Yorkie - ekki fyrir stelpur
Ég og Jósep vorum að afgreiða hjá Möggu í Hallanum um daginn. Inn kom stelpa, líklega 14-15 ára, og skimaði rækilega yfir hillurnar í leit að rétta góðgætinu. Hún var lengi að ákveða sig, enda úrval af sælgæti þokkalegt. Mars? Snickers? Bland í poka? Popp? Kók? Þetta getur verið erfitt val. Síðan bað hún um smá bland en hún vildi meira, og það tók lengri umhugsun: "Eigiði ekki eitthvað hreint súkkulaði?" Það stóð ekki á svari: "Jújú, við eigum Yorkie, úrvals hreint mjólkursúkkulaðistykki". En þá varð stúlkan alvarleg á svip: "Nei, það er ekki fyrir stelpur" (Slagorð Yorkie er NOT FOR GIRLS). Ég og Jósep hlógum að þessu svari. Hún var áfram alvarleg og þá lokaði ég kjaftinum og reyndi að kyngja hlátrinum. Henni var alvara. Þetta var orðið hálfvandræðalegt og ég vorkenndi blessaðri stúlkunni. Jósep sagði við hana að kannski væri nú í lagi að gera undantekningu svona einu sinni. En það vildi hún ekki, Yorkie er ekki fyrir stelpur, þannig er það bara. Þetta er einn þeirra hluta í heiminum sem er ósanngjarn og þolendur verða bara að kyngja því, þegjandi og hljóðalaust.Kannski hefur hún haldið að Yorkie innihéldi gommu af karlhormóninu testósterón, og að það breytti ungum stúlkum í tröllvaxna karlmenn með alskegg og vömb. Kannski er hérna komið næsta baráttumál femínista: KONUR MEGA ALVEG FÁ YORKIE EINS OG KARLAR, og hana nú! Sé fyrir mér mótmælaspjöldin.
|