fimmtudagur, 27. desember 2007

Jólatré

Margir Danir köstuðu jólatrjánum út í gær, annan jóladag. Maður vill heldur ekkert hugsa þá hugsun til enda hvað gæti gerst ef jólatréð er of lengi inni. Best er að vera tilbúinn á skeiðklukkunni þegar nálgast miðnætti á jóladag og þruma trénu beint út í tunnu þegar klukkan slær tólf.

miðvikudagur, 26. desember 2007

Skrifstofan lokuð

Einhverjir hafa reynt að ná í mig í síma. Ég er í Danmörku en mun væntanlega skila mér heim fyrir áramót.

sunnudagur, 16. desember 2007

Hræðilegt líf áður fyrr

Fyrir ekki svo löngu fannst stórkostlegt skólaverkefni frá mér síðan ég var 10 ára. Kennarinn lagði fyrir það verkefni í samfélagsfræði að taka viðtal við afa eða ömmu með stöðluðum spurningum sem hann hafði samið. Verkefnið hét Hvernig var lífið hér áður fyrr? Ég tók viðtal við ömmu. Þetta tvennt stóð upp úr:

Hvernig skemmti fólk sér?
"Jólaball var haldið fyrir börnin."
Tilkomumikið.

Eftirminnilegur atburður úr æsku?
"Amma var send í sveit 6 ára og átti að vera í eitt ár en þegar föðursystir hennar ætlaði að ná í hana var afleggjarinn að bænum fullur af vatni þá þurfti amma að vera þar þangað til hún var 22 ára en hún þekkti fólkið á bænum ekki neitt."

Tekið skal fram að ég skildi ekki alveg lýsingu hennar á atburðinum svo vafasöm túlkun mín fléttast inn í svarið. Ég sé fyrir mér hvernig líf hennar hefur verið í þessi 16 ár á bænum hjá ókunnuga fólkinu. Hvern einasta dag hefur hún vaknað, farið fram og séð eitthvað ókunnugt lið (hitt heimilisfólkið) og bara eitthvað "wtf?".

mánudagur, 10. desember 2007

Velvakandi

Jólabækur eru auglýstar grimmt í ljósvakamiðlum. Vakið hefur athygli ný bók úr seríunni Dagbók Berts. Slíkar bækur voru vinsælar á árum áður hjá "kókópöffskynslóðinni" eins og íþróttakennarinn kallaði bekkinn minn einn daginn þá við lítinn fögnuð viðstaddra.

Kunna höfundarnir sér ekki hóf? Ætla þeir aldrei að hætta þessu? Hvar endar þetta?

Bókaauglýsing árið 2050?:

  • "Bert er orðinn sjötugur og sveittur á elliheimili en hefur engu gleymt. Gamli grallarinn hefur aldrei verið betri."

Vinnukonugripin

Á fimmtudaginn lauk ég 11 vikna gítarnámskeiði hjá Ólafi Gauki, miklum meistara. Námskeiðið kallast forþrep og er fyrir algjöra nýgræðinga. Á námskeiðinu hef ég lært að spila tólf "vinnukonugrip" og glamra slatta af lögum með þeim.

Hvaðan skyldi fyrirbærið vinnukonugrip vera komið?
Á vetrarsíðkvöldum í gamla daga sat heimilisfólkið stundum inni í torfbænum og nartaði í súrt slátur og ábrysti. Þess á milli mátti heyra saumnál detta og fólkið mændi tómum augum út í náttmyrkrið. Einmitt þá rauf vinnukonan á bænum þögnina með orðinu "JÆJA!", reif upp gítarinn og spilaði Fyrr var oft í koti kátt og fleiri slagara með vinnukonugripunum til þess að rífa upp stemminguna.