fimmtudagur, 30. mars 2006

Sæbanki?

Við lærum í jarðfræði um einhver dýr sem gengu í sjóinn út af samkeppni á landi, og þróuðu síðan með sér ugga og tálkn og drasl. Þetta er mjög sniðug hugmynd. Ég gæti sjálfur hugsað mér að ganga í sjóinn og þróa með mér ugga og tálkn út af samkeppni á landi. Það væri frábært, ég hefði algjöra sérstöðu í dýraríki hafsins.

Svo er spurning hvort íslensku bankarnir ættu ekki að fara að ganga í sjóinn út af samkeppni. Kannski verður fjallað um það í jarðfræði framtíðarinnar þegar KB banki gekk í sjóinn vegna samkeppni á landi og leiðinlegra útlendra fyrirtækja sem töluðu illa um hann og varð fyrsti sæbanki sögunnar.

Það eru botnlausir möguleikar í þessu, krakkar.

Hljómsvetin Buff

Ég lýsi yfir megnri ánægju með hljómsveitina Buff. Heyrði í Pétri Jesú liðsmanni sveitarinnar í útvarpinu áðan. Þar var hann spurður um texta lags þar sem segir: "Ég passaði þig, þegar þú varst lítill. Ég passaði þig þegar þú varst barn...". Hann sagði að mjög algengt væri að gamlar kerlingar kæmu til hans á stöðum þar sem þeir hafa spilað, t.d. í Eyjum og á Selfossi og segðust hafa passað hann þegar hann var lítill.

Hver kannast ekki við þetta. Einhverjar kerlingarskrukkur sem maður veit ekkert hverjar eru koma til manns og segjast hafa passað mann. Hverju á maður að svara þegar maður fær svona fróðleiksmola eins og teygjubyssu í andlitið? "Já, hah, ég passaði þig nú líka þegar þú varst lítil"

Annað sem svona kellur segja stundum er: "Ég hef nú bara ekki séð þig síðan þú varst í vöggu" eða "Ég hef nú bara ekki séð þig síðan þú varst 5 ára. Naumast að þú hefur stækkað"

Hver er tilgangurinn með slíkum fróðleiksmolum. Á ég að svara "gott hjá þér" og klappa þeim á kollinn?

Kvikindi

Kastljós í gær var rosalegt. Fjallað var um stríð MR og MH sem hefur farið fram undanfarna daga.

Lokaatriðið var með undarlegri atriðum sem ég hef séð, sjö ára drengur kom og söng lag Selmu Björns, All Out of Luck og dansaði við. Að horfa á þetta var mjög pínlegt. Strákgreyið kunni auðvitað ekki helminginn af textanum og röddin var mjög veik. ÞAð var engu líkara en umsjónarfólkið og foreldrarnir hefðu ákveðið að hafa barnið að fífli fyrir framan alþjóð. Þvílík kvikindi. Hann á sennilega eftir að skammast sín alveg niður í tær fyrir þetta þegar hann verður aðeins eldri. Hér er atriðrið "góða" (spólið inn að miðju):
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4270139/4

Ef þessi drengur verður einhvern tímann frægur verður þetta pottþétt dregið fram, honum til "gleði".

miðvikudagur, 29. mars 2006

PhD.stud.

Rektor talaði við okkur í dag um stúdentspróf komandi og dimmissio. Stúdentsprófin verða iðandi froða af sýndareindum svo maður noti orðalag stjörnufræðinnar.

mrtk.mr.is

Fyrir þá sem ekki vita, er tilkynningaskjár skólans kominn á netið. Þar er hægt að sjá hvaða kennarar eru veikir svo fólk getur losnað við að hringja í skólann og spyrja hvort kennari sem hefur verið veikur sé það ennþá. Svo þarf ekkert að fjölyrða um sumar skrifstofukonur skólans, sem eru oftast dónalegar og leiðinlegar við slík tækifæri.

Að sjálfsögðu kemur tilkynningaskjárinn á netið núna þegar 6.bekkingar eiga tvær vikur eftir af skólanum. Betra seint en aldrei.

mánudagur, 27. mars 2006

Leður

Þá er maður kominn með leðurjakka fyrir dimission, 9500 kall og farið að sjá á sjóðum mínum. Svo kostar stúdentshúfan víst 6000 kall, þannig að þetta er blússandi allt saman.

Gamli brandarafrændinn í fjölskylduboðum: "Já, ha, þetta er ekki ókeypis hahaha..."

föstudagur, 24. mars 2006

Gögvari

Ég var að uppgögva nýja uppgögvun, en það er orðið uppgögvun.

Ég veit um tvær manneskjur sem tala um að uppgögva hluti. Það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir. Líka þegar fólk segir "læhkhnir". Frábær málhelta.

Aulabrandarar

Stundum í skólanum stundum við seppi og gummi mikla aulabrandara. Um daginn vorum ég og seppi að skrifa nokkra ómetanlega stærðfræðiaulabrandara úr hornaföllium, t.d.:
cot(eletta)
sin(nep)
Um daginn fór ég til tan(nlæknis) búrúmmtssj
Hver man ekki eftir stríðinu í cos(ovo)?

Fyrr var oft í cot(i) kátt...

cos(akki)

Adam átti sin(i) sjö...

Svo flissuðum við að þessu eins og smástelpur. Þá vissum við að við værum búnir að vera allt of lengi í þessum skóla.

þriðjudagur, 21. mars 2006

Skegg gamallar konu í andlitið

Í morgun munaði ekki nema hársbreidd að ég fengi skegg gamallar konu í andlitið í vindkviðu. Verulega kómískur atburður þótt ég segi sjálfur frá. Mér varð að sjálfsögðu brugðið en óneitanlega var léttir að það skyldi þó muna þessari hársbreidd.

sunnudagur, 19. mars 2006

Martröð útvarpshlustandans

"Tarfurinn, með þér til klukkan tíu í kvöld". Það er ekkert töff við nenna ekki að bera fram orðin þegar maður talar. Það er ekki heldur töff að klippa á lög eða tala yfir þau.

fimmtudagur, 16. mars 2006

Framhaldið

Erfitt er að velja um framhaldið eftir MR. Nokkrir kostir eru í stöðunni:
I. Beint í HÍ.
II. Vinna í hálft ár, út í hálft ár og síðan háskólinn.
III. Út í háskóla? Í Danmörku jafnvel?

og svo undirflokkarnir:
I. a)Á maður að stefna ótrauður á mastersnám í blaða- og fréttamennsku eftir að hafa tekið stjórnmálafræði, mannfræði, félagsfræði eða eitthvað þess háttar? Fjölmiðlafræði 30e. aukagrein hljómar líka drullufokkinspennandi.
b) Er verkfræðin e.t.v. blússandi þrátt fyrir allt? Hvernig verkfræði þá? Iðnaðarverkfræði? Vélaverkfræði? Byggingaverkfræði? Rafmagnsverkfræði?
c)Er það jafnvel Deildin? Haraldur mælir a.m.k. með henni.
d)Logfræði? Eru ekki margir bara að fara í það af því þeir hafa séð of mikið af Boston Legal og Law & Order og bandarískum lögfræðimyndum? Eða er lögfræðin iðandi partý?

Undirflokkar í II. og III. eru ekki nógu skýrir til að fjalla um þá.

Ráðgátur (ens. x-files)

Staðreynd: Mér fannst

gaman

að reikna skiladæmi úr líkindareikningi.


Þessi staðreynd hræðir mig. Hvað gerist næst? Vaxa mér horn? Skýst líknarbelgur út úr bakinu á mér? Birtist hakakross á handarbakinu?

Ef annar uggvænlegur, yfirnáttúrulegur atburður hendir mig, mun ég ekki hika við að leita læknis.

miðvikudagur, 15. mars 2006

5-1

Liverpool rótburstaði Fulham 5-1 og steingeldir framherjarnir skoruðu þrjú markanna. Fólk hefur litið á framherjana sem trúða og grínara hingað til en vonandi breytist það núna. Ég hefði nú samt alveg verið sáttur ef Peter Crouch og Fernando Morientes hefðu mætt trúðsmálaðir í næsta leik. En sennilega hefði það aldrei orðið að veruleika.

mánudagur, 13. mars 2006

Framsóknarmaurar

Spaugstofan er ekki þekkt fyrir ferskleika. Í þættinum á laugardaginn kom samt óvenjulega frumlegt og gott innskot frá gömlu körlunum. Framsóknarmaurarnir sem voru í útrýmingarhættu og lifðu sníkjulífi og hengdu sig aftan í Geir Haarde voru magnaðir. Besta lýsing sem ég hef séð á þessum versta flokki landsins.

Valgerður Sverrisdóttir stefnir ótrauð áfram í að verða í hópi 10 verstu ráðherra Íslands fyrr og síðar. Ég held að það sé enginn vafi. Hvað vill hún reisa mörg ný álver? 3? 4? Hvaða ár er? Er Ísland þróunarland? Á að stækka álverið í Straumsvík? Á að hrekja fólk burt úr Hafnarfirði? Þú leysir ekki landsbyggðavandann með milljón nýjum álverum, kerlingarskarfur, og eyðileggur þar að auki landið.

Krónan hefur fallið hratt núna og þá vill þessi sama Valgerður taka upp evruna án þess samt að ganga í ESB. Snillingur.

Ég held að Valgerður hafi smitast af skemmdarverkafýsn Þorgerðar Katrínar og ætli að reyna að vinna hana núna.

Einhver gaur

Einhver gaur, sem heitir Jose Gonzalez, er að fara að spila á Íslandi fljótlega held ég. Ég legg blessun mína yfir þessi fjögur lög með honum.

laugardagur, 11. mars 2006

Doom & Excorcism of Emily Rose

Í gær horfði ég á Doom og The Excorcism of Emily Rose á dvd með GP og Seppsternum (Árni vinur Sepa horfði líka með á Exc.). Nóg um það.

Doom var svakaleg. Reyndar missti ég af frekar miklu í byrjuninni af því ég sofnaði í 2 sek. u.þ.b. 15 sinnum í byrjun myndarinnar, en vaknaði alltaf þegar hausin skall í vegginn DUNK!. Athyglin alveg búin. En síðan fór e-ð að gerast, og Magic-karlinn kom og sló mig fram og aftur svo ég vaknaði. The Rock og félagar fóru að slátra skrímslum og The Rock var brjálaður og hræddi fólk með svipnum einum saman. Alltaf þegar einhver peð á valdaborði hans voru að spyrja hann að einhverju, þurfti hann ekkert að svara, hann setti bara upp svipinn ógnvænlega og fólk vissi strax hvað hann meinti. Ég ætla að verða The Rock þegar ég verð stór.

Excorcism...var líka svakaleg. Hélt samt ekki dampi alveg út í gegn. Særingapresturinn öflugur. Ég ætla að verða særingaprestur þegar ég verð stór.

föstudagur, 10. mars 2006

Fiðluballið

Fiðluball MR var haldið í gær í Iðnó. Þetta var langlanglangskemmtilegasta ball sem ég hef farið á. Stelpurnar glæsilegar í síðkjólum, piltar í smókingum eða kjólfötum. Ræll, vals, skottís, vínarkruss (sýrunafn) o.s.frv. Annars var þetta voða mikið það sama: "Inn að miðju út að vegg" Áfengi sást varla á nokkrum manni (með örfáum undantekningum, ekkert alvarlegt samt). Danskort með nr. 1-10. Nokkrir kennarar mættu og tóku sporin af mikilli list.

Þetta bætti upp fyrir síðustu árshátíðina í MR, sem var hundleiðinleg og ég var næstum sofnaður (þungt loft, þreyta, hiti, lélegur ballstaður, langt fram á nótt, lítil stemming o.s.frv.).

Gef þessu balli 9,5/10.

Íris tók nokkrar myndir sem finnast hér.

Reikna með að síðasta ballið, Jubilantaballið, verði enn meiri sveifla.

Gefið

Það eru frekar margir sem misskilja mig og halda að ég sé annar en ég er. En ekki allir. Fólk er fljótt að dæma. Ég er stundum líka fljótur að dæma, en er að reyna að hætta því.

fimmtudagur, 9. mars 2006

Roskilde-festival 2006

Eitt af því sem ég verð að gera í sumar er að fara á Roskilde-festival. Mig hefur langað á þetta a.m.k. síðustu fjögur ár. Nú duga engar afsakanir lengur. Engin önnur plönuð utanlandsferð svo þetta hlýtur að ganga núna.

Gamli jálkurinn Bob Dylan er nýbúinn að boða komu sína. Fleiri stórlaxar fara væntanlega að detta inn á næstunni.

miðvikudagur, 8. mars 2006

Peter Crouch-grínið II

Jæja, þetta klikkaði. Evrópumeistarar Liverpool duttu út gegn Benfica. Peter Crouch var hryllilega lélegur allan leikinn. Sá eina góða sendingu hjá honum, annað var glatað. Djimi Traoré var skelfilegur í vörninni. Cissé var ekki góður þegar hann fékk tækifærið. Meistaradeildar-Garcia gleymdist heima. En ekki er þeim einum um að kenna, það vantaði líka alla meistaraheppni. Simao Sabrosa, sem var næstum genginn til liðs við Liverpool, skoraði mikilvæga markið í fyrri hálfleik. Kaldhæðni þar á ferð.

Annars er það einstakt hve miklir blöðruselir Gaupi og Logi Ólafs eru:
Þetta sögðu þeir mörgum sinnum undir lokin: "Sögulegur leikur". Það var nákvæmlega ekkert sögulegt við þennan leik. Það var ekkert merkilegt við hann. Eða ætla Gaupi og Logi að tala um í ókominni framtíð "Þegar Benfica sló út Evrópumeistara Liverpool um árið"? Svo sagði Gaupi líka: "Peter Crouch hefur varla sést í síðari hálfleik, en hann var góður í þeim fyrri". Gaupi hefur ekki horft á sama leik og aðrir.

Nóg af þusi.

þriðjudagur, 7. mars 2006

Geðdeildin II?


Nei, Meistaradeildin.

Liverpool - Benfica á morgun á Anfield. Liverpool verða að vinna og munu vinna, 3-0.

Nú er eins gott að Rútínan klikki ekki. Spennan er rafmögnuð.

Geðdeildin

Íslenskukennarinn sagði í dag að í dag þætti ekkert tiltökumál ef fólk færi inn á geðdeild nú til dags, ekkert þætti sjálfsagðara, ólíkt því sem var í gamla daga þegar menn misstu mannorðið fyrir lífstíð ef þeir fóru inn á Klepp.

Ég kannast reyndar ekki við að það sé orðið voðalega sjálfsagt að fara inn á geðdeild í dag. Ég hef ekki orðið var við það í mínu nánasta umhverfi og kannast ekki við frjálsleg samtöl svipuð þessu:
Maður1: "Hvar hefur þú verið síðustu daga?"
Maður2: "Ég skellti mér inn á geðdeild"
Maður1: "Nú, hva?..."
Maður2: "Jájá, ég bara skellti mér inn um daginn, var þar í tvær vikur í góðu yfirlæti, helvíti fínt bara"
Maður1: "Já, um að gera".

mánudagur, 6. mars 2006

Lokaspretturinn

Lokaspretturinn er hafinn. Það glittir í markið handan við hornið. Frelsi frá MR.

Losna við lærdóminn. Gerist róni og ruslakarl og bensíntittur. Gríp í sjómennsku af og til.

Flyt frá kapítalismanum og kjaftæðinu á klakanum. Flyt til Kúbu og lifi eins og kóngur.

Gef skít í lífsgæðakapphlaupið.

laugardagur, 4. mars 2006

Leiðinleg helgi

Þessi helgi stefnir í að verða leiðinlegasta helgi ársins hingað til. Í gær var ég nær dauða en lífi eftir vikuna í skólanum og gerði nánast ekkert nema að taka aðeins til. Í dag hef ég þvegið þvott, tekið meira til og klárað að skrifa fyrirlestur um stofnanda ömurlegasta flokks Íslands. Ég hef varla farið út úr húsi. Ætlaði að vísu í bíó í kvöld að sjá meistara Cash en því var frestað. Skólinn ryksugar úr manni allt hugmyndaflug og sköpunargáfu.

Á morgun er dagskráin svona:
Ryksuga.
Þvo.
Læra fyrir erfiðasta stærðfræðiprófið eftir áramót.
Meiri leiðindi sem ég man ekki í augnablikinu.

Það læðist að mér sá grunur að þessi færsla sé jafnleiðinleg og þessi helgi.

föstudagur, 3. mars 2006

Bloggleikur

"Búið" að "klukka" mig "í" nýjasta "bloggleiknum" (of margar gæsalappir?).

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar:
-The Simpsons
-Cheers
-Family Guy
-Lost

4 kvikmyndir sem ég fíla:
-Jalla! Jalla!
-Nói albínói
-Big Fish
-Litla lirfan ljóta

4 bækur sem hafa skilið eitthvað eftir sig:
-Sindbað sæfari (frá því ég var pínulítill patti. Kunni hana utan að en vildi samt alltaf heyra hana aftur. Hún byrjar einmitt: "Það var ljómandi fagur dagur." en nóg um það)
-Snorra-Edda
-Our Man In Havana (eftir Graham Greene)
-Lovestar (eftir Andra Snæ Magnason)

4 plötur sem hafa snúist hring, hring, hring eftir hring í mínum spilara:
-White Stripes - Elephant
-Creedence Clearwater Revival - Platinum
-Dire Straits - Brothers In Arms
-Gorillaz - Demon Days (a.m.k. þessa stundina)

4 heimasíður sem ég skoða daglega:
-mbl.is
-fotbolti.net
-Liverpool bloggið
-Wulff Morgenthaler

4 uppáhaldsmáltíðir:
-Hreindýrakjöt
-Jólaöndin
-Mexíkanskur matur
-Lasagna

4 staðir sem ég hef búið á:
-Stórigarður á Húsavík
-Hagamelur í Skilmannahreppi
-Seljahverfi í Reykjavík
-101 Rvk.

4 bloggarar sem ég áframsendi þetta á:
-Robert Mugabe
-Pierluigi Collina
-Silvio Berlusconi
-Bruce Willis

miðvikudagur, 1. mars 2006

Prósentur

83% strákanna í bekknum mættu á dansæfinguna fyrir fiðluballið. Stelpurnar stóðu sig verr í prósentunum.

Haukur Sveinsson fór mikinn.

En abbababb, Jónas frá Hriflu kallar.