föstudagur, 14. mars 2008

Lok vinnuviku

Oftast reyni ég að forðast að fara út að keyra í föstudagstraffíkinni, sé þess kostur. En í dag þurfti að versla í matinn, ískápurinn var gapandi tómur. Þegar ég keyrði inn á litla bílastæðið við búðina var það frekar pakkað. Einn bíll var að bakka á móti akstursstefnu þeirra sem komu inn á stæðið, ég bakkaði þá smávegis, hélt að hann væri að bíða eftir stæði sem var að losna rétt fyrir framan. Hann bakkaði aðeins meira, ég bakkaði aðeins meira. Síðan ætlaði hann að bakka enn meira, þá bakkaði ég ekki. Þá stökk hann öskuillur út úr bílnum og baðaði út höndunum, settist síðan aftur inn. Fleiri bílar voru komnir aftan við mig sem ætluðu inn á stæðið. Maðurinn stökk aftur út úr bílnum og öskraði "FARÐU FRAMHJÁ!" og virtist vera endanlega að missa vitið. Ég fór framhjá og fann laust stæði, en "nota bene" bílar sem voru að fara höfðu verið að keyra þeim megin eins og venjan er á svona bílastæðum. Var að velta fyrir mér hvort ég ætti að svara honum einhverju en ákvað að sleppa því, nógu brjálaður var hann fyrir. Næsti bíll á eftir mér var núna aftan við tryllta gaurinn, sem trylltist enn meira og öskraði á fólkið í þeim bíl að fara framhjá. Það fór framhjá og hló að manninum sem varð ekkert minna trylltur við það. Veit ekki hvað gerðist næst því ég fór inn að versla.

Hann var á sjö manna bíl og kona og þrír eða fjórir krakkar voru með í bílnum. Eflaust hefur hann verið að farast úr stressi nýkominn úr vinnu og eitthvað. Svo gæti ég ímyndað mér að krakkarnir hafi sagt aftur í: "Pabbi, kanntu ekki að keyra? Af hverju förum við ekki heim?" o.s.frv.

laugardagur, 1. mars 2008

Gleðibankinn

Vaknaði í morgun með lagið Gleðibankann á heilanum mér til mikillar furðu. Reyndar hálfvaknaði ég og fannst jafnvel eins og ICY-söngflokkurinn væri inni hjá mér allur með tölu að syngja lagið á fullu blasti. Ég bjó mig undir að hreyta einhverjum skammaryrðum í þau og henda þeim út og spyrja þau "Vitiði hvað klukkan er!?!" og eitthvað álíka gáfulegt.

Svo vaknaði ég almennilega, sneri mér við og leit upp til þess að fullvissa mig um að þetta lið væri ekki í herberginu. Þau voru hvergi sjáanleg svo að ég gat farið aftur að sofa og geymt skammarpistilinn til betri tíma.