laugardagur, 3. júní 2006

Tímamót

Skólagöngu minni í MR er nú lokið. Á næsta ári tekur við Háskóli Íslands. Þúsund sinnum hef ég skipt um skoðun hvað varðar framhaldið en lokaniðurstaðan er HÍ næsta haust.

Stúdentsveislan var ágæt og gaf vel í aðra hönd. Einkum ber að nefna reiðhjól og sjónvarp sem munu koma sér vel, hvort á sinn hátt. Annað mun ýta undir kyrrsetu, hitt hreyfingu.

Vinnan í Hólavallagarði er hafin. Nýtt fólk er komið til starfa í bland við gamlar kempur. Fyrstu dagarnir hafa einkennst af dumbungi og laufrakstri. Sól hefur aðeins sést. Í næstu viku hefst sláttur með splunkunýjum sláttuorfum.

Áðan hjólaði ég út að Gróttu og hring meðfram strandlengjunni og inn á Nes. Tíminn var góður, 35 mín. Veit ekkert hvað það voru margir kílómetrar. Kríur gögguðu og mávar görguðu mjög þegar ég átti leið um yfirráðasvæði þeirra.