Auðmjúkur starfsmaður
Ég lærði lexíu í vinnunni í dag. Að þykjast ekki vita eitthvað þegar gamalt fólk kemur í garðinn. Gamall maður kom inn í garð og sagði:"Jæja, nóg að gera"
Ég: "Jájá"
G.m.: "Hann er nú býsna merkilegur, þessi garður"
Til að virðast ekki alveg áhugalaus ákvað ég að segja ekki bara "jájá" við þessari tilkynningu mannsins og svaraði:
"Já, hmm, elsti kirkjugarður í Reykjavík"
G.m.: "Neineineineinei! Þetta er ekki elsti kirkjugarður í Reykjavík"
Sjitt, nú hafði ég greinilega talað af mér.
Ég: "Nú?"
G.m.: "Nei, það er Fógetagarðurinn, sem var niðri í bæ, við Austurvöll, þar sem Landssímahúsið stendur núna, og hann náði alla leiðina út að Kirkjustræti, alveg frá grindverkinu við Landssímahúsið. Þar var Skúli fógeti jarðsettur. Hann stóð þarna þegar ég var smápatti. "
Ég: "Já"
G.m.: "Þessi garður er að vísu sá elsti sem stendur enn, en Fógetagarðurinn gamli kom samt á undan. Þú skalt fara þarna niður eftir að gamni og skoða þetta"
Ég: "Ég geri það"
Með það fór sá gamli. Nú hafði hann leitt eina unga sál frá vegum glötunar og fávisku. Ég fer svo þarna niður eftir á næstunni að gamni og skoða þetta.
Svo mun sjást til mín grandskoða Landssímahúsið og allt hið meinta svæði sem Fógetagarðurinn stóð á, og gott ef ég stika ekki bara svæðið og merki að gamni svo fólk viti nú hvar þessi merki garður stóð.
"Guðmundur, hvað í ósköpunum ertu að gera?"´
"Ég er að skoða hérna svæðið þar sem gamli Fógetagarðurinn stóð í gamla daga"
"Af hverju í ósköpunum?"
"Af því að einhver gamall gaur sem kom í kirkjugarðinn sagði mér að gera það að gamni"
|