Konfektmarkaðurinn
Um jól og áramót er íslenski konfektmarkaðurinn í algleymi. Eins og alþjóð veit hefur Nói Síríus sterkust ítök á markaðnum. Bragðið ku vera himneskt. Hver kannast ekki við súkkulaði með mintufyllingu sem bráðnar í munninum? Að ekki sé talað um molana með karamellu,jarðarberja og banana-fyllingu? Svo er hægt að fá svona fullorðins, með brennivínsfyllingu. "Nammi namm" segja sjálfsagt margir.En nú hef ég undir höndum leyniuppskrift og hef í hyggju að ryðjast inn á konfektmarkaðinn af offorsi og skjóta Nóa gamla ref fyrir rass. Konfekt með lífsfyllingu verður það nýjasta. Mannkyn þarf ekki lengur að ráfa um stræti og torg í leit að lífsfyllingu, lífsfyllingin verður falin inni í súkkulaðimolum sem fást úti í búð. Svo sitja menn sem fastast heima hjá sér í stól eða úti á akri og maula konfektið góða. Þeir munu ekki þurfa að vinna, paufa og vesenast í leit að einhverju sem þeir vita ekki einu sinni hvað er. Þarna verður þetta komið á sínu einfaldasta formi, laust við allt vesen.
Þessi stúlka hefur bersýnilega komist yfir mola úr nýju leyniuppskriftinni sem ekki er enn komin á markað.
|