laugardagur, 27. september 2003

Harlem og Knattspyrna

Ég fékk sex boðsmiða á Harlem Ambassadors í Laugardalshöll í gær. Hóaði ég saman liði og héldum við á staðinn. Við vissum lítið um það hvað var í vændum. Hver miði var að andvirði 1500 kr. svo eitthvað hlaut nú að vera í þetta spunnið. Þetta var á við tvo bíómiða.

En að sýningunni sjálfri;
Um er að ræða skemmtikrafta alla leið frá henni stóru Ameríku. Skemmtikraftar þessir gefa sig út fyrir að sýna körfubolta. Ég veit ekki hvort það er hægt að tala um körfuboltasýningu. Ég hefði frekar kallað þetta: "Blökkukona með fíflalæti og leikið við krakkana". Það er ekki að ástæðulausu sem ég hefði kosið það nafn. Það var fátt um fína drætti. Fyrst var rosalega tilþrifamikil kynning á erlendu risunum. Vallarþulurinn lýsti hvernig meistararnir höfðu lagt heiminn að fótum sér og núna væri komið að norðurhjara veraldar "Iceland". Og vallarþulurinn virtist vera einhver svona bandarískur háskólastrákur og hann var alveg ömurlegur þulur. Hann sá um alla "sound effectana" á sýningunni. Fyrst spiluðu Ambassadors við Reykjavíkurúrvalið. Guðlaugur Þór þingmaður og borgarfulltrúi var í Reykjavíkurúrvalinu. Ég held að það séu næg orð um styrkleika úrvalsins. Menn reiknuðu því með að Bandaríkjamennirnir ættu auðveldan leik í vændum. En nei, nei, Ambassadors svona rétt mörðu "úrvalið" og lítið var um sérstök tilþrif eða knattleikni að þeira hálfu. Svo var leikurinn alltaf stoppaður inn á milli svo blökkukonan (Lady Majic) gæti verið með fíflalæti, dansað hænsnadansa og farið með gamanmál eins og henni einni er lagið undir dynjandi danstónlist frá bandaríska háskólastráknum DJ. Whatever. Svo var nú alveg fokið í flest skjól þegar dómari leiksins dansaði hænsnadans í einu stoppinu. Ekki má gleyma því að snillingarnir fóru í sætaleik með nokkrum krökkum úr áhorfendaskaranum. Krakkinn sem vann sætaleikinn fékk stórkostleg verðlaun: Kennslu í fíflalátum að hætti Lady Majic. JEI!....

Það kom að því á endanum að við kumpánarnir létum ekki bjóða okkur meira af bullinu og strunsuðum út og kippti ég einhverri rafleiðslu úr sambandi á leiðinni. Það var reyndar óviljaverk en hverjum er ekki sama. Ég er mjög feginn að hafa ekki borgað mig inn á þetta. Reyndar hefði ég varla farið nema út af boðsmiðunum. En þetta var vissulega lífsreynsla.

Einkunn:uhm...krakkarnir höfðu gaman að þessu og það er fyrir öllu.


Í dag hélt ég síðan á Laugardalsvöll að sjá mitt lið, ÍA, etja kappi við FH í úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta. Það var gaman og myndaðist bara nokkuð góð stemning á pöllunum. Skagamenn unnu 1-0 og ég er sáttur. Ég borgaði 1500 kall inn á þetta. Jafn mikils virði og Harlem Ambassadors?