Eggjastokkunum fórnað
Samkvæmt almannarómi er ekki hollt fyrir stúlkur að slá með sláttuorfi. Mun það eyðileggja eggjastokkana. Greinarhöfundur hefur þó aldrei rekist á virta vísindagrein sem fjallar um efnið. Það er bara óhollt fyrir stúlkur að slá með orfi, allir segja það! Kannski á orðrómurinn rætur að rekja til manns sem klæddur var í dökkan, síðan frakka og með hatt á höfðinu. Hann faldi sig í dimmu húsasundi og skugga lagði yfir andlitið. Hann sagði við næsta vegfaranda sem átti leið hjá: "psst" og hvíslaði síðan að honum: "það er óhollt fyrir kvenfólk að slá með sláttuorfi, láttu það ganga". Vagfarandinn hefur síðan hvíslað því að næsta vegfaranda og svo koll af kolli. Orðrómurinn hefur hvisast út, mann frá manni og orðið háværari með hverjum deginum. Kannski var það virtur vísindamaður að nafni dr. Síverten sem rannsakaði efnið gaumgæfilega og sendi síðan frá sér óvéfengjanlegar niðurstöður þess efnis að notkun kvenna á orfum væri með öllu óæskileg. Greinarhöfundur mun ekki leggja mat á hvor ástæðan er líklegri.
Nema hvað. Á föstudaginn tilkynnti einn flokkstjórinn (sem er stelpa): "Ég ætla að slá í dag". Kom þetta býsna flatt upp á menn: "En bíddu mátt þú slá?". Flokkstjórinn: "Jájá". Útrætt mál. Stúlkan fór og sló. Kannski hafði hún tekið meðvitaða ákvörðun um að fórna eggjastokkunum. Allir eru að fara í ófrjósemisaðgerðir nú til dags. En hvers vegna að fara í ófrjósemisaðgerð ef hægt er að gera þetta í vinnunni og fá borgað fyrir, með því að slá? Kannski vildi hún bara staðfesta eða afsanna orðróminn í eitt skipti fyrir öll. Þá gæti hún tilkynnt einn daginn: "Jæja, eggjastokkarnir eru ónýtir, orðrómurinn er á rökum reistur." eða að þetta hefði engin áhrif haft. Kannski vildi hún bara aðeins stokka upp í eggjastokkunum.
Ég er ekki vísindamaður en ég trúi ekki að eggjastokkar eyðileggist út af orfaslætti.
|