Um blóm og partý og blómabörn
Sumir afmælisveislugestir settu út á umhirðu blómanna. Töldu þeir að ég vanrækti þau. En það er bara hluti af skýringunni. Það kom lús í flest blómin, sama hvað hver segir og svo voru þau ekki umpottuð síðasta vor, mamma taldi það óþarfa. En það vakti lukku þegar ég fór að vökva blómin "í beinni" í partýinu með könnuna í annari og bjórinn í hinni. Handlaginn húsfaðir.Veislan gekk nánast snuðrulaust fyrir sig. Ekki mikið um pústra og ölvun í meðallagi. Það eru hins vegar blöðrur og hnetur hér um öll gólf og upp um veggi (afmælisgjafir). Ég er að hlæja núna að ofvirku upptrekktu véldýri sem ég fékk. Óvenju gaman að leika sér að þessu svona þunnur.
Síðustu menn út voru ég, nafni og Sepinn og fórum við rakleiðis á Prikið. Þar var leiðinlegt. Menn skvettandi bjór yfir mig og reykjarkóf og vafasamir menn berir að ofan að dansa uppi á borði. Hljómar ekki eins og mín uppskrift að góðri skemmtun. Ég held að það sé bara skemmtilegt niðri í bæ í eitt af hverjum hundrað skiptum. Hitti gamlan félaga niðri í bæ sem var ekki sáttur við að hafa ekki verið boðinn. En þegar ég lofaði að bjóða honum í þrítugsafmælið tók hann gleði sína á ný.
|