Esjuganga um hánótt og Haraldur vakinn
Á föstudag fyrir viku ætluðum við nokkrir strákar í fótbolta í Mosfellsbæ. Þar var víst iðagrænn og góður völlur rétt utan við bæinn. Bjarni kom og sótti mig og Tómas og vorum við ansi seinir fyrir. Hinir voru löngu mættir og búnir að spila drjúga stund vissum við. Nema hvað, við rúlluðum þarna niður í Mosó og fundum ekki völlinn. Reyndum að hringja í einhvern hinna en enginn svaraði. Við hringsóluðum þarna um á bílnum alveg heillengi. Svo loksins hringdi einn hinna og þá voru þeir bara hættir að spila. Við vorum nú ekki alveg á þeim buksunum að fara bara heim eftir þetta hringsól og rugl og ákváðum að það yrði að reyna að gera gott úr þessu. Klukkan var þá orðin eitthvað um 23:30. Við lögðum á planinu við Esjuna og veltum fyrir okkur hvað gera skyldi. Þá datt Tómasi í hug að labba upp á Esju. Okkur fannst það nú ansi vafasamt enda farið að skyggja. Féllumst þó á það að lokum. Gulli og e-r annar Kjalnesingur sem voru í fótboltanum fóru með okkur. Við röltum síðan af stað upp Esjuna, ekki mjög kunnugir aðstæðum. Gulli hafði reyndar farið þrisvar á toppinn. Þegar við höfðum rölt þarna upp ágætis spotta sögðust Kjalnesingarnir vera þreyttir og ætluðu niður aftur. Þeir ráðlögðu okkur að fara styttri og erfiðari leiðina upp á topp það sem eftir var leiðarinnar. Svo kom í ljós að þeir höfðu sent okkur yfir einhverja andskotans mýri þannig að við rennblotnuðum í fæturna. Það var bara örlítil skíma, enda vorum við einmitt á dimmasta tíma nætur, á leiðinni svo ekki sáum við mikið af glæsilegu umhverfi. Heyrðum bara í hrossagaukum og þess háttar. Komum loksins upp á topp, síðasti hlutinn var erfiður, þurftum að brölta í klettabelti. Við vorum reyndar bara ansi heppnir að drepast ekki þarna uppi því klettarnir voru sleipir. Skrifuðuum í gestabókina á toppnum. Svo fórum við bandvitlausa leið niður, renndum okkur niður stærðar grjótskriðu og svona. Það má telja hundaheppni að við komumst frá þessu lifandi og óslasaðir. Ég efast um að fjallgönguspekingar mæli með að menn brölti upp á Esju í myrkri, hvað þá menn sem auk þess þekkja ekki til. Við komum niður klukkan að verða þrjú.Þá var stefnan tekin á Kjalarnes því ákveðið hafði verið að renna við í næturkaffi hjá Haraldi. Haraldur hafði e-n tímann sagt Tómasi að hann væri velkominn þangað hvenær sem er (væntanlega þá líka um hánótt). Það boð var að sjálfsögðu nýtt. Við renndum í hlað og læddumst meðfram húsinu. Vitað var að Haraldur svæfi með opinn glugga. Svo hvísluðu menn inn um gluggann "Haraldur" en það bar ekki árangur. Þá tók Bjarni nokkra smásteina og henti inn um gluggann í Harald sem svaf eins og steinn. Eftir dágott grjótkast vaknaði Haraldur loksins og reis upp. Svipurinn á drengnum var sá óborganlegasti sem ég hef séð. Sannkallað Kodak moment. Það tók hann nokkurn tíma að átta sig á því hvað væri að gerast. Hann hefur örugglega fyrst haldið að þetta væri mjög steikt martröð, þrír hálfvitar hlæjandi fyrir utan gluggann hjá honum og smásteinar í rúminu. Skilaboðin sem hann fékk voru mjög skýr: "Blessaður. Við Vorum uppi á Esju. Hleyptu okkur nú inn.". Haraldur lagði sig a.m.k. þrisvar sinnum í gluggakisunni á meðan hann var að melta þetta og átta sig á atburðarásinni. "Er ekki allt í lagi með ykkur?" sagði hann. Svipurinn óborganlegi var lengi að fara af honum. Hann samþykkti eftir nokkurn tíma að hleypa okkur inn. Við fórum að útidyrunum en heyrðum nokkur vel valin blótsyrði frá prestssyninum á meðan hann klæddi sig. Hann opnaði síðan útidyrnar og sagði okkur að vekja hvorki mömmu sína né pabba sinn. Við læddumst hljóðlega inn í stofu og Haraldur kom með Frissa fríska, kex og mjólk. Nú var hann almennilega vaknaður og ferskur og spjallaði við okkur í stofunni. Við þökkuðum Haraldi góðar móttökur og héldum aftur í bæinn.
Ég verð að viðurkenna að þetta er eitt mesta rugl sem ég hef tekið þátt í.
|