fimmtudagur, 26. júlí 2007

Elliheimilið

Lítið hefur spurst til Kelis og Lil' Bow Wow undanfarin misseri. "Hvar er hún Kelis okkar?" og "Hvar er hann Lil' Bow Wow okkar?" spyrja gárungarnir á elliheimilinu sig um leið og þeir fussa yfir enn einu Scissor Sisters laginu á Popptíví.

Google myndaleit skilaði engri niðurstöðu þegar leitað var að Kelis brjálaðri að syngja slagarann "I hate you so much right now". Myndaleitin fann hins vegar þennan ósátta indjána og mun hann leysa Kelis af hér.

Lumar hann á fleiri smellum?

þriðjudagur, 24. júlí 2007

Lúkas

Þegar ég skrifaði síðustu færslu, um sjálfsvorkunnarköttinn, hafði ég lítið orðið var við stórfréttirnar af hundinum Lúkasi frá Akureyri. Svo var mér sagt frá fréttunum um hann, framhaldssögu fjölmiðla sem ku hafa farið fram marga undanfarna daga. Svo rak ég augun í þessa frétt framan á Fréttablaðinu frá því laugardaginn 21.júlí:

Lúkas lifir ekki veturinn af
"Svona hundur lifir ekki veturinn af nema hann sé innandyra," segir Björn Styrmir Árnason hundaatferlisráðgjafi.

„Tegundin er hárlaus og hefur enga vörn gegn kulda og bleytu. Svo hefur hún verið ræktuð þannig gegnum árin að hún hefur misst náttúrulega hæfni sína til að bjarga sér," segir hann.

Lúkas leggi sér því líklega til munns hvað eina sem að kjafti kemur, jafnvel rusl og skít. Þá sé ekki lengi að bíða ormasýkinga.

Hundsins hefur verið saknað síðan við maílok. Hann var sagður hafa verið drepinn á Akureyri um miðjan júní. Eigandi hans sá síðan til hans um síðustu helgi í Hlíðarfjalli, en hundurinn forðast mennina sem heitan eldinn.

Björn telur hundinn hafa orðið fyrir miklu sálrænu áfalli, fyrst hann haldi sig svo langt frá mannfólki. „Þegar hungrið sverfur að hjá þeim þá er það yfirleitt það fyrsta sem þeir gera að sækja til manna eftir öryggi og mat og hlýju," segir hann.

Þessi mikla fælni Lúkasar bendir til þess að eina úrræðið sé að fanga hann. „Fyrst hann er svona fráhverfur er ekki hægt að hefja endurhæfingu nema maður viti hvar hann er og geti gefið sér góðan tíma til að komast í námunda við hann. Þetta er nánast eins og að eiga við villt dýr, það þarf að yfirbuga óttann."

Jafnvel þótt það sé gúrkutíð, réttlætir það ekki slíkan fréttaflutning. Þetta er eins og fréttir fyrir leikskólabörn. Í því samhengi mætti kannski nefna að fæst leikskólabörn eru læs. Eflaust er sjálfsagt að eigendur hundsins minnist á þetta við ættingja og félaga, en þetta er langt frá því að vera efni í forsíðufrétt og varla fjölmiðlaefni yfirhöfuð.

Ég sé ekki betur en að ég ætti að láta fjölmiðla hafa upplýsingar um sjálfsvorkunnarköttinn - hvað skyldi kattaatferlisfræðingur segja um málið? Ég sé ekki betur en að þarna sé kominn forsíðumatur af bestu gerð.

sunnudagur, 22. júlí 2007

Sjálfsvorkunnarköttur

Kexruglaður köttur býr hér í nágrenninu. Ævinlega þegar ég mæti honum á vappi fyrir utan fer hann að emja eða mjálma ámátlega af slíkri innlifun að annað eins hefur varla heyrst. Í kvöld heyrði ég síðan heilan mjálmkonsert inn um gluggan. Ég vissi ekki hvað í ósköpunum væri á seyði og kíkti út um gluggann. Þá sat kötturinn í miðjum næsta garði og emjaði gjörsamlega linnulaust og þannig að bergmálaði um bæinn. Ég veit ekki hvort kötturinn á í einhvers konar innri sálarkreppu þessa dagana og reyni að fá smá útrás með eymdarlegu vælinu eða hvort hann gerir þetta bara vegna ástands heimsmála.

Rófuna vantar á blessaðan köttinn en hann missti hana fyrir löngu því ég hef séð hann við og við frá því ég flutti hingað fyrir þremur árum og alltaf rófulausan. En hver veit, kannski er hann að syrgja löngu horfna rófuna núna - dagana þegar hann var ungur og sprækur kettlingur og sveiflaði rófunni stoltur framan í gesti og gangandi. "Those were the days" gæti hann hugsað og brotnað gjörsamlega saman í kjölfarið.

En ef einhver kann að veita köttum sálfræðiaðstoð væri sá maður vinsæll hér.

--------
Nágrenni - Næsta umhverfi við tiltekinn stað.
Nágreni - Subbulegt húsnæði með líkum/subbulegt líkhús?

föstudagur, 20. júlí 2007

Sólarhringsvinna

Um daginn var ég í skautskiptum alla 12 tímana í álverinu. Keyrði skautbakka og mölbakka á lyftaranum, opnaði og lokaði pottum og sópaði. Þetta er sveittasta og skítugasta verkið í kerskálanum. Menn verða sótsvartir í framan eins og námuverkamenn. Þegar ég kom heim lét mamma mig bera viðurstyggilega og ókristilega þungan og umfangsmikinn svefnsófa upp í íbúðina með mági sínum. Eftir þetta borðaði ég og fór að sofa.

Þegar ég lokaði augunum til að fara að sofa um kvöldið sá ég strax bara skautbakka og ker. Svo dreymdi mig:

  1. Ég var að keyra á lyftara og kom að gríðarstórum haug af mölbökkum, sem enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Þeim var ekki staflað skipulega upp heldur voru allir á rúi og stúi. Ég þurfti einhvern veginn að brjóta mér leið í gegn. Handan haugsins hefur eflaust beðið verkefni, opna, loka, sópa, og flytja bakka af stað A á stað B. Ekki keyra bakkarnir sig sjálfir.
  2. Ég var að bera kleppþungan svefnsófa en vissi þó ekki hvert. Þetta var ferð án áfangastaðar.
Ætti ég ekki að vera á launum allan sólarhringinn þegar mig er farið að dreyma vinnuna eftir tólf tíma vakt? Er sem betur fer kominn í frí núna fram á miðvikudagsmorgun.

Stand by

Námsmenn ættu að kannast við hvað gerist á sumrin. Þá er heilinn settur á stand by. Sumarvinnan er unnin svo að segja sjálfvirkt. Svo fá menn áminningu þegar eitthvað kemur upp á, þá þarf aðeins að skrúfa upp í heilastarfseminni - í það minnsta tímabundið.

sunnudagur, 15. júlí 2007

Semi

Enska forskeytið semi- (ísl. hálf-) virðist hafa náð talsverðum vinsældum á landinu. Sumir eru ekkert að spara það, kannski ekki ástæða til.

Reyndar er semi-fyndið þegar menn eru farnir að troða þessu allsstaðar inn og segja t.d. að eitthvað hafi verið semi-leiðinlegt en eiga við mjög leiðinlegt, eða að e-ð hafi verið semi-skemmtilegt sem þeim fannst í raun fokkin' geðveikt. Eða hefðu þeir talað um hálfleiðinlegt/hálfskemmtilegt ef enska forskeytinu góða hefði ekki verið til að dreifa? Stundum gæti maður haldið að menn væru á samningi og fengju ákveðna upphæð fyrir hvert semi sem þeim tekst að skjóta inn í mál sitt.

Íslendingasögur:
Þá um kvöldið varð Egill hamrammur...

Íslendingasögur í nútímaþýðingu?:
Um kvöldið varð Egill semi-"hamrammur" (wtf?) og fór út að djamma.

föstudagur, 13. júlí 2007

Hætta!

Fuglaflensa!
Fuglaflensa!
Fuglaflensa!
Heimsfaraldur vofir yfir!

Hvar er fuglaflensan í dag? Ekki í fréttum. Heimsendaspárnar vekja athygli fjöldans. "Hvar er heimsendirinn sem fjölmiðlarnir lofuðu okkur?" spyrja menn í heita pottinum. Voru þetta kannski fjölmiðlar að kalla "úlfur, úlfur!"?

Stundum fara heimsendaspárnar að hljóma eins og treiler fyrir lélega bíómynd:
One man...
...one end of the world...
Can he survive?
This July...you are about to witness...

o.s.frv.

Lestur

Er að lesa býsna góða bók. Á sumrin gefst tími til frístundalesturs þegar námsbækur hafa verið lagðar á hilluna í þrjá mánuði. Meira um það síðar. Umrædd bók er kveikjan að eftirfarandi hugleiðingum.

Nú eru stjórnmál frekar asnaleg að ýmsu leyti. Menn þurfa helst að setja sig inn í sem flest mál, misáhugaverð og misskiljanleg fyrir Pétur og Pál.
Dæmi:Þingmaður Kristilega demókrataflokksins, Hrólfur, á að mæta í sjónvarpsviðtal um minnkun þorskstofnsins og hvernig best sé að takast á við vandann. Hrólfur er sérfæðingur í þessum málum, sprenglærður í þorskafræðunum - kann sitt fag. Síðan veikist hann daginn sem hann á að mæta í viðtalið og þá eru góð ráð dýr, hann er eini sérfræðingur flokksins í þessum málum. Þá þarf að hafa hraðar hendur og Rúrik er settur í málið. Þegar kemur að þorskstofni koma menn að tómum kofanum hjá honum, svo hann fær handrit, blað með tíu góðum frösum og einföldum skilgreininugum, sem á að vera nokkurnveginn sniðið að stefnu flokksins í málinu. Ef hann lendir í vandræðum í viðtalinu á hann bara að velja góðan frasa til að segja - með spekingssvip og horfandi yfir gleraugun til að sýnast gáfulegri og muna aldrei að svara beint því sem spurt er um, fara eins og köttur í kringum heitan graut:

  • Það þarf að setja gólf í dagróðrabátana!
  • Það er nægur fiskur í sjónum!
og ef hvorugur þessara virðist nægja fréttamanninum:

  • Hagvöxtur hefur aukist um 15% á einu ári, kaupmáttur um 23% og vísitala neysluverðs hefur aldrei verið hagstæðari en einmitt nú!
Alltaf að hafa allt eins einfalt og hægt er, en vera þó alltaf tilbúinn að kasta fram einu og einu flóknu orði til að virðast snjallari.

Og þegar áhorfandinn sér þetta hlýtur hann að hugsa:
Aaa, ég skil þetta ekki en þarna er greinilega maður sem kann sitt fag
-veit hvað hann syngur
-þekkir fræðin
-er eldri en tvævetur í bransanum.

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Menn halda alltaf að þeir séu að finna upp hjólið

Hjólreiðar hafa aukist á götum Reykjavíkur undanfarin misseri. Hjólakappar spretta upp eins og gorkúlur og skjótast út úr næsta runna eða húsasundi á fljúgandi ferð. Bílstjórar eru margir hvumsa og kunna ekkert að bregðast við auknu framboði hjólreiðamanna. Sumir virðast líta á þá sem lægra setta og því megi svína á þeim að vild. Það er alrangt.

Hjólið sem ég fékk í stúdentsgjöf í fyrravor hefur reynst mjög vel og ég hef nýtt það óspart. Hjólaði í skólann í allan vetur ef veður var ekki þeim mun hryssingslegra eða hálka á götunum. Í sumar hef ég notað hjólið mikið enda veður gott. Um daginn hjólaði ég úr Vesturbænum og upp í Breiðholt (Fellahverfi), reiknaði fyrirfram með að það væri talsvert erfitt, en sú reyndist ekki raunin. Túrinn tók 45 mínútur á háannatíma, sem er ekki mikið meira en bíll fer þetta á í mestu traffíkinni. Einn kafli leiðarinnar tók aðeins á, að hjóla upp Elliðaárdalinn - að öðru leyti var þetta eins og að drekka vatn.

Hjólið hefur ýmsa kosti umfram bílinn, það eyðir ekki bensíni og þarf mun sjaldnar að stoppa á umferðarljósum (vegna undirganga) en eilíf stopp og tafir eru það leiðinlegasta við að keyra bíl hér í bænum. Stærsti kosturinn er þó líklega sá að það er miklu skemmtilegra að hjóla heldur en að keyra. Hins vegar mættu borgaryfirvöld sjá sóma sinn í að bæta aðgengi fyrir hjólreiðamenn, s.s. með fleiri undirgöngum o.s.frv. Það er komið yfirdrifið nóg af þessum andskotans mislægu gatnamótum og hringavitleysugöngubrúm (eins og yfir nýju Hringbraut). Bæta ætti strætókerfið og aðgengi fyrir hjólandi og gangandi. Bíllinn þarf ekki alltaf að vera númer eitt, tvö og þrjú þegar samgöngur eru skipulagðar í Reykjavík.

Lokaniðurstaða er sú að ég mæli eindregið með því að fólk hjóli eins mikið og hægt er, sérstaklega eins og veðrið hefur verið í sumar. Ekki hjóla bara einu sinni í vinnuna með sparibrosið í botni af því að það er "Vika hjólsins" og birtast á myndum í blöðunum eins og ónefndir stjórnmálamenn.

Jabba the Hut fær að slá botninn í þessa færslu.

þriðjudagur, 3. júlí 2007

Lyftaramyndband

Lyftaramyndbandið sem við sáum á lyftaranámskeiðinu um daginn kenndi hvað bæri að varast við notkun lyftara.

VARÚÐ:
  • Þýskt myndband frá svona 1982.
  • Of hressandi bakgrunnstónlist.
  • Ekki fyrir viðkvæma.