Gerilveirur hjúpaðar hnausþykku súkkulaði
Nú er ég kominn á gott skrið í 6 bls. líffræðiritgeðinni sem ég á að skrifa um retróveirur. Ég á að vísu að vera búinn að skila henni en það eru þo nokkir sem eru í sama slugsinu og ég. Þetta er fáránlega flókið efni og heimildirnar flóknir textar á ensku svo þetta er seinlegt. Ég skil líka voða lítið í því sem ég er að skrifa. Af hverju valdi ég retróveirur sem ritgerðarefni? Vegna þess að mér þótti það töff nafn og svo hef ég líka heyrt um búð sem heitir Retro. En þar tók ég aldeilis köttinn í sekknum.Áðan var ég að garfa í góðri enskri heimild og skrifaði eftirfarandi: Veirur eru smáar eindir sem sýkja frumur í lífverum. Þær eru nauðbundnir innanfrumusníklar. Þær geta eingöngu fjölgað sér með því að ráðast inn í frumur og hertaka þær. Þetta er vegna þess að veirur skortir frumueiginleikana til að fjölga sér. Þegar talað er um veirur er venjulega átt við eindir sem ráðast á heilkjörnunga. Gerilveirur ráðast hins vegar á dreifkjörnunga. Slíkar eindir bera gjarnan örlítið magn af kjarnsýru (DNA eða RNA) sem hjúpuð er hnausþykku súkkulaði.
Mig langar að halda mig við þetta "hnausþykku súkkulaði" en ég verð víst að setja leiðinlegu útgáfuna inn, þessa með "hlífðarskurn".
4 bls. komnar, áfram með smjörið.
|