Aumkunarverður smjörkúkur
Þegar tónlistarmenn endurgera lög og fara betur með þau en upprunalegir flytjendur er alltaf skemmtilegt. U2 náðu vinsældum með lagi sínu, One, á sínum tíma. Síðar endurgerði Johnny Cash lagið með góðum árangri. Hann gerði það algerlega að sínu og útgáfan er margfalt betri en sú upphaflega frá U2. Þetta sannreyndi ég með því að hlusta á útgáfu Cash og síðan U2 beint á eftir. Reyndar varð ég að slökkva á útgáfu U2 því ég fékk nóg.Söngvarinn Bono hljómaði eins og slepjulegur aumkunarverður smjörkúkur að apa eftir gott lag sem hann hafði stolið úr höndum meistara og skemmt. Samt er hann upprunalegur flytjandi.
Annað sem ég tók eftir var hvernig merking textans breyttist eftir því hvora útgáfuna ég hlustaði á. Það var akkúrat engin merking í textanum þegar Bono gaulaði hann, en frá Johnny hljómaði þetta eins og speki. Gamalreyndur jálkur að þylja speki.
U2 er með ofmetnustu hljómsveitum heims að mínu mati. Sum lögin eru sæmilega grípandi við fyrstu hlustun, en síðan fær maður virkilegt ógeð af þessu ef maður hlustar oftar.
Annars var ég að fá mér einn disk enn í safnið með Johnny Cash, Ring of Fire: The Legend of Johnny Cash. Hann inniheldur m.a. Hurt, Get Rhythm, A Boy Named Sue, Folsom Prison Blues, Personal Jesus og fleiri meistarastykki. Aldeilis óhætt að mæla með honum.
Niðurstaða: Johnny Cash er klassík, U2 eru langt frá því.
|