Skall í gólf
Nú eru nokkrir dagar síðan ég kom heim úr steiktri útskriftarferð til Króatíu. Ekki var laust við að mig langaði að fá miðann endurgreiddan þegar ég kom í Leifsstöð og beið eftir flugi til Trieste. Þar var ömurleg stemmning sem lofaði síst góðu fyrir útskriftarferð. Margir voru strax farnir að hella í sig.Við lentum í Trieste og fórum með rútu í gegnum Slóveníu. Landamæravörður skoðaði vegabréf okkar. Ég fékk illt auga frá verðinum því ég hafði vegabréfið mitt lokað þegar hann ætlaði að líta á það. Komum síðan eftir miðnætti á hótelið. Sumir fóru strax að sofa en aðrir slökuðu alls ekki á í drykkju. Annað kvöldið drukku flestir. Gunni nokkur Jó teygaði ófáa sopana og var orðinn skrautlegur. Við mættum honum á gangi og sagðist hann ekki komast inn í íbúð sína, íbúðarfélagarnir hefðu læst hann úti (sem var misskilningur). Við leyfðum honum að gista í okkar íbúð. Það var merkilegt að hann reyndi eftir bestu getu að haga sér prúðmannlega þrátt fyrir að vera ekki í ástandi til þess. Reyndar hljóp hann beint í fyrsta rúm sem hann sá í íbúðinni og ætlaði að hvílast. Við blésum vindsæng upp fyrir hann. Þegar vindsængin var uppblásin tilkynntum við Gunna það og bjuggumst alveg eins við að hann væri sofnaður en nei, hann spratt á fætur, sagði "jájá", sá vindsængina á gólfinu og kastaði sér niður DUNK! Æ, æ hann skellti sér á gólfið við hliðina á vindsænginni og brakhljóðið var hátt. En hann kveinkaði sér ekki, heldur steinsofnaði á gólfinu og fór að hrjóta og það hátt. Svaf síðan vært og ljómandi vel á gólfinu en við sváfum ekki eins mikið fyrir hrotunum. Þetta var bara byrjunin á mjög steiktri ferð.
|