laugardagur, 31. maí 2008

Hvít húfa

Systir mín útskrifaðist sem stúdent úr MH um síðustu helgi. Hún er rétt rúmum fjórum árum yngri en ég, en útskrifaðist sem stúdent núna tveimur árum á eftir. Ef þetta heldur svona áfram tekur hún fram úr mér áður en langt um líður. Ég get þá huggað mig við það að kannski verður hún komin langt fram úr mér á gamals aldri og fer á undan á elliheimilið.

Þessi mynd náðist í veislunni.

Frá vinstri: Ég, amma, Nína, afi.

Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum?

Móðir mín sendi mér tölvupóst á dögunum með yfirskriftinni Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum? Inni í tölvupóstinum stóð síðan ekkert nema "Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum?".

Þetta hefði verið frekar skemmtilegt ef samhengið hefði verið ekkert, en hún hafði áður beðið mig að senda sér grein úr greinasafni Moggans með þessum titli, sem hún greinilega ásælist, en hefur ekki aðgang sjálf. Ég mundi reyndar ekki strax eftir þessu þegar ég sá póstinn, þannig að þetta virtist frekar skrýtið.

Eitt og sér hefði þetta samt verið best, knýjandi spurning sem ég ætti síðan að svara að vel athuguðu máli. Auðvitað ætti maður að fara að stunda þetta, að senda fólki sem maður þekkir undarlegar spurningar í tölvupósti, eða bara á póstkorti, það er eiginlega betra.

sunnudagur, 25. maí 2008

Eurovision

Eurovision virðist vera að færast frá því að vera fyrst og fremst vondulagakeppni, yfir í að vera strippkeppni. Sigurlagið í ár var klárlega ekki gott lag, en söngvarinn tók nett stripp sem hefur væntanlega reddað slurk af atkvæðum kvenna. Konur eru sennilega 60-70% þeirra sem kjósa í símakosningunni, og þar með var sigur Rússa tryggður. Það var einmitt þetta sem kvenstripparar kepninnar, sem voru meirihluti keppenda, klikkaði á, þ.e. að kvenatkvæði eru líkast til fleiri og sá markhópur þar með stærri. Svo spilaði inn í að þar var samkeppnin meiri, þær voru svo margar. Og Grikkland, hvað var það? Hvergi var til sparað í samfarasveiflunum á sviðinu. Lélegt lagið var algjört aukaatriði.

Annars fannst mér finnska lagið bera af í keppninni. Fínt rokklag, betra en sigurlag Lordi, en engir rosalegir búningar, sem hefur sennilega spillt fyrir þeim. Hvaða álit sem fólk kann að hafa á íslenska laginu eða flytjendum þess, er ekki hægt að gagnrýna flutninginn, því hann var 100% og það er meira en segja má um suma hinna kependanna.

laugardagur, 17. maí 2008

F. Magnússon

Tómas gaukaði að mér góðri hugmynd á dögunum. Hann spurði hvort ég væri kominn með djobb hjá borginni, verandi F. Magnússon. Þetta er klárlega borðleggjandi dæmi, nú þarf ég bara að fara á fund Ólafs F. og nefna þetta við hann. Það hlýtur að vera hægt að hliðra aðeins til fyrir mig þarna hjá borginni, búa jafnvel til nýja stöðu og svo fæ ég launatékka upp á tæpa milljón á mánuði. Úthverfastjóri, hvernig hljómar það?

Svo kemur máltakið "allt er þá er þrennt er" við sögu og við félagarnir þrír deilum og drottnum yfir borginni.




Heilög þrenning?

laugardagur, 3. maí 2008

Munaður

Í dag átti sérkennilegt atvik sér stað í enska boltanum. Í stöðunni 3-1 fyrir Man.Utd. gegn West Ham tók Luis Nani (Man. Utd.) sig til og skallaði Lucas Neill (West Ham) og fékk rautt spjald að launum. Þetta þótti nokkuð sérstakt, einkum í ljósi góðrar stöðu Man. Utd. í leiknum og þar með í baráttunni um meistaratitilinn.

En svo má líta á þetta öðruvísi, hvenær átti Nani að leyfa sér þann munað að skalla Neill, ef ekki í þessarri stöðu? Þetta var a.m.k. betra tækifæri til sérkennilegrar framkomu heldur en þegar Riise skoraði fáránlegt sjálfsmark um daginn og jafnaði fyrir Chelsea eftir að uppbótartíma var lokið í mikilvægasta leik tímabilsins til þessa hjá Liverpool. Þetta var líka betra tækifæri en þegar Zidane tók sig til og skallaði Materazzi niður í úrslitum HM. Þar var staðan ekki jafn góð, fórnarkostnaðurinn var meiri, alveg eins og hjá Riise. Þannig að kannski var þetta ekkert svo slæm hugmynd hjá Nani.