mánudagur, 22. ágúst 2005

Leti

Tvær af höfuðsyndum mannsins eru letin og heimskan. Báðar þessar syndir náðu hámarki hjá mér í nýafstaðinni útskriftarferð á Portúgal, báðar að morgni. Þó ekki sama morgun. Fyrst ætla ég að skrifa um letina. Heimskan fær sinn dálk síðar.

Dag einn vaknaði ég kl.12 á hádegi í svitakófi. Smávægilegir timburmenn gerðu vart við sig. Engin var loftkælingin og loftið sem kom inn um gluggann var hvorki kalt né ferskt. Ég stóð upp og fór út á svalir og settist þar í stól. Ég kom auga á nokkra vegfarendur niðri á götunni. Ekkert botnaði ég í því hvernig þeir nenntu að ganga á degi sem þessum. Ég sagði þeim að setjast og slaka aðeins á. "Látið ekki dugnaðinn drepa ykkur!" kallaði ég. Þau skildu ekkert af því sem ég sagði og örkuðu bara áfram þrátt fyrir óbærilegan hitann. Fyrst svo var reyndi ég ekki frekar að tjónka við þau. Þetta var greinilega það sem fólkið vildi og þá bara aumingja það. Það vissi ekki hverju það var að missa af.

Eftir rúman hálftíma rak ég augun í vindsængina mína, sem lá upp við svalahandriðið um einum og hálfum metra frá mér. Ljúft hefði nú verið að leggjast á góða vindsæng á svölunum og rotast í tvo klukkutíma eða svo. Ég blístraði á vindsængina eins og hún væri hundur og bað hana að koma. Engin viðbrögð. Þá sagði ég í ögn alvarlegri tón: "Komdu". Engin viðbrögð. Nú tóku brúnirnar að síga. Hafði ég ekki borgaði 10 evrur nokkrum dögum áður til að fá vindsængina í mína þjónustu? Átti hún eitthvert val annað en að hlýða húsbónda sínum? Varla. Ég var farinn að hóta: "Viltu koma hingað strax, annars kem ég og næ í þig!". Vindsængin hélt sínu gamla pókerfeisi og virti mig ekki með svari. Hún sýndi slíkan viljastyrk og festu að mig tók að verkja í hægri fótinn. Það var ekki laust við að það færi að fjúka í gamla sem var búinn að reyna að gefa helvítinu illt auga og hornauga ásamt því að sussa á hana. En allt kom fyrir ekki. Hún virti mig engu meira en tyggjóklessu, klínda innan á klósettskál. Ég var ekki lengur reiður enda nennti ég því ekki. Nú var ég bara sár yfir yfirlætinu og hortugheitunum í þessu heilalausa fyrirbæri.

Að lokum gafst ég upp, sótti vindsængina, og dormaði á henni í væna tvo klukkutíma á svölunum. Ég ætla aldrei að vera svona latur aftur.