Kartöflukirkjugarður og sólbað
Vinnudrengur nokkur fékk þá hugmynd að rækta kartöflur í kirkjugarðinum á leiðum. Þótti mér og fleirum til mikils sóma. Þá mætti hugsa sér að kartöflur, ræktaðar á leiði Jóns Sigurðssonar forseta, væru dýrari en kartöflur ræktaðar á leiði Gunnars Einarssonar baðvarðar sökum snobbgildis. Með þessu gætu kirkjugarðar öðlast hagnýtt gildi. Hví ekki?
Um daginn var ég að slá í kirkjugarðinum þegar ég skyndilega rambaði fram á konu sem lá þar í sólbaði. Mér var brugðið enda ekki algeng sjón. Hún kippti sér ekkert upp við hávaðann í orfinu og um stund hélt ég að hún væri látin. Þá hefði hún valið staðinn af kostgæfni. En ekki var hún látin. Hvurs konar fólk fer í sólbað í ríki látinna? Var konan haldin alvarlegri þráhyggju? Var konan haldin víðáttufælni?
Kannski fann hún bara rólegan stað til að sóla sig. Ekki þurfti hún að óttast truflun frá látnu fólki. Sólbað í kirkjugarði. Hví ekki?
|