föstudagur, 10. október 2003

Málefnadagar Samfylkingarinnar og bleikt Stjórnarráð

Ég rak upp stór augu þegar ég sá í Mogganum í dag auglýsingu: "Málefnadagar Samfylkingarinnar, 11. og 12. október" ég nennti ekki að lesa meira af þeirri auglýsingu en geri fastlega ráð fyrir því að nú ætli Samfylkingin aldeilis að ferskja sig upp og vera með einhver málefni í tvo daga. Fyrir kosningarnar í vor voru þeir svona eitthvað tvístígandi varðandi það að finna sér málefni og fóru svolítið mikið eftir því sem kom út úr könnunum. Svona "60% þjóðarinnar eru hlynnt aðild að myntbandalagi Evrópu" og þá stendur Össur upp á fundi hjá flokknum og segir: "Já, Samfylkingin er greinilega með myntbandalagsaðild. Sáuð þið ekki könnunina maður, JÖSS!" Og svo var ekkert mál að breyta því ef næsta könnun sýndi eitthvað annað. Bara skútsa þessu til og frá. Mér finnst mjög gott hjá Samfylkingunni að ákveða að brydda upp á einhverjum málefnum, og þótt það sé ekki nema í tvo daga, það er þó byrjunin. Laglegt þetta. "Málefnadagar", þetta mun slá í gegn. Össur, ég kýs ykkur næst. Það er gefið. Ég mæli með að flokkurinn bryddi upp á tveggja daga "Málefnadögum" á hverju ári hér eftir. Djöfull verður það vinsælt. Já,já,já.

Ef ekið er framhjá Stjórnarráðinu í myrkri má sjá fagurbleika lýsingu sem varpast upp á það. Mun það vera til að vekja athygli á brjóstakrabbameini. Nú hef ég fengið aldeilis góða afsökun fyrir að ganga í bleiku sokkunum mínum (sem áður voru hvítir) sem pabbi litaði óvart í þvottavélinni um daginn. Ég er augljóslega bara að vekja athygli á brjóstakrabbameini.