Yfirborðskennd samskipti
Alltaf þegar ég sé fréttir af fundum íslenskra ráðamanna við erlenda ráðamenn hef ég á tilfinningunni að það séu gagnslausustu fundir í heimi með yfirborðskenndustu samskiptum í heimi. Í gær var einmitt fjallað um einn slíkan fund, þegar Halldór Ásgrímsson fór í Downing-stræti 10 að ræða við Tony Blair. Í fréttinni var m.a. sagt:"Vel fór á með þeim Halldóri og Blair"
Þetta er sagt í hvert einasta skipti sem ráðamenn hitta annarra landa ráðamenn, að vel hafi farið á með þeim Hvenær fær maður að sjá slagsmál? Síðan var sagt að Blair hefði lýst ánægju sinni með fjárfestingar Íslendinga á Bretlandseyjum og að Halldór hefði svarað því til sposkur á svip að hann vildi gjarnan að Bretar fjárfestu meira á Íslandi:
"I am very happy about the Icelanders investments here in Britain"
Halldór: "Hahaha, yes, I would like it very much if the British would invest more in Iceland"
Síðan var sýnt þegar þeir röltu um sali Downing-strætis glottandi og blaðrandi.
Þetta var það markverðasta sem sagt var frá í fréttinni ásamt því að Blair teldi líklegt að Bretar tækju upp Evru einhvern tímann í framtíðinni.
Niðurstaða: Blair er ánægður með að Íslendingar kaupi í Bretlandi og Halldór segist vilja að Bretar fjárfesti á Íslandi. Blair heldur að Bretar taki upp Evru. Halldór heldur að Ísland þurfi að vera viðbúið því. Þetta mun án efa koma að góðum notum fyrir báðar þjóðir í framtíðinni. Já.
Svo man ég líka eftir því þegar Ólafur Ragnar hitti Li Peng eða einhvern álíka gáfulegan Kínverja og "þeir voru sammála um að samstarf Íslands og Kína hefði verið gott í gegnum tíðina og vildu báðir að það yrði enn meira og betra í komandi framtíð". Síðan voru þeir auðvitað sýndir með feiksmælin út að eyrum.
Kannski er ástæða þess að þessir fundir eru svona yfirborðskenndir að enskan hjá íslenskum ráðamönnum lætur þá oft líta út fyrir að vera fjölfatlaða. Kannski er ástæðan önnur.
|