fimmtudagur, 23. október 2003

Lenging framhaldsskóla

Mikið hefur verið þusað og þrasað um styttingu framhaldsskóla á alþingi. Tómas Ingi Olrich styður það og fleiri þingmenn því það virðist vanta herslumuninn upp á að þetta gangi í gegn. Þetta er á þeim forsendum að það vanti fólk fyrr út í háskóla og þannig fyrr út í atvinnulífið til þess að auka framleiðni. Þeir ætla að ná fram sparnaði með því að þjappa námsefninu niður á þrjú ár í stað fjögurra. En vantar fólk í atvinnulífið einu ári fyrr? Nei, ég hef ekki heyrt um verulegan skort á fólki í vinnu undanfarin ár. Atvinnuleysi hefur hins vegar verið nokkuð. Það virðist vera tilhneiging hjá stjórnendum fyrirtækja til að ráða alltaf ungt fólk í vinnu frekar en eldra þrátt fyrir að sama menntun sé til staðar hjá báðum. Þeir eldri hafa líka oftast meiri reynslu en yngri. Talað er um að nágrannaþjóðirnar hafi þetta bara þrjú ár og þess vegna eigum við líka að stytta hjá okkur. Svo halda þeir því fram að brottfall nemenda minnki nái tillögurnar fram að ganga. Ég sé ekki alveg hvernig það getur staðist. Það féllu líkast til bara fleiri einhvern tímann í framhaldsskóla þar sem meira námsefni væri kennt á hverju skólaári en nú er.

Það er mikil tilhneiging til að vilja gera eitthvað af því að nágrannaþjóðir hafa gert það "með góðum árangri". Hvað með að leita nýrra leiða? Mætti ekki alveg láta grunnskóla byrja við fimm ára aldur í stað 6 ára eða jafnvel stytta grunnskólann um ár. Þar er miklu betra tækifæri til styttingar og hagræðingar en á framhaldsskólastigi því námið er miklum mun léttara. Þar er voðalegt dúll í gangi og 1.bekkur grunnskóla er t.d. mikið til bara leikur "út að sippa" "allir í beina röð" "nú er litatími" og "nú er tannburstamánuðurinn og allir eiga að koma með tannbursta og tannkrem í skólann". Það var rosalegt rugl þetta með tannburstana og að tannbursta í skólanum þegar ég lít til baka. Það er alveg á hreinu að krakkar gætu lært meira í 1.bekk. Ég er viss um að flestir gætu vel hoppað yfir eitt ár á fyrstu árum grunnskólans.

Ef framhaldsskólinn verður styttur legg ég til að allir nemendur falli í mótmælaskini og lengi þannig námið aftur upp í fjögur ár.