miðvikudagur, 29. október 2008

Víkverji skrifar...

Víkverji fór í sund í gærkvöldi. Heyrði hann á tal pottverja:
Pottverji 1 (yfirgnæfði aðra pottverja): "Svo er það Ögmundur, hann er kommúnisti!"
Pottverjar töluðu síðan allir í einu, uppi varð fótur og fit og menn fóru mikinn og tróðu marvaðann í lausnum í efnahagsmálum.
Pottverji 2 (hátt og snjallt yfir hópinn): "Heyrðu, hvað var hann Hörður Torfa að rífa sig í sjónvarpinu í gær?"
Aftur varð uppi fótur og fit meðal pottverja, sem töluðu hver í kapp við annan og vörpuðu fram fleiri gráupplögðum lausnum á slíkri kreppu.

Lausnin gæti verið sú að skipa pottverja sem seðlabankastjóra og skipta út núverandi ríkisstjórn fyrir ríkisstjórn pottverja. Enn fremur má hugsa sér pottverja í útrás á komandi árum.

föstudagur, 17. október 2008

Höfðingleg boð

Fyrirsögn á bankafrétt hjá mbl.is : "Boðin launalækkun". Þessi orð fara illa saman, hljómar óeðlilega. Hvernig fer þett fram?

"Nú ætla ég að gera þér tilboð sem þú getur ekki hafnað!"
"Ok, lát heyra"
"Launalækkun upp á 20%"
...

sunnudagur, 12. október 2008

"Fuckin' Icelanders"

Ég hef vissar áhyggjur af því að ímynd Íslands hafi beðið skipbrot eins og frjálshyggjan upp á síðkastið. Fyrst var æsingur í Bretlandi, síðan Hollandi og vísast er að óhróður Íslands eigi eftir að berast um gjörvalla heimsbyggðina. Börn í Malí gætu verið farin að tala um "Fuckin' Icelanders" áður en langt um líður. En titill færslunnar er reyndar vísun í hollenskan dópmangara í nýju bíómyndinni Reykjavík - Rotterdam, mæli hiklaust með þeirri mynd.

Að þessu sögðu virðist rökrétt að skipta um nafn á landinu. Helst þarf nafnið að vera sem ólíkast núverandi nafni, svo erfitt sé að tengja við það. Tillaga að nýju nafni fyrir Ísland er...

...Zanubia

Það eru tveir augljósir kostir við það nafn, í fyrsta lagi hljómar það eins og nafn á Afríkuríki og mjög erfitt er að tengja það við Ísland. Í öðru lagi er viðeigandi að taka upp nafn sem gæti verið á þróunarlandi vegna þess að hér stefnir allt í að verða rjúkandi rústir og þá þarf að hefja uppbyggingu frá grunni.

Síðan mætti auglýsa verslunarferðir og ódýran bjór, til þess að fiska túrista til landsins.

fimmtudagur, 9. október 2008

Ljósir punktar

  • Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ég féll naumlega á TOEFL enskuprófinu í desember, en það er ein forsenda þess að komast í flesta enskumælandi háskóla. Ef ég hefði náð prófinu, væri ég að líkindum í skiptinámi í Kanada núna, en eins og flestir vita eru íslenskir námsmenn erlendis í vondum málum þessa dagana.
  • Valkostum fyrir ungt fólk fækkar á komandi misserum, með gjaldþrotum fyrirtækja o.fl. Færri valkostir þýða auðveldara val.
  • Ég þurfti að afskrifa hlutabréf í íslenskum banka í vikunni eins og þúsundir annarra Íslendinga og auðjöfur frá Mið-Austurlöndum. Finn reyndar ekkert sérstaklega jákvætt við það. En mér yfirsést eflaust eitthvað.