Frétt
Spaugstofan er byrjuð aftur. Það er ekki fréttin, heldur er fréttin sú að ég hló upphátt að einu atriðinu í þættinum á laugardagskvöld. Atriðið snerist um Kínverjann Shaol-Shin-Ho sem hélt sjálfstortímingarnámskeið fyrir áhugasama. Þar fór hann yfir ýmis bellibrögð sem miðuðu að því að slasa sjálfan sig ásamt því að fara yfir íslenska almannabótakerfið. Óvenju beitt grín á Spaupstofumælikvarða.Þarna var að sjálfsögðu vísað til kínverska verkamannsins á Kárahnjúkum sem fannst liggjandi í blóði sínu með mikla áverka einn morguninn fyrir skömmu í verkamannabúðunum. Fyrst var talið að einhverjir menn hefðu komið þar inn um nóttina og veitt manninum ærlega ráðningu af óþekktu tilefni. Næstu daga kom fram í fjölmiðlum að allar líkur voru taldar á að maðurinn hefði veitt sér áverkana sjálfur, sennilega til að reyna að fá bætur út úr tryggingum.
Það er þekkt staðreynd að aðbúnaður verkamanna uppi á Kárahnjúkum er til skammar, en er þetta ekki orðið ansi slæmt þegar menn eru farnir að lúskra á sjálfum sér til að fá tryggingabætur? Vonleysið í hámarki.
Að vísu hefur þessi tiltekni verkamaður sennilega verið sæmilega klikkaður.
|