Niðri í miðbæ í dag mætti ég manni sem gaf sig á tal við mig. Veifaði hann lítilli bók að nafni Greið leið til annarra hnatta. Síðan lýsti hann því ítrekað yfir að hann væri ekki að selja neitt og hvernig bókin leiddi menn í allan sannleika um innri frið og ég veit ekki hvað og hvað. Lét hann fylgja máli að bók þessi kostaði 1500 krónur út úr búð en í dag hefðu hann og menn hans ákveðið að gefa hana á götum úti. Enn fremur að nú væri hún loksins fáanleg á íslensku.

Mér þótti einhver skítafýla af þessu öllu saman og kom það á daginn. Bókin var ekki gefins í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur fór hann fram á ölmusu í skiptum fyrir bókina. M.ö.o. var hann að selja bókina. Ég sagði honum að þessi bók væri til heima (sem var satt, hef séð hana í hillu hjá systur minni) og þá spurði hann hvort ég vildi nú ekki samt "þiggja" bókina, kannski þekkti ég einhvern sem hefði gaman að lestri, og lýsti því hvað fólk gæfi í staðinn, sumir gæfu hundraðkall, sumir þúsund kall, sumir nammipoka úr vasanum eða þess háttar. Þá fór ég að velta fyrir mér hvernig ég segði nægjusemi á ensku, því ég ætlaði að segja honum að ég væri svo nægjusamur að ég vildi ekki þessa bók þegar slík væri til á heimilinu (eflaust hefði það fallið vel að slíkum trúarbrögðum). Mundi það ekki svo ég tók upp veskið, vitandi að í því væri svo gott sem ekki neitt í reiðufé og fiskaði upp það sem þar var, fjórar krónur og lét hann hafa. Mér fannst ég greina ákveðin vonbrigði í svip hans en ekki gat hann hætt við að láta mig hafa bókina eftir fyrri yfirlýsingar. Hann fór frekar flatt út úr þessum viðskiptum og hafði í raun sóað tíma sínum til einskis. Hins vegar sóaði hann mínum tíma líka, auk þess sem ég hef ekkert með þessa bók að gera.

Man næst að segja strax "nei takk" við slíka menn og labba í burtu.

Þessi prangari var ekki jafnferskur og sá sem stendur stundum í Austurstrætinu, otandi bókum framan í fólk, hrópandi "LJÓÐ!". Langt síðan hann hefur látið sjá sig.

miðvikudagur, 13. júní 2007

Spánskt fólk

Sumt fólk sem verður á vegi mínum kemur gríðarlega spánskt fyrir sjónir. Þannig var að í morgun átti ég að mæta á stað hér í borginni á vegum vinnunnar til þess að fara á lyftaranámskeið. Þegar á staðinn var komið byrjaði ég að leita að innganginum. Hann fann ég fljótlega og gekk inn í húsið sem var á nokkrum hæðum og innihélt nokkur fyrirtæki, banka, skrifstofur o.fl. Þar kom kona aðvífandi og tilkynnti mér öskupirruð í óspurðum fréttum: "BANKINN OPNAR EKKI FYRR EN KLUKKAN NÍU!" og þrammaði síðan rakleiðis niður stiga svo glumdi í klossunum og bergmálaði í veggjunum. Í nokkrar sekúndur á eftir stóð ég kyrr og gapti af undrun. Síðan labbaði ég upp stigann þar sem námskeiðið átti að vera.

Ef konan hefði mætt mér þarna urrandi brjáluðum að berja á dyr bankans, gargandi: "HVERNIG ER ÞAÐ, ER ENGIN AFGREIÐSLA HÉRNA?!...ER ÉG AÐ BORGA FYRIR ÞESSA ÞJÓNUSTU?!" o.s.frv. hefði ég skilið stundarbrjálæði hennar. Þá hefði tilkynning hennar líklega róað mig niður og ég hefði sagt: "ó..úbbs...afsakið..." og hrökklast á brott. Þetta var hins vegar ekki þannig, eina tilefnið að viðbrögðum konunnar var það að ég gekk inn í þriggja hæða byggingu, pollrólegur, á leið á lyftaranámkeið og það vildi svo til að banki var staðsettur í sama húsi. Það virtist konan nánast túlka sem stórfellda árás.

Kannski er daglegt brauð að kolvitlausir viðskiptavinir bankans mæti á staðinn fyrir níu með uppsteyt og ókvæðisorð. Kannski þarf konan sífellt að flæma slíkt fólk burt og er farin að beita fyrirbyggjandi aðgerðum, þ.e. að æsa sig við þá áður en þeir fara að berja á dyr og garga. Kannski hef ég drepið köttinn hennar í fyrra lífi eða eitthvað. Kannski átti hún bara slæman dag. Hvað veit maður? Hitt er annað mál að ég hafði frekar gaman að þessari uppákomu og mátti passa mig að hlæja ekki að konunni. En sem betur fer gerði ég það ekki því þá hefði hún eflaust steinrotað mig á staðnum.

miðvikudagur, 6. júní 2007

Vaktavinna

Í sumar starfa ég í álveri í vaktavinnu. Það þýðir að ég vinn tvær helgar í mánuði þangað til skólinn byrjar aftur í haust. Unnar eru 12 tíma vaktir í fimm daga törnum og ég er á svokallaðri A-vakt, sem hefur vaktaplan langt fram í tímann eins og hinar vaktirnar, B, C og D. Á mánudagsmorgun kláraði ég síðustu næturvakt í þeirri fimm daga törn, sem innhélt tvær dagvaktir og þrjár næturvaktir. Mér virðist koma betur og betur í ljós að með þessu fyrirkomulagi missi ég nokkurn veginn af öllu í sumar. Þar sem ég var að vinna um liðna helgi missti ég t.d. af einni stórveislu. Ef gluggað er í vinnuplanið lengra fram á sumarið kemur í ljós að ég missi algerlega af verslunarmannahelginni sökum vinnu, en þá var ég búinn að 80% lofa að mæta á Mýrarboltamótið á Ísafirði. Líklega verður ekkert af því. Einnig missi ég af litlu verslunarmannahelgi sumarsins, þ.e. fyrstu helginni í júlí. Ég sá auglýsta afar spennandi tónleika í dag með Dúndurfréttum og Sinfóníunni 29.júní (flutt verður verk Pink Floyd, The Wall), leit síðan á vaktaplanið og hvað kom í ljós? Júbb, vinna. Svona mætti áfram telja, sennilega missi ég bara af öllu þetta sumarið. Veit að minnsta kosti ekki af neinum atburði sem hittist þannig á að ég missi ekki af honum, en það hlýtur að koma.

Hitinn á milli kera getur orðið nánast óbærilegur og rykið og drullan eru ekki alltaf af skornum skammti.

Kostirnir við slíka vinnu eru einnig fyrir hendi, t.d. kann ég frekar vel að meta þessi fimm daga frí inn á milli, a.m.k núna eftir fyrstu rimmuna og býst við að svo verði áfram. Kaupið er rjúkandi gott og svo er matur í boði fyrirtækisins á staðnum og kaffipásurnar eru frekar margar og stundum mjög langar (reyndar stundum of langar). Það mun reyndar væntanlega breytast fljótlega, þegar föstu starfsmennirnir fara að detta í sumarfrí einn af öðrum.

sunnudagur, 3. júní 2007

Óskir viðskiptavina

Fréttablaðið í dag greinir frá:

Nýtt leiðakerfi Strætó bs. tekur gildi í dag. Tíðni ferða minnkar og aka nú allir vagnar á 30 mínútna fresti, nema leiðir 23 og 27. Þegar vetraráætlun tekur gildi munu ákveðnar leiðir aka á 15 mínútna fresti.
[...]
Breytingarnar eru, samkvæmt upplýsingum Strætó bs, til þess fallnar að spara rekstrarkostnað og koma til móts við óskir viðskiptavina.
Gaman er að sjá hvernig þeir flétta þessi tvö markmið listilega saman; spara rekstrarkostnað og koma til móts við óskir viðskiptavina! Ég get ímyndað mér hvernig óskir viðskiptavina hafa hljómað. Eitthvað á þessa leið:

Bjarni: "Mér finnst ótrúlega gaman að bíða. Helst vildi ég bíða allan daginn. Mér finndist að Strætó bs. ætti að koma til móts við okkur fólkið sem hefur gaman að óralangri bið. Þið gætuð t.d. haft strætóferðir á hálftímafresti í stað 20 mín."

Kolbrún: "Ég ræð ekkert við þessa biðáráttu mína. Strætó á hálftíma fresti!"

Svavar: "Svavar hér. Ég er áhugamaður um sparnað, sérstaklega sparnað hjá ríkinu. Ég tek strætó og vil að hann gangi sjaldnar en hann gerir nú til þess að spara fé skattborgara"

Snjólaug: "Ég talaði við miðilinn minn í gær. Hann sagði að lífið mundi ganga betur ef strætó færi að ganga á hálftíma fresti."