sunnudagur, 18. júlí 2004

Kýraugu

Stundum þegar ég keyri um borgina verð ég hræddur. Ég verð aldrei hræddur þegar ég sé einhvern svína á öðrum eða ef einhver keyrir hratt og glannalega. Þá segi ég bara "hálfviti" og held áfram. En ég verð hræddur þegar ég sé geðveikislega ökumenn. Um daginn var ég að keyra og framhjá ók kona með mjög geðveikislegt augnaráð og úr augunum á henni mátti lesa "DREPA! DREPA! DREPA!" og hún starði á mig. Í gær var ég stopp á rauðu ljósi, leit í baksýnisspegilinn og sá að ökumaðurinn í bílnum fyrir aftan var stelpa með uppglennt kýraugu. Hún hreyfði höfuðið líka ótt og títt og leit aftur og aftur snögglega í aftursæti bílsins. Það var eins og hún væri að flytja lík í bílnum eða að flýja óþokka. Mér var alls ekki vel við að hafa svona stúlku aftan við mig á rauðu ljósi.