mánudagur, 3. október 2005

Hollustupostular

Nú spretta næringarráðgjafar og hollustupostular upp eins og gorkúlur. Þeir segja fólki að borða fræ og belgbaunir og hummus og tofu og auðvitað soyamjólk. Reyndar ganga þeir sumir mjög hart fram og vilja helst troða þessu inn á hvert mannsbarn. Léttmjólk og nýmjólk eru eiturbras í þeirra augum. Það er svo mikið af eiturefnum í kúamjólkinni. Krakkarnir verða bara feitir og snælduvitlausir af kúamjólkinni. Þau eiga að fá kalkið sitt annarsstaðar, þau eiga að fá kalkið sitt úr hummus og tófú...og salatblöðum.

Ég hef fengið mig fullsaddan á þessu þvaðri. Mjólk hefur verið drukkin frá örófi alda og hefur ekki drepið marga. Reyndar var hún eitt af því sem hélt lífinu í Íslendingum í gamla daga. Það er nóg af næringarefnum og kalki í mjólk. Ég verð ekki var við það að fólk sem étur EKKI þetta næringarpostulasull sé að drepast úr næringarskorti eða fitu. Ég held að aðalmálið sé að sitja ekki alltaf á rassgatinu allan daginn og éta sælgæti og skyndibita. Éta sæmilega hollan mat og hreyfa sig endrum og eins, þá er fólk bara í góðum málum.

En ég reyni að vera opinn fyrir öllu. Þess vegna keypti ég mér soyamjólk úti i búð. Ég opnaði fernuna með opnum hug og lyktaði. Þar kom fyrsta áfallið, þetta lyktaði eins og rotnandi plöntuleifar. Jæja, ég reyndi að láta það ekki á mig fá og hellti í glasið. Liturinn á þessu var grámyglaður (sami litur og í grámyglu hversdagsleikans). En alveg róleg, ég gaf þessu samt séns. Ég bar flóaða soyamjólkina alla leið upp að munni, opnaði upp á gátt og sturtaði í mig risastórum gúlsopa. Þá kom þessi svipur á mig:



Ég ætla ekki að gefa soyamjólk annan séns.