Strípihneigð ellilífeyrisþega
Áðan var ég í matarboði. Strípihneigð ellilífeyrisþega í sólarlöndum kom til tals. Slík hneigð er vaxandi vandamál í nútímaþjóðfélagi. Ellilífeyrir og góðæri ýta undir vandamálið. Gamlingjarnir hætta fyrr að vinna og eru svo iðandi sprækir ennþá að þeir drekka sig fulla og klæða sig úr fötunum og fara hlæjandi niður á strönd í sólbað. Þeim finnst þeir ofsalega flippaðir og fyndnir. Gallin er sá að almenningur kemst ekki hjá því að sjá kjánana sprellandi um, dinglandi tittlingum og jullum - þeir eru svo flippaðir. Svo hlæja þeir.Þegar ég fór til Króatíu fyrir ári síðan sáum við nokkur allsber, hlæjandi gamalmenni. Einn gerðist meira að segja svo djarfur að skokka í gegnum menntskælingaskarann sem var saman kominn á litlu torgi inni í bæ. Ekkert heilagt. Það er býsna langt síðan að það hætti að vera til siðs að vera allsber á almannafæri. Það var eftir að Eva heitin át ávöxt af skilningstrénu í Eden og blygðunarkenndin kom til sögunnar. Árans strípihneigðu ellilífeyrisþegarnir virðast hafa misst af þessu skrefi í þróuninni. Þrátt fyrir að vera hættir að vinna og farnir að spreða ellilífeyrinum mega menn ekki missa sig í ruglið og láta siðferðisgildi lönd og leið. Ég ætla aldrei að verða svona strípihneigður gamall skrattakollur. Því lofa ég hér með. Strípihneigðir ellilífeyrisþegar ættu að hafa sér land út af fyrir sig þar sem þeir geta spókað sig, einangraðir frá öðrum löndum heims.
Þessir ellilífeyrisþegar hafa vott af siðferðiskennd.
|