Thank You For Smoking
Myndin Thank You For Smoking hefur gengið afar vel í kvikmyndahúsum um allan heim. Þess vegna fór ég á hana með töluverðar væntingar. Hún stóð fyllilega undir væntingum og gott betur. Handritið er skothelt, ádeilan er hvöss og engum tíma er sóað í atriði sem ekki þjóna tilgangi við framvindu myndarinnar. Þar að auki er hún afbragðsvel leikin og myndatakan er vel útfærð. Myndin er í ofanálag þónokkuð frumleg.
Aðalpersónan Nick Naylor (Aaron Eckhart) er bisnissgaur sem hefur það frábæra starf að koma fram fyrir hönd tóbaksrisanna og verja þá með kjafti og klóm. Hann hefur sannfæringarkraftinn í lagi en er samt sem áður einn hataðasti maður Bandaríkjanna (skiljanlega kannski). Katie Holmes er klassagóð í hlutverki ósvífinnar blaðakonu og J.K. Simmons er framúrskarandi sem siðblindur yfirmaður.
J.K Simmons
Niðurstaða: Besta mynd ársins hingað til.
Einkunn: 9,5.
|