Þrír Frakkar
Borðaði á veitingastaðnum Þremur Frökkum í gær. Við næsta borð sátu fjórir Frakkar. Fékk skötusel í púrtvínssmjörsósu og kartöflur, sem var hnossgæti. Fimm stjörnur af fimm. Nokkrir þjónar voru á staðnum, allir kvenkyns. Nema hvað, við áttum pantað borð fyrir sex manns. Þegar komið var á staðinn var bara tilbúið borð fyrir fjóra. Obbosí, fjórir er ekki sama og sex. Ein þjónustustúlkan reyndi að klína þessu klúðri veitingastaðarins á okkur, sem var afar óviðeigandi framkoma. Hún virtist vera leiðindaskjóða almennt. Hinar voru mjög almennilegar og tóku alla ábyrgð á klúðrinu. Sú sem aðallega þjónaði okkur til borðs var mjög almennileg og myndarleg í þokkabót og brosti allan tímann. Þeir sem þjóna á veitingastöðum eiga að vera svoleiðis. Gott er að eiga feiksmælið gamla góða þegar fólk vinnur slíka vinnu. Leiðindaskjóðuna sáum við hins vegar ekki aftur. Mig grunar að hún hafi verið færð inn í eldhús og tjóðruð þar við staur. Ekki er ósennilegt að í eldhúsi staðarins sé staur fyrir óþægt starfsfólk, sem trónir yfir grautarpotti sem mallar og kokkurinn hrærir í við og við. Þar má slíkt fólk dúsa og svitna og sjá eftir framkomu sinni. Það verður að minnsta kosti á mínum veitingastað, ef ég opna slíkan. En það er einmitt gamall draumur að verða kokkur og eiga veitingastað. Þá yrði ég akfeitur kokkur því þeir eru bestir.
|