mánudagur, 12. október 2009

Stóra klósettmálinu loksins lokið

Stutt upprifjun úr síðasta þætti: Guðmundur flutti inn í námsmannaíbúðina og sá að klósettið var slíkur viðbjóður að annað eins hafði hann ekki séð. (Við sjáum ekki myndir). Hann fór og kvartaði til þar til gerðra yfirvalda og yfirvaldið kom og skipti um klósettsetu, eins og það væri nóg!

Næsti þáttur:
Öðru sinni fór Guðmundur og kvartaði, fyrst við húsvörðinn og síðan við Húsnæðisskrifstofu alþjóðanema. Húsvörðurinn stóð fast á þeirri skoðun sinni að botninn á klósettinu væri bara skítugur, ekki slitinn, eins og G. hélt fram. Hann benti G. jafnframt á að kvarta við Húsnæðisskrifstofuna undan ófullnægjandi þrifum klósetts. Húsvörðurinn var þó reiðubúinn að gera við sturtun klósettsins, sem hafði virkað illa til að byrja með og var hætt að virka á þessum tímapunkti. Vatnsfötu þurfti til að sturta nú orðið.

Næsta stopp, Húsnæðisskrifstofan: G. var ekki of bjartsýnn fyrir ferð sína á Húsnæðisskrifstofuna, enda hafði hann í fyrri heimsókn sinni þangað fengið nokkur svör í stíl við "Computer says no!" Í þetta skiptið talaði hann við annan þjónustufulltrúa og byrjaði á að nefna að ekkert svar hefði fengist við tölvupósti til hins þjónustufulltrúans, sendum fyrir fimm virkum dögum. Svo sagði hann alla sólarsöguna af klósettinu og fleiri vanköntum á íbúðinni sem ekki verða tíundaðir frekar. Í stuttu máli sagt voru svör þessa þjónustufulltrúa mun ásættanlegri en þess fyrri og lofaði hann m.a. að senda Þrifameistara Húsnæðisskrifstofunnar á svæðið, sem hann nefndi einhverra hluta vegna að væri indverskur. G. áttaði sig ekki alveg á hvernig það kom málinu við, en hvað um það...

Í morgun mætti Þrifameistarinn á svæðið, vopnaður allra handa hreinsibúnaði og hófst handa. Hann sagði að klósettið væri verra en hann hefði búist við og sótti "extreme case" - græjur út í bíl. Síðan heyrði G. alls kyns skraphljóð innan af klósetti og púst og fáein blótsyrði. Þetta stóð yfir í um 40 mín., en þá kom maðurinn brosandi út og sagði verkinu lokið. G. leit á og gat staðfest það, hann hafði ekki látið nægja að þrífa klósettið heldur tók allt baðherbergið í gegn. Ekki var laust við ofbirtu í augun þegar litið var á dýrðina, ekki ósvipað Mr. Proper auglýsingu. Eru þá ekki allir sáttir? Stóra klósettmálinu er hér með lokið á farsælan hátt.

Látum hressan þjónustufulltrúa um að enda þetta:

laugardagur, 3. október 2009

Bara venjulegur fimmtudagsmorgun

Á fimmtudagsmorguninn lagaði ég morgunkaffið og kíkti aðeins í tölvuna. Ég átti eftir að klæða mig þegar einhver sauðslegur maður óð inn í íbúðina. Hann hafði ekki fyrir því að banka á undan, opnaði bara með lykli og lét eins og heima hjá sér. Hann hélt á kassa. Þegar hann sá að ég var heima sagði hann einhverja óskiljanlega þvælu á dönsku. Ég bað hann vinsamlegast að bera upp erindið á ensku og þá sagðist hann á blöndu af ensku og dönsku vera kominn til þess að skipta um klósettsetu hjá mér og að sér hefði verið sagt að ég væri ekki heima (hver átti svosum að vita það?), þess vegna óð hann bara inn.

Fyrr í vikunni hafði ég kvartað undan klósettinu í íbúðinni og beðið um að því yrði hreinlega skipt út, þar sem það er virkilega sjúskað og ógeðslegt. Veit ekki hversu mikið ég á að fara út í smáatriði, en það er sem sagt mjög slitið neðst og lítur út fyrir að vera óhreint. Ástæðan líklega sú að einhver fyrri íbúi hefur notað tærandi efni til þess að hreinsa klósettið. Klósettsettan var líka öll upplituð (svona skitugul e-n veginn), en nú er vinur okkar búinn að skipta henni út sem sagt, fyrir glæsilega glansandi nýja postulínssetu svo ég geti tekið gleði mína á ný. Þar að auki er vatnskassinn stundum í nokkra klukkutíma að fyllast eftir að sturtað er... Með öðrum orðum, það þarf að skipta þessu klósetti út.

Ég nefndi við manninn að ég hefði viljað fá klósettinu í heild skipt út. Hann sagðist bara hlýða fyrirmælum að ofan og að ég yrði að tala um þetta við húsvörðinn. Ég var búinn að því, en húsvörðurinn hafði komið einn daginn þegar ég var ekki heima að líta á klósettið. Hans niðurstaða hefur greinilega verið sú að eingöngu þyrfti að skipta um setu...Nema að þessu verði öllu skipt út, bara í nokkrum skömmtum, næst kemur maðurinn kannski að skipta út skrúfum eða eitthvað.

föstudagur, 4. september 2009

Panikk

Verd ad vidurkenna ad eg fekk halfgert "panic attack" thegar eg skradi mig inn a facebook i dag eftir ad hafa stofnad reikninginn i gaerkvoldi. A skjanum birtust alls kyns samtol og nofn og myndir af folki sem eg thekki og sem eg thekki ekki og eitthvad sem thad hafdi skrifad, eins og einhvers konar pop-up. Byst vid ad thetta se hefdbundid og ekkert nytt fyrir flestum, enda flestir a minum aldri longu komnir med slikt apparat.

Svo var nett panikk thegar eg opnadi hotmail og atti milljon olesin skeyti tengd f.b. Leid eflaust svipad og Bruce Almighty i samnefndri mynd thegar hann fekk ad vera gud um tima og oskadi eftir ad fa baenir alls folks i heiminum sendar i tolvuposti....

...Jaeja, eg er adeins ad ykja.

fimmtudagur, 3. september 2009

Danmörk - fyrstu dagarnir

Eins og flestir sem þekkja mig vita, er ég fluttur til Danmerkur. Byrjaður í námi í Álaborgarháskóla, sem lítur mjög vel út. Kominn með íbúð á leigu, en netið er ekki komið í gagnið þar, því miður. Mér leið eins og Palla, sem var einn í heiminum, daginn sem ég fékk íbúðina, var búinn að taka aðeins upp úr töskum og svona og ætlaði að kíkja á netið - hviss bamm búmm! ekkert net, aleinn í útlöndum í ókunnu húsi.


En dagarnir á eftir hafa verið mjög fínir. "Allra þjóða kvikindi" eru með mér í náminu og hef ég náð tali af ýmsum þeirra. Verst er að muna ekki nema brot af nöfnunum, en það kemur vonandi smám saman. Gæti orðið auðveldara en ella þar sem ég var að opna bók kennda við feis. Sendi út nokkrar vinabeiðnir en gafst svo upp í bili. Í dag var fyrsti kennsludagur og í einum tímanum sat ég á milli Bandaríkjamanns og Afgana (milli steins og sleggju?), hef ekki hitt Afgana áður svo ég muni.

Þegar ég hef kynnt mig hafa allir með engri undantekningu hváð og beðið um endurtekningar, jafnvel að ég skrifaði nafnið fyrir þau eða stafaði. Ánægjulegt að hafa svona international nafn. Ég hef ákveðið að segja nafnið eins og það er gert á íslensku. Vil ekki segjast heita Gummi eða eitthvað, sérstaklega ekki við Danina, gummi þýðir jú smokkur á dönsku.

En ég nenni ekki að skrifa meira í bili. Of margt sem ég ætlaði að skrifa og ég get ekki ákveðið hvað á að nefna og hvað ekki, þannig að við segjum það að sinni.

mánudagur, 10. ágúst 2009

Þjónusta!

Í vegasjoppu við Þjóðveg eitt:
Ég: Góðann daginn, tvær með öllu.
Afgreiðslustúlka: Viltu líka kokteilsósu á þær?
Ég: Nei, takk.
Fyrsta verk afgreiðslustúlku er að setja steiktan, hráan og kokteilsósu í pylsubrauð. Ég fylgist undrandi með. Og svo:
Afg.: Hvort sagðirðu aftur nei takk eða já takk við kokteilsósunni?
Ég: Ég sagði nei takk!
Afg: Ó.
Byrjar upp á nýtt og man í þetta skiptið að sleppa kokteilsósunni.

Annars er kokteilsósa ágæt, sérstaklega með frönskum, síður á pylsur.

Lærdómur: Verum ekki á sjálfstýringu og "cruise control" í vinnunni.

mánudagur, 3. ágúst 2009

Af kvöldmat

Var einn heima í gærkvöldi um kvöldmatarleytið. Opnaði kæliskápinn og við blasti ólgandi beinhreinsað laxastykki. Skipti engum togum að ég þrumaði nýjum kartöflum í pott, galdraði fram sósu úr súrmjólk, grískri jógúrt, ferskum basil, tarragoni og smá dilli. Setti síðan sítrónupipar, pipar og Himalaya salt á laxastykkið og steikti á pönnu ásamt sveppum (hljómar kannski frekar steikt, en átti vel við með laxinum). Á sumrin gefst miklu betri tími til tilraunaeldamennsku en á veturna.

Þetta féll eins og flis í munn og steinlá og hvað það nú heitir allt saman. Þetta var skammtur fyrir tvo og vantaði kvenmann til að borða með. Það er líka djöfullegt að vera einn til frásagnar um þetta því þá getur fólk véfengt og dregið í efa.

Yfirleitt finnst mér lélegt þegar menn hrósa sjálfum sér, en ég gat ekki setið á mér núna, slíkur var myndarskapurinn.

Svona gera menn ekki?

Aðalmálið að vera með?

Liverpool fengu skell gegn Espanyol í æfingaleik í gær, töpuðu 3 - 0. Í viðtali eftir leikinn segir kantmaðurinn knái, Riera, leikæfinguna mikilvægari en úrslitin.

Svo er bara spurningin hvað Riera segir í lok komandi tímabils ef það verður enn eitt tímabilið án Englandsmeistaratitils - kannski "Aðalmálið er að vera með," áhangendum til ómældrar gleði.

Svona gera menn ekki.

laugardagur, 11. júlí 2009

Jón drekkur Bónus-pilsnerinn beint úr dósinni. Hvað gerir þú?

Krónan selur mikið af vörum undir merkjum First Price, framleiðanda sem reynir að selja ódýrari vörur, svipað og Euroshopper. First Price brydda hins vegar upp á þeirri skemmtilegu nýbreytni að láta fólk sitja fyrir á myndum sem prýða umbúðirnar. Hér eru nokkur dæmi:





Dæmi hver fyrir sig hversu kjánalegt þetta er. Fólkið á myndunum fékk fyrirmælin "Sýndu hvernig varan er notuð, horfðu í myndavélina og brostu út fyrir."

Svokallaðir útrásarvíkingar Íslands hafa beðið álitshnekki meðal almennings. Þá vantar leið til þess að byggja upp ferilinn á ný, endurreisa orðstír sinn og stolt. Fyrsta skrefið gæti verið að sitja fyrir á matvöruumbúðum. Þessar myndir koma strax upp í hugann:

  • Hannes Smárason að raka sig.
  • Jón Ásgeir að drekka Bónus - pilsner.
  • Sigurjón Árnason að borða hnetusmjör.
  • Bjarni Ármanns að útbúa eggjaköku.
Hvert mannsbarn mundi þekkja þessi andlit og hugsa til þeirra með hlýhug í eldhúsinu, á baðherberginu, í garðinum, jafnvel í forstofunni. Þetta gæti orðið upphafið að nýjum og glæsilegum ferli útrásarvíkinganna.

Robert Mugabe byrjaði sem fyrirsæta á sjampóbrúsa, sjáið hvar hann er í dag.

sunnudagur, 5. júlí 2009

Er enginn að afgreiða hérna?!


Fréttablaðið birti þessa mynd með frétt á föstudaginn. Fréttin var um þátt á sjónvarpsstöð Ingva, ÍNN, sem búið er að leggja af eða leggja í bleyti eða eitthvað. Fljótt á litið virðist myndin ekki koma fréttinni við að öðru leyti en því að þetta er Ingvi...með tómt vínglas í hönd. Niðurstaðan á kaffistofunni í vinnunni var sú að Ingvi væri að senda lesendum fréttarinnar skilaboðin "Er enginn að afgreiða hérna?! Glasið mitt er tómt!" eins og glögglega má sjá á svipnum.

sunnudagur, 28. júní 2009

Aukahlutirnir sem skapa sterkan karakter

Í vikunni sem leið skoðaði ég gleraugnaumgjarðir í tveimur gleraugnabúðum, með umgjarðarkaup í huga. Í þeirri fyrri var ég spurður hvort ég hefði eitthvað ákveðið í huga. Ég neitaði og fékk þá að sjá fullt af umgjörðum, með ólíkum eiginleikum og útliti. Sumar umgjarðanna sagði sölumaðurinn að hefðu mjög sterkan karakter. Misjafnt var hve sveigjanlegar umgjarðirnar voru, hann sýndi mér t.d. tvennar umgjarðir frá sama framleiðanda sem voru úr sama efni og líkar í útliti, en á öðrum þeirra mátti sveigja armana upp og niður og borga rúmar 10 þúsund aukalega fyrir það. Ekki tókst að sannfæra mig um nauðsyn þessa möguleika.

Í seinni gleraugnabúðinni voru mér líka sýndar umgjarðir með ólíkum sveigjanleika, en þar virtist karakter umgjarðanna vera það sem helst greindi þær hverja frá annarri. Meira áberandi umgjarðir voru umgjarðir með sterkari karakter. Mér leist yfirleitt betur á lítt áberandi umgjarðir. En auðvitað fór ég síðan að velta fyrir mér hversu sterkur karakter ég væri og hvort gleraugnaumgjarðir gætu styrkt karakter minn. Gæti ég ef til vill styrkt karakter minn um fjórðung, bara með því að punga út 30 þúsundum aukalega í umgjarðir með nautsterkum karakter? Þetta krafðist verulegrar umhugsunar og heilabrota, en á endanum var ég nógu sterkur karakter til að fúlsa við gylliboðum um umgjarðir með dúndrandi sterkum karakter og yfirleitt hærra verði eftir því. Menn hafa misjafnan smekk, en ég trúi varla að þeir sem hafa smekk fyrir áberandi umgjörðum líti á þær sem merki um sterkan karakter, en hvað veit maður.

Umtalað er hve sterkur karakter Sævar er. Það skýrist af þremur þáttum:
Gleraugnaumgjarðirnar sem hann notar skýra 50% af karakter hans, jeppinn 30%
og bílalánið 20% (hann fékk sér bílalán með virkilega sterkum karakter sko, svo sagði sölumaðurinn að minnsta kosti).

fimmtudagur, 25. júní 2009

11 eintök af Bláma

Er að hlusta á lýsingu Bjarna Fel á leik Stjörnunnar og Vals, sem Stjarnan er að mala, ekki að spyrja að því. Nema hvað, Bjarni kallar þá alltaf Stjörnustráka. Bjarni er þar að rugla þeim saman við aðalpersónu jóladagatals Sjónvarpsins um árið, Stjörnustrákur, um stjörnustrákinn Bláma.

"En boltinn berst beint til stjörnustráks..." Annars væri tilkomumikið að sjá ellefu eintök af Bláma spila fótboltaleik. Fruntalega kerlingin mundi að sjálfsögðu stýra liðinu.

laugardagur, 6. júní 2009

Spurning dagsins

Hver er líkamlegur leiðtogi Tíbeta?

laugardagur, 16. maí 2009

Rökstuddur grunur

Þegar ég sá fyrstu þættina af Sigtinu í umsjón Frímanns Gunnarssonar grunaði mig að persónan væri að miklu leyti byggð á Jóni Ársæli af Stöð 2. Sá grunur var ágætlega rökstuddur í Fréttablaðinu í morgun, þar sem Jón segir um Hallbjörn Hjartarson:


"Ég minnist þessa íslenska kúreka baksa til hrossa sinna í norðlenskri stórhríð svo sá ekki út úr augum. Ég sá hann líka velta sér upp úr stofugólfinu heima með köttinn í fanginu þar sem hann táraðist yfir slæmsku heimsins. Þar var ljóðið íslenskt, hreint og tært. Þar var kominn hinn eini sann kúreki norðursins."

Og Jón er ekki hættur:
"Þegar ég horfi til baka man ég að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð garrinn þegar Halbjörn mætti eins og fullskapaður til borgarinnar á sínum tíma, alklæddur kúrekadressinu, sveiflandi svipu, hljóðnema og hatti og söng um mann og gresju, snöru og háls og blámann sem býr með okkur öllum."
Alveg rólegur, Jón...:
"Og svo býr Hallbjörn Hjartarson yfir hugsjónum. Hann sér langt, langt út fyrir drullupollinn sem okkur hinum þykir svo vænt um að svamla í. Hann á sér vængi sem lyfta honum hátt yfir jökulklædda tinda upp í forsal vindanna. Harpa hans býr yfir tóni sem aldrei má þagna."

Ég held að Jón eigi við að Hallbjörn sé fínn karl, honum finnst bara betra að orða það svona. Annað eins orðagjálfur hef ég varla séð fyrr eða síðar, kannski ætti ég frekar að orða það svona:

Harpa Jóns býr yfir tóni sem má þagna, í forsal vindanna.

mánudagur, 11. maí 2009

Klikkuð gömul kerling

Gamla konan á hæðinni fyrir neðan er stundum nokkuð kostuleg. Hér hafa verið iðnaðarmenn undanfarna daga að endurnýja baðherbergið og þeir hafa þurft að taka vatnið af húsinu nokkrum sinnum af því tilefni. Í fyrrakvöld þegar þeir voru farnir fyrir nokkrum klukkutímum hringdi dyrabjallan og þá var það sú gamla, sem sagði að það sturtaðist ekki niður í klósettinu hjá sér. Ég hringdi þá samstundis í frænda minn (sem er einn iðnaðarmannanna) og lét hann vita, hann sagðist mæta um hæl til að kíkja á þetta. Hann mætti síðan ásamt píparanum og þeir fiffuðu klósettið á hæðinni fyrir neðan. Gamla konan hafði haft uppi ýmis nokkuð kostuleg orð, en best fannst mér samt það sem hún sagði við mig þegar strákarnir voru nýfarnir. Þá benti hún á hausinn á sér, skælbrosti og sagði við mig:

"Þeir halda örugglega að ég sé KLIKKUÐ gömul kerling!"

...með mjög sterkri áherslu á "klikkuð".

Þetta var án efa betra í hennar meðförum en í þessum texta, en ég náði þessu því miður ekki á myndband.

þriðjudagur, 5. maí 2009

Sami maðurinn?

Adam West er borgarstjóri í teiknimyndaþáttunum Family Guy. Ég get ekki að því gert að mér finnst hann minna ískyggilega mikið á Ólaf F., sem var borgarstjóri í Reykjavík fyrir ekki margt löngu. Ég er ekki frá því að persónan West sé byggður á Ólafi. Nokkuð sérstakur svona.

Adam West


Ólafur F.

Meira að segja báðir með rautt bindi. Þessi West verður líka skemmtilegri ef maður sér hann alltaf sem Ólaf.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

Saurblöð

Þegar skila á ritgerðum í skólum er venjulega krafist saurblaða fremst. Þegar nemendur spyrja til hvers í ósköpunum þurfi sérstakt autt saurblað fremst í ritgerðir, er þeim oftast svarað með vísun til hefða, "Það er nú bara venjan!" Merkilegt er að halda skuli í heimskulegustu hluti eingöngu vegna hefðar. Saurblöð eru ekkert annað en sóun á pappír.

En þótt saurblöð séu heimskuleg á ritgerðum gæti verið við hæfi að hafa þau á kjörseðlum fyrir næstu kosningar, enda skeindi einhver tæpur kjósandi í Reykjavík sér með kjörseðli í kosningunum á laugardaginn, eins og mbl.is greinir frá.

mánudagur, 13. apríl 2009

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Google hefur vit fyrir fólki

Áðan gúgglaði ég orðið "þaulsætnu", vegna þess að ég ætlaði að nota það í ritgerð og vildi vera viss um að ég væri ekkert að rugla með það. Google taldi sig vita betur og spurði hvort ég ætti við "palestínu" eins og meðfylgjandi mynd sýnir:


Auðvitað hefði verið möguleiki að ég hefði velt fyrir mér: "Hvar eru nú aftur stöðug átök og stríð sem sagt er frá í fjölmiðlum? Er það ekki í Þaulsætnu? Best að gúggla það".

Annars er "þaulsætnu" og "palestínu" ekki sérstaklega líkt.

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Fréttaefni

Í gær var frétt um rifrildi forsetans og forsetafrúarinnar í viðtali við franskt slúðurblað á íslenskum netmiðlum. Ég heyrði með öðru eyra þegar brot af rifrildi forsetafrúarinnar og forsetans úr franska slúðurblaðinu var leiklesið með nokkrum tilþrifum í fréttatíma RÚV.
..."Ólafur: "Dorrit, þú getur ekki sagt þetta!""

Kannski er þetta efni í spænska sápuóperu, en varla í fréttatíma.

mánudagur, 26. janúar 2009

Stjórnleysi

Nú er landið stjórnlaust, svo sagði Geir. Ég veit varla hvort ég þori út úr húsi.

föstudagur, 23. janúar 2009

Mótmælin

Ég var viðstaddur mótmælafund á Arnarhóli 1.des. síðastliðinn. Þá voru haldnar nokkrar ræður og klöppuðu viðstaddir fyrir. Það sem var asnalegt þar var að fólkið talaði út og suður, menn lýstu ólíkum skoðunum á því hvað þyrfti að gera og hverja ætti að draga til ábyrgðar. Einhver steig í pontu og lýsti frati á samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sagði landið hafa verið "ofurselt" þeirri stofnun og þess háttar. Viðstaddir fögnuðu þessum orðum með lófataki.

Síðan steig Þorvaldur Gylfason i pontu og lýsti m.a. velþóknun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sagði að það hefði átt að hefja miklu fyrr. Aftur fögnuðu viðstaddir með lófataki. Þetta er eitt dæmi af nokkrum þar sem sama fólkið fagnaði andstæðum viðhorfum með lófataki. Afar sérstakt, svo ekki sé meira sagt.

Síðan fór ég í kvöld á Austurvöll, þar var allt annað uppi á teningnum. Trommað var í takt og "vanhæf ríkisstjórn!" kyrjað á milli. Þau mótmæli verða að teljast mun markvissari heldur en mótmælin 1.des. þar sem fólk samsinnti hlutum sem pössuðu ekki saman. Sennilega er rökréttara að mótmæli takmarkist við það sem einhugur er um.

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Snilldarlausn!

Að láta gamlingja á Grund greiða fyrir Icesave sukkið og annað sukk í sama dúr.

Það var að minnsta kosti það sem manni datt í hug að ætti að gera þegar fram kom í tíufréttum Sjónvarpsins í kvöld að gjald manns fyrir kjallaraherbergi á Grund sem hann þarf að deila með öðrum manni hefði um áramót hækkað um 110% eða úr 99.000 í tæp 210 þús. Svörin sem fengust frá Tryggingastofnun voru að reglur hefðu breyst um áramót þannig að tekið væri að öllu leyti tillit til tekna viðkomandi á liðnu ári, en ekki að hluta til eins og áður. Sjá hér.

Þetta er samt týpísk ákvörðun þar sem engin svör fást nema einhver þvæla og enginn veit hver stendur fyrir, hver vísar á annan.

Látum liggja milli hluta að hækkunin sé hlutfallslega mikil, en 210 þúsund fyrir kjallaraherbergi á Grund sem deilt er með öðrum er algjört kjaftæði, jafnvel þótt einhver þjónusta sé innifalin.

laugardagur, 3. janúar 2009

Flugdrekahlauparinn

Nú er ég búinn að lesa Flugdrekahlauparann eða The Kite Runner, sem ég byrjaði á seint í sumar og var langt kominn með þegar brjálaða tímabilið hófst í skólanum og hlé var gert á lestri annarra bóka en námsbóka.

Það besta við þessa bók er hversu vel höfundur lýsir öllum aðstæðum og persónum, nánast eins og maður sé á staðnum. Aðalpersónan skilst ótrúlega vel og hvernig sektarkennd úr æsku mótar allt líf hans og gjörðir. Uppgjörið við þessa sektakennd er ótrúlegt og ég man ekki eftir neinu fyrirsjáanlegu í bókinni. Þrisvar sinnum eða svo fékk ég hroll við lestur bókarinnar og ég man tæpast eftir að það hafi gerst áður við lestur bókar, svona þar sem ég trúði varla textanum og þurfti að lesa aftur til að fullvissa mig. "Nei, nú lýgurðu!". En það var engin lygi.

Þessi bók fær sennilega bara fullt hús. 10.