Ómetanlegur drengur
Ég á fáránlega mikið af litlum frændsystkinum, fimm eða sex eða sjö eða ég veit ekki hvað. Hvert þeirra hefur sín einkenni í hegðun, atferli og framkomu. Eitt er þó manna fyndnast, drengur að verða tveggja ára. Ég var í matarboði hjá frænku minni í gær og hann var líka mættur með foreldrum sínum. Eftir matinn fóru hann og systir hans að leika sér. Fullorðna fólkið (vafasamt samt að telja mig með því) sat áfram við matarborðið.Eftir smástund komu nokkrir auga á drenginn þar sem hann tók, mjög varlega, skrautmuni í gluggakistunni, sem hann vissi að hann mátti ekki snerta, og gægðist um leið í áttina að okkur með eitt mesta skítaglott sem ég hef séð. Þá var hlegið að honum. En hann vildi greinilega skammir því þá hélt hann áfram að glotta og hreyfði skrautmunina svolítið minna varlega. Þá kom foreldri og greip hann glóðvolgan við verknaðinn og fjarlægði hann af vettvangi.
Svo var hann að sjálfsögðu látinn laus eftir smá varðhald. Nokkrar mínútur liðu og þá sáum við hann glottandi að sötra úr blómavasa. Þá fjarlægðu foreldrarnir hann aftur af vettvangi.
Um daginn var ég líka staddur á sama stað og drengurinn. Ég sat pollrólegur í stól og allt í einu kom drengurinn hlaupandi að mér, stoppaði og leit á mig, og sprakk síðan úr hlátri.
Ef þessi drengur verður ekki eitthvað rosalegt í framtíðinni skal ég hundur heita.
|