laugardagur, 16. maí 2009

Rökstuddur grunur

Þegar ég sá fyrstu þættina af Sigtinu í umsjón Frímanns Gunnarssonar grunaði mig að persónan væri að miklu leyti byggð á Jóni Ársæli af Stöð 2. Sá grunur var ágætlega rökstuddur í Fréttablaðinu í morgun, þar sem Jón segir um Hallbjörn Hjartarson:


"Ég minnist þessa íslenska kúreka baksa til hrossa sinna í norðlenskri stórhríð svo sá ekki út úr augum. Ég sá hann líka velta sér upp úr stofugólfinu heima með köttinn í fanginu þar sem hann táraðist yfir slæmsku heimsins. Þar var ljóðið íslenskt, hreint og tært. Þar var kominn hinn eini sann kúreki norðursins."

Og Jón er ekki hættur:
"Þegar ég horfi til baka man ég að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð garrinn þegar Halbjörn mætti eins og fullskapaður til borgarinnar á sínum tíma, alklæddur kúrekadressinu, sveiflandi svipu, hljóðnema og hatti og söng um mann og gresju, snöru og háls og blámann sem býr með okkur öllum."
Alveg rólegur, Jón...:
"Og svo býr Hallbjörn Hjartarson yfir hugsjónum. Hann sér langt, langt út fyrir drullupollinn sem okkur hinum þykir svo vænt um að svamla í. Hann á sér vængi sem lyfta honum hátt yfir jökulklædda tinda upp í forsal vindanna. Harpa hans býr yfir tóni sem aldrei má þagna."

Ég held að Jón eigi við að Hallbjörn sé fínn karl, honum finnst bara betra að orða það svona. Annað eins orðagjálfur hef ég varla séð fyrr eða síðar, kannski ætti ég frekar að orða það svona:

Harpa Jóns býr yfir tóni sem má þagna, í forsal vindanna.

mánudagur, 11. maí 2009

Klikkuð gömul kerling

Gamla konan á hæðinni fyrir neðan er stundum nokkuð kostuleg. Hér hafa verið iðnaðarmenn undanfarna daga að endurnýja baðherbergið og þeir hafa þurft að taka vatnið af húsinu nokkrum sinnum af því tilefni. Í fyrrakvöld þegar þeir voru farnir fyrir nokkrum klukkutímum hringdi dyrabjallan og þá var það sú gamla, sem sagði að það sturtaðist ekki niður í klósettinu hjá sér. Ég hringdi þá samstundis í frænda minn (sem er einn iðnaðarmannanna) og lét hann vita, hann sagðist mæta um hæl til að kíkja á þetta. Hann mætti síðan ásamt píparanum og þeir fiffuðu klósettið á hæðinni fyrir neðan. Gamla konan hafði haft uppi ýmis nokkuð kostuleg orð, en best fannst mér samt það sem hún sagði við mig þegar strákarnir voru nýfarnir. Þá benti hún á hausinn á sér, skælbrosti og sagði við mig:

"Þeir halda örugglega að ég sé KLIKKUÐ gömul kerling!"

...með mjög sterkri áherslu á "klikkuð".

Þetta var án efa betra í hennar meðförum en í þessum texta, en ég náði þessu því miður ekki á myndband.

þriðjudagur, 5. maí 2009

Sami maðurinn?

Adam West er borgarstjóri í teiknimyndaþáttunum Family Guy. Ég get ekki að því gert að mér finnst hann minna ískyggilega mikið á Ólaf F., sem var borgarstjóri í Reykjavík fyrir ekki margt löngu. Ég er ekki frá því að persónan West sé byggður á Ólafi. Nokkuð sérstakur svona.

Adam West


Ólafur F.

Meira að segja báðir með rautt bindi. Þessi West verður líka skemmtilegri ef maður sér hann alltaf sem Ólaf.