Pixies ollu vonbrigðum, Butterfly Effect ekki
Pixies á miðvikudagskvöld í Kaplakrika ollu vonbrigðum. Hljóðkerfi var alls ekki gott og Pixies sjálfir virkuðu bara þreyttir. Fyrsta lagið lofaði góðu en svo var þetta bara lélegt framan af, skánaði þó eftir því sem á leið. Of mikið af lélegum lögum og of mikið af krassi í hljóðkerfinu. Ekkert Dolby Digital THX þar á ferð. Þeir tóku svona u.þ.b. 10 af sínum frægustu lögum og unnu sér nokkra punkta á þeim. "Monkey Gone to Heaven" o.fl. Stemningin í salnum var samt ágæt, sérstaklega hjá dópistaliðinu sem dansaði eins og brjálæðingar. Mikil vonbrigði. Ég ætla reyndar ekki að gefa þessu eina stjörnu af fimm eins og gagnrýnandi Moggans. Það er of lítið. Aðrir stórtónleikarnir sem ég fer á. Fyrri voru Muse og þeir voru miklu betri.Gef þeim sjö í einkunn.
Ætlunin var að sjá Touching the Void á fimmtudagskvöld. Hún var ekki sýnd á auglýstum tíma svo frá var horfið. Farið var á bensínstöð í Vesturbænum. Þar voru bíóauglýsingar skoðaðar í Mogganum. Afgreiðslukonan benti á eina myndina og sagði: "Þessi kom mér rosalega á óvart". Við tókum afgreiðslukonuna á orðinu og skelltum okkur á Butterfly Effect með Ashton Kutcher í aðalhlutverki. Ashton Kutcher hefur hingað til aðallega verið þekktur fyrir að vera hálfvitalegur í glataða gamanþættinum That 70's show. Í þessari mynd er hann ekki eins og hálfviti og kom það verulega á óvart. Þetta er fínasta mynd.
Gef henni 8,5 í einkunn.
|