miðvikudagur, 4. janúar 2006

Hrotuleikurinn

Kom heim frá Danmörku í gær. Daginn þar áður fór ég í fjögurra tíma lestarferð frá Álaborg til Kaupmannahafnar. Það var ekkert að gera í lestinni svo að ég og systir mín fundum upp nýjum leik, Hrotuleiknum.

Maðurinn sem sat á móti Krakkanum í lestinni var hrotudólgur. Hann svaf meira og minna allan tímann, en öðru hvoru rak hann upp hroturoku. Þar með var innihaldið í Hrotuleiknum komið, ég og Nína veðjuðum um hve langt yrði í næstu hrotu. Leikurinn skyldi vera þrjár umferðir nema úrslit yrðu ráðin eftir aðra umferð.

1.umferð
Guðmundur veðjar á fjórar mínútur, Krakkinn segir fimm. Klukkan er sett af stað. Keppendur og áhorfendur fylgjast spenntir með hrotudólgnum, sem gapir bara, steinsofandi utan í glugganum. Þrjár mínútur liðnar; hrotudólgur vaknar. Já, verulega óvænt útspil þarna hjá honum en eykur spennuna. Sofnar hrotudólgur aftur áður en fjórar mínútur eru liðnar?...Já hann sofnar fljótt aftur, þarna var Guðmundur heppinn, annað hefði þýtt tap í 1.umferð. Fjórar mínútur, hrotudólgur sefur en engin er hrotan, Guðmundur tapar 1.umferð því eftir rúmar fimm mínútur kemur óumdeilanleg há hrota. Guðmundur 0-1 Krakkinn.

2.umferð
Pressan er á Guðmundi, hann verður að vinna þessa umferð ef hann á ekki að detta út. Guðmundur veðjar nú á þrjár mínútur, Krakkinn segir sjö. Já, athyglisverður munur þarna á ágiskunum. Klukkan sett af stað. Eftir tvær mínútur kemur hálfhrota frá hrotudólgnum. Vafaatriðið þarna, sem menn munu sjálfsagt deila lengi um, á að telja þetta sem hrotu eða ekki? Dómari sker að lokum úr um að hálfhrotan skuli ekki tekin sem hroturoka. En áfram sefur hann, guði sé lof fyrir Guðmund, hann á enn möguleika. Eftir 3:30 kemur dúndrandi hrota sem hræðir nokkra farþegana ískyggilega. Guðmundur hefur því betur í annarri umferð og staðan er: Guðmundur 1-1 Krakkinn. Það er því ljóst að 3.umferð verður hreinn úrslitaleikur.

Hlé er gert fyrir þriðju og síðustu umferð svo menn nái að kasta mæðunni.

3.umferð, úrslit
Systkinarígurinn er mikill fyrir úrslitin, enda ættarheiðurinn að veði. Hver verður ættarskömmin og hver verður ættarlaukurinn? Guðmundur skýtur nú á sex mínútur, en Krakkinn ákveður eftir umhugsun að segja fjórar. Spennan er strax orðin mikil þegar dólgurinn vaknar og hleypir enn frekari spennu í leika. En bíðum nú við, hvað er að gerast? Nú, sofnar hann ekki strax aftur. Í kallkerfinu heyrist: "Næste station: Odense" og hrotudólgurinn klæðir sig í jakkan og býst til brottferðar. Þetta hleypir algjöru uppnámi í leikinn en sýnir að allt getur gerst. Er ekki hægt að borga honum fyrir að sitja áfram í lestinni, hvernig er það, dómari?! Hann fer út í Odense og þar með endar Hrotuleikurinn með 1-1 jafntefli, sem er svívirða.