miðvikudagur, 11. júní 2003

Fall

Féll á árinu. Ég náði bæði íslenskuendurtökuprófinu og lesna stærðfræðiprófinu en féll á ólesinni stærðfræði, naumlega. Þetta er allt saman mjög grátlegt því að hefði ég fengið fimm á lesna prófinu í staðinn fyrir fjóra, þá hefði ég mátt taka endurtökuhaustpróf í ólesinni. Ég fékk sem sagt þrjá á ólesinni stærðfræði. Það var eitthvað dæmi á þessu ólesna sem gilti tíu stig, sem ég fattaði hvernig ætti að leysa, þegar fimm mínútur voru eftir. Ég náði bara að byrja á því. Ef ég hefði fattað það dæmi fyrr hefði ég náð prófinu. En það er alltaf hægt að segja ef. Ég tek bara fjórða bekkinn aftur, slepp við dönsku og tölvufræði. Ég má víst fara í fimmta bekk á málabraut ef ég læri latínuna í sumar, en það heillar ekki beinlínis. Svo get ég skipt um skóla en ég ætla ekki að fara frá hálfkláruðu verki, og klára MR, fyrst ég byrjaði á honum.

Ég er líka hættur fótboltanum svo ég geti einbeitt mér almennilega að skólanum. Æfingar á næstum því hverjum degi eru ekki alveg að virka, samhliða námi í MR. Það er reyndar til fólk sem getur æft á fullu og samt ná toppeinkunnum. En það er mjög skipulagt fólk. Ég er ekkert sérstaklega skipulagður.

Það er reyndar margur góður drengurinn, og stúlkan, sem féllu núna. Ég gæti trúað að það væri meira fall en í fyrra í fjórða bekk. En ég þori ekki að fara með það.