miðvikudagur, 28. febrúar 2007

Hræðsluáróður og kaktuskók

Í Silfri Egils á sunnudaginn talaði Egill við Steingrím J. Sigfússon. Þar talaði Steingrímur m.a. um eftirlit lögreglu með netinu upp að vissu marki og vísaði til aðferða sem notaðar hefðu verið í Noregi og Grikklandi (ef ég man rétt) með ágætum árangri. Mikið fjaðrafok hefur skapast vegna þessa, Guðmundur Steingrímsson gefur í skyn að Steingrímur vilji koma á fót allsherjar netritskoðun eins og í Kína. Björn Ingi Hrafnsson hefur einnig séð sér gott til glóðarinnar að ata Steingrím aur fyrir orð hans, talandi um "stóra bróður sem fylgist með hverju þínu skrefi" og fleiri meistaralega útúrsnúninga. Aldrei minntist hann á ritskoðun, reyndar svarar hann ásökunum ágætlega í Morgunblaðinu í dag.

Ögmundur Jónasson var í Kastljósi í gær vegna breytingatillögu sem hann lagði fram á þingi og snerist um að skattur á gosdrykki yrði ekki lækkaður eins og matvælaskatturinn 1. mars. Þetta skyldi að sjálfsögðu sérstaklega gert til að vernda blessuð börnin og þeirra tennur. Verð á gosdrykkjum er mjög hátt hér á landi en neyslan samt sem áður gríðarlega mikil. Hærra verð mun ekki skila minni gosneyslu barna og það ætti Ögmundur að vita. Ef hann vill endilega stýra neyslunni ætti hann frekar að leggja róttækari aðgerðir til, t.d. að umbúðir á gosdrykkjum væru eins og yfirborð kaktusplöntu. Saklausum börnunum og öðrum gosfíklum mundi fljótt lærast að láta slíka drykki eiga sig og fara undan í flæmingi eftir að hafa stungið sig nokkrum sinnum. Gosdrykkir gætu staðið ósnertir í hillum verslana og þjóðin blómstrað af heilbrigði í staðinn. Stórkostlegt!

Sigrastu á kaktusnum, þá færðu kók.