þriðjudagur, 20. desember 2005

Yndislegar gamlar konur sem láta ekki jólastressið leiða sig í gönur

Í gær síðdegis í Kringlunni:
Röð er í hraðbankana tvo sem standa hlið við hlið. Tvær konur um sextugt taka út peninga. Þær gefa sér nægan tíma: "Æ, óskaplega eru þessir hraðbankar sniðugir" hugsa þær og brosa breitt, svo spjalla þær hver við aðra á meðan. Þegar þær eru búnar að fá peningana og stinga þeim niður í buddurnar halla þær sér fram að hraðbönkunum og halda spjalli sínu áfram: "Mikið óskaplega þykir mér vænt um öll þessi jólaljós og ég verð að segja að skreytingarnar hér í Kringlunni hafa tekist afskaplega vel þetta árið" "Já, ég er svo hjartanlega sammála, það er komnar svo fínar seríur á allar svalirnar í blokkinni hjá mér nema tvær, þær sindra líka svo fallega. Það er eins og ég finni barnið í mér aftur þegar ég sé alla þessa dýrð". Nú hafði bæst í röðina og styggð hljóp í mannskapinn. Sumir voru tvístígandi, aðrir herptu saman munnvikin á meðan reiðin sauð á þeim. Þær gömlu létu sem ekkert væri: "Ert þú búin að kaupa jólagjafir handa barnabörnunum?" "Nei, ég á eitt 10 ára ömmubarn, lítinn gutta, það er ómögulegt að finna eitthvað handa honum" "Eru krakkarnir ekki alltaf að leika sér í tölvuleikjum í dag? Geturðu ekki bara fundið einn svoleiðis handa honum" "Jú, það er prýðishugmynd" "Jæja, ég held ég fari að halda áfram að leita. Gaman að heyra í þér" "Já, sömuleiðis, við heyrumstum vonandi fljótlega". Þær fara hvor sína leið og hraðbankarnir tveir eru lausir. Svo brostu þær blítt til allra í röðinni. Fólkið í röðinni brosti ekki.

Þegar talað er um að taka því rólega í desember og láta ekki jólastressið ná tökum á sér er ekki átt við að teppa hraðbanka til að spjalla. Það er ástæða fyrir því að þetta kallast hraðbankar, gömlu kerlingaóféti.