laugardagur, 24. maí 2014

Bloggað frá Brasilíu

Höfundur bloggar nú frá Brasilíu fram yfir HM í fótbolta. Bloggið má finna hér:
Expressions of Brazil

miðvikudagur, 29. september 2010

Flutningur

Ég mun blogga frá Indlandi næstu mánuðina, slóðin er þessi.

sunnudagur, 19. september 2010

Kýr eru heilagar

Það var þann 11. september 2010 að ég kom til Udaipur í fyrsta sinn. Frá flugvellinum er hálftíma akstur á hraðbrautinni að borginni. Kýr voru áberandi í vegarköntunum og á veginum, stöku asnar  á stangli. Kýr eru róleg dýr en hingað til hef ég talið það afleiðingu af umhverfi þeirra öðru fremur, hef séð þær vappa kæruleysislega úti á túnum á sólríkum dögum í friði frá öngþveiti þéttbýlisins. Hér hefur þessum rólyndu skepnum verið plantað niður í miðju tryllingsins... en bílflautur, nauðhemlanir og handbremsubeygjur fá þeim ekki haggað.

Ég var farþegi í bíl hjá einum þessara trylltu bílstjóra á leið af flugvellinum, sem ók eins og ljón með aðra hönd á stýri, hamraði flautuna og skaut sér milli bíla og akreina eins og norski keppandinn í risasvigi á Ólympíuleikunum. Þegar honum hafði tekist að stinga þá af alla saman og virtist kominn einn á auðan sjó, rak ég augun í kú á miðjum veginum sem kom gangandi í hægðum sínum á móti bílnum. Bílstjórinn hóf strax að þenja flautuna í viðvörunarskyni en kýrin lét hávaðann sem vind um eyru þjóta og henni var þar að auki svo drööööllusama þótt hann nálgaðist á 150 km hraða, tuggði bara sín strá áfram kæruleysisleg á svip. Af langri reynslu vissi hún að hann mundi víkja fyrr eða síðar og það reyndist rétt. Hefði hún haft axlir, hefði hún yppt þeim og hefði hún getað talað hefði hún líklega sagt: „Hvor er heilagari, ég eða þú?“ til að sína hver réði – en hún þurfti hvorugt... svipurinn og festan voru ein og sér nóg til þess að bílstjórinn neyddist til að víkja frá hennar persónulega svæði, sem hún hafði markað sér í tveggja metra radíus í kringum sig á miðri hraðbrautinni.

Kvöldið áður sá ég íslensku myndina Veðramót á kvikmyndahátíð í Nýju Delí. Hátíðin var á vegum íslenska sendiráðsins  og fyrir tilviljun fékk ég boð á hana. Myndin átti að hefjast kl. 18:30 þannig að ég vippaði mér inn í þríhjólasmábíl (e. Autorickshaw) hálftíma áður og reiknaði með að það nægði til að komast á staðinn í tæka tíð. Bílstjórinn leit á heimilisfangið á miðanum og kinkaði kolli og við sömdum um verð fyrirfram. Hann reyndist þó ekki þekkja heimilsfangið á miðanum betur en svo að fimm sinnum (ég er ekki einu sinni að færa í stílinn!) á leiðinni stoppaði hann, stökk út á götu og spurði til vegar. Hann fékk misnákvæmar leiðbeiningar og skildi þær misvel líka sýndist mér. Eftir allt hringsólið og vitleysuna stoppaði hann loks, því við vorum komnir á áfangastað. Húsið leit út eins og menningarmiðstöð svo ég borgaði honum fyrir aksturinn og ætlaði inn. Sá á litlu skilti við hliðið að í þessu húsi var þýskt verslunarráð til húsa og vörður við dyrnar gat staðfest við mig að þetta væri EKKI staðurinn. Í þann mund kom hópur ungs fólks þaðan út og bauðst til að aðstoða mig þar sem ég hélt á borgarkortinu og benti á menningarmiðstöðina sem hýsti kvikmyndahátíðina. Þau sögðu mér að það væri fimm km í burtu...(vel gert, herra bílstjóri!). Ein stelpan í hópnum bauðst til að skutla mér um einn km áleiðis á mótorhjólinu sínu, á aðalgötu þaðan sem auðvelt væri að taka strætó eða leigubíl á staðinn. Ég þáði gott boð, enda var myndin byrjuð á þessum tímapunkti...

Umferðin í Delí er gjörsamlega sturluð, til að orða það bara hreint út. Hún er líka full af ökutækjum sem aldrei kæmust í gegnum bifreiðaskoðun heima á Íslandi, hliðarspeglana vantar til dæmis á marga bíla, þeir hafa verið væntanlega verið klesstir af og eigendurnir sjá sér ekki hag í að láta setja upp nýja. Menn nota flauturnar þeim mun meira til að láta vita af sér, ótrúlegt en satt sá ég engan árekstur en margoft munaði hársbreidd.

...þegar við komum inn á aðalgötuna spurði stelpan til vegar og nefndi staðinn sem ég vildi fara á, bauðst til að skutla mér dálítið lengra og ég hugsaði að það gæti varla sakað. Nú vorum við hins vegar kominn inn í umferðina fyrir alvöru... ég hjálmlaus aftan á mótorhjóli hjá bláókunngri indverskri stelpu með flautandi bíla allt í kring, svínandi hvern fyrir annan í kringum hringtorg og yfir gatnamót. Stelpan var a.m.k. 20 kg. léttari en ég og því átti hún í vissum vandræðum með hjólið í beygjum, ég neita því ekki að adrenalínflæðið var töluvert við þessar aðstæður.  Lögreglumenn eru áberandi við götur Delí og ég óskaði þess að ég væri með huliðshjálm svo þeir sæu mig ekki (eða bara venjulegan hjálm, því þeir eru til í raunveruleikanum... kannski einfaldara), en einn þeirra stoppaði okkur og spurði: „Hvar er hjálmurinn, félagi!?“ Stelpan útskýrði fyrir honum hvernig í pottinn væri búið og hann reyndist þá geta vísað veginn áfram að staðnum.  Eftir 15-20 mínútutna rúnt á mótorhjólinu vorum við næstum því komin á staðinn, þar var bygging með svipuðu nafni og sú sem leitað var að. Hliðverðirnir þar voru samt ekki alveg vissir hvar rétta byggingin væri en í þann mund kom kona að hliðinu sem vildi vita hvað væri um að vera. Hún vissi upp á hár um bygginguna og bauð mér far síðasta spölinn, sem ég þáði með þökkum. Var talsvert rólegri í bílnum en aftan á mótorhjólinu skömmu áður - öryggistilfinning. Konan spurði hvað ég væri að gera í Indlandi o.þ.h. og sleppti mér síðan út á réttum stað. Hún kvaddi og sagði hlýlega að lokum „Velkominn til Indlands. Njóttu tímans hér!“

Ég hafði enn mjög öran hjartslátt þegar ég settist niður í bíósalnum. Var hissa að sjá að þarna voru um 50 manns, allt Indverjar að því er virtist. Um hálftími var liðinn af myndinni, sem ég átti erfitt með að einbeita mér að fyrst um sinn, var hugsað til mótórhjólaferðarinnar og þess sem hefði getað gerst. Hefðum við lent í árekstri , hefði ég væntanlega drepist samstundis en hún getað sloppið betur vegna hjálmsins en þá haft sektarkennd það sem eftir lifði ævinnar. Aðrar hugsanir í þessum dúr leituðu á mig áður en mér tókst að beina athyglinni að myndinni.

Veðramót fjallar um þann viðbjóð sem átti sér stað á svokölluðum upptökuheimilum á borð við Breiðavík hér á árum áður. Niðurdrepandi er rétta orðið um þessa mynd og ég velti fyrir mér hvað Indverjunum finndist. Þrír þeirra gengu út þegar eitt ógeðslegasta atriðið birtist á tjaldinu. Eflaust fóru þeir heim og skelltu góðri Bollývúddmynd í tækið með söngi, tralli og litríkum klæðum - til þess að reyna að jafna sig á þessum íslenska sora.

Ég trúi varla að ég hafi hætt lífi mínu til að sjá þessa mynd.

föstudagur, 18. júní 2010

VINSAMLEGA BÍÐIÐ HÉR EFTIR KALLI GJALDKERA

Þetta stóð á skiltum í bankanum. Stundum fór ég þangað í fylgd með foreldrunum. Ég spurði þau hvers vegna gjaldkerakarlinn léti aldrei sjá sig þótt maður biði og biði, enda voru stafsetningarreglur algjörlega á reiki í mínum huga. Þau reyndu að útskýra fyrir mér að þetta þýddi að gjaldkerinn kallaði á næsta viðskiptavin þegar röðin væri komin að honum. Ég trúði því rétt mátulega, hélt að þau væru bara að bulla, enda lifðu þau í öðrum veruleika en ég. Þau lifðu í einhverjum bullheimi þar sem maður þarf að sinna erindum í bönkum og á pósthúsum, fara í búðir og meira að segja að mæta í vinnu. Sjálfur þurfti ég aldrei að hafa áhyggjur af slíku. Ég pældi í töluvert eðlilegri hlutum á þeim tíma.

Þegar ég var einu sinni sem oftar orðinn hundleiður á að standa við biðskiltið færði ég mig að kubbaborðinu. Kannski gæti ég kubbað eitthvað fallegt á meðan foreldrarnir biðu í röðinni eða töluðu við gjaldkerann. Það reyndist vera tímasóun, því einhver annar krakki sat við borðið og hafði tekið alla bestu legókubbana til þess að byggja (að mínu mati) aumkunarverðan skúlptúr. Vonbrigðin uppmáluð stillti ég mér þá aftur upp við biðskiltið og beið.

Ég hafði líka tekið eftir að fullorðna fólkið ræddi oft flókna hluti og notaði hugtök sem höfðu enga merkingu fyrir mér. Það ræddi til dæmis stjórnmál, fjármál og eitthvað úr fréttunum – kannski um forræðisdeilu Sophiu Hansen og Halim Al. Stundum apaði ég eftir hugtakanotkun fullorðna fólksins án þess að hafa hugmynd um hvað ég væri að segja, svona til þess að hljóma virðulegri. Býflugnaveiðar, brunnklukkuveiðar og torfærur á reiðhjóli voru annars mínar ær og kýr.

Að hugsa sér að nú, ”örfáum” árum síðar sé ég orðinn fullorðinn - orðinn einn af bullurokkunum og farinn að taka þátt í vitleysunni. Þvaðra jafnvel um stjórnmál endrum og eins, á meira að segja að heita stjórnmálafræðingur skv. pappírnum. Hvað skyldi ég hafa sagt við því 6-7 ára gamall, hefði ég séð það fyrir?

föstudagur, 11. júní 2010

HM í fótbolta - spá

Þar sem spá mín um síðasta EM gekk glettilega vel eftir birti ég hér sundurliðaða spá um úrslit HM:

A-riðill:

1. Mexíkó

2. Úrúgvæ

3. Frakkland

4. S-Afríka

B-riðill:

1. Argentína

2. S-Kórea

3. Nígería

4. Grikkland

C-riðill:

1. BNA

2. England

3. Alsír

4. Slóvenía

D-riðill:

1. Serbía

2. Gana

3. Þýskaland

4. Ástralía

E-riðill:

1. Holland

2. Danmörk

3. Japan

4. Kamerún

F-riðill:

1. Ítalía

2. Slóvakía

3. Paragvæ

4. Nýja-Sjáland

G-riðill:

1. Brasilía

2. Fílabeinsströndin

3. Portúgal

4. N-Kórea

H-riðill:

1. Spánn

2. Chile

3. Hondúras

4. Sviss

16 liða úrslit:

Mexíkó - S-Kórea

BNA - Gana

Holland - Slóvakía

Brasilía - Chile

Argentína - Úrúgvæ

Serbía - England

Ítalía - Danmörk

Spánn - Fílabeinsströndin

Átta liða úrslit:

Mexíkó - BNA

Holland - Brasilía

Argentína - England

Spánn - Danmörk

Undanúrslit:

Mexíkó - Holland

Argentína - Spánn


ÚRSLIT:

Holland - Spánn

Markakóngur: Lionel Messi (Argentína)

Maður mótsins: Wesley Sneijder (Holland)

Hollendingar verða heimsmeistarar, það er á hreinu.

fimmtudagur, 20. maí 2010

Enska

Oftast þegar ég tala ensku líður mér eins og ég sé að reyna að vera "kúl." Ég þarf mjög reglulega að minna sjálfan mig á að ég tala ensku vegna þess að útlendingarnir skilja ekki íslensku.

laugardagur, 17. apríl 2010

Líf sem lóa

Ég:

Ég þarf að skila skýrslu fyrir hádegi á þriðjudag. Á eftir að lesa 300 blaðsíður og vinna úr þeim. Mæti á fund núna klukkan tíu. Á pantaðan tannlæknatíma klukkan hálfþrjú. Viðtalið frestaðist til hálffjögur svo það ætti að nást líka. Ef mér tekst að rumpa því af á góðum tíma, gæti ég líka náð á æfingu fyrir mat. Ég kíki á fésbókina og gái að tölvupósti. Það virðist allt vera orðið vitlaust heima, hvert eldgosið rekur annað og fréttir af því drekkja fréttunum af þessari skýrslu sem beðið var eftir. Það rignir eldi og brennisteini segja þeir... Var að fá tölvupóst, neyðist til að breyta áætluninni eitthvað... Ég var líka búinn að lofa að hringja í Jens í dag. Nei, nú hringi ég í Jens!

Ég fer með nokkrum félögum í veiðiferð út á land, losna burt frá öllu áreitinu í örfáa daga. Veðrið er milt, það er léttskýjað, hægur andvari og sólin skín. Ég sest í grasþykknið á árbakkanum með stöngina, kasta út og hlusta á vatnsniðinn og kyrrðina. Lóa kemur fljúgandi og lendir í námunda við mig. ”B'dúaaa!B'dúaaa!B'dúaaa!” segir hún, gengur nokkur skref, stöðvar og segir aftur ”B'dúaaa!...” Hún endurtekur þessa rútínu í sífellu. ”Furðuleg hegðun” hugsa ég. Hvað skyldi þetta þýða? Hlýtur að vera eitthvað mikilvægt fyrst hún imprar svona á þessu, dag eftir dag, alla ævi. Kannski er hún bara að tjá gleði sína yfir einföldu lífi sínu, sem snýst einkum um að fljúga um heiðloftin blá með útsýni til allra átta, leita ætis og viðhalda stofninum. Líf hennar virðist ótrúlega einfalt í samanburði við mitt. Hegðunin er kannski ekki svo furðuleg þegar ég hugsa betur um það.  

Ég rís á fætur upp úr grasþykkninu, fleygi frá mér veiðistönginni og flýg af stað. Ég flýg hátt í loft upp og sé yfir allt. Eldgosið sést mjög vel úr þessari hæð. Ég flýg nær gosinu til þess að virða það fyrir mér, en passa mig að sveigja fram hjá öskunni og flúorögnunum, ég læt slík smáatriði ekki stoppa mig eins og flugvélarnar. Svo held ég fluginu áfram, skoða fjöllin, vötnin og jöklana. Ég ákveð að lenda við á norður í Laxárdal, skammt frá nokkrum veiðimönnum sem freista þess að fanga lax. ”B'dúaaa!” segi ég og labba smá spöl áður en ég endurtek ”B'dúaaa!” Þeir hafa tekið eftir mér og einn spyr hina: ”Hvað er að honum?” - annar svarar: ”Æ, hann missti vitið, heldur að hann sé lóa!” ”Hahaha! En hvernig gat hann flogið?” - ”Veit það ekki alveg, hann virðist hafa fundið út úr því um svipað leyti og vitið fór.”

Aftur hef ég mig á loft, nú til þess að fara út í heim. Það er þægilegt að vera laus við alla skriffinskuna; vegabréfavesen, bólusetningar og stopular flugsamgöngur. Ýmsar fuglategundir hafa tekið eftir þessum undarlega aðskotahlut í háloftunum, sumir hafa þó áttað sig á hagnýtu gildi hans og fylgja mér eftir í oddaflugi austur á bóginn. Ég klýf loftið betur en nokkur fugl og er því heppilegur til að leiða oddaflug. Við fljúgum yfir Everestfjall, Kínamúrinn og pýramídana. Ég lendi á mörgum áhugaverðum stöðum til þess að kynna mér aðstæður og skoða mig um.

Margs vísari eftir viðburðaríka ferð lendi ég aftur á árbakkanum, hættur að leika lóu.

Lóan:

Ég skil ekki þessa menn, þeir flækja líf sitt svo mikið. Þeir aka um á bílum, borga skatta, fara í detox-meðferðir, hlaupa á hlaupabretti og hvað veit ég! Svo koma þeir hingað í sveitakyrrðina í leit að ró, þegar áreitið er of mikið. Ég er ánægð með að lifa einföldu lífi, það er fínt að fljúga bara um og njóta frelsisins.

Nú þykknar upp, fárviðri mun skella á fyrr en varir. Lóan leitar skjóls í helli.

Hún stendur í hellismunnanum og starir út í storminn, bíður eftir að hann gangi yfir. Þetta ætlar að taka tímann sinn. ”Kannski lifi ég of einföldu lífi...” hugsar hún. ”...Nú væri fínt að hafa það kósý og kíkja á góða bíómynd, spila póker með félögum eða ráfa á netinu. Meira að segja að fara til tannlæknis! Bara eitthvað annað en þetta!”

----

Í netráfi mínu (og sem afsökun fyrir að fresta lærdómnum aðeins) var ég skyndilega farinn að hlusta á fuglahljóð, komst að því að sjósvala gæti slegið rækilega í gegn sem plötusnúður og "rímixari." 

þriðjudagur, 23. febrúar 2010

Yndislegt fjárhættuspil

Fréttir af lottóvinningshöfum eru oft dásamlega fallegar og ylja manni um hjartarætur á þessum síðustu og verstu tímum. Einstæðar mæður sem hafa unnið baki brotnu nótt sem nýtan dag árum, jafnvel áratugum saman, til að sjá börnum sínum fimm farborða, detta oftar en ekki í lukkupottinn í lottóinu. Ný frétt á vef Íslenskrar getspár um vinningshafa helgarinnar er eftirfarandi:

Vinningshafarnir í Lottóinu síðasta laugardag skiluðu sér allir í gær til Íslenskrar getspár með vinningsmiðana. Fyrsti vinningshafinn keypti miðann í Olís við Sundagarða og notaði reyndar vinning frá helginni á undan til að greiða fyrir miðann en þá hafði hann fengið 3 réttar tölur. Þetta var ungur fjölskyldufaðir sem á tvö lítil börn og býr fjölskyldan í 2ja herbergja íbúð í höfuðborginni og voru þau farin að leita sér að stærra húsnæði.

Þessi flotti vinningur léttir þeim því aldeilis lífið og auðveldar þeim að stækka við sig. Næst komu hjón utan að landi sem eiga fjögur börn en þau keyptu miðann sinn í Hagkaup Skeifunni. Hjónin hafa alltaf náð að standa í skilum en bæði þurft að vera í fleiri en einni vinnu til að ná endum saman. Þau hafa verið í mikilli fjárhagslegri endurskipulagningu á undanförnu ári og hafa verið að greiða niður lán og yfirdrátt. Vinningurinn kom þeim því skemmtilega á óvart og þau voru mjög ánægð að fleiri en þau skyldu njóta þessa stóra Lottóvinnings. Þau ætla að geyma vinningsupphæðina og nota sem varasjóð. Fjölskyldan ætlar þó að leyfa sér að fara til útlanda í sumar en það hafa þau ekki leyft sér í mörg ár. Þriðji vinningshafinn var eldri maður sem keypti miðann sinn í Skalla við Vesturlandsveg á laugardaginn en hann ætlaði að láta þrífa bílinn í þvottastöð þar nálægt en vegna þess hversu löng röðin var þá ákvað hann að skella sér í Skalla og kaupa sér samloku og keypti einn Lottómiða með í leiðinni. Það var svo sannarlega ferð til fjár því á miðann vann hann 10,8 milljónir sem kemur sér mjög vel því hann hefur lent í miklum greiðsluerfiðleikum eftir að kreppan skall á. Fjórðu vinningshafarnir komu svo í lok dagsins en það eru hjón af suðurlandi sem eiga tvö börn. Hjónin trúðu því varla þau hefðu unnið stóran vinning í Lottó og kemur vinningurinn sér afar vel fyrir þau líkt og aðra vinningshafa helgarinnar. Íslensk getspá óskar öllum vinningshöfunum til hamingju en enn hefur heppinn miðaeigandi sem var með fjórar réttar tölur og bónustöluna í Víkingalottóinu þann 10. febrúar með vinning að upphæð 4.150.160 kr ekki gefið sig fram. Sá miði var seldur í Ríkinu Snorrabraut í Reykjavík.

Ég feitletraði yndislegustu atriðin. Lottó hefur þróað sérstakt kerfi sem tryggir að enginn "óæskilegur" detti í lukkupottinn, aðeins þeir sem þurfa mest á vinningum að halda og eru krúttlegastir. Vinningslíkur fyrirfram á hverja röð eru ekki þær sömu, heldur ráðast þær af svokölluðum krúttleikastuðli viðkomandi - þeim mun hærri krúttleikastuðull, þeim mun meiri líkur á vinningi.

Gefum okkur samt að vinningshafinn úr Víkingalottóinu sem ekki hefur gefið sig fram sé Jón Ásgeir eða Davíð Oddsson. Gætu fréttaritarar fjárhættuspilsins kokkað upp fallega og hjartnæma sögu um "mann sem hefði þurft að berjast gegn straumnum undanfarið," "lent illa í kreppunni" o.s.frv.? Kannski væri einfaldara í slíku tilviki að segja vinningshafann óska nafnleyndar, þar sem krúttleikastuðull þessara manna er umdeildur.

Ég spyr, þú svarar.

mánudagur, 12. október 2009

Stóra klósettmálinu loksins lokið

Stutt upprifjun úr síðasta þætti: Guðmundur flutti inn í námsmannaíbúðina og sá að klósettið var slíkur viðbjóður að annað eins hafði hann ekki séð. (Við sjáum ekki myndir). Hann fór og kvartaði til þar til gerðra yfirvalda og yfirvaldið kom og skipti um klósettsetu, eins og það væri nóg!

Næsti þáttur:
Öðru sinni fór Guðmundur og kvartaði, fyrst við húsvörðinn og síðan við Húsnæðisskrifstofu alþjóðanema. Húsvörðurinn stóð fast á þeirri skoðun sinni að botninn á klósettinu væri bara skítugur, ekki slitinn, eins og G. hélt fram. Hann benti G. jafnframt á að kvarta við Húsnæðisskrifstofuna undan ófullnægjandi þrifum klósetts. Húsvörðurinn var þó reiðubúinn að gera við sturtun klósettsins, sem hafði virkað illa til að byrja með og var hætt að virka á þessum tímapunkti. Vatnsfötu þurfti til að sturta nú orðið.

Næsta stopp, Húsnæðisskrifstofan: G. var ekki of bjartsýnn fyrir ferð sína á Húsnæðisskrifstofuna, enda hafði hann í fyrri heimsókn sinni þangað fengið nokkur svör í stíl við "Computer says no!" Í þetta skiptið talaði hann við annan þjónustufulltrúa og byrjaði á að nefna að ekkert svar hefði fengist við tölvupósti til hins þjónustufulltrúans, sendum fyrir fimm virkum dögum. Svo sagði hann alla sólarsöguna af klósettinu og fleiri vanköntum á íbúðinni sem ekki verða tíundaðir frekar. Í stuttu máli sagt voru svör þessa þjónustufulltrúa mun ásættanlegri en þess fyrri og lofaði hann m.a. að senda Þrifameistara Húsnæðisskrifstofunnar á svæðið, sem hann nefndi einhverra hluta vegna að væri indverskur. G. áttaði sig ekki alveg á hvernig það kom málinu við, en hvað um það...

Í morgun mætti Þrifameistarinn á svæðið, vopnaður allra handa hreinsibúnaði og hófst handa. Hann sagði að klósettið væri verra en hann hefði búist við og sótti "extreme case" - græjur út í bíl. Síðan heyrði G. alls kyns skraphljóð innan af klósetti og púst og fáein blótsyrði. Þetta stóð yfir í um 40 mín., en þá kom maðurinn brosandi út og sagði verkinu lokið. G. leit á og gat staðfest það, hann hafði ekki látið nægja að þrífa klósettið heldur tók allt baðherbergið í gegn. Ekki var laust við ofbirtu í augun þegar litið var á dýrðina, ekki ósvipað Mr. Proper auglýsingu. Eru þá ekki allir sáttir? Stóra klósettmálinu er hér með lokið á farsælan hátt.

Látum hressan þjónustufulltrúa um að enda þetta:

laugardagur, 3. október 2009

Bara venjulegur fimmtudagsmorgun

Á fimmtudagsmorguninn lagaði ég morgunkaffið og kíkti aðeins í tölvuna. Ég átti eftir að klæða mig þegar einhver sauðslegur maður óð inn í íbúðina. Hann hafði ekki fyrir því að banka á undan, opnaði bara með lykli og lét eins og heima hjá sér. Hann hélt á kassa. Þegar hann sá að ég var heima sagði hann einhverja óskiljanlega þvælu á dönsku. Ég bað hann vinsamlegast að bera upp erindið á ensku og þá sagðist hann á blöndu af ensku og dönsku vera kominn til þess að skipta um klósettsetu hjá mér og að sér hefði verið sagt að ég væri ekki heima (hver átti svosum að vita það?), þess vegna óð hann bara inn.

Fyrr í vikunni hafði ég kvartað undan klósettinu í íbúðinni og beðið um að því yrði hreinlega skipt út, þar sem það er virkilega sjúskað og ógeðslegt. Veit ekki hversu mikið ég á að fara út í smáatriði, en það er sem sagt mjög slitið neðst og lítur út fyrir að vera óhreint. Ástæðan líklega sú að einhver fyrri íbúi hefur notað tærandi efni til þess að hreinsa klósettið. Klósettsettan var líka öll upplituð (svona skitugul e-n veginn), en nú er vinur okkar búinn að skipta henni út sem sagt, fyrir glæsilega glansandi nýja postulínssetu svo ég geti tekið gleði mína á ný. Þar að auki er vatnskassinn stundum í nokkra klukkutíma að fyllast eftir að sturtað er... Með öðrum orðum, það þarf að skipta þessu klósetti út.

Ég nefndi við manninn að ég hefði viljað fá klósettinu í heild skipt út. Hann sagðist bara hlýða fyrirmælum að ofan og að ég yrði að tala um þetta við húsvörðinn. Ég var búinn að því, en húsvörðurinn hafði komið einn daginn þegar ég var ekki heima að líta á klósettið. Hans niðurstaða hefur greinilega verið sú að eingöngu þyrfti að skipta um setu...Nema að þessu verði öllu skipt út, bara í nokkrum skömmtum, næst kemur maðurinn kannski að skipta út skrúfum eða eitthvað.