Nauthólsvík, Öskjuhlíð, Fossvogur og Skerjafjörður
Í dag fór ég í minn annan væna hjólreiðatúr. Hugmyndin var að hjóla hring um Skerjafjörðinn en hún var útvíkkuð og ákvað ég að bruna beint yfir í Fossvog líka.Þegar ég var í Fossvoginum á sprúðlandi ferð upp 40° halla, gleiðbrosandi aftur fyrir hnakka og golan kyssti kinn, varð mér bylt við því allt í einu heyrðist "PihvissTVEING!". Ég vissi ekkert hvað var á seiði, en viti menn, það var hnakkurinn, allur skakkur og skældur og boginn í keng. Ég tók mér nokkrar sekúndur til að velja blótsyrði af alúð og natni. Blótsyrðin ruddust síðan fram hvert af öðru og dundu á hnakkinum. Nú hringlaði hann losaralegur og aumkunarverður þarna efst á hjólinu. Hann átti ekki skilið að vera svo háttsettur fyrir þetta uppátæki.
Ekki hafði ég með mér lítið verkfærakitt, svo ég varð að skrönglast á jálkinum heim aftur í þessu ástandi. Engum blöðum var um það að fletta að hnakkurinn skemmdi á mér bakið á leiðinni heim og brotin kvörnuðust úr mjóhryggnum.
Ég var mjög sáttur að ferðinni væri lokið þegar ég renndi heim í hlað klukkstund síðar.
|