föstudagur, 10. júní 2005

Siðgæðisvörðurinn

Dag nokkurn fyrir skemmstu var ég í ökuferð með mömmu og Nínu. Loft vantaði í annað afturdekkið á bílnum og ég átti að aka á bensínstöð og pumpa í það. Sem ég í rólegheitum ók um miðbæinn kemur skyndilega bíll upp að hlið bílsins og ekur samsíða. Gott og vel. Allt í einu fer bílstjóri hans að veifa. Ekkert okkar þekkti þennan bílstjóra og ekki veifuðum við á móti. Því næst fór hann að veifa með báðum höndum sem óður væri. Við héldum réttilega að maðurinn væri óður en ég einbeitti mér áfram að akstrinum. Enn óðari gerist nú maðurinn og fer að snúa annarri hendinni í hringi. Aaa, látbragðsleikur. Mamma skrúfaði nú niður rúðuna til að gaumgæfa betur æði mannsins. Maðurinn segir þá "Heyrðu það er rosalega lint í afturdekkinu hjá þér. Ég mundi athuga með þetta, annars gæti þetta eyðilagst".

Hugulsemin á einum manni. Þarna lagði hann sjálfan sig og samferðarmenn í hættu til þess að gæta að umferðarsiðferði. Hann fórnaði sér og sínum. Ef hann gætir ekki að öryggi almennings, hver gerir það þá? Siðgæði almennings er víða ábótavant og þörfin fyrir siðgæðisverði mikil. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Held að þessi ágæti maður ætti að einbeita sér að akstrinum framvegis.