Hélt hún væri að hlusta á íslenskt já takk! en annað kom í ljós
Man allt í einu eftir atriði sem ég ætlaði að vera löngu búinn að skrifa. Ég hef áður skrifað um það hve amma mín er frábær. Ég ætla bráðum að veita henni bikar, gullmedalíu og fleiri verðlaunagripi fyrir það.Um daginn fór ég í heimsókn til afa og ömmu. Ég sat í eldhúsinu ásamt ömmu og hún var að fræða mig á einhverju sem ég man ekkert hvað var, nema hvað, allt í einu er eins og hún verði fyrir eldingu eða eitthvað, hún gerir smá hlé á máli sínu og segir síðan:
"HEYRÐU! Ég kveikti á útvarpinu í morgun, og það var spjallþáttur í gangi, sem einhver grallarakerling stjórnaði. Svo allt í einu segir hún "ókei"...ÓKEI?!, ég hélt ég væri að kveikja á íslensku útvarpi og svo er bara sagt "ÓKEI". Og þá slökkti ég strax aftur!"
Þetta fannst mér gríðarlega hressandi. Kannski að útvarpsmenn reyni að vanda mál sitt hér eftir svo amma missi ekki vitið af bræði.
|