Í helgarblaði DV er farið fögrum orðum um þennan mann til hægri á myndinni. Sá er veitingamaður á Bistro Antonia í Króatíu og ku heita Franco. Þegar ég var í útskriftaferðinni nú í ágústmánuði skipti ég við þennan veitingastað eins og margir hinna íslendinganna. Við fórum þangað þrír drengirnir og ætluðum að panta mat. Við skoðuðum matseðla og ákváðum hvað við vildum. Ég athugaði stöðuna í veskinu og taldi þetta svona saman og hafði peninginn á borðinu fyrir framan mig. Allt í einu kemur þessi gaur askvaðandi, grípur pening frá mér sem lá á borðinu, segir "tips" og er snöggur í burtu. Ekki kunni ég alveg að meta þessi vinnubrögð. Síðan hvenær er venjan að borga þjórfé fyrirfram, áður en matur er fram borinn? Þarna var augljóslega um þjófnað að ræða. Ég fór því á eftir manninum og útskýrði fyrir honum að þetta hefði ekki verið þjórfé. Hann skildi ekki hvað ég átti við fyrr en eftir fimm tilraunir mínar til að útskýra fyrir honum. Þá samþykkti hann að ég borgaði það sem upp á vantaði fyrir matinn sem ég hafði pantað. Ég féllst á það og hélt að málið væri úr sögunni. Sú var ekki raunin, þegar hinir drengirnir tveir báðu um reikninginn kemur fíflið með reikning fyrir öllu klabbinu og ætlar að endurgreiða mér afganginn sem ég hafði borgað skömmu áður og síðan að láta mig borga heildarupphæðina fyrir minn rétt. Við tókum það ekki í mál. Fíflið sagði "borga, borga" og giska ég á að það hafi verið eina sem hann kunni á íslensku. Þá sagði hann okkur að koma með sér í móttökuna þar sem hann ætlaði að klaga okkur. Hann bað um herbergisnúmer, sem við neituðum að gefa upp svo tók hann upp síma og þóttist hringja. Þá spurði Tómas hvað hann hyggðist nú fyrir. "Police" var svarið. "ok" sagði Tómas þá og þá virtist maðurinn guggna, fór aftur með Tómasi inn á staðinn og sagði honum að borga það sem hann vildi en að héðan í frá værum við drengirnir þrír "closed for this restaurant" eins og hann orðaði það svo smekklega.
Er það svo ekki dæmigert að þessi svindlari, Mottan eins og við kölluðum hann, komi sakleysið uppmálað í DV. Þar er sagt frá því að hann hafi gefið íslendingum (sjálfsagt fertugum eða fimmtugum) fría drykki á stað sínum fyrir að vera góðir kúnnar. Það skyldi þó ekki vera að hann borgaði þessa fríu drykki með því að stela af öðrum kúnnum.
mánudagur, 13. september 2004
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|