Forlögin
Ég hef aldrei trúað sérstaklega mikið á forlög eða stjörnuspár eða aðra vafasama hluti í þeim dúr.En eitt trúi ég á: RÚTÍNUNA.
Rútínan felst í því að þegar Liverpool keppir í Meistaradeildinni förum ég og Tom á Glaumbar að fylgjast með leikjunum (fáum okkur einn bjór fyrir hvorn hálfleik og oftast borgara á Nonnabita eftir leik). Alltaf og ævinlega hefur þessi Rútína skilað jafntefli eða sigri Liverpool og þeir hafa komist áfram í næstu umferð. Rútínan skilaði sigri í Meistaradeild Evrópu í fyrra, en í fyrra var einmitt líka árið sem Rútínan hófst.
Ef sigur í Meistaradeildinni í fyrra er ekki næg sönnun mætti kannski nefna að Liverpool tapaði í kvöld 1-0 fyrir Benfica en það var einmitt líka í kvöld sem Rútínunni var ekki fylgt eftir vegna þess að ég er veikur (með iðandi hálsbólgu og þrumandi hausverk og ólgandi hita annað slagið) og sá mér ekki fært að mæta. Það er alveg 100% gefið að þetta fokking Benfica-lið hefur sent hingað útsendara sinn til að smita mig og eyðileggja þar með Rútínuna góðu.
En þetta er engan veginn búið, seinni leikurinn er eftir og þá komast þessir andskotar ekki upp með bellibrögð.
e.s. Það mætti kannski nefna það að þessi orð eru rituð af veikum manni sem er með óráði.
|